Lokaorð
Persónulegur verðugleiki krefst algjörrar breytingar hugar og hjarta til að verða líkari Drottni.
Kæru bræður og systur, er dregur að lokum þessarar sögulegu ráðstefnu, þökkum við Drottni fyrir að innblása boðskapinn og tónlistina, sem hafa verið upplyftandi. Við höfum sannlega notið andlegrar veislu.
Við vitum að hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists mun veita þeim von og gleði sem hlýða á og tileinka sér kenningu hans. Við vitum líka að hvert heimili getur verið sannur griðarstaður trúar og elsku, þar sem andi Drottins fær dvalið.
Hið helga musteri er auðvitað kóróna endurreisnarinnar. Helgiathafnir og sáttmálar þess eru nauðsynleg til að búa hina fúsu undir að taka á móti frelsaranum við síðari komu hans. Sem stendur eru vígð musteri 166 að tölu og fleiri eru í bígerð.
Opið hús verður haft fyrir vígslu hvers nýs og endurnýjaðs musteris. Margir vinir, sem ekki eru okkar trúar, munu skoða musterin á opnu húsi og læra eitthvað um blessanir musterisins. Sumir þeirra gesta munu þrá að vita meira. Sumir munu spyrja af einlægni hvernig þeir geta hlotið blessanir musterisins.
Við, sem meðlimir kirkjunnar, þurfum að vera viðbúin því að svara spurningum þeirra. Við getum útskýrt að blessanir musterisins standi öllum til boða sem búa sig undir þær. Þau þurfa þó að vera fullgild áður en þau geta farið í vígt musteri. Drottinn vill að öll börn sín meðtaki þær eilífu blessanir sem standa til boða í musteri hans. Hann hefur staðfest hvað sérhver þarf að gera til að uppfylla skilyrðin fyrir inngöngu í hans heilaga hús.
Góður staður fyrir okkur að hefja slíkt tækifæri til kennslu, er að vekja athygli á orðunum sem grafin eru á útvegg musterisins: „Heilagleiki til Drottins; Hús Drottins.“ Henry B. Eyring forseti og fleiri hafa með boðskap sínum í dag hvatt okkur til að verða heilagri. Hvert musteri er helgur staður; hver musterisþjónn reynir stöðugt að verða heilagri.
Öll skilyrði fyrir inngöngu í musterið tengjast persónulegum heilagleika. Hver sá sem er fús og vill njóta blessana musterisins, þarf að fara í tvö viðtöl: Hið fyrra við biskup, ráðgjafa í biskupsráði eða greinarforseta; hið síðara við stiku- eða trúboðsforseta eða einn ráðgjafa hans. Í því viðtali verða nokkrar spurningar lagðar fyrir ykkur.
Nýlega hefur verið farið yfir þessar spurningar til að auka skýrleika. Ég ætla að fara yfir þær með ykkur núna:
-
Trúir þú á og átt vitnisburð um Guð, eilífan föður, son hans, Jesú Krist og heilagan anda?
-
Átt þú vitnisburð um friðþægingu Jesú Krists og hlutverk hans sem frelsara og lausnara þíns?
-
Átt þú vitnisburð um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists?
-
Styður þú forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem spámann, sjáanda og opinberara og þann eina á jörðu sem hefur valdsumboð til að nota alla prestdæmislykla?
Styður þú meðlimi Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar sem spámenn, sjáendur og opinberara?
Styður þú aðra aðalvaldhafa og staðarleiðtoga kirkjunnar?
-
Drottinn hefur sagt að allt skuli gert „í hreinleika“ frammi fyrir honum (Kenning og sáttmálar 42:41).
Sækist þú eftir siðferðislegum hreinleika í hegðun og hugsun?
Hlýðir þú skírlífislögmálinu?
-
Er persónuleg og opinber breytni þín gagnvart meðlimum fjölskyldu þinnar og öðrum í samræmi við kenningar kirkju Jesú Krists?
-
Styður þú eða kynnir einhverjar kenningar, háttsemi eða hugmyndir sem andstæðar eru kenningum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu?
-
Reynir þú að halda hvíldardaginn heilagan, bæði heima og í kirkju, sækja samfundi þína, búa þig undir og meðtaka sakramentið verðuglega og haga lífi þínu í samræmi við lögmál og boðorð fagnaðarerindisins?
-
Ástundar þú heiðarleika í allri þinni breytni?
-
Greiðir þú fulla tíund?
-
Skilur þú og heldur Vísdómsorðið?
-
Hefur þú einhverjar fjárhagsskuldbindingar eða aðrar skuldbindingar gagnvart fyrrum maka eða börnum?
Ef já: Stendur þú fyllilega við þær skuldbindingar?
-
Heldur þú sáttmálana sem þú gerðir í musterinu, þar með talið að nota musterisnærklæði, eins og mælt er fyrir um í musterisgjöfinni?
-
Eru einhverjar alvarlegar syndir í lífi þínu, sem þarfnast úrlausnar með valdhöfum prestdæmisins, sem hluti af iðrun þinni?
-
Telur þú þig verðuga/n þess að fara í hús Drottins og taka þátt í helgiathöfnum musterisins?
Á morgun verður þessum uppfærðu spurningum til musterismeðmæla dreift til kirkjuleiðtoga um allan heim.
