Kenning og sáttmálar 2021
30. ágúst – 5. september. Kenning og sáttmálar 94–97: „Síon til sáluhjálpar“


„30. ágúst – 5. september. Kenning og sáttmálar 94–97: ,Síon til sáluhjálpar‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„30. ágúst – 5. september. Kenning og sáttmálar 94–97,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Kirtland-musterið

Kirtland-musterið, eftir Al Rounds

30. ágúst – 5. september

Kenning og sáttmálar 94–97

„Síon til sáluhjálpar“

Hvaða reglur og kenningar vekja athygli ykkar er þið lærið Kenningu og sáttmála 94–97? Gætið þess að skrá hughrif ykkar.

Skráið hughrif ykkar

Þegar Drottinn bauð Móse að byggja tjaldbúð, bauð hann honum að „[gjöra] allt eftir þeirri fyrirmynd, sem [honum] var sýnd á fjallinu“ (Hebreabréfið 8:5; sjá einnig 2. Mósebók 25:8–9). Tjaldbúðin átti að vera í miðjum búðum Ísraelsmanna í eyðimörkinni (sjá 4. Mósebók 2:1–2). Síðar bauð Guð Salómon og fólki hans að byggja musteri að þeirri fyrirmynd sem hann opinberaði (sjá 1. Kroníkubók 28:12, 19).

Þegar Drottinn endurreisti fyllingu fagnaðarerindisins, bauð hann Joseph Smith að byggja musteri samkvæmt opinberaðri fyrirmynd. Drottinn sagði: „Lát reisa húsið, ekki að hætti heimsins, því að ég segi yður ekki að lifa að hætti heimsins– Lát því byggja það á þann hátt, sem ég mun sýna“ (Kenning og sáttmálar 95:13–14; sjá einnig 97:10). Líkt og var með tjaldbúðina í eyðimörkinni, þá var musterinu ætlað að vera miðjubygging í Kirtland (sjá Kenning og sáttmálar 94:1).

Á okkar tíma eru hús Drottins víða um heim. Þótt þau séu ekki í miðju borga okkar, þá geta þau verið þungamiðja lífs okkar. Þótt hvert musteri sé frábrugðið að útliti, þá er okkur kennd sama fyrirmynd í þeim öllum – sem er himnesk áætlun um að leiða okkur aftur í návist Guðs. Helgar, eilífar athafnir, hjálpa okkur að byggja líf okkar og styrkja fjölskyldur okkar, „ekki að hætti heimsins,“ heldur að þeirri fyrirmynd sem Guð sýnir okkur.

Sjá Saints [Heilagir], 1:169–70; „A House for Our God [Hús Guðs okkar],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 165–73.

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 94; 97:15–17

Drottinn getur verið með mér í daglegu lífi.

Fyrirmælin í Kenningu og sáttmálum 94 og 97 voru gefin á sama degi – 2. ágúst 1833. Kafli 97 fjallar að hluta um musteri sem ráðgert var í Jackson-sýslu, Missouri, en kafli 94 fjallar um stjórnsýslubyggingar í Kirtland, Ohio. Þið gætuð veitt athygli einhverjum hliðstæðum í því sem Drottinn segir um þessar ólíku byggingar (sjá Kenning og sáttmálar 94:2–12; 97:10–17). Þegar þið íhugið þessi fyrirmæli, hugleiðið þá hvað þið getið gert til að upplifa dýrð og návist Drottins oftar, bæði í kirkjubyggingum og í daglegu lífi.

Kenning og sáttmálar 95

Drottinn agar þá sem hann elskar.

Um fimm mánuðir höfðu liðið frá janúar 1833, er Drottinn hafði boðið hinum heilögu að byggja hús Guðs og halda hátíðarsamkomu (sjá Kenning og sáttmálar 88:117–19). Þegar opinberunin í kafla 95 var meðtekin í júní 1833, höfðu þeir enn ekki brugðist við þessum fyrirmælum. Hvað lærið þið af því hvernig Drottinn agaði hina heilögu í þessari opinberun? Eru einhver boðorð eða leiðsagnarorð sem þið hafið enn ekki brugðist við? Hvaða finnst ykkur þið hvött til að gera?

