Kom, fylg mér 2024
9.–15. desember: „Megi Kristur lyfta þér upp.“ Moróní 7–9


„9.–15. desember: ‚Megi Kristur lyfta þér upp.‘ Moróní 7–9,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„9.–15. desember. Mormón 7–9,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Moróní ritar á gulltöflur

Minerva Teichert (1888–1976), Moróní: Síðasti Nefítinn, 1949–1951, olía á masonítplötu, 34 3/4 × 47 tommur. Listasafn Brigham Young-háskóla, 1969.

9.–15. desember: „Megi Kristur lyfta þér upp“

Moróní 7–9

Áður en Moróní lauk við heimildina, sem við þekkjum sem Mormónsbók á okkar tíma, með eigin lokaorðum, þá ritaði hann þríþættan boðskap frá föður sínum, Mormón: Ávarp til hinna „friðsömu [fylgjenda] Krists“ (Moróní 7:3) og tvö bréf sem Mormón hafði skrifað til Morónís. Ef til vill hafði Moróní þennan boðskap með í Mormónsbók, því hann sá fyrir álíka ógnir á okkar tíma og voru á hans tíma. Þegar þessi orð voru rituð voru Nefítarnir sem þjóð að snúa frá frelsaranum. Margir þeirra höfðu „glatað elsku sinni hver til annars“ og höfðu unun af „öllu öðru en því, sem gott er“ (Moróní 9:5, 19). Mormón fann samt ástæðu til vonar og kenndi okkur að í von fælist ekki að leiða hjá sér vanda heimsins eða vera einfaldur gagnvart honum. Í von fælist trú á himneskan föður og Jesú Krist, sem eru eilífir og máttugri en slíkur vandi. Í henni felst að „[tileinka sér] allt, sem gott er“ (Moróní 7:19). Í henni felst að láta friðþægingu Jesú Krists „og [vonina] um dýrð hans og eilíft líf hvíla í huga [ykkar] að eilífu“ (Moróní 9:25).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Moróní 7:12–20

Ljós Krists hjálpar mér að þekkja sannleika frá villu.

Margir velta fyrir sér: „Hvernig get ég vitað hvort hughrif sem ég hlýt komi frá Guði eða tengist eigin hugsunum?“ eða „Hvernig get ég vitað hvað er rétt og rangt í allri blekkingu okkar tíma?“ Orð Mormóns í Moróní 7 veita okkur nokkrar reglur sem við getum beitt til að svara þessum spurningum. Gætið einkum að þeim í versum 12–20. Þið gætuð notað þennan sannleika til að hjálpa ykkur að meta skilaboðin sem berast ykkur og upplifanir ykkar í þessari viku.

Sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Ljós, ljós Krists,“ Gospel Library; „Patterns of Light: Discerning Light“ (myndband) Gospel Library.

Moróní 7:20–48

Vegna Jesú Krists get ég „[tileinkað mér] allt, sem gott er.“

Mormón spurði spurningar sem virðist einkar mikilvæg fyrir okkar tíma: „Hvernig er mögulegt að höndla allt, sem gott er?“ (Moróní 7:20). Hann kenndi síðan um trú á Jesú Krist og von og kærleika. Þegar þið lesið vers 20–48, gætið þá að því hvernig hver eiginleiki hjálpar ykkur að skynja og „höndla“ gæskuna sem frá Jesú Kristi kemur. Hvers vegna eru þessir eiginleikar nauðsynlegir fyrir lærisvein Jesú Krists?

Sjá einnig „Mormon’s Teachings about Faith, Hope, and Charity“ (myndband), Gospel Library.

Moróní 7:44–48

trúarskólatákn
„Kærleikurinn er hin hreina ást Krists.“

Mormón sagði að trú okkar og von á Jesú Krist leiddu til þess að við hefðum kærleika. En hvað er kærleikur? Þið gætuð skrifað Kærleikur er … og síðan lesið Moróní 7:44–48 og gætt að orðum og orðtökum sem gætu lokið við setninguna. Þegar þið eruð búinn að því, íhugið þá að setja nafnið Jesús Kristur í stað orðsins Kærleikur. Hvað kennir þetta ykkur um frelsarann? Hvernig hefur Jesús Kristur sýnt hreina ást sína? Íhugið dæmi í ritningunum og frá eigin lífi.

Dallin H. Oaks forseti sagði: „Ástæða þess að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi og er jafnvel æðri mikilvægasta góðverki, … er sá að ,hin hreina ást Krists‘ [Moróní 7:47], er ekki verk, heldur ástand eða tilvist. … Kærleikur er eitthvað sem menn tileinka sér“ („The Challenge to Become,“ Ensign, nóv. 2000, 34). Með þessa staðhæfingu í huga, gætuð þið lesið boðskap öldungs Massimo De Feo „Hrein ást: Hið sanna aðalsmerki allra sannra lærisveina Jesú Krists“ (aðalráðstefna, apríl 2018). Hver eru áhrif kærleikans á lærisveinshlutverk ykkar? Hvernig getið þið „haldið fast við kærleikann“? (vers 46).

