53. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Algernons Sidneys Gilbert í Kirtland, Ohio, 8. júní 1831. Að beiðni Sidneys Gilbert spurði spámaðurinn Drottin um starf bróður Gilberts og útnefningu í kirkjunni.
1–3, Köllun og kjör Sidneys Gilbert í kirkjunni er að vera vígður til öldungs; 4–7, Hann skal einnig þjóna sem erindreki biskups.
1 Sjá, ég segi þér, þjónn minn Sidