2021
Konur og sáttmálskraftur
Janúar 2021


Konur og sáttmálskraftur

Við getum glaðst í forréttindunum og kraftinum sem við njótum með prestdæminu.

illustration of woman

Myndskreyting eftir Amber Eldredge

Russell M. Nelson forseti kenndi að himnarnir væru jafn opnir konum, sem hafa hlotið kraft Guðs, sem á sér rætur í prestdæmissáttmálum þeirra, og körlum sem hafa prestdæmið.

„Ég bið þess að sá sannleikur ritist á hjarta hverrar ykkar, því ég hef trú á að hann muni breyta lífi ykkar,“ sagði hann. „Ég vil veita ykkur þá blessun, að þið munið skilja prestdæmiskraftinn, sem þið hafið verið gæddar og að þið munið efla þann kraft með því að iðka trú ykkar á Drottin og þann kraft.“

Nelson forseti bauð konum kirkjunnar að „læra af kostgæfni“ um prestdæmiskraftinn og „uppgötva hvað heilagur andi mun kenna“ okkur. Ég ann því að lifandi spámaður okkar bjóði hverri okkar að læra og hljóta opinberun og að „hljóta skilning og nota betur þann kraft sem [okkur] hefur verið falið.“1

Ég hef margsinnis í lífinu upplifað hinar fyrirheitnu blessanir sem hljótast af því að fylgja leiðsögn spámannsins. Það var ekkert öðruvísi með þetta boð. Þegar mér verður hugsað um boð Nelsons forseta, þá kemur musterið þegar upp í hugann – sá staður sem mér var gefinn prestdæmiskraftur – og kraftur þeirrar gjafar sem ég hef notið alla ævi. Það hefur tekið mig mörg ár að skilja hvernig þessi kraftur staðfestist í lífi mínu.

Prestdæmiskraftur, eins og á við um heilagan anda, kemur frá kærleiksríkum föður á himnum og persónulegu réttlæti okkar sjálfra. Þegar við höldum sáttmála okkar við Drottin, þá eigum við kost á að hljóta opinberun um eigið líf, fjölskyldu okkar, atvinnu, skóla – allt sem við þurfum leiðsögn við. Það er ekkert sem okkur er mikilvægt, sem er Drottni ómerkilegt. Þegar við bjóðum andanum að vera með okkur, þá getum við hlotið dýpri skilning á krafti prestdæmis fyrir handleiðslu heilags anda.

Því meira sem ég læri um kraft prestdæmis með einkanámi og reynslu, því betur skil ég hve mikilvægur hann er á öllum sviðum lífs okkar. Prestdæmiskraftur hjálpar okkur að hljóta opinberun varðandi daglegar áskoranir okkar.

Þar sem ég þjóna með prestdæmisvaldi í köllun minni, sem mér hefur verið veitt af þeim sem hefur lykla til þess, þá hefur mér ótal sinnum borist hugsanir eða orð, sem eru einmitt þau sem stúlka eða systir eða barn í kirkjunni þarf að heyra. Ég veit að þau orð hafa borist vegna prestdæmisvaldsins sem mér var veitt þegar ég var sett í embætti köllunar minnar.

Í hjónabandi, líkt og á við um öll sambönd, þá fer fólk í gegnum þroskaferli til að læra og vaxa. Þegar ég minnist þess hver eiginmaður minn er og hvað okkur ber að gera saman sem börn Guð, þá hefur það valdið breytingu í hjarta mínu. Að vera innsigluð saman með prestdæmisvaldi, hefur fyllt okkur bæði krafti og ásetningi um að auka einingu okkar á milli. Þegar frelsarinn sagði: „Ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir“ (Kenning og sáttmálar 38:27), þá var hann ekki einungis að vísa til kirkjunnar. Hann var líka að vísa til fjölskyldusambanda okkar.

Ég minnist þess, sem móðir, að ég hafði áhyggjur af ungri fullorðinni manneskju sem var að gera nokkuð sem hefði ekki stuðlað að hamingju þess barns. Við höfum einsett okkur að ræða þessar áhyggjur og ákveðið tíma. Áður en að hinu ákveðna símtali kom, var ég tilbúin með fyrirlestur minn; ég vissi nákvæmlega hvað ég hugðist segja. Ég baðst fyrir til að hafa andann með mér. Þau orð sem úr munni mínum komu allt frá upphafi og til loka samtals okkar var allt annað en það sem ég hafði ráðgert að segja. Það var þó nákvæmlega það sem barnið þurfti á að halda. Gjöf heilags anda gerði mögulegt að hjörtu milduðust og betri lausn fannst. Þetta sýnir hvernig prestdæmiskraftur virkar í lífi okkar.

illustration of a couple holding up the walls of their home in a storm

Of oft bera konur sig saman við aðra. Engri okkar líður vel eftir að hafa borið sig saman við aðra. Hver kona býr yfir sérstakri blöndu eiginleika og hæfileika og allt eru það gjafir frá Guði. Þótt þið og ég séum ekki eins – eða einhverjar aðrar konur – þá er engin okkar minni eða meiri en hver önnur. Við þurfum að finna gjafir okkar og þroska þær, minnast þess hver gaf okkur þær og nota þær síðan í tilgangi hans. Þegar við miðlum gjöfum okkar til að blessa aðra, erum við að upplifa prestdæmiskraftinn í lífi okkar.

Ég hef notið þeirra forréttinda að hitta svo margar frábærar konur, sem sýna trú og kraft með eigin verkum. Konur miðla hæfileikum og eiginleikum sínum á ótrúlega marga vegu. Þær hafa gríðarleg áhrif á líf allra sem umhverfis þær eru – í fjölskyldunni, á vinnustaðnum, í kirkju, skóla eða hvar annarsstaðar sem þær verja tíma sínum.

Eitt af því sem ég hef lært um prestdæmið, er að við stöndum okkur best þegar við störfum sjálfstætt og reiðum okkur á hvert annað. Það er þannig sem Drottinn ætlaði þessu að vera; það er hin guðlega fyrirmynd. Við þurfum ekki að vera í samkeppni, því þörf er fyrir allar þessar gjafir, hæfileika og eiginleika – bæði karla og kvenna. Drottinn er að leiða okkur ljúflega eftir veginum, svo við getum öll hlotið betri skilning á því hvernig starfa á saman og meta framlög hvers annars. Það er sannlega besta leiðin til að vinna verk hans.

Konur þurfa ekki að bíða þess að einhver segi þeim hvað gera skuli við gjafir, hæfileika og áhrifamátt þeirra. Við höfum getu til að hljóta opinberun fyrir okkur sjálfar. Við ættum ekki að bíða fyrirmæla; við þurfum að hafa hugrekki til að bregðast við þeirri opinberun sem við hljótum. Að leita innblásturs og bregðast við þeirri andlegu leiðsögn, er staðfesting á því að við erum að sækjast eftir prestdæmiskraftinum sem okkur hefur verið heitinn þegar við höldum sáttmála okkar við Guð.

Nelson forseti kenndi: „Hvað gæti hugsanleg verið ánægjulegra en að keppa að því með andanum að skilja kraft Guðs - prestdæmiskraftinn?” Hann lofaði: „Eftir því sem þið vaxið að skilningi og iðkið trú á Drottin og þennan prestdæmiskraft, munuð þið verða hæfari til að nota þann andlega fjársjóð sem Drottinn hefur gert mögulegan.“2 Ég veit að þessi loforð frá lifandi spámanni okkar eru sönn.

Notes

  1. Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir,“ aðalráðstefna, október 2019.

  2. Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir.“