2021
Virði hverrar sálar
Janúar 2021


Kom, fylg mér: Kenning og sáttmálar 18–19

Virði hverrar sálar

Afhverju erum við svo dýrmæt himneskum föður?

Nýlega fann ég fyrir hvatningu til að endurnýja kynni við fjölskyldu sem ég og félagi minn höfðum kennt og skírt þegar ég var ungur trúboði, fyrir um 40 árum, í Brussel, Belgíu. Ég hafði ekki talað við nokkurt þeirra í langan tíma.

Með hjálp hinnar dásamlegu tækni okkar tíma, hafði ég uppi á móðurinni á samfélagsmiðlum. Ég átti yndislegt myndspjall við hana. Við rifjuðum upp hinar helgu upplifanir sem við áttum saman fyrir mörgum árum, þegar fjölskylda hennar lærði um fagnaðarerindið.

Hún var ekki góð til heilsunnar og aðstæður leiddu til þess að hún var aðskilin frá fjölskyldu sinni. Þegar við töluðum saman, skynjaði ég innilega elsku himnesks föður og frelsarans til þessarar góðu systur. Ég skynjaði hið mikla eilífa virði hennar, þótt hún hefði að nokkru villst frá kirkjunni. Ég tjáði henni elsku mína og bar vitni um að Guð elskaði hana og væri henni minnugur. Augu okkar fylltust tárum þegar við tjáðum hvort öðru væntumþykju okkar. Við einsettum okkur að tala oftar saman. Ég var svo þakklátur fyrir að alvitur Guð hafði innblásið mig þennan dag til að hafa samband við mína kæru vinkonu.

„Ástæða“ elsku Guðs

Þegar engillinn spurði Nefí varðandi lítillæti Guð, svarði hann auðmjúkur: „Ég veit, að hann elskar börn sín. Samt þekki ég ekki merkingu allra hluta“ (1. Nefí 11:17). Ég hef oft velt fyrir mér hvernig Nefí hlaut skilning á þessum einfalda, fallega sannleika: Guð elskar börn sín. Greinilegt er að hann þekkti kenninguna um Krist, eins og hans „[góðu foreldrar]“ höfðu kennt honum hana (1. Nefí 1:1). Hann skildi þó líka „ástæðu“ frelsarans. Hver er sú „ástæða?“

Afhverju var Guð fús til að fórna syni sínum? Afhverju sendi hann okkur hingað til að við yrðum sannreynd? Ástæðan er sú, eins og kennt er með jafn fallegum sannleika, að „verðmæti sálna er mikið í augum Guðs“ (Kenning og sáttmálar 18:10).

Afhverju erum við af slíku verðmæti? Auðvitað af því að við erum börn hans og hann elskar okkur. Í næstu versum á eftir lýsir hann hinni miklu gjöf sem hverju okkar er gefin, sökum elsku hans til okkar – gjöf hans eingetna sonar, Jesú Krists. Hann sendi son sinn til að þjást og líða „dauða í holdinu. Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans. Og hann hefur risið aftur upp frá dauðum, til þess að geta leitt alla menn til sín, gegn því að þeir iðrist“ (Kenning og sáttmálar 18:11–12). Hann segir okkur: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika” (HDP Móse 1:39).

Iðrun og gleði

Það er því engin furða að himneskur faðir gleðjist innilega þegar við iðrumst. Vilji okkar til að iðrast ber vott um innilegt þakklæti okkar fyrir hina undursamlegu og óviðjafnanlegu gjöf frelsara og lausnara heimsins. Það er aðeins fyrir tilverknað og milligöngu Jesú Krists að við getum orðið verðug þess að standa óttalaus í návist Guðs (sjá Kenning og sáttmálar 121:45).

Russell M. Nelson forseti, útskýrði: „Of margir líta á iðrun sem refsingu – eitthvað sem forðast á, nema við alvarlegustu aðstæður. Sú tilfinning að verið sé að refsa manni, er af völdum Satans. Hann reynir að koma í veg fyrir að við lítum til Jesú Krists, sem stendur með útbreidda arma, og vonar og er fús til að lækna, fyrirgefa, hreinsa, styrkja og helga. …

Ekkert er jafn frelsandi, göfgandi eða nauðsynlegt framþróun okkar sjálfra, en að einblína á iðrun daglega og reglubundið. Iðrun er ekki atburður; hún er ferli. Hún er lykillinn að hamingju og hugarró. Fari iðrun og trú saman, greiðir hún okkur aðgang að krafti friðþægingar Jesú Krists.“1

Bjóða og hjálpa

Ótal sinnum í síðari daga opinberunum, býður Drottinn sínum þjónandi börnum að hjálpa sér og syni sínum við starf sáluhjálpar (sjá Kenning og sáttmálar 18:14). Hugsið ykkur það! Í hinu ófullkomna ástandi okkar, býður Guð okkur að hjálpa börnum hans, sem eru afar verðmæt, að koma aftur til hans. Hann veit að verkið er erfitt. Þeir verða margir sem ekki þiggja boð okkar um að „hlýða á hann.“ Hann staðfestir þó að hann sér Guð hins „eina.“ „Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!“ (Kenning og sáttmálar 18:15; skáletrað hér).

