„23.–29. ágúst. Kenning og sáttmálar 93: ,Tekið á móti fyllingu hans,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„23.–29. ágúst. Kenning og sáttmálar 93,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021
23.–29. ágúst
Kenning og sáttmálar 93
„Tekið á móti fyllingu hans“
Í Kenningu og sáttmálum 93 segir að „sannleikurinn [sé] þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (vers 24). Þegar þið lærið þennan kafla, leitið þá sannleika og skráið það sem þið lærið. Hvað eruð þið fús að gera til að hljóta sannleika? (sjá vers 27–28).
Skráið hughrif ykkar
Joseph Smith kenndi: „Þegar við göngum upp stiga verðum við að byrja neðst og stíga upp þrep af þrepi, uns við náum toppnum, og þannig er það með reglur fagnaðarerindisins – við verðum að byrja á þeirri fyrstu og halda áfram uns við höfum lært allar reglur upphafningar“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 268).
Stundum virðist stigi upphafningar óendanlega hár, en við erum fædd til að klífa hann á enda. Himneskur faðir og sonur hans sjá eitthvað dýrðlegt í okkur, eitthvað guðlegt, þótt okkur sjálfum finnist við takmörkuð. Jesús Kristur var „í upphafi … hjá föðurnum,“ og það „[vorum við] einnig“ (Kenning og sáttmálar 93:21, 23). Á sama hátt og hann „hélt áfram frá náð til náðar, þar til hann hafði hlotið fyllingu,“ svo munum við líka „hljóta náð á náð ofan“ (vers 13, 20). Hið endurreista fagnaðarerindi kennir um hið sanna eðli Guðs og það kennir líka um okkur sjálf og hvað við getum orðið. Þrátt fyrir tilraunir „[hins illa]“ (vers 39) – og hvað ykkur finnst ábótavant hjá ykkur – þá eruð þið bókstaflega barn Guðs og getið „tekið á móti fyllingu hans á sínum tíma“ (vers 19).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Við tilbiðjum Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist.
Í opinberuninni í Kenningu og sáttmálum útskýrði Drottinn: „Ég gef yður þessi orð, svo að þér megið skilja og vita hvernig tilbiðja skal, og vita hvað tilbiðja skal, svo þér getið komið til föðurins í mínu nafni og tekið á móti fyllingu hans á sínum tíma“ (vers 19). Þegar þið lærið þessa opinberun, merkið þá við sannleika sem þið finnið um þá verur sem við tilbiðjum: Guð föðurinn og son hans Jesú Krist. Hvað lærið þið um „hvernig tilbiðja skal“ þá? um hvernig við getum „komið til föðurins“?
Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Ef menn fá ekki skilið eðli Guðs, fá þeir ekki skilið sjálfan sig“ (Kenningar: Joseph Smith, 40). Þegar þið lærið um frelsarann í námi ykkar á Kenningu og sáttmálum 93, gætið þá að því sem þið lærið um ykkur sjálf. Hvað lærið þið t.d. um hann í versum 3, 12, 21 og 26? Hvaða áþekkan sannleika finnið þið um ykkur sjálf í versum 20, 23 og 28–29? (Sjá einnig 1. Jóhannes 3:2; 3. Nefí 27:27; Dean M. Davies, „Blessanir tilbeiðslu,“ aðalráðstefna, október 2016.)
Dýrð Guðs er ljós og sannleikur.
Þið gætuð tekið eftir að dýrð, ljós og sannleikur koma oft fyrir í þessari opinberun. Búið til lista yfir sannleika sem þið lærðuð um dýrð, ljós og sannleika, einkum þegar þið lærið vers 21–39. Hvernig innblæs þessi sannleikur ykkur til að leita að meira ljósi og sannleika? Hvernig gæti þessi sannleikur haft áhrif á það hvernig þið hagið ykkar daglega lífi?
„[Kom] reglu á hús þitt.“
Nærri versi 40 í Kenningu og sáttmálum 93 virðist látið af því að kenna um dýrð Guðs og guðlega möguleika okkar, til að gefa fyrirmæli um uppeldi og að koma reglu á hús okkar. Hvernig hjálpa kenningar Drottins um ljós, sannleika og dýrð í versum 1–39 okkur að skilja og hlíta leiðsögninni í versum 40–50?
Sjá einnig David A. Bednar, „Meiri kostgæfni og umhyggjusemi heima fyrir,“ aðalráðstefna, október 2009.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Kenning og sáttmálar 93:2.Hvernig hefur Jesús Kristur verið „hið sanna ljós“ í lífi ykkar? Hvernig höfum við séð ljós hans í fólki umhverfis okkur?
-
Kenning og sáttmálar 93:3–29.Þið gætuð farið í samstæðuleik til að hjálpa fjölskyldu ykkar að ræða það sem þau lærðu í kafla 93 um frelsarann og sig sjálf. Þið gætuð t.d. búið til eina kortasamstæðu með versum úr kafla 93, sem kenna sannleika um frelsarann (sjá vers 3, 12, 21, 26) og aðra samstæðu sem kennir eitthvað álíka um okkur sjálf (sjá vers 20, 23, 28–29). Fjölskyldumeðlimir gætu skiptst á um að velja sér kort úr hverri samstæðu, lesið versin og reynt að finna hliðstæðan sannleika. Hvernig hefur þessi sannleikur áhrif á hvað okkur finnst um frelsarann og okkur sjálf?
-
Kenning og sáttmálar 93:12–13, 20.Hver er merking þess að hljóta „náð á náð ofan“ og að halda áfram „frá náð til náðar“? (vers 12–13). Hvað kenna þessi vers um hvernig við vöxum og lærum? Hvernig hefur það áhrif á breytni okkar við aðra – og gagnvart okkur sjálfum – að vita þetta?
-
Kenning og sáttmálar 93:24.Lesið skilgreininguna á sannleika í þessu versi og biðjið fjölskyldumeðlimi að miðla einhverju úr kafla 93 sem þau telja ómetanlegan sannleika. Hvaða aðrar skilgreiningar á sannleika finnum við í Jóhannes 14:6; Jakob 4:13; eða sálmi um sannleika, t.d. „Ó, segðu oss frá því hvað sannleikur er“ (Sálmar, nr. 99).
-
Kenning og sáttmálar 93:40.Við lestur þessa vers, gætuð þið og fjölskylda ykkar ef til vill sungið söng sem tengist því að læra heima, t.d. „Kenn mér hans ljósið“ (Barnasöngbókin, 70). Ung börn gætu haft gaman að því gera hreyfingar sem passa við textann. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að aukið „ljós og sannleikur“ verði ríkjandi á heimili ykkar?
-
Kenning og sáttmálar 93:41–50.Ræðið saman sem fjölskylda um hvað gæti verið „í ólagi í húsi [ykkar].“ Hvað getum við gert til að „koma reglu á hús [okkar]“? (vers 43–44).
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Guðs barnið eitt ég er,“ Barnasöngbókin, 2.