Kom, fylg mér 2024
23.–29. desember: „Hann mun koma í heiminn til að endurleysa fólk sitt.“ Jól


„23.–29. desember: ‚Hann mun koma í heiminn til að endurleysa fólk sitt.‘ Jól,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„23.–29. desember. Jól,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Ljósmynd
Jósef og María og Jesúbarnið í fjárhúsi

Sjá, Guðslambið, eftir Walter Rane

23.–29. desember: „Hann mun koma í heiminn til að endurleysa fólk sitt“

Jól

Sérhver spámaður, allt frá Nefí til Morónís, var skuldbundinn hinum helga tilgangi sem dregin er saman á titilsíðu bókarinnar: „Að sannfæra [alla menn], um að Jesús er Kristur.“ Einn spámaður sá hann sem anda í fortilverunni og annar sá jarðneska þjónustu hans í sýn. Annar stóð upp á múrvegg til að kunngjöra táknin um fæðingu hans og dauða og enn annar kraup frammi fyrir honum upprisnum og þreifaði á sárum handa hans, fóta og síðu. Allir voru kunnugir þessum mikilvæga sannleika: „Að hvorki er til önnur leið né aðferð til frelsunar mannsins, nema með friðþægingarblóði Jesú Krists, sem … kemur til að endurleysa heiminn“ (Helaman 5:9).

Við, sem trúaðir um heim allan, minnumst því gæsku og elsku Guðs á þessum jólum, að hann sendi son sinn, og ígrundum hvernig Mormónsbók hefur eflt trú okkar á Krist. Þegar þið hugsið um fæðingu hans, íhugið þá ástæðu þess að hann kom og hvernig koma hans hefur breytt lífi ykkar. Þið getið þá upplifað sanna gleði jólanna – gjöfina sem Jesús Kristur gefur ykkur.

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Jesús Kristur fæddist til að vera frelsari minn.

Hefðbundið er á jólum að lesa söguna um fæðingu frelsarans í Nýja testamentinu, en þið getið líka fundið hrífandi spádóma um þann helga atburð í Mormónsbók. Dæmi: Spádóma um fæðingu og þjónustu frelsarans má finna í 1. Nefí 11:13–36; Mósía 3:5–10; Helaman 14:1–13. Hvaða hughrif berast ykkur um Jesú Krist er þið lesið þessa ritningarhluta og íhugið mögulegar merkingar táknanna um fæðingu hans? Hvernig styrkja vitnisburðir þessara spámanna vitnisburð ykkar um Krist og hlutverk hans?

Hér eru nokkrar tillögur til að hjálpa ykkur að einblína á Jesú Krist á jólunum:

  • Vissuð þið að hægt er að horfa og hlusta á ræður frá fyrri jólasamkomum Æðsta forsætisráðsins í Gospel Library? Leitið að þeim í safninu „Jólamyndbönd.“ Íhugið að miðla þessum boðskap og tónlistinni til að vekja jólagleði.

  • Þið og fjölskylda ykkar gætuð líka notið þess að hlusta á valið efnið í jólatónlistarsafninu „Christmas Music“ í Gospel Library.

  • Gaman gæti verið að ráðgera athafnir sem fjölskylda ykkar getur verið með í á aðventu, til að finna anda Krists, t.d. með því að þjóna einhverjum eða syngja saman jólasöngva. Sjá LjósFyrirHeiminn.org fyrir hugmyndir.

Sjá einnig Matteus1:18–25; 2; Lúkas 2; 3. Nefí 1:4–22; „Hann enga á vöggu,“ Sálmar, nr. 82.

Jesús Kristur er frelsari heimsins.

Meginástæða þess að við fögnum fæðingu Jesú Krists er vegna friðþægingarfórnar hans. Vegna þeirrar fórnar, getur hann frelsað okkur frá synd og dauða, hughreyst okkur í þrengingum og hjálpað okkur að „fullkomnast í sér“ (Moróní 10:32). Hvað hafið þið lært í Mormónsbók á þessu ári um mátt frelsarans til að endurleysa ykkur? Eru einhverjar sögur eða kenningar sem vekja ykkur sérstakan áhuga? Íhugið hvað eftirfarandi ritningarhlutar kenna um hið endurleysandi hlutverk frelsarans: 2. Nefí 2:6; Alma 7:7–13; 11:40; og Helaman 5:9; 14:16–17. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að sýna honum þakklæti?

Ljósmynd
trúarskólatákn
Mormónsbók vitnar um Jesú Krist.

„Annað vitni um Jesú Krist“ er ekki bara undirtitill Mormónsbókar, heldur yfirlýstur tilgangur hennar. Ígrundið hvað þið lærið af eftirtöldum ritningarversum um það hlutverk Mormónsbókar að vitna um Krist: 1. Nefí 6:4; 19:18; og 2. Nefí 25:23, 26; 33:4, 10.

