2022
Leitið þið Krists dag hvern?
Mars 2022


„Leitið þið Krists dag hvern?“ Líahóna, Mars/Apríl 2022.

Ungt fullorðið fólk

Leitið þið Krists dag hvern?

Reynsla mín í musterinu hjálpaði mér að skilja að mér ber að leita og finna Krist dag hvern.

Höfundur býr í Gvatemala.

ungur maður les ritningarnar við opinn glugga

Þegar ég var lítill drengur, spurði ég oft sjálfan mig spurninga eins og: „Talar heilagur andi?“ „Mun ég sjá Guð þegar ég fer til himins?“

Ég er nú örlítið eldri og get litið um öxl og skilið að himneskur faðir vakti alltaf yfir mér og sýndi mér vísbendingar um að hann væri til, en ég gat ekki alltaf borið kennsl á hönd hans í lífi mínu. Ég naut þeirrar blessunar að alast upp á heimili þar sem fagnaðarerindi Jesú Krists var haft í hávegum, en lifði þó í langan tíma á lánuðum vitnisburði. Mér reyndist erfitt að trúa að Guð væri í raun til.

Dag einn, þegar ég var um 15 ára, tilkynnti biskupinn okkar um áætlaða musterisferð deildarinnar. Ég var þegar vanur því að fara í musterið með fjölskyldu minni og fannst það því ekki merkilegt. Í raun skynjaði ég hvort eð er ekki mikið og skildi ekki mikilvægi sáttmála og helgiathafna musterisins.

Þegar dagurinn rann upp, fór ég í musterið, hafði fataskipti og klæddi mig í hvíta samfestinginn. Þegar ég gekk framhjá spegli, sá ég sjálfan mig hvítklæddan og brosandi. Á meðan ég beið eftir hinum deildarmeðlimunum, fylltist ég lotningu. Ég virti fyrir mér fegurð skírnarfontsins og málverkanna, þegar ég allt í einu fann að andinn hafði ljúf áhrif á hjarta mitt.

Ég gleymi aldrei þeim orðum sem komu í huga minn: „Orson, þetta er hús Drottins. Hann elskar þig. Hann vill að þú breytir lífi þínu og reynir smám saman að verða betri maður.“

Ég skynjaði svo mikla elsku í þessum orðum, en fylltist síðan mikilli sektarkennd. Ég hafði ekki tekið musterið alvarlega fram að þessu. Ég fór því með bæn í hjarta og bað himneskan föður að fyrirgefa mér.

Ég vissi að hann hafði heyrt bæn mína, því ég fann svo mikinn frið í hjarta mér.

Dag þennan varð trú mín sterkari og ég hlaut hinn raunverulega vitnisburð um fagnaðaerindið sem ég þráði svo mjög. Dag þennan gat ég sagt jafn staðfastlega og hinir tveir lærisveinar Jóhannesar: „Við höfum fundið Messías!“ (sjá Jóhannes 1:41).

Einfaldar leiðir til að tengjast

Allt frá þessari reynslu, hef ég reynt að þekkja betur áhrif himnesks föður á líf mitt, með því að leita Jesú Krists dag hvern. Þótt veröldin geri okkur það stundum erfitt að hlýða á rödd frelsarans, þá veit ég sannlega að hann er raunverulegur og er með mér.

Mörg okkar upplifa daga þegar okkur finnst við örlítið nær himninum en venjulega. Við upplifum líka erfiða daga, þegar við finnum ekki áhrif hans, hversu mikið sem við reynum og ef til vill höfum við ekki nægan tíma til að leita hans. Ég veit þó að ef við þráum einlæglega að leita hans, munum við sjá hönd hans í lífi okkar.

Þegar okkur finnst við fjarri frelsaranum, spyrjið þá ykkur sjálf: Er ég virkilega að reyna að finna Messías dag hvern?

Ef við leitumst við að verða eins og hinir fornu postular, að yfirgefa netin okkar (sjá Matteus 4:20) og önnur skylduverk og áhugamál og leita hans um stund, munum við finna hann.

Það eru auðlindir andlegs kraftar sem geta hjálpað okkur. Spámaðurinn Alma áminnti okkur: „Fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika“ (Alma 37:6). Hin smáu andlegu trúarverk sem við gerum daglega, geta aukið getu okkar til að bera kennsl á Drottin í lífi okkar.

Sumar þessara andlegu auðlinda gætu verið:

  • Biðja í trú

  • Læra ritningarnar af ásetningi og einlægni

  • Þjóna öðrum af óeigingirni

  • Miðla vinum vitnisburði sínum

  • Hlusta á sálma og andlega tónlist

  • Sækja trúarskóli eldri deildar

  • Halda hvíldardaginn heilagan

  • Fasta

  • Fara reglubundið í musterið

Það er margt sem getur hjálpað okkur að finna Jesú Krist, en lykilatriðið er að leita hans stöðugt. Nelson forseti kenndi: „Við þurfum að hlýða á hann af enn ríkari ásetningi, í þeirri viðleitni okkar að vera lærisveinar Jesú Krists. Það þarf meðvitaða og stöðuga einbeitni til að fylla líf okkar orðum hans, kenningum og sannleika.“ 1

Hafið þið fundið hann í dag?

Haldið áfram að reyna, þótt þið hafið ekki hlotið öll svörin sem þið leitið að. Leitið einfaldlega Krists og veljið að trúa á hann. Ef þið reynið að leita hans dag hvern með hinu smáa, þá veit ég að þið munuð finna elsku hans frá himni. Ég veit að þetta er sannleikur, því ég hef fundið hana.

Himneskur faðir veit af viðleitni okkar. Hann lætur sig síður skipta umfang þess sem við gerum til að næra anda okkar, ef við getum dag hvern sagt af staðfestu og ákveðni: „Í dag hef ég fundið Messías!“

Það er bæn mín að við megum þekkja og elska frelsarann dag hvern. Að við gerum eins og Moróní lagði til, að „leita þessa Jesú“ (Eter 12:41). Megum ég og þið, í lok hvers dags, finna þann sem Móse og fleiri spámenn rituðu um: Jesú frá Nasaret. Þegar við leitum Krists, munum við finna hönd Guðs í lífi okkar. Því meir sem við leitum Krists daglega, því betur munum við finna hann og þekkja rödd hans, sem leiðir okkur öll á allri lífsleið okkar.