Kenning og sáttmálar 2021
1.–7. nóvember. Kenning og sáttmálar 125–128: „Gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu“


„1.–7. nóvember Kenning og sáttmálar 125–128: „Gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu“, Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„1.–7. nóvember Kenning og sáttmálar 125–128,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
fjölskylda með forfeðrum í andaheiminum

Við með þeim og þau með okkur, eftir Caitlin Connolly

1.–7. nóvember

Kenning og sáttmálar 125-128

„Gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu“

Munið að skrá niður tilfinningar ykkar er þið lærið Kenningu og sáttmála 125–28, svo þið getið íhugað þær og miðlað þeim öðrum.

Skráið hughrif ykkar

Í ágúst 1840 hlýddi hin syrgjandi Jane Neyman á spámanninn Joseph tala í jarðarför vinar hans, Seymour Brunson. Cyrus, sonur Jane á unglingsaldri, hafði einnig látið lífið nýlega. Það jók enn á sorg hennar að Cyrus hafði aldrei verið skírður og Jane hafði áhyggjur af því hvað það gæti þýtt fyrir ódauðlega sál hans. Joseph vissi hvernig henni leið og hann hafði hugleitt það sama um Alvin, ástkæran bróður sinn, sem einnig lét lífið áður en hann var skírður. Því ákvað spámaðurinn að deila með Jane og öllum öðrum í jarðarförinni því sem Drottinn hafði opinberað honum um þá sem höfðu látist án þess að hafa hlotið helgiathafnir fagnaðarerindisins og hvað við getum gert til að hjálpa þeim.

Kenningin um skírn hinna dánu hreif hina heilögu. Hugsanir þeirra beindust samstundis að látnum foreldrum, öfum og ömmum og öðrum fjölskyldumeðlimum. Nú áttu þau von! Joseph deildi gleði þeirra og hann notaði gleðiríkt og grípandi mál til að tjá það sem Drottinn kenndi honum um sáluhjálp hinna dánu: „Lát fjöllin óma af gleði og alla dali hrópa hátt, og allt haf og þurrlendi segi frá undrum eilífs konungs yðar!“ (Kenning og sáttmálar 128:23).

Sjá Saints [Heilagir], 1:415–27; „Letters on Baptism for the Dead [Bréf um skírn fyrir hina dánu],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 272–76.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 126

Drottinn vill að ég annist fjölskyldu mína.

Eftir að hafa komið aftur heim úr síðasta af nokkrum trúboðum til Englands, hlaut Brigham Young aðra mikilvæga köllun frá Drottni – að „annast fjölskyldu [sína] sérstaklega“ (vers 3) sem hafði þjáðst í fjarveru hans. Þegar þið ígrundið hvernig þessar ráðleggingar, ásamt öðrum, í kafla 126 eiga við um ykkur, hugleiðið þá þessi orð frá Bonnie L. Oscarson forseta, fyrrverandi aðalforseta Stúlknafélagsins:

„Minnist þess að hinar mestu þarfir gætu reynst beint fyrir framan ykkur. Hefjið þjónustu ykkar á eigin heimili og innan eigin fjölskyldu. Þetta eru sambönd sem geta orðið eilíf. Jafnvel þótt aðstæður fjölskyldunnar séu ekki fullkomnar – og kannski einkum þá – getið þið fundið leiðir til að þjóna, upplyfta og styrkja. Byrjið þar sem þið eruð, elskið þau eins og þau eru og búið ykkur undir fjölskylduna sem þið viljið eignast í framtíðinni“ („Þarfirnar fyrir framan okkur,“ aðalráðstefna, október 2017).

Sjá einnig „Take Special Care of Your Family [Annist fjölskyldu ykkar sérstaklega],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 242–49.

Kenning og sáttmálar 127:2–4

Drottinn þekkir gleði mína og sorgir.

