„8.–14. nóvember. Kenning og sáttmálar 129–132: ,Þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„8.–14. nóvember. Kenning og sáttmálar 129–132,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021
8.–14. nóvember
Kenning og sáttmálar 129–132
„Þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni”
Kaflar 129–32 kenna margar dýrmætar reglur, en aðeins er fjallað um nokkrar þeirra í þessum lexíudrögum. Hvaða annan sannleika finnið þið?
Skráið hughrif ykkar
Brigham Young sagði eitt sinn um Joseph Smith: „Honum tókst að sníða hinu himneska þann stakk að hinn takmarkaði fékk skilið það“ (í Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith, 496). Þetta virðist einkum eiga við um kenningar spámannsins í Nauvoo á 5. áratugi 19. aldar, en sumar þeirra eru skráðar í Kenningu og sáttmálum 129–32. Hvernig er frelsarinn? „Hann er maður eins og við sjálf.” Hvernig er himnaríki? „Og að sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar” (Kenning og sáttmálar 130:1–2), og okkar dýrmætustu fjölskyldubönd í þessum heimi „skulu vera í fullu gildi,“ hafi þau verið innsigluð með réttmætu valdi (Kenning og sáttmálar 132:19). Sannleikur sem þessi megnar að draga úr fjarlægð himins – gera hann dýrðlegan og aðgengilegan.
Guð getur þó stundum beðið okkur að gera svo óþægilega hluti, að þeir virðast ómögulegir. Fyrir marga hina fyrri heilögu var fjölkvænið eitt slíkt boðorð. Boðorðið um að giftast fleiri konum var mikil trúarprófraun fyrir Joseph Smith, eiginkonu hans, Emmu, og næstum alla þá sem við því tóku. Meira þurfti til en góðar tilfinningar gagnvart hinu endurreista fagnaðaerindi til að standast þessa prófraun; trú þeirra á Guð þurfti að ná dýpra persónulegum löngunum og hneigðum. Boðorðið gildir ekki lengur á okkar tíma, en trúfast fordæmi þeirra sem lifðu samkvæmt því gerir það. Þetta fordæmi veitir innblástur þegar við erum beðin um að færa okkar eigin „fórnir í hlýðni” (Kenning og sáttmálar 132:50).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Joseph Smith opinberaði sannleika um Guðdóminn og „komandi [heim].”
Þið takið ef til vill eftir því að kaflar 130–31 eru örlítið öðruvísi aflestrar en aðrir kaflar í Kenningu og sáttmálum. Þetta er vegna þess að kaflar 130–31 eru byggðir á minnispunktum sem William Clayton, einn af riturum Joseph Smith, ritaði um kenningar spámannsins. Fyrir vikið eru þessir kaflar líkari sannleikssafni, fremur en heildstæðum, talrituðum opinberunum. Þótt svo sé, þá er þessi sannleikur á margan hátt efnislega tengdur. Þið getið t.d. lesið kafla 130–131 með álíka spurningar í huga og þessar: Hvað læri ég um Guð? Hvað læri ég um lífið eftir dauðann? Hvaða áhrif hefur þessi þekking á líf mitt?
Sjá einnig „Our Hearts Rejoiced to Hear Him Speak [Hjörtu okkar glöddust við að heyra hann tala],” Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 277–80.
Kenning og sáttmálar 131:1–4; 132:7, 13–25
Himneskur faðir gerði fjölskyldum mögulegt að vera eilífar.
Einn mest hughreystandi sannleikurinn sem spámaðurinn Joseph Smith endurreisti, er sá að hjónaband og fjölskyldusambönd geti varað að eilífu. Fyrir milligöngu Josephs Smith, endurreisti Drottinn þær helgiathafnir og það vald sem nauðsynleg eru til að gera þessi sambönd eilíf (sjá Kenning og sáttmálar 132:7, 18–19). Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 131:1–4; 132:7, 13–15, hugsið þá um fjölskyldusambönd ykkar nú og þau sem þið síðar vonist eftir. Hvaða áhrif hafa þessi vers á viðhorf ykkar til þessara sambanda?
