Kenning og sáttmálar 2021
16.–22. ágúst. Kenning og sáttmálar 89–92: „Regla með fyrirheiti“


„16.–22. ágúst. Kenning og sáttmálar 89–92: ,Regla með fyrirheiti,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„16.–22. ágúst. Kenning og sáttmálar 89–92,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
Karl og kona matreiða

16.–22. ágúst

Kenning og sáttmálar 89–92

„Regla með fyrirheiti“

Lesið Kenningu og sáttmála 89–92 af kostgæfni og skráið öll hughrif sem berast. Verið næm fyrir því hvernig „andinn opinberar [ykkur] sannleikann“ við námið (Kenning og sáttmálar 91:4).

Skráið hughrif ykkar

Í Skóla spámannanna kenndi spámaðurinn Joseph Smith öldungum Ísraels um uppbyggingu Guðs ríkis á jörðu. Þeir ræddu andlega hluti, báðust fyrir saman, föstuðu og bjuggu sig undir að prédika fagnaðarerindið. Það var þó eitthvað við andrúmsloftið sem okkur gæti fundist undarlegt í dag og Emmu Smith fannst það ekki rétt. Á fundunum reyktu menn og tuggðu tóbak, sem ekki var óvenjulegt á þessum tíma, en það óhreinkaði trégólfið og lyktin var yfirgnæfandi sterk. Emma sagði Joseph frá þessum áhyggjum sínum og Joseph lagði þetta fyrir Drottin. Af þessu leiddi opinberun sem náði yfir mun meira en aðeins óþrifnað reykinga og tóbaks. Í henni fólst, fyrir komandi kynslóðir hinna heilögu, „regla með fyrirheiti“ – fyrirheiti um líkamshreysti, „vísdóm“ og „mikinn þekkingarauð“ (Kenning og sáttmálar 89:3, 19).

Sjá einnig Saints [Heilagir], 1:166-68.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 89

Vísdómsorðið er „regla með fyrirheiti.“

Þegar öldungarnir í Skóla spámannanna heyrðu Joseph Smith fyrst lesa Vísdómsorðið, fleygðu þeir þegar í stað „pípunum og tóbakstuggunum í eldinn“ (Saints [Heilagir], 1:168). Á þessum tíma var Vísdómsorðið fremur talið aðvörun en boðorð, en þeir vildu sýna að þeir væru fúsir til að hlýða. Ef til vill hafið þið „fleygt“ úr lífi ykkar þeim efnum sem Vísdómsorðið varar við, en hvað annað getið þið lært af þessari opinberun? Íhugið þessar hugmyndir:

  • Gætið að orðtökum sem gætu hafa farið fram hjá ykkur – eða þið ekki gefið mikinn gaum – fram til þessa. Hvað lærið þið af þeim?

  • Í Kenningu og sáttmálum 89 eru nokkur fyrirheit (sjá vers 18–21). Hver haldið þið að merking þessara fyrirheita sé?

  • Hvað kennir þessi opinberun ykkur um Drottin?

  • Hvaða dæmi hafið þið séð um „illsku og [klæki] … í hjörtum undirhyggjumanna“? (vers 4).

  • Hugsið um opinberunina sem „[reglu] með fyrirheiti“ (vers 3) – varanlegs sannleika til leiðsagnar við ákvarðanir – ekki aðeins sem lista yfir það sem gera og ekki gera á. Hvaða reglur finnið þið sem geta verið leiðandi við ákvarðanatökur ykkar?

Spámenn okkar tíma hafa líka varað við skaðlegum efnum og breytni, sem ekki eru tilgreind í Vísdómsorðinu (sjá „Andleg og líkamleg heilsa,“ Til styrktar æskunni 25-27). Hvað eruð þið hvött til að gera til að hirða betur um huga og líkama ykkar?

Sjá einnig Daníel 1; 1. Korintubréfið 6:19–20; Leiðarvísir að ritningunum, „Vísdómsorðið,“ churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl; “The Word of Wisdom [Vísdómsorðið],” Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 183–91; addictionrecovery.ChurchofJesusChrist.org.

Ljósmynd
Drengir hlaupa á ströndu

Vísdómsorðið kennir okkur að hirða vel um líkama okkar.