Falskar ásakanir og handtökuhótanir urðu aftur til þess að Joseph Smith neyddist til að fara í felur í ágúst 1842. Þó eru orðin sem hann skrifaði til hinna heilögu á þessum tíma (nú Kenning og sáttmálar 127) fyllt jákvæðni og gleði. Hvað kenna vers 2–4 ykkur um Guð? Hvernig þið getið tekist á við persónulegar raunir?

Íhugið að skrá niður hvernig Drottinn styður ykkur í „djúpa vatninu“ í lífi ykkar.

Kenning og sáttmálar 127:5–8.; 128:1–8

„Hvað sem þér skráið á jörðu [verður] skráð á himni“

Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 127:5-8; 128:1–8, gætið þá að ástæðum þess að Drottinn gaf Joseph Smith svo nákvæmar leiðbeiningar um skráningu skírna fyrir hina dánu. Hvað kennir þetta ykkur um Drottin og verk hans?

Ljósmynd
ungur maður með nafnaspjöld ættmenna

Musterisþjónusta fyrir áa okkar tengir hjörtu okkar þeim.

Kenning og sáttmálar 128:5–25

Sáluhjálp áa minna er nauðsynleg minni eigin sáluhjálp.

Það er greinilegt, af því sem Guð opinberaði fyrir milligöngu Josephs Smith, af hverju þeir áar okkar sem ekki voru skírðir í þessu lífi þarfnast hjálpar okkar til eigin sáluhjálpar. Af hverju haldið þið að sáluhjálp áa okkar sé „nauðsynleg og óhjákvæmileg fyrir [okkar] sáluhjálp“? (sjá Kenning og sáttmálar 128:15–18; skáletrað hér).

Vers 5 kennir að helgiathöfn skírnar fyrir dána hafi verið fyrirbúin „áður en grundvöllur veraldar var lagður.“ Hvað kennir þessi sannleikur ykkur um Guð og áætlun hans? Hvernig varpar boðskapur Henrys B. Eyring forseta, „Samansöfnun fjölskyldu Guðs“ ljósi á skilning ykkar? (aðalráðstefna, apríl 2017).

Joseph Smith notar hugtök líkt og „bindingarvald,“ „hlekkur,“ og „fullkomin eining,“ þegar hann kennir um helgiathafnir prestdæmisins og skírn fyrir hina dánu. Leitið eftir þessum hugtökum og öðrum svipuðum þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 128:5–25. Hvað er hægt að binda fyrir tilverknað Jesú Krists, vegna helgiathafna prestdæmisins fyrir hina dánu? Af hverju er orðið „djörf“ tilvalið til að lýsa kenningunni um sáluhjálp fyrir hina dánu? (sjá vers 9–11).

Hvað vekur athygli ykkar við orð Josephs Smith í versum 19–25? Hvernig hafa þessi vers áhrif á hvað ykkur finnst um musterisþjónustu fyrir áa ykkar? um Jesú Krist? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera? (sjá FamilySearch.org/discovery fyrir hugmyndir).

Sjá einnig 1. Korintubréfið 15:29; Dale G. Renlund, „Ættarsaga og musterisverk: Innsiglun og lækning,“ aðalráðstefna, apríl 2018; myndböndin „A Sacrifice of Time [Fórna tíma]“ og „Their Hearts Are Bound to You [Hjörtu þeirra eru tengd ykkur],“ ChurchofJesusChrist.org.

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 126.Þegar þið lesið þessa leiðsögn ætlaðri Brigham Young, gæti það hvatt fjölskyldu ykkar til að ræða hvernig þið gætuð varið meiri tíma við að „annast sérstaklega“ (vers 3) hvert annað.

Kenning og sáttmálar 128:15–18.Hver eru dæmi um endurleysandi og fullkomnandi ættarsöguverk? Þið gætuð fundið hugmyndir í myndbandinu „The Promised Blessings of Family History [Fyrirheitnar blessanir ættarsögu]“ (ChurchofJesusChrist.org) eða í söng um ættarsögu, svo sem „Ættarskráin mín“ (Barnasöngbókin, 100).