Þið getið spurt ykkur sjálf: „Hvað get ég gert til að hjálpa einhverjum að koma til Krists, iðrast og njóta blessana friðþægingarfórnar hans?“

Öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni, veitti þessa leiðsögn um þátttöku í starfi sáluhjálpar og upphafningar: „Skiljið að það er ekki ykkar verk að snúa fólki. Það er hlutverk heilags anda. Ykkar hlutverk er að gefa af hjartans list og lifa samkvæmt trú ykkar.

Verið því ekki dauf í dálkinn þótt einhver taki ekki samstundis við boðskap fagnaðarerindisins. Þið hafið ekki brugðist.

Það er mál viðkomandi einstaklings og himnesks föður.

Ykkar er að elska Guð og elska náunga ykkar, börn hans.

Trúa, elska, gera

Fylgið þessari leið og Guð mun gera kraftaverk fyrir milligöngu ykkar, sínum dýrmætu börnum til blessunar.“2

Beggja vegna hulunnar

Boðið um að koma til Krists fyrir iðrun er ekki einungis ætlað þeim sem lifa á þessari jörðu. „Hinir dánu, sem iðrast, munu endurleystir fyrir hlýðni við helgiathafnir Guðs húss“ (Kenning og sáttmálar 138:58). Musteris- og ættarsögustarf eru mikilvægir þættir í samansöfnun Ísraels, beggja vegna hulunnar. Við getum upplifað mikla gleði þegar við framkvæmum hjálpræðisverk fyrir þau sem farið hafa í andaheim, vitandi að í þeim heimi, eins og Wilford Woodford (1807–98) sagði: „Verða einungis fáeinir, ef nokkrir, sem ekki mun taka á móti fagnaðarerindinu.“3 Vafalaust munu þau þrá þann dag að endurleysandi helgiathafnir verði framkvæmdar í þeirra þágu í húsi Drottins.

Öldungur Dale G. Renlund, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Þegar við setjum saman ættarsögu okkar og förum til musterisins fyrir hönd forfeðra okkar þá uppfyllir Guð margar af þessum blessunum beggja vegna hulunnar á sama tíma. Á sama hátt erum við blessuð þegar við hjálpum öðrum í deildum okkar og stikum að gera slíkt hið sama. Meðlimir sem lifa ekki nálægt musteri geta einnig öðlast þessar blessanir með því að taka þátt í ættarsöguverki, safna saman nöfnum áa þeirra svo hægt sé að vinna musterisverk þeirra.“4

Það er dásamlegt að vita að himneskur faðir okkar elski sérhvert barn sitt. Við erum honum afar verðmæt. Sérhvert okkar hefur þá helgu ábyrgð að þjóna börnum hans, beggja vegna hulunnar, og hjálpa þeim að skilja hið mikla verðmæti þeirra.

Hjálpa þeim að skilja eigið verðmæti

Ég býð ykkur að liðsinna þeim sem hafa verið hluti af lífi ykkar og gætu um tíma verið gleymd. Liðsinnið þeim sem hafa horfið af sáttmálsveginum. Þjónið þeim sem hafa þörf fyrir kærleika. Komið á sambandi við þau sem eru hinu megin hulunnar með musteris- og ættarsögustarfi, einnig með skráningu. Hjálpið öðrum að skynja elsku Guðs fyrir ykkar milligöngu.

Eins og lofað var, þá töluðum ég og minn kæri belgíski vinur alla sunnudaga í rúma fjóra mánuði. Ég bauð henni að niðurhala smáforritinu Gospel Library. Greinarforsetanum á staðnum var gert viðvart um hana og fastatrúboðarnir heimsóttu hana og veittu henni prestdæmisblessun. Í næstu viku kom hún á sakramentissamkomu í fyrsta sinn eftir 30 ár. Síðast er við ræddum saman, var hún full gleði yfir að hafa endurnýjað kynni sín við Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Hún sagði mér líka að elsta dóttir hennar væri enn í kirkjunni. Ég setti mig þegar í samband við dótturina í gegnum myndspjall. Hún kynnti mig fyrir hverju sinna fjögurra, fallegu barna og sagði mér þessu næst að hún ætti von á trúboðum í heimsókn til kvöldverðar. Hve blessunarríkt það var að vita að hún var enn trúfastur meðlimur kirkjunnar!

Þegar ég spjallaði við hana, þá hlaut ég örlítinn skilning á merkingu þessa ritningavers: „Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“ (Kenning og sáttmálar 18:16).

Virði hverrar sálar er mikið!

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  2. Dieter F. Uchtdorf, „Trúboðsstarf: Gefa af hjartans list,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  3. Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2004), 191.

  4. Dale G. Renlund, „Ættarsaga og musterisverk: Innsiglun og lækning,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

Lift Up The Hands That Hang Down, eftir J. Kirk Richards

„Það er ekki ykkar verk að snúa fólki. Það er hlutverk heilags anda. Ykkar hlutverk er að gefa af hjartans list og lifa samkvæmt trú ykkar.“

Öldungur Dieter F. Uchtdorf

Lux Condivis (miðlað ljós), eftir J. Kirk Richards

Sérhvert okkar hefur þá helgu ábyrgð að þjóna börnum himnesks föður, beggja vegna hulunnar.

Breakthrough, eftir J. Kirk Richards