2010
Kanarífuglar með grátt í vængjum
júní 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júní 2010

Kanarífuglar með grátt í vængjum

Fyrir tæpum 60 árum lést ekkja í deild minni, Kathleen McKee að nafni. Á þeim tíma var ég ungur og þjónaði sem biskup. Meðal eigna hennar voru þrír kanarífuglar. Tvo þeirra, sem voru eingöngu gulir að lit, áttu vinir ekkjunnar að fá að gjöf. Sá þriðji, sem hét Billie, var einnig gulur að lit en grái liturinn í vængjum hans skyggði á útlit hans. Systir McKee hafði skrifað mér: „Vilt þú og fjölskylda þín taka hann að þér? Hann er ekki sá fallegasti en syngur þó best af þeim öllum.“

Systur McKee svipaði talsvert til gula kanarífuglsins með gráa litinn í vængjunum. Henni hafði ekki hlotnast fegurð, félagsleg færni, né heldur hafði hún verið heiðruð með niðjum. En með söng sínum gerði hún öðrum léttara að bera byrðar sínar og framkvæma skyldur sínar.

Heimurinn er uppfullur af gulum kanarífuglum með gráan lit í vængjum. Það er synd að svo fáir þeirra hafa lært að syngja. Sumir þeirra eru ungt fólk sem veit ekki hvað það er, hvað það getur orðið eða jafnvel hvað það langar til að verða. Það vill bara vera einhver. Aðrir eru hoknir af elli, íþyngdir af ábyrgð eða uppfullir efa — þeir lifa lífi sem er langt undir þeirra eigin getu.

Við þurfum að þróa með okkur færni til að takast á við erfiðleika af hugrekki, mæta vonbrigðum með glaðværð og sigrum af auðmýkt, ef við ætlum að lifa góðu lífi. Þið spyrjið: „Hvernig getum við náð þeim markmiðum?“ Ég svara: „Með því að öðlast sýn yfir hver við í raun erum!“ Við erum synir og dætur lifandi Guðs. Við höfum verið sköpuð eftir ímynd hans. Hugsið ykkur: Sköpuð í mynd Guðs. Við getum ekki að fullu skynjað þau sannindi án þess að finna djúpan og nýjan þrótt og kraft.

Í þessum heimi virðist siðferðislegur persónuleiki oft lúta í lægra haldi fyrir fegurð eða þokka. Hins vegar ómar hin forna ráðlegging Drottins til spámannsins Samúels enn: „Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað“ (1 Sam 16:7).

Þegar frelsarinn leitaði trúmanns, valdi hann engan úr hópi hinna sjálfumglöðu sem finna mátti reglulega í samkunduhúsinu. Heldur valdi hann úr hópi fiskimanna frá Kapernaum. Hinn efagjarni, ómenntaði og ákafi Símon varð Pétur, postulinn trúfasti. Gulur kanarífugl með gráan lit í vængjum gerðist hæfur þess að njóta fulls trúnaðartrausts og varanlegs kærleiks meistarans.

Þegar frelsarinn valdi trúan og kraftmikinn trúboða, leitaði hann ekki meðal málsvara sinna heldur andstæðinga. Ofsóknarinn Sál varð trúboðinn Páll.

Lausnarinn valdi ófullkomið fólk til að kenna leiðina að fullkomnun. Það gerði hann áður fyrr. Og það gerir hann enn — já, gula kanarífugla með gráan lit í vængjum. Hann kallar þig og mig til þjónustu sinnar hér á jörðu. Skuldbinding okkar verður að vera algjör. Og ef við hrösum í erfiði okkar, þá skulum við biðja: „Leið okkur, já leið okkur, þú mikli mótasmiður manna, út úr myrkrinu, svo við megum reyna enn á ný.“1

Bæn mín er sú að við munum fylgja fordæmi mannsins frá Galíleu, sem finna mátti meðal hinna fátæku, kúguðu, undirokuðu og þjáðu. Er við gerum svo, megi sannur söngur streyma frá hjörtum okkar.Heimild

  1. “Fight Song,” Yonkers High School.

Að kenna þennan boðskap

„Þegar þið kennið … , þá er oft gagnlegt að láta nemendur leita að eða hlusta eftir einhverju ákveðnu“ (Teaching, No Greater Call [1999], 55). Íhugið eftirfarandi til þess að hjálpa fjölskyldunni að skilja boðskap Monsons forseta. Biðjið fjölskylduna að búa sig undir að segja frá því sem þau hafa lært, er þið lesið boðskapinn saman. Bjóðið hverju þeirra að greina frá því sem þeim finnst mikilvægt atriði í boðskapnum. Ljúkið með því að bera vitnisburð um boðskap Monsons forseta.

Orð Guðs, eins og þau eru gefin spámönnum hans, geta haft kraftmikil áhrif á líf þeirra sem við kennum (sjá Teaching, No Greater Call, 50). Monson forseti staðhæfir að það sé kraftur og styrkur í vitneskjunni um að við séum börn Guðs. Biðjið fjölskylduna, eftir að þið hafið lesið boðskapinn, að segja frá því sem hjálpar þeim að muna hver þau eru.

Prenta