Kom, fylg mér
24.–30. ágúst. Helaman 7–12: „[Minnist] Drottins“


„24.–30. ágúst. Helaman 7–12: ,[Minnist] Drottins,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„24.–30. ágúst. Helaman 7–12,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Ljósmynd
Nefí biðst fyrir í garðturni

Teikning af Nefí í garðturni, eftir Jerry Thompson

24.–30. ágúst

Helaman 7–12

„[Minnist] Drottins“

Nefí, Lehí og fleiri hlutu „daglega margar opinberanir“ (Helaman 11:23). Spámenn geta ekki einungis hlotið tíðar opinberanir – þær standa líka ykkur til boða. Að skrá hughrif ykkar, getur hjálpað ykkur að hljóta stöðugt opinberanir.

Skráið hughrif ykkar

Helaman, faðir Nefís, hafði brýnt fyrir sonum sínum: „Munið og hafið hugfast.“ Hann vildi að þeir minntust forfeðra sinna, minntust orða spámannanna og framar öllu minntust „lausnara okkar, sem er Kristur“ (sjá Helaman 5:5–14). Ljóst er að Nefí mundi eftir þessu, því mörgum árum síðar lýsti hann „ótrauður“ (Helaman 10:4) yfir þessum boðskap fyrir fólkinu. „Hvernig gátuð þið gleymt Guði ykkar?“ (Helaman 7:20), spurði hann. Öll viðleitni Nefís – prédikun, bænir, framkvæmd kraftaverka og beiðni til Guðs um hungursneið – var gerð til þess að hjálpa fólkinu að snúa sér til og minnast Guðs. Á margan hátt er alvarlegra að gleyma Guði en að þekkja hann alls ekki og auðvelt reynist að gleyma honum þegar hugur okkar lætur truflast af „hégóma þessa heims“ og er sveipaður syndahulu (Helaman 7:21; sjá einnig Helaman 12:2). Það er þó aldrei of seint, eins og þjónusta Nefís sýnir, að minnast hans og „[snúa] … til Drottins Guðs ykkar“ (Helaman 7:17).

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Helaman 7–11

Spámenn opinbera vilja Guðs.

Margir spámenn eru tilgreindir víða í Mormónsbók, en í Helaman 7–11 er einkar tilvalið að læra um hlutverk spámanns, hvað hann gerir og hvernig við getum tekið á móti orðum hans. Gætið sérstaklega að verkum, hugsunum og samskiptum Nefís við Drottin við lestur þessara kapítula. Hvernig hjálpar þjónusta Nefís ykkur að skilja betur hlutverk spámanns okkar tíma? Hér eru nokkrar ábendingar. Hvað fleira getið þið fundið?

Helaman 7:17–22.Spámenn boða iðrun og vara við afleiðingum syndar.

Helaman 7:29; 9:21–36.Spámenn vita fyrir opinberun frá Guði hvað fólkið þarf að heyra.

Helaman 10:7.Spámönnum er veitt vald til að innsigla á jörðu og á himni (sjá einnig Matteus 16:19; Kenning og sáttmálar 132:46).

Helaman 10:4–7, 11–12.

Hvernig hafa þessi vers áhrif á hvað ykkur finnst um lifandi spámann okkar? Hvað hefur hann nýlega kennt? Hvað gerið þið til að hlusta á og fylgja leiðsögn hans?

Helaman 9–10

Tákn og kraftaverk eru gagnleg, en nægja ekki til að þróa varanlega trú.

Ef tákn og kraftaverk nægðu til að breyta hjarta einhvers, þá hefðu allir Nefítarnir snúist til trúar fyrir tilverknað hinna undraverðu tákna sem Nefí setti fram í Helaman 9. Þess í stað „varð [ágreiningur] meðal fólksins“ (Helaman 10:1), því margir á meðal þess „hertu … enn hjörtu sín“ (Helaman 10:15). Hvernig bregðast hinir ranglátu við táknum og kraftaverkum? (sjá Helaman 10:12–15; sjá einnig 3. Nefí 2:1–2). Hver er hættan að baki þess að byggja vitnisburð á táknum? (sjá „Tákn,“ Leiðarvísir að ritningunum, churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl).