Kenning og sáttmálar 128:18.Íhugið að búa til pappírskeðju með nöfnum fjölskyldumeðlima og áa á hverjum hlekk, til að sýna hvernig ættarsaga og musterisverk mynda „hlekk“ sem tengir okkur áum okkar. Ef til vill gætuð þið skoðað FamilySearch.org, til að finna fleiri ættmenni og sjá hve löng keðjan ykkar getur orðið.

Kenning og sáttmálar 128:19–23.Fjölskyldumeðlimir gætu leitað orða í þessum versum, sem tjá gleði Josephs Smith yfir fagnaðarerindi Jesú Krists og sáluhjálp hinna dánu. Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá reynslu sem líka hefur vakið þeim gleði fyrir þessi verk. Einnig gætuð þið leitað slíkrar reynslu saman á FamilySearch.org/discovery.

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Ættarskráin mín,“ Barnasöngbókin, 100.

Ljósmynd
Táknmynd radda endurreisnarinnar

Raddir endurreisnarinnar

Skírn fyrir hina dánu: „Nýtt og dýrðlegt málefni“

Ljósmynd
teikning af skírnarfontinum í musterinu í Nauvoo

Þessi teikning sýnir skírnarfontinn í musterinu í Nauvoo hvíla á tólf uxum.

Phebe og Wilford Woodruff

Phebe Woodruff bjó nálægt Nauvoo þegar Joseph Smith hóf að kenna um skírn fyrir hina dánu. Hún skrifaði um það til eiginmanns síns, Wilfords, sem var við trúboðsþjónustu í Englandi:

„Bróðir Joseph … hefur fengið opinberun um að meðlimir í þessari kirkju geti látið skírast fyrir öll ættmenni sín sem eru dáin og nutu ekki þeirra forréttinda að hafa heyrt þetta fagnaðarerindi, jafnvel fyrir börn sín, foreldra, bræður, systur, afa og ömmur, frændur og frænkur. … Um leið og þeir hafa látið skírast fyrir vini sína, losna þeir úr varðhaldi og þeir geta gert tilkall til þeirra í upprisunni og farið með þeim í himneska ríkið – kirkjan tekur hjartanlega á móti þessari kenningu og margir fara saman og sumir hyggjast skírast allt að 16 sinnum … á einum degi.“1

Wilford Woodruff sagði síðar um þessa reglu: „Um leið og ég frétti af henni tók sál mín kipp af gleði. … Ég lét til skarar skríða og skírðist fyrir öll þau látnu ættmenni mín sem í hug minn komu. … Mig langaði að hrópa halelúja þegar opinberunin barst og opinberaði okkur skírn fyrir hina dánu. Mér fannst við sannlega geta glaðst yfir blessunum himins.“2

Vilate Kimball

Líkt og systir Woodruff, þá frétti Vilate Kimball af skírn fyrir hina dánu þegar eiginmaður hennar, Heber, var fjarri við boðun fagnaðarerindisins. Hún skrifaði honum:

