Kenning og sáttmálar 2021
2.–8. ágúst. Kenning og sáttmálar 85–87: „Standið … á heilögum stöðum“


„2.–8. ágúst. Kenning og sáttmálar 85–87: ,Standið … á heilögum stöðum,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„2.–8. ágúst. Kenning og sáttmálar 85–87,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
Fjölskylda gengur í musterið

2.–8. ágúst

Kenning og sáttmálar 85–87

„Standið … á heilögum stöðum“

Andinn gæti leitt ykkur til að læra reglur í köflum 85–87, sem ekki er varpað ljósi á í þessum lexíudrögum. Bregðist við innblæstri hans.

Skráið hughrif ykkar

Á jóladegi er yfirleitt venja að hugleiða boðskap eins og „[frið] á jörðu“ og „velþóknun á [mönnum]“ (sjá Lúkas 2:14). Hinn 25. desember 1832 var Joseph Smith þó að hugsa um stríðsógnir. Suður-Karolína hafði rétt áður ögrað ríkisstjórn Bandaríkjanna og bjó sig undir stríð. Drottinn opinberaði Joseph að þetta væri aðeins upphafið og lýsti yfir: „Styrjöld hvolfist yfir allar þjóðir“ (Kenning og sáttmálar 87:2). Svo virtist sem þessi spádómur myndi uppfyllast fljótt.

Svo varð þó ekki. Innan fárra vikna komust Suður-Karolína og ríkisstjórn Bandaríkjanna að samkomulagi og stríði var aflýst. Opinberun uppfyllist þó ekki alltaf á þeim tíma eða á þann hátt sem vænst er. Um 30 árum síðar, löngu eftir að Joseph Smith var myrtur og hinir heilögu höfðu flutt vestur, gerði Suður-Karolína uppreisn og stríð braust út. Frá þeim tíma hafa stríð víða um heim valdið því að „[jörðin tregar]“ (Kenning og sáttmálar 87:6). Þótt spádómurinn hefði að lokum uppfyllst, segir opinberunin minna um hvenær hörmungar verða, en meira um hvað gera skuli þegar þær verða. Þessi leiðsögn á jafnt við 1831, 1861 og 2021: „Standið … á heilögum stöðum og haggist ekki“ (vers 8).

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 85:1–2

Það er gott „að skrá sögu.“

„í [sögunni]“ sem tilgreind er í versi 1 voru nöfn þeirra skráð sem „[fengu] löglegan arfshlut“ í Síon (sjá einnig Kenning og sáttmálar 72:24–26). Saga þessi var þó meira en einungis stjórnsýsla – hún var dýrmæt heimild um hina heilögu, „lífsmáta þeirra, trú og störf“ (vers 2).

Skráið þið sögu ykkar sjálfra eða haldið dagbók? Hvað gætuð þið skráð um lífsmáta ykkar, trú og störf, sem gæti orðið komandi kynslóðum til blessunar? Hvernig gæti sú saga verið ykkur sjálfum til blessunar?

Sjá einnig „Journals: ,Of Far More Worth than Gold,‘“ Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2011), 125–33; „Turning Hearts [Umbreyting hjartna]“ (myndband, ChurchofJesusChrist.org).

Kenning og sáttmálar 85:6

Andinn talar „[lágri, hljóðlátri röddu.“]

Ígrundið orðin sem Joseph Smith notaði til að lýsa andanum í Kenningu og sáttmálum 85:6. Á hvaða hátt er rödd andans „[lág]“ og „[hljóðlát]“? Hvað „smýgur“ hún í gegnum í ykkar lífi?

Þegar þið hugleiðið hvernig andinn talar til ykkar, ígrundið þá þessar lýsingar gefnar með Joseph Smith: Kenning og sáttmálar 6:22–24; 8:2–3; 9:7–9; 11:12–13; 128:1. Hvað finnst ykkur að þið þurfið að gera til að fá betur skynjað rödd andans, byggt á því sem þið lásuð?

Sjá einnig 1. Konungabréfið 19:11–12; Helaman 5:30.

Ljósmynd
Kona lærir ritningarnar

Að læra ritningarnar, hjálpar okkur að heyra rödd heilags anda.

Kenning og sáttmálar 86

Hinum réttlátu er safnað saman á efstu dögum.