Sjá einnig 1. Korintubréf 13:1–13; Eter 12:33–34; „Elskið hver annan,“ Sálmar, nr. 117; „Charity: An Example of the Believers“ (myndband), Gospel Library; Leiðarvísir að ritningunum, „Kærleikur,“ Gospel Library.

Hafið sýnikennslu. Að hugsa um þrífættan stól gæti ef til vill hjálpað ykkur að skilja betur samhengið á milli trúar, vonar og kærleika (sjá Dieter F. Uchtdorf, „Hinn takmarkalausi lækningamáttur vonarinnar,“ aðalráðstefna, október 2008).

Moróní 9:3–5

Reiði leiðir til sorgar og þjáningar.

Andstætt boðskap Mormóns um elsku í Moróní 7:44–48, inniheldur annað bréf Mormóns til Morónís aðvaranir gegn nokkru sem margir eiga erfitt með á okkar tíma – reiði. Hverjar voru sumar afleiðingar af reiði Nefítanna, samkvæmt Moróní 9:3–5? Hvaða aðvaranir getum við tekið til okkar í versum 3–5, 18–20, 23?

Sjá einnig Gordon B. Hinckley, „Reiði,“ aðalráðstefna, október 2007.

Moróní 9:25–26

Ég get átt von í Kristi, burtséð frá eigin aðstæðum.

Mormón hvatti son sinn til að láta ekki hugfallast, eftir að hann hafði lýst ranglætinu sem hann hafði séð. Hvað vekur áhuga ykkar á boðskap Mormóns um von? Hver er merking þess fyrir ykkur að Kristur muni „lyfta [ykkur] upp“? Hvaða eiginleikar Krists og reglur fagnaðarerindis hans „hvíla í huga ykkar“ og vekja ykkur von? (Moróní 9:25).

Sjá einnig Russell M. Nelson, „Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna, október 2016.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Moróní 7:33

Ef ég trúi á Jesú Krist get ég gert allt sem hann þarf að ég geri.

  • Íhugið að horfa saman á nokkrar myndir sem sýna einhvern í ritningunum áorka einhverju mikilvægu (sjá til dæmis Trúarmyndabók, nr. 19, 70, 7881). Hvernig gerði það gæfumun í þessum dæmum að eiga von á Jesú Krist? Þið og börn ykkar gætuð síðan lesið Moróní 7:33 og gætt að því sem við getum gert til að eiga trú á Jesú Krist. Þið gætuð líka miðlað hvert öðru upplifunum þar sem Guð blessaði ykkur með krafti til að gera vilja sinn.

Moróní 7:41

Að trúa á Jesú Krist getur vakið mér von.

  • Þegar þið lesið Moróní 7:41 fyrir börn ykkar, gætu þau ef til vill rétt upp hönd þegar þau heyra eitthvað sem Mormón sagði að við ættum að vonast eftir. Segið þeim frá voninni sem þið finnið vegna Jesú Krists.

  • Þið og börn ykkar gætuð líka hugsað um einhvern sem gæti átt erfitt með eitthvað. Börn ykkar gætu ef til vill teiknað mynd fyrir þann einstakling sem getur minnt hann eða hana á að vona á Jesú Krist.

Moróní 7:40–41; 9:25–26

Ég get átt von á Jesú Krist, jafnvel í miklum þrengingum.

  • Til að kenna börnum ykkar um von á Jesú Krist, gætuð þið fyllt hreint ílát af vatni og sett tvo hluti ofan í það – einn sem flýtur og annan sem sekkur. Þegar þið lesið saman Moróní 7:40–41 og 9:25–26 gætu börn ykkar gætt að því hvað von gerir fyrir okkur. Þau gætu síðan líkt fljótandi hlutnum við einstakling sem á von á Krist. Hvernig „lyftir hann okkur upp“ þegar við tökumst á við erfiðar þrengingar? Hjálpið börnum ykkar að íhuga hvernig þau geta haft frelsarann og hvetjandi kenningar hans „í huga sínum að eilífu.“

Moróní 7:45–48

„Kærleikurinn er hin hreina ást Krists.“

  • Söngur um elsku, til að mynda „Elskið hver annan“ (Barnasöngbókin, 74), gæti hafið umræður um hvað kærleikur er. Þið gætuð lesið eða dregið saman Moróní 7:47 og boðið börnum ykkar að teikna myndir af sér sjálfum að sýna einhverjum elsku. Leggið til að þau setji myndirnar sínar þar sem þær minna þau á að elska aðra eins og Jesús gerði.

  • Hvernig getið þið innblásið börn ykkar til að sækjast eftir og tileinka sér hina hreinu ást Krists í lífi sínu? Þið gætuð ef til vill hjálpað þeim að hugsa um það hvernig Jesús sýndi kærleika (sjá til dæmis Lúkas 23:34; Jóhannes 8:1–11; Eter 12:33–34). Hvernig getum við fylgt fordæmi hans?

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Jesús Kristur

Mynd af Kristi, frelsaranum, eftir Heinrich Hofmann