Auk þess að þeir svari þessum spurningum heiðarlega, liggur ljóst fyrir að hver fullorðinn musterisþjónn skal íklæðast helgum musterisnærklæðum undir sínum hefðbundna fatnaði. Það er táknrænt fyrir innri skuldbindingu um að reyna dag hvern að verða líkari Drottni. Það minnir okkur líka dag hvern á að vera áfram trúföst gerðum sáttmálunum og sækja fram dag hvern á sáttmálsveginum, á æðri og helgari hátt.
Ég ætla nú eitt andartak að tala til ungmenna okkar. Við hvetjum ykkur til að verða hæf fyrir takmörkuð musterismeðmæli. Þið verðið einungis spurð þeirra spurninga sem eiga við um ykkur í undirbúningi ykkar fyrir helgiathafnir staðgengilsskírnar og staðfestingar. Við erum afar þakklátir fyrir verðugleika ykkar og fúsleika til að taka þátt í þessu helga musterisstarfi. Við þökkum ykkur!
Persónulegur verðugleiki fyrir inngöngu í hús Drottins, krefst mikils andlegs undirbúnings. Með liðsinni Drottins er þó ekkert ómögulegt. Að mörgu leyti er auðveldar að byggja musteri, en að byggja upp fólk sem er undir musterið búið. Persónulegur verðugleiki krefst algjörrar breytingar hugar og hjarta til að verða líkari Drottni, að vera heiðarlegur borgari, betri fyrirmynd og heilagri manneskja.
Ég ber vitni um að slíkur undirbúningur leiðir til ómældra blessana í þessu lífi og ólýsanlegra blessana í komandi lífi, þar með talið varanlegrar sameiningar fjölskyldu okkar um alla eilífð í „óendanlegri sælu.“
Ég ætla nú að snúa mér að öðru atriði; áætlunum fyrir komandi ár. Vorið 2020 hafa nákvæmlega 200 ár liðið frá því að Joseph Smith upplifði hina guðlegu vitrun sem okkur er kunnug sem Fyrsta sýnin. Guð faðirinn og hans ástkæri sonur, Jesús Kristur, birtust Joseph, 14 ára ungmenni. Sá atburður markaði upphaf endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists í fyllingu sinni, nákvæmlega eins og sagt var fyrir um í hinni helgu Biblíu.
Í kjölfarið fylgdu síðan vitjanir himneskra sendiboða, þar með talið Morónís, Jóhannesar skírara og hinna fornu postula, Péturs, Jakobs og Jóhannesar. Aðrar fylgdu síðan þar á eftir, þar með taldar vitjanir Móse, Elíasar og Elía. Hver þeirra veitti guðlegt vald til að blessa börn Guðs enn á ný á jörðunni.
Fyrir kraftaverk, höfum við líka hlotið Mormónsbók: annað vitni um Jesú Krist, sem er ritning sem fer hönd í hönd með hinni helgu Biblíu. Opinberanirnar sem gefnar voru út í Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu, hafa líka ríkulega aukið skilning okkar á boðorðum Guðs og eilífum sannleika.
Lyklar og embætti prestdæmisins hafa verið endurreist, þar með talið embætti postula, hinna Sjötíu, partríarka, háprests, öldungs, biskups, prests, kennara og djákna. Konur sem elska Drottin þjóna dyggilega í Líknarfélaginu, Barnafélaginu, Stúlknafélaginu, sunnudagaskólanum og í öðrum kirkjuköllunum – sem allt eru nauðsynlegir þættir í endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists í fyllingu sinni.
Árið 2020 verður því markað sem 200 ára minningarhátíð. Aðalráðstefna næsta aprílmánaðar verður frábrugðin öllum öðrum fyrri ráðstefnum. Ég vona að á næstu sex mánuðum muni sérhver meðlimur og fjölskylda búa sig undir þá einstöku ráðstefnu, sem verður minningarhátíð sjálfrar undirstöðu hins endurreista fagnaðarerindis.
Þið gætuð ef til vill byrjað undirbúning ykkar á því að lesa að nýju frásögn Josephs Smith um Fyrstu sýnina, eins og hún er skráð í Hinni dýrmætu perlu. Námsefni okkar á næsta ári í Kom, fylg mér er auðvitað Mormónsbók. Þið gætuð viljað íhuga mikilvægar spurningar svo sem: „Hvernig væri líf mitt öðruvísi ef sú þekking sem ég hef öðlast frá Mormónsbók væri skyndilega numin brott?“ eða „Hvernig hafa þeir atburðir sem fylgdu Fyrstu sýninni haft áhrif á mig og ástvini mína?“ Þið gætuð líka viljað hagnýta ykkur myndböndin um Mormónsbók, sem nú eru að koma út, í námi ykkar sjálfra og fjölskyldu ykkar.
Veljið eigin spurningar. Gerið eigin áætlun. Baðið ykkur í hinu dýrðlega ljósi endurreisnarinnar. Þegar þið gerið það, mun aðalráðstefna næsta aprílmánaðar ekki aðeins verða ykkur minnisstæð, heldur ógleymanleg.
Nú, er við ljúkum, færi ég ykkur elsku mína og blessun, um að sérhvert ykkar megi verða hamingjusamara og heilagra með hverjum líðandi degi. Fram að því, verið þá fullviss um að opinberanir eru viðvarandi í kirkjunni og munu veitast áfram, undir handleiðslu Drottins, þar til „tilgangi Guðs verður náð og að hinn mikli Jehóva segir verkinu lokið.“
Ég blessa ykkur þannig og staðfesti elsku mína til ykkar, með vitnisburði mínum um að Guð Iifir! Jesús er Kristur! Þetta er kirkjan hans og við erum hans lýður. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.