Í Kenningu og sáttmálum 86:1–7 er útskýring Drottins á dæmisögunni um hveitið og hafrana, með lítils háttar áherslubreytingu frá lýsingu hans í Matteus 13:24–30, 37–43. Í hverju bregður á milli í samanburði ykkar á dæmisögunum tveimur? Íhugið afhverju þessi dæmisaga – með þessum blæbrigðamuni – er verð endurtekningar „á síðustu dögum, já, nú þegar“ (Kenning og sáttmálar 86:4). Hvað getið þið lært af þessari dæmisögu og síðari daga túlkun hennar?

Í kjölfar þessa og eins og skráð er í versi 8–11, þá talaði Drottinn um prestdæmið, endurreisnina og sáluhjálp fólks síns. Hvaða tengingu sjáið þið á milli þessara versa og dæmisögunnar um hveitið og hafrana? Hvernig getið þið verið sem „frelsari þjóðar [Drottins]“? (vers 11).

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Fráhvarf,“ „Endurreisn fagnaðarerindisins,“ churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl.

Kenning og sáttmálar 87

Frið er að finna á „heilögum stöðum.“

Auk hinnar líkamlegu hættu „blóðsúthellingar … og [hungursneyðar], plágu, jarðskjálfta (Kenning og sáttmálar 87:6), getur leiðsögn þessarar opinberunar líka átt við um þær andlegu hættur sem við öll stöndum frammi fyrir á síðari dögum. Hvar eru ykkar „[heilögu staðir]“ (vers 8), þar sem þið finnið frið og öryggi? Hvað gerir stað heilagan? Auk efnislegra staða, gæti friður ef til vill falist í heilögum stundum, heilögum verkum eða heilögum hugsunum. Hvað merkir að „[haggast] ekki“ af þessum stöðum?

Sjá einnig Henry B. Eyring, „Heimili þar sem andi Drottins dvelur,“ aðalráðstefna, apríl 2019; Saints [Heilagir], 1:163–64; „Peace and War [Stríð og friður],“ Opinberanir í samhengi], 158–64.

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 85:6.Hvernig getið þið kennt fjölskyldu ykkar að bera kennsl á hina lágu, hljóðlátu rödd andans? Ef til vill gætuð þið farið í leik þar sem einhver hvíslar mikilvægum fyrirmælum mitt í truflandi hávaða. Hvað gæti truflað okkur frá því að heyra í heilögum anda? Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir sagt frá því hvað þau gera til að heyra rödd andans.

Kenning og sáttmálar 86.Að teikna eða horfa á myndir, gæti hjálpað fjölskyldu ykkar að skilja dæmisöguna um hveitið og hafrana. Þið gætuð viljað byrja á myndum af því sem lýst er í Matteus 13:24–30. Fjölskylda ykkar gæti síðan merkt myndirnar með útskýringum í Kenningu og sáttmálum 86:1–7. Hvernig erum við eins og hveitið? Hvernig getum við verið eins og englarnir sem safna saman hveitinu?

Kenning og sáttmálar 87:8.Þið gætuð, til að hefja umræður um hvernig gera á heimili ykkar að heilagri stað, beðið fjölskyldumeðlimi ykkar að hanna heimili fyrir einhvern sem elskar frelsarann. Þetta gæti leitt til hugmynda um hvernig mætti „endurhanna“ heimili ykkar, til að gera það að stað friðar mitt í andlegum hættum heimsins. Hugmyndir gætu vaknað af söngvum eins og „Ást ef heima býr,“ „Heimilið er himni nær“ (Sálmar, nr. 110, 111) eða „Hvar ást er“ (Barnasöngbókin, 76).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Hvar ást er,“ Barnasöngbókin, 76.

Bæta kennslu okkar

Notið sköpunargáfuna. Þegar þið kennið fjölskyldu ykkar úr ritningunum, einskorðið ykkur þá ekki við spurningar og verkefnahugmyndir þessara lexíudraga. Notið hugmyndirnar til að glæða ykkar eigin sköpunargáfu. Hugleiðið hvað fjölskylda ykkar hefði gaman að og hvað gæti hjálpað henni að heimfæra ritningarnar upp á eigið líf.

Ljósmynd
Hveitiakur

Drottinn notaði dæmisöguna um hveitið og hafrana til að útskýra hvernig fólki hans mun safnað saman á efstu dögum.

Prenta