Íhugið að skrá í dagbók hvernig nám þessa árs í Mormónsbók hefur aukið nálægð ykkar við Krist. Eftirfarandi ábendingar gætu verið gagnlegar:

  • „Nokkuð sem ég lærði eða skynjaði um frelsarann á þessu ári var …“

  • „Það sem ég lærði um frelsarann í Mormónsbók breytti því hvernig ég …“

  • „Eftirlætis persóna mín [eða saga] í Mormónsbók, kenndi mér að frelsarinn …“

Ef til vill er einhver sem gæti hlotið blessun af því að vita hvað ykkur finnst um Mormónsbók. Hvernig gætuð þið miðlað reynslu ykkar og vitnisburði? Þið gætuð fundið innblástur til að gefa eintak í jólagjöf. Appið The Book of Mormon gerir miðlun einfalda.

Gérald Caussé biskup tilgreindi nokkur sannindi í Mormónsbók um Jesú Krist (sjá „Lifandi vitni um hinn lifandi Krist,“ aðalráðstefna, apríl 2020). Þið gætuð kynnt ykkur upptalningu hans og velt fyrir ykkur hvernig þessi sannindi hafa breytt – eða gætu breytt – lífi ykkar.

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Mormónsbók,“ Gospel Library.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Þar sem þessi sunnudagur er fimmti sunnudagur mánaðarins, eru Barnafélagskennarar hvattir til að nota námsverkefnin í „Viðauki B: Búa börn undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs.“

Jesús Kristur er gjöf himnesks föður til mín.

  • Þið gætuð pakkað inn mynd af Jesú Kristi, líkt og jólagjöf, til að hjálpa börnum ykkar að einblína á þá gjöf himnesks föður að senda son sinn. Þið og börn ykkar gætuð rætt um kærar jólagjafir sem þið hafið fengið eða vonist eftir að fá. Þau gætu síðan tekið umbúðirnar utan af myndinni af Kristi og rætt hvernig hann hefur verið okkur dýrmæt gjöf. Söngur eins og „Hann sendi soninn“ (Barnasöngbókin, 20) gæti auðgað þessa umræðu. Hjálpið börnum ykkar að finna orðtök í söngnum sem lýsa blessunum sem við njótum vegna fæðingar Jesú.

Jesús Kristur fæddist til að vera frelsari minn.

  • Börn ykkar gætu notið þess að segja frá því sem þau vita um fæðingu Jesú. Í Trúarmyndabók eru nokkrar myndir sem gætu hjálpað þeim að segja söguna (sjá nr. 28, 29, 3031). Þið gætuð líka skoðað myndir sem sýna líf frelsarans og friðþægingarfórnina. Af hverju sendi himneskur faðir Jesú Krist?

    Ljósmynd
    engill
  • Börn ykkar gætu líka haft gaman af því að teikna sínar eigin myndir af fæðingu Jesú og þjónustu. Þau gætu ef til vill teiknað það sem lýst er í 1. Nefí 11:13–23; Mósía 3:5–10; Helaman 14:1–13; og 3. Nefí 1:4–22. Þau gætu síðan sagt ykkur frá því sem myndirnar kenna um Jesú Krist.

  • Til að leggja áherslu á að bæði Biblían og Mormónsbók kenni um fæðingu Jesú, gætuð þið skráð atburðina sem tilgreindir eru í Lúkasi 2:4–14; Matteusi 2:1–2; og 3. Nefí 1:15, 19–21. Börn ykkar gætu síðan kannað þessa ritningarhluta til að ákveða hvaða atburðir gerðust í Betlehem, í Ameríku eða hvort tveggja. Af hverju erum við þakklát fyrir að hafa Mormónsbók sem annað vitni um fæðingu Jesú?

Börn hafa unun af sögum. Sögur eru ein besta leiðin til að hjálpa börnum að læra og muna eftir sannleika. Þegar þið segið söguna af fæðingu Jesú, íhugið þá líka að segja sögur úr eigin lífi um atburði sem hafa hjálpað við að styrkja trú ykkar á frelsarann.

Mormónsbók vitnar um Jesú Krist.

  • Þegar þið og börn ykkar ljúkið námi ykkar í Mormónsbók á þessu ári, gæti það verið tilvalinn tími til að miðla hvert öðru eftirlætis sögum ykkar eða ritningarhlutum í þessari helgu bók. Að skoða eitthvað af myndunum í Kom, fylg mér eða Sögum úr Mormónsbók gæti hjálpað börnum ykkar að muna eftir því sem þau lærðu á þessu ári. Hjálpið þeim að skilja hvað þessar sögur kenna um Jesú Krist.

  • Þið gætuð líka gefið börnum ykkar mynd af Jesú eða látið þau teikna sínar eigin myndir. Biðjið þau að halda myndunum sínum á lofti í hvert sinn sem þau heyra nafn Krists er þið lesið 2. Nefí 25:23, 26. Berið vitni um að Mormónsbók hafi verið rituð til að hjálpa okkur að „trúa á Krist“ (2. Nefí 25:23).

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
engill sýnir Nefí meyjuna Maríu í sýn

Nefí sér meyjuna Maríu í sýn, eftir Judith A. Mehr

Prenta