Helaman 10:2–4

Hugleiðsla stuðlar að opinberun.

Ef þið hafið einhvern tíma verið undirokuð, kvíðin eða ráðvillt, gætuð þið lært mikilvæga lexíu af fordæmi Nefís í Helaman 10:2–4. Hvað gerði hann þegar hann varð „niðurbeygður“? (vers 3).

Henry B. Eyring forseti kenndi: „þegar við ígrundum, löðum við að anda opinberunar. Mér finnst ígrundun vera sú íhugun og bænagjörð sem ég geri eftir að hafa lesið og lært vandlega í ritningunum“ („Þjóna með andanum,“ aðalráðstefna, október 2010). Hvernig gætuð þið komið á venju hugleiðslu? Lesa má um eina leið til að íhuga reglubundið orð Guðs í boðskap bróður Devins G. Durrant, „Ég ígrunda það stöðugt í hjarta mínu“ (aðalráðstefna, október 2015).

Sjá einnig Orðskviðirnir 4:26; Lúkas 2:19; 1. Nefí 11:1; 2. Nefí 4:15–16; 3. Nefí 17:3; Moróní 10:3; Kenning og sáttmálar 88:62.

Helaman 12

Drottinn vill að ég hafi hann hugfastan.

Mormón, sem gerði útdrátt úr heimildunum, tekur saman nokkrar þeirra lexía í Helaman 12, sem við getum lært af frásögn Nefís í kapítulunum á undan. Hugleiðið að nota samantek hans til að leggja mat á eigið hjarta. Þið gætuð jafnvel búið til lista yfir það sem Mormón segir valda því að fólk gleymi Drottni. Hvað hjálpar ykkur að muna eftir honum? Hvaða breytingar eruð þið hvött til að gera byggt á því sem þið lærðuð?

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Helaman 7–9

Hvað er líkt með því sem Nefí gerði og því sem spámenn okkar tíma gera? Hverjar eru kenningar spámanns okkar tíma? Þið gætuð ef til vill valið einhverja nýlega leiðsögn sem spámaðurinn hefur veitt og rætt um það sem fjölskylda hvernig þið getið fylgt henni betur.

Helaman 10:4–5, 11–12

Hvernig sýndi Nefí að hann leitaði fremur vilja Drottins en síns eigin? Hvernig getum við fylgt fordæmi hans? Hvernig getur fjölskylda okkar reynt betur að leita vilja Drottins?

Helaman 11:1–16

Hver var þrá Nefís og hvernig brást hann við henni? Hvað lærum við um bæn af fordæmi Nefís?

Helaman 11:17–23

Hvað lærum við um Lehí, bróður Nefís, í Helaman 11:17–23? Hverja þekkjum við sem lifa réttlátu lífi, án þess að hljóta mikla upphefð?

Helaman 12:1–6

Getið þið hugsað um sýnikennslu sem þið gætuð notað til að hjálpa fjölskyldu ykkar að skilja merkingu þess að vera „[óstöðugur]“? Þið gætuð t.d. beðið fjölskyldumeðlim að halda jafnvægi á einhverju á höfði sér. Þið gætuð síðan beðið fjölskyldumeðlimi að lesa Helaman 12:1–6 og gæta að ástæðum þess að fólk er óstöðugt við að fylgja Drottni. Hvernig getum við verið andlega stöðug?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta kennslu okkar

Rifjið upp. Hér er ábending um hvernig hjálpa má fjölskyldumeðlimum að muna eftir þeim ritningaversum sem þau læra: Veljið vers sem ykkur finnst mikilvægt og setjið það á áberandi stað fyrir alla á heimili ykkar. Biðjið fjölskyldumeðlimi að skiptast á að velja vers í þessum tilgangi og ræða það þegar fjölskyldan kemur saman, svo sem við máltíðir eða fjölskyldubænir.

Ljósmynd
Seantum er afhjúpaður sem morðingi

© Mormónsbók fyrir unga lesendur, Seantum – Morðingi afhjúpaður, eftir Briana Shawcroft; afritun óheimil

Prenta