Hins vegar er það stundum svo, að reglan um eilífar fjölskyldur er ekki svo hughreystandi – hún getur vakið okkur kvíða, jafnvel sorg, ef núverandi fjölskylduaðstæður okkar samræmast ekki hinni himnesku fyrirmynd. Þegar Henry B. Eyring forseti hafði áhyggjur af slíkum aðstæðum í fjölskyldu sinni, hlaut hann þessa viturlegu leiðsögn frá meðlim í Tólfpostulasveitinni: „Þú hefur áhyggjur af röngum vanda. Þú skalt sjálfur lifa verðugur himneska ríkisins og fjölskylduhagir þínir verða dásamlegri en þú færð ímyndað þér“ (í „Heimili þar sem andi Drottins býr,” aðalráðstefna, apríl 2019). Hvernig getur það blessað ykkur í núverandi fjölskylduaðstæðum að hlíta þessari leiðsögn?
Sjá einnig Kristen M. Oaks, „To the Singles of the Church [Til hinna einhleypu í kirkjunni]” (trúarsamkoma Fræðsludeildar kirkjunnar fyrir ungt fullorðið fólk, 11. sept. 2011), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.
Kenning og sáttmálar 132:1–2, 29–40
Fjölkvæni er einungis þóknanlegt Guði þegar hann gefur fyrirmæli um það.
Allir sem hafa lesið Gamla testamentið eru líklega meðvitaðir um að Abraham, Jakob, Móse og fleiri giftust mörgum konum. Voru þessir ágætu menn að drýgja hór? Lagði Guð ef til vill blessun sína yfir gjörðir þeirra? Leitið svara í Kenningu og sáttmálum 132:1–2, 29–40.
Hjónaband eins karls og einnar konu er meginregla Guðs um hjónabandið (sjá kaflafyrirsögn í Opinber yfirlýsing 1; sjá einnig Jakob 2:27, 30). Hins vegar hafa komið upp tímabil í sögunni, þar sem Guð hefur boðið börnum sínum að iðka fjölkvæni.
Fyrstu ár hinnar endurreistu kirkju voru eitt þessara undantekningartímabila. Eftir að hafa fengið þetta boðorð, iðkuðu Joseph Smith og aðrir Síðari daga heilagir fjölkvæni. Ef þið viljið vita meira um fjölkvæni meðal Síðari daga heilagra, sjá þá „Mercy Thompson and the Revelation on Marriage [Mercy Thompson og opinberunin um hjónabandið]” (Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 281–93); Saints [Heilagir], 1:290–92, 432–35, 482–92, 502–4; „Plural Marriage in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints [Fjölkvæni í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu]” (Gospel Topics, topics.ChurchofJesusChrist.org); „Why Was It Necessary for Joseph Smith and Others to Practice Polygamy? [Hvers vegna var nauðsynlegt fyrir Joseph Smith og aðra að iðka fjölkvæni?]” (myndband, ChurchofJesusChrist.org).
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Kenning og sáttmálar 130:2, 18–19; 132:13, 19.Hvernig gætuð þið notað þessi vers til að hjálpa fjölskyldu ykkar að forgangsraða því sem varir að eilífu? Ef til vill gætuð þið sett í ferðatösku eða bakpoka það sem samkvæmt Kenningu og sáttmálum 130:2, 18–19; 132:19 táknar það sem við getum tekið með okkur í næsta líf, svo sem fjölskyldumyndir eða ritningar. Hvað kennir Kenning og sáttmálar 132:13 okkur um það sem heimsins er? Þetta gæti leitt til umræðu um að leggja áherslu á það sem er af eilífu mikilvægi.
-
Kenning og sáttmálar 130:20–21.Þið gætuð sungið söng um þakklæti, t.d. eins og „Er í stormum lífs þíns” (Sálmar, nr. 27) og búið til lista yfir blessanir sem fjölskylda ykkar hefur hlotið fyrir að hlíta lögmálum Guðs. Hvaða blessanir vonumst við eftir að öðlast? Hvernig getum við öðlast þessar blessanir?
-
Kenning og sáttmálar 131:1–4; 132:15–19.Myndbandið „Marriage Is Sacred [Hjónabandið er heilagt]” (ChurchofJesusChrist.org) gæti hjálpað fjölskyldu ykkar að ræða sannleikann í þessum versum. Hvernig lítur Drottinn á hjónabandið? Hvernig búum við okkur undir hjónaband – hvort sem við erum gift eða einhleyp?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Fjölskyldur geta átt eilífð saman,“ Barnasöngbókin, 98.