Kenning og sáttmálar 90:1–17

Æðsta forsætisráðið hefur „lykla ríkisins.“

Í kafla 90 gaf Drottinn fyrirmæli um „[þjónustuna og forsætisráð]“ (vers 12) Josephs Smith, Sidneys Rigdon og Fredericks G. Williams – meðlimanna sem nú skipa það sem við köllum Æðsta forsætisráðið. Hvað lærið þið um Æðsta forsætisráðið af versum 1:17? Rifjið upp nýlegan boðskap frá meðlimum Æðsta forsætisráðsins. Hvernig „afhjúpa [orð þeirra] leyndardóma ríkisins“ fyrir ykkur? (vers 14). Hvernig „koma [þeir] reglu á öll mál þessarar kirkju og ríkis“? (vers 16).

Sjá einnig Henry B. Eyring, „Máttur trúarlegs stuðnings,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

Kenning og sáttmálar 90:24

„Allt mun vinna saman að velfarnaði [mínum].“

Ígrundið allar upplifanir ykkar sem vitna um fyrirheit Drottins í Kenningu og sáttmálum 90:24. Íhugið að skrá upplifanir ykkar og miðla þeim fjölskyldumeðlimi eða ástvini – hugsanlega einhverjum sem þarfnast huggunar eða hvatningar. Ef þið bíðið enn einhverra blessana, ígrundið þá hvað þið getið gert til að vera áfram trúföst við þá bið, til að sjá hvernig „allt mun vinna saman að velfarnaði yðar.“

Kenning og sáttmálar 90:28–31

Hver var Vienna Jaques?

Vienna Jaques fæddist 10. júní 1787, í Massachusetts. Vienna var trúuð kona, nokkuð efnuð fjárhagslega, sem fyrst hitti trúboðana 1831. Eftir að hún hafði hlotið andlegt vitni um að boðskapur þeirra væri sannur, fór hún til Kirtland, Ohio, til að hitta spámanninn, þar sem hún skírðist.

Vienna fylgdi leiðsögn Drottins fyrir hana í Kenningu og sáttmálum 90: 28–31. Helgað framlag hennar til Drottins, ásamt fyrri framlögum hennar í Kirtland, kom á afdrifaríkum tíma fyrir kirkjuna, er leiðtogar reyndu að kaupa landið þar sem byggja skyldi Kirtland-musterið. Vienna var alla ævi „[trúföst og iðjusöm]“ og gat að lokum „komið sér fyrir í friði“ (vers 31) í Saltvatnsdalnum, þar sem hún andaðist 96 ára.

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 89.Fjölskyldumeðlimir ykkar gætu haft gaman að því að teikna eða finna myndir af matvælum og öðru efni sem tilgreint er í Kenningu og sáttmálum 89. Þið gætuð síðan farið í leiki – fjölskyldumeðlimir gætu skiptst á við að velja myndir handahófskennt og setja það sem við ættum ekki að nota í ruslafötu og það sem við ættum að nota á matardisk. Hvernig hafa fyrirheitin í versum 18–21 uppfyllst í lífi ykkar?

Lestur kaflans „Andleg og líkamleg heilsa“ í Til styrktar æskunni (25–27) gæti hvatt til umræðna um hvernig huga má að heilsunni á annan hátt og um hinar fyrirheitnu blessanir Guðs.

Kenning og sáttmálar 90:5.Ræðið hvernig þið „[meðtakið] hin lifandi orð [opinberanir eða spámenn] Guðs.“ Hvernig getum við sýnt að við förum ekki „léttúðlega“ með þau?

Kenning og sáttmálar 91.Þið gætuð rætt hvernig leiðsögn Drottins um Apókrýfuritin (sjá vers 1–2) á við um þá miðla sem fjölskylda ykkar hefur aðgang að í dag (sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Apókrýfuritin,“ churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl). Þið gætuð líka miðlað eigin upplifunum þar sem „andinn [upplýsti]“ ykkur (vers 5) við að greina á milli sannleika og villu.

Kenning og sáttmálar 92:2.Hvað felst í því að vera „ötull meðlimur“ kirkjunnar?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Ég lifi í því húsi,“ Barnasöngbókin, 73.

Bæta kennslu okkar

Hafið fjölbreytni í náminu. Leitið ýmissa leiða til að stuðla að fjölbreytni og vekja þannig áhuga fjölskyldu ykkar á ritningarnáminu. Fjölskyldumeðlimir gætu t.d. sungið sálma eða barnasöngva sem tengjast efni vers, teiknað myndir af efninu sem þau lesa eða gert samantekt á versi með eigin orðum.

Ljósmynd
Ávextir og grænmeti

„Allir heilagir, sem … halda þessi orð og fara eftir þeim og ganga í hlýðni við boðorðin, skulu hljóta heilsu í nafla sína og merg fyrir bein sín“ (Kenning og sáttmálar 89:18).

Prenta