Kom, fylg mér 2024
16.–22. desember: „Komið til Krists og fullkomnist í honum.“ Moróní 10


„16.–22. desember: ‚Komið til Krists og fullkomnist í honum.‘ Moróní 10,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„16.–22. desember. Moróní 10,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Ljósmynd
Jesús birtist Nefítunum

Að þér megið vita, eftir Gary L. Kapp

16.–22. desember: „Komið til Krists og fullkomnist í honum“

Moróní 10

Mormónsbók hefst á loforði Nefís, þar sem hann sýnir okkur fram á að „hin milda miskunn Drottins vakir yfir öllum þeim, sem hann hefur útvalið, trúar þeirra vegna“ (1. Nefí 1:20). Bókinni lýkur á álíka boðskap frá Moróní: „Hafið það hugfast, hve miskunnsamur Drottinn hefur verið“ (Moróní 10:2–3). Hvaða dæmi um miskunnsemi Drottins hafið þið séð í Mormónsbók? Þið gætuð hugleitt þá miskunn Guðs að leiða Lehí og fjölskyldu hans gegnum óbyggðirnar og yfir vötnin miklu, þá mildu miskunn sem hann sýndi Enosi, þegar sál hans hungraði eftir fyrirgefningu eða þá miskunn sem hann sýndi Alma, hatrömmum andstæðingi kirkjunnar, sem síðar varði hana óttalaus. Hugsanir gætu líka vaknað um miskunnina sem hinn upprisni frelsari sýndi fólkinu þegar hann læknaði þeirra sjúku og blessaði börn þess. Mikilvægast alls, er ef til vill að þetta getur vakið ykkur til umhugsunar um „hve miskunnsamur Drottinn hefur verið“ ykkur, því einn megintilgangur Mormónsbókar er að bjóða hverju okkar að taka á móti miskunn Guðs – boð sem Moróní tjáði á einfaldan hátt með kveðjuorðum sínum: „Komið til Krists og fullkomnist í honum“ (Moróní 10:32).

Hugmyndir fyrir nám í kirkju eða heima

Moróní 10:3–7

Ljósmynd
trúarskólatákn
Ég get þekkt sannleiksgildi allra hluta fyrir kraft heilags anda.

Loforðið í Moróní 10:3–7 hefur breytt lífi milljóna um heim allan. Hvernig hefur það breytt ykkar lífi? Þegar þið lesið Moróní 10:3–7, íhugið þá að lesa af meiri einbeitni en þið hafið áður gert. Þið gætuð ígrundað hvert orðtak með því að spyrja ykkur sjálf: Hver er merking þessa? Hvernig get ég gert þetta betur? Hvaða reynslu hef ég haft af þessu?

Þegar þið hugleiðið persónulega leit ykkar að andlegum sannleika gætuð þið haft gagn af því að læra hvernig aðrir hafa fundið sannleikann fyrir kraft heilags anda. Öldungur Mathias Held lýsti reynslu sinni af því þegar hann var nýr meðlimur kirkjunnar (sjá „Leita þekkingar með andanum,“ aðalráðstefna, apríl 2019). Öldungur David F. Evans lýsti reynslu sinni af því að vera alinn upp í kirkjunni og vera samt með spurningar (sjá „Hinn algildi sannleikur,“ aðalráðstefna, október 2017). Íhugið að lesa aðra eða báðar þessar ræður og skrá allt sem þið lærið af leit þeirra að sannleika og getur hjálpað í ykkar eigin leit.

Þið gætuð líka kannað það sem Guð hefur kennt um sannleikann með því að lesa ritningarhlutana í Leiðarvísi að ritningunum, „Sannleikur“ (Gospel Library). Hvaða ritningarvers vekja ykkur mestan áhuga? Þið gætuð ef til vill valið eitt til að miðla einhverjum öðrum sem er líka að leita að sannleika með hjálp andans.

Sjá einnig Henry B. Eyring, „Trú til að spyrja og síðan framkvæma,“ aðalráðstefna, október 2021; „Lát þinn anda leiða hér,“ laus mappa, nr. 12; Gospel Topics, „Seek Truth and Avoid Deception,“ Gospel Library.

Skráið hughrif ykkar. Að snúast til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists felur í sér að bæði þekkja og lifa eftir fagnaðarerindinu. Þið eruð líklegri til að framkvæma það sem þið lærið ef þið skrifið það hjá ykkur. Ef þið eruð að kenna, skuluð þið bjóða fólkinu sem þið kennið að skrá andleg hughrif sín.

Moróní 10:8–25

Guð hefur gefið mér andlegar gjafir.

