Ritningar
Opinber yfirlýsing 1


Opinber yfirlýsing 1

Biblían og Mormónsbók kenna að einkvæni sé staðall Guðs varðandi hjónaband, nema að hann lýsi öðru yfir (sjá 2 Sam 12:7–8 og Jakob 2:27, 30). Fjölkvæni var innleitt meðal meðlima kirkjunnar eftir opinberun til Josephs Smith snemma á fimmta tug 19. aldar (sjá kafla 132). Á tímabilinu frá 1860 til níunda áratugar 19. aldar setti Bandaríkjastjórn lög, sem gerði þessa trúariðkun ólöglega. Þessi lög voru að lokum staðfest af hæstarétti Bandaríkjanna. Eftir að hafa meðtekið opinberun, gaf Wilford Woodruff forseti út eftirfarandi stefnuyfirlýsingu, sem var samþykkt af kirkjunni sem fullgild og bindandi 6. október 1890. Þetta leiddi til endaloka þess að fjölkvæni væri iðkað í kirkjunni.

Til þeirra, sem málið varðar.

Í blaðafregnum, sem sendar hafa verið frá Salt Lake City í pólitískum tilgangi og birst hafa víða, kemur fram að Utah-nefndin í nýlegri skýrslu sinni til innanríkisráðherra fullyrði, að enn sé stofnað til fjölkvænis og að stofnað hafi verið til fjörutíu eða fleiri slíkra hjónabanda í Utah síðan í júní s. 1. eða á síðast liðnu ári, einnig að í almennum ræðum hafi leiðtogar kirkjunnar kennt og hvatt til áframhaldandi iðkunar fjölkvænis —

Því lýsi ég, sem forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu því hér með allra hátíðlegast yfir, að þessar ásakanir eru rangar. Við hvorki kennum fjölkvæni né leyfum nokkrum að stofna til slíks. Og ég neita því að annaðhvort fjörutíu eða nokkur önnur tala fjölhjónavígslna hafi á þessum tíma verið framkvæmd í musterum okkar eða á nokkrum öðrum stað á þessu landsvæði.

Eitt tilfelli hefur verið tilkynnt, þar sem aðilar segja að hjónavígsla hafi farið fram í Endowment húsinu í Salt Lake City vorið 1889, en mér hefur ekki tekist að hafa upp á því hver framkvæmdi hana. Allt sem gerðist í þessu máli var án minnar vitundar. Vegna þessa meinta atviks var Endowment húsið tafarlaust rifið niður að minni skipan.

Þar sem þingið hefur sett lög, sem banna fjölkvæni, og æðstu dómstólar landsins hafa staðfest, að þau lög séu í samræmi við stjórnarskrána, lýsi ég yfir, að ásetningur minn er að hlýða þessum lögum og nota áhrif mín meðal meðlima kirkjunnar, sem ég er í forsæti fyrir, og fá þá til að gera hið sama.

Ekkert er það, sem ég eða samstarfsmenn mínir hafa kennt innan kirkjunnar á þessum tilgreinda tíma, sem hægt er með réttu að skilja sem uppörvun eða hvatningu til fjölkvænis. Og þegar einhver öldunga kirkjunnar hefur notað mál, sem mögulega mætti túlka sem slíka kenningu, hefur hann samstundis verið víttur. Og ég lýsi því nú opinberlega yfir, að ráðlegging mín til Síðari daga heilagra er að láta algjörlega vera að stofna til nokkurs þess hjúskapar, sem lög landsins banna.

Wilford Woodruff

Forseti Kirkju Jesú Krists
hinna Síðari daga heilögu.

Lorenzo Snow forseti lagði fram eftirfarandi:

„Ég lýsi yfir, að við, sem viðurkennum Wilford Woodruff sem forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og hinn eina mann á jörðu á þessum tíma, sem hefur lykla að helgiathöfnum innsiglunar, teljum hann hafa fullt vald vegna stöðu sinnar til að gefa út þá opinberu yfirlýsingu, sem lesin hefur verið í okkar áheyrn og dagsett er 24. september 1890. Og sem kirkja, samankomin á aðalráðstefnu, samþykkjum við yfirlýsingu hans varðandi fjölkvæni sem fullgilda og bindandi.“

Salt Lake City, Utah, 6. október 1890.

Útdrættir úr þremur ræðum
Wilfords Woodruff forseta
um yfirlýsinguna

Drottinn mun aldrei leyfa mér eða nokkrum öðrum manni í embætti forseta þessarar kirkju að leiða ykkur afvega. Það er ekki með í dæminu. Það er ekki í huga Guðs. Ef ég reyndi það mundi Drottinn víkja mér úr sessi og svo mun hann gera við hvern þann sem reynir að leiða mannanna börn frá orði Guðs og frá skyldu sinni. (Sextugasta og fyrsta haustráðstefna kirkjunnar, mánudaginn 6. október 1890, Salt Lake City, Utah. Skráð í Deseret Evening News, 11. október 1890, bls. 2.)