„Smith forseti hefur komið fram með nýtt og dýrðlegt málefni … sem hefur valdið mikilli vakningu í kirkjunni. Það er að láta skírast fyrir hina dánu. Páll ræðir um þetta í fyrsta Korintubréfinu, 15. kapítula, 29. versi. Joseph hefur hlotið nákvæmari útskýringu um þetta með opinberun. … Það eru forréttindi þessarar kirkju að láta skírast fyrir öll þau ættmenni sem dáið hafa áður en þetta fagnaðarerindi kom fram, jafnvel aftur til langafa og langömmu. … Þegar við gerum það, erum við fulltrúar þeirra og veitum þeim þau forréttindi að koma fram í fyrstu upprisunni. Hann segir að fagnaðarerindið verði prédikað fyrir þeim … en ekkert slíkt er fyrir hendi að andar láti skírast. … Frá því að þessi regla var boðuð hér, hefur fjölmennt verið við vötnin. Yfir ráðstefnu voru stundum átta til tíu öldungar samtímis í ánni við skírnir. … Ég vil láta skírast fyrir móður mína. Ég hugðist bíða þar til þú kæmir heim, en síðast þegar Joseph talaði um þetta efni, ráðlagði hann öllum að hefjast handa og leysa vini sína úr ánauð, eins fljótt og mögulegt væri. Ég mun því takast á við þetta í þessari viku, þar sem fjöldi nágranna er að hefjast handa. Sumir hafa þegar verið skírðir oftsinnis. … Af þessu sérðu að allir eiga tækifæri. Er þetta ekki dýrðleg kenning?“3

Phebe Chase

Þegar skírnarfonturinn í Nauvoo-musterinu var fullgerður, voru skírnir fyrir hina dánu framkvæmdar þar, í stað árinnar. Phebe Chase, Nauvoo-búi, skrifaði til móður sinnar um musterið og lýsti skírnarfontinum sem stað þar sem „við getum látið skírast fyrir okkar dánu og orðið frelsarar á Síonarfjalli.“ Hún útskýrði ennfremur að í þessum skírnarfonti „skírðist ég fyrir minn ástkæra föður og alla aðra dána vini mína. … Ég vil nú vita hvað faðir þinn og móðir hétu, svo ég geti leyst þau, því ég vil líkna hinum dánu. … Drottinn hefur talað enn á ný og endurreist hina fornu reglu.“4

Sally Randall

Í bréfum sínum til vina sinna og fjölskyldu, um skírn fyrir hina dánu, minntist Sally Randall andláts sonar síns, George:

„Ó, hve þetta voru mér erfiðir tímar og enn finnst mér ég ósátt við að þannig fór, en … faðir hans lét skírast fyrir hann og hve dýrðlegt er að við trúum og meðtökum fyllingu fagnaðarerindisins, eins og það er nú boðað og getum skírst fyrir alla okkar dánu vini og frelsað þá, eins langt aftur og við fáum aflað einhverrar þekkingar um þá.

„Ég vil að þú skrifir mér skírnarnöfn allra látinna skyldmenna okkar, í öllu falli, allt aftur til afa okkar og amma. Ég hyggst gera hvað ég get til að frelsa vini mína og það gleddi mig mikið, ef þið kæmuð mér til aðstoðar, því verkið er of viðamikið fyrir eina manneskju. … Ég býst við að ykkur finnist þetta undarleg kenning, en þið munuð uppgötva að hún er sönn.“5

Heimildir

  1. Bréf frá Phebe Wodruff til Wilford Woodruff, 6. október 1840, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City; stafsetning og greinarmerki færð í nútímahorf.

  2. Wilford Woodruff, „Remarks,“ Desert News, 27. maí, 1857, 91; greinarmerki færð í nútímahorf.

  3. Bréf frá Vilate Kimball til Heber C. Kimball, 11. október 1840, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City; stafsetning og greinarmerki færði í nútímahorf.

  4. Bréf frá Phebe Chase, ódagsett, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City; stafsetning og greinarmerki færði í nútímahorf. Þegar hinir heilögu hófu fyrst að framkvæma skírnir fyrir hina dánu, voru einstaklingar stundum skírðir í þágu áa af báðum kynjum. Síðar var opinberað að karlar skyldu skírðir fyrir karla og konur fyrir konur.

  5. Bréf frá Sally Randall, 21. apríl 1844, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City; stafsetning og greinarmerki færði í nútímahorf.

Ljósmynd
skírnarfontur í Ogden-musterinu í Utah

Skírnarfonturinn í Ogden-musterinu í Utah hvílir á baki tólf uxa.

Prenta