Sjá einnig D. Todd Christofferson, „Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga,“ aðalráðstefna, apríl 2011.

Kenning og sáttmálar 95:8, 11–17; 97:10–17

Guð blessar fólk sitt í musterinu.

Eftir að hafa verið ávítaðir fyrir að byggja ekki hús Drottins í Kirtland, völdu kirkjuleiðtogar lóð á hveitiakri þar sem byggja skildi. Hyrum Smith, bróðir spámannsins, hljóp undir eins eftir orfi og ljá og byrjaði að ryðja svæðið. „Við búum okkur nú undir það að byggja hús fyrir Drottin,“ sagði hann, „og ég er staðráðinn í því að verða fyrstur til verka“ (í Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 271, 273). Hugleiðið ákafa Hyrums við lestur Kenningar og sáttmála 95:8, 11–17; 97:10–17. Hvað finnið þið sem innblæs álíka ásetningi til að hljóta blessanir musterisins?

Hyrum Smith með orf og ljá

Hyrum Smith ryður land, eftir Joseph Brickey

Kenning og sáttmálar 97:18–28

Síon er „hinir hjartahreinu.“

Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Við ættum að gera uppbyggingu Síonar að okkar megin viðfangsefni“ (Kenningar: Joseph Smith, 186). Á áratugnum 1830 var Síon, hvað hinna heilögu varðaði, bókstaflega „borg Guðs“ (Kenning og sáttmálar 97:19). Í opinberuninni skráðri í kafla 97, jók Drottinn hins vegar við þann skilning. Síon er líka fólk – „hinir hjartahreinu“ (vers 21). Þegar þið lesið vers 18–28, hugsið þá um þessa skilgreiningu er þið lesið orðið „Síon.“ Hver er merking þess að vera hreinn í hjarta? Hvernig hjálpar musterið að koma „Síon til sáluhjálpar“? (vers 12).

Sjá einnig HDP Móse 7:18; Leiðarvísir að ritningunum, „Síon,“ churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl.

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 95:8.Hvernig hefur það fært okkur „kraft frá upphæðum“ að gera og halda musterissáttmála? Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir sagt frá því hvað þeim finnst um musterið eða þegar þau hafa notið þeirrar blessunar að hljóta „kraft frá upphæðum“ fyrir tilverknað musteristilbeiðslu.

Þið gætuð, til að hjálpa þeim sem búa sig undir að fara í musterið, skoðað myndbönd og myndir og lesið fræðsluefni á temples.ChurchofJesusChrist.org. Þið gætuð, til að hjálpa börnum að læra um musterið, notað „Your Path to the Temple“ (í Temples of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints [sérstök útgáfa af Ensign eða Liahona, október 2010], 72–75).

Kenning og sáttmálar 95:1–11.Hvað lærum við um ögun af þessum versum? Hvað lærið þið um Drottin? Hvernig hefur þessi skilningur áhrif á hvernig við erum öguð eða ögum aðra?

Kenning og sáttmálar 97:8.Hvernig getur Drottinn veitt okkur „viðtöku,“ samkvæmt þessu versi? Hvernig er það ólíkt því að heimurinn veiti okkur viðtöku? Hver er merking þess að „virða … sáttmála [okkar] með fórn“? Hvernig höfum við gert það?

Kenning og sáttmálar 97:10–21.Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Síon er hver sá staður sem hinir heilögu safnast saman á, sem sérhver réttlátur maður [eða kona] mun byggja upp, börnum sínum til skjóls“ (Kenningar: Joseph Smith, 186). Hvernig getum við byggt Síon á heimili okkar? Hvaða reglur finnum við í Kenningu og sáttmálum 97:10–21? Veljið reglu saman sem fjölskylda sem þið lærið í þessari viku.

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Musterið,“ Barnasöngbókin, 99.

Bæta persónulegt nám

Skráið eigin upplifanir. Skráið þær upplifanir sem þið hafið haft af reglunum og kenningunum sem þið lærið. Þessar upplifanir geta orðið hluti af persónulegri sögu ykkar, til blessunar kynslóðum framtíðar.

Bygging Kirtland-musterisins

Bygging Kirtland-musterisins, eftir Walter Rane