Einu gildir hver lifir eða hver deyr, eða hver er kallaður til að leiða þessa kirkju, þeir verða að leiða hana með innblæstri frá almáttugum Guði. Ef þeir gera það ekki þannig geta þeir alls ekki gert það … .

Ég hef fengið nokkrar opinberanir nýlega, mjög merkilegar að mínum dómi, og ég vil segja ykkur hvað Drottinn sagði við mig. Ég vil leiða huga ykkar að því sem sagt er í Yfirlýsingunni … .

Drottinn hefur beðið mig að spyrja Síðari daga heilaga einnar spurningar og hann sagði mér einnig að ef þeir vildu hlusta á það sem ég hefði að segja þeim og svara spurningunni sem fyrir þá er lögð, með anda og krafti Guðs, myndu þeir allir svara á sama hátt, álit þeirra á þessu máli yrði eins.

Spurningin er þessi: Hver er skynsamlegasta stefnan fyrir Síðari daga heilaga að taka - að gera tilraun til þess að halda áfram fjölkvæni, í andstöðu við þjóðarlög og í andstöðu við sextíu milljónir manna, sem kosta myndi upptöku á öllum musterunum og missi þeirra, og allar helgiathafnir þar myndu stöðvast, bæði fyrir lifendur og látna, og Æðsta forsætisráðið, hinir tólf og forsvarsmenn fjölskyldna kirkjunnar yrðu settir í fangelsi, upptaka yrði á persónulegum eigum fólksins (en allt myndi þetta stöðva þessa iðju); eða, eftir að hafa iðkað þessa reglu og þjáðst vegna þess, að hætta iðkun hennar og undirgangast lögin, þannig að spámennirnir, postularnir og feðurnir gætu verið heima og leiðbeint fólkinu og sinnt skyldustörfunum í kirkjunni. Musterin héldust þá í höndum hinna heilögu og þeir gætu sinnt helgiathöfnum fagnaðarerindisins, bæði fyrir lifendur og látna?

Drottinn sýndi mér í sýn og opinberun nákvæmlega hvað myndi gerast ef við hættum ekki þessari iðkun. Ef við hefðum ekki hætt hefðuð þið enga þörf haft fyrir … neinn mannanna í þessu musteri í Logan; því allar helgiathafnirnar hefðu stöðvast alls staðar í Síon. Glundroði myndi ríkja með allri Ísrael og margir karlmannanna hefðu verið fangelsaðir. Þessir erfiðleikar hefðu lagst á alla kirkjuna og við hefðum neyðst til þess að hætta þessari iðkun. Spurningin er hvort við hættum henni á þennan hátt, eins og Drottinn hefur sýnt okkur, og spámennirnir og postularnir yrðu frjálsir menn, og musterin í höndum fólksins, þannig að endurleysa megi hina dánu. Þetta fólk hefur þegar endurleyst stóran hóp úr varðhaldi andaheimsins, og á þá starfið að halda áfram eða stöðvast? Þetta er sú spurning sem ég legg fyrir Síðari daga heilaga. Þið verðið að dæma sjálf. Ég vil að þið svarið fyrir ykkur sjálf. Ég ætla ekki að svara henni, en ég segi ykkur að þetta er nákvæmlega sú staða sem við í heild hefðum verið í hefðum við ekki tekið þá stefnu sem við gerðum.

… Ég sá nákvæmlega hvað myndi gerast ef ekkert væri að gert. Þessi andi hefur hvílt á mér lengi. En ég vil segja þetta: Ég hefði látið öll musterin af hendi. Ég hefði farið í fangelsi sjálfur og látið alla aðra fara þangað, hefði Guð á himnum ekki boðið mér að gera það sem ég gerði. Og þegar stundin rann upp að mér var boðið að gera það, var það algerlega ljóst fyrir mér. Ég fór til Drottins og ég skrifaði það sem Drottinn sagði mér að skrifa … .

Ég skil þetta eftir hjá ykkur til þess að íhuga og athuga. Drottinn er að starfi með okkur. (Cache stikuráðstefnan, Logan, Utah, sunnudaginn 1. nóvember 1891. Skráð í Deseret Weekly, 14. nóvember 1891.)

Nú vil ég segja ykkur hvað mér var sýnt og hvað sonur Guðs gerði í því … . Sem Guð almáttugur lifir hefði allt þetta orðið, ef Yfirlýsingin hefði ekki verið gefin. Því taldi sonur Guðs í eigin tilgangi best að þetta yrði kynnt kirkjunni og heiminum. Drottinn hafði ákveðið stofnun Síonar. Hann hafði ákveðið að þetta musteri yrði fullbyggt. Hann hafði ákveðið að sáluhjálp lifenda og látinna yrði veitt í þessum fjalladölum. Og almáttugur Guð ákvað að djöfullinn fengi ekki hindrað það. Ef þið skiljið það, þá er það aðalatriðið. (Úr ræðu sem flutt var á sjöttu vígsluathöfn Salt Lake musterisins í apríl 1893. Vélritað eintak af vígsluathöfninni í skjalasafni Sögudeildar kirkjunnar, Salt Lake City, Utah.)