Menn geta á margan hátt „[hafnað] … gjöfum Guðs“ (Moróní 10:8). Sumir hafna því jafnvel að slíkar gjafir séu til. Aðrir hafna eigin gjöfum með því einfaldlega að vanrækja þær eða þróa þær ekki. Þegar þið lesið Moróní 10:8–25, gætið þá að sannleika sem hjálpar ykkur að greina ykkar andlegu gjafir og nota þær til að blessa börn Guðs. Spurningar sem þessar gætu hjálpað: Hvað eru andlegar gjafir? Hverjum eru þær gefnar? Af hverju eru þær gefnar? Hvernig meðtökum við þær? Getið þið hugsað um dæmi um fólk sem notar gjafirnar sem tilgreindar eru í Moróní 10:9–16?

Moróní 10:30–33

Ég get fullkomnast fyrir náð Jesú Krists.

Leiðsögn Morónís um að „koma til Krists“ felur í sér meira en að læra og hugsa um hann. Boðið snýst fremur um að koma til Krists á fyllsta mögulegan hátt – sem er að verða eins og hann er. Þegar þið lesið Moróní 10:30–33, gætið þá að orðtökum sem hjálpa ykkur að skilja hvað í því felst að koma til Krists, hvernig það er gert mögulegt og hvað af því leiðir að gera það.

Horfið til baka yfir nám ykkar í Mormónsbók á þessu ári og hugleiðið hvað þið hafið skynjað og lært um Jesú Krist. Dæmi: Hvernig hefur Mormónsbók hjálpað ykkur að koma til hans? Hvernig hefur hún hjálpað ykkur að treysta meira á náð Krists? Hvernig hefur hún hjálpað ykkur að „afneita ekki“ krafti frelsarans? Íhugið að gefa einhverjum vitnisburð ykkar um Mormónsbók sem þyrfti að heyra hann, þar á meðal ástvinum og vinum sem vita eflaust ekki af boðskap hennar.

Sjá einnig „Moroni Invites All to Come unto Christ“ (myndband), Gospel Library.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Moróní 10:3–4

Ég get vitað að Mormónsbók er sönn.

  • Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að taka á móti því boði Morónís að spyrja Guð um sannleiksgildi Mormónsbókar? Íhugið að fá þeim blaðræmur með orðunum Lesa, Hafa hugfast, Ígrunda og Spyrja skrifuð á þær. Börn ykkar gætu fundið þessi orð í Moróní 10:3–4. Hvað er það sem við ættum að lesa, hafa hugfast, ígrunda og spyrja um til að hljóta eða efla vitnisburð okkar um Mormónsbók? Börn ykkar gætu gætt að því sem er líkt í þessum versum og söngnum „Rannsaka og biðja“ (Barnasöngbókin, 66).

  • Börn ykkar gætu notað myndina aftast í þessum lexíudrögum til að ræða um Moróní að grafa gulltöflurnar (sjá einnig „kafla 54: Fyrirheit Mormónsbókar,“ Sögur úr Mormónsbók, 156). Yngri börn gætu notið þess að látast vera Moróní að rita á töflurnar og grafa þær síðan. Gefið hvert öðru vitnisburð ykkar um Mormónsbók.

Moróní 10:8–19

Himneskur faðir gefur mér andlegar gjafir.

  • Til að kenna börnum ykkar um andlegar gjafir, gætuð þið skrifað tölurnar 9 til og með 16 á stök blöð og brotið hvert blað eins og gjöf væri. Börn ykkar gætu skipst á með að opna gjafirnar, lesa versin í Moróní 10:9–16 sem passa við tölurnar og bera kennsl á hverja andlega gjöf. Þið gætuð rætt hvernig himneskur faðir vill að við notum þessar gjafir til að blessa börn hans. Þið gætuð líka hjálpað börnum ykkar að tiltaka þær gjafir sem himneskur faðir hefur gefið þeim.

Moróní 10:32–33

Jesús Kristur vill að ég komi til sín.

  • Vita börn ykkar hvað felst í því að „koma til Krists“? Þið gætuð ef til vill lesið Moróní 10:32 og boðið þeim að endurtaka orðtakið með ykkur. Þau gætu síðan lokað augum meðan þið komið fyrir mynd af Jesú einhvers staðar í herberginu. Látið þau síðan opna augun, finna myndina, koma saman umhverfis hana og ræða hvernig við getum komið til Krists. Það gæti ef til vill hjálpað að skrifa spurninguna: Hvað felst í því að koma til Krists? Hjálpið þeim að kanna Moróní 10:32–33 til að finna möguleg svör (sjá einnig Trúaratriðin 1:3–4). Vinnið saman að því að skrá það sem Kristur vill að við gerum og hverju hann lofar að gera fyrir okkur.

  • Börn ykkar gætu ef til vill notið þess að búa til og skreyta hjartalaga barmmerki með textanum: „Ég elska Guð af öllum mætti, huga og styrk“ (sjá Moróní 10:32). Þegar þau gera það, ræðið þá við þau um það hvernig við sýnum Guði að við elskum hann.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Moróní grefur gulltöflurnar

Áður en Moróní gróf heimildirnar, bauð hann okkur að „hafa hugfast, hve miskunnsamur Drottinn hefur verið“ (Moróní 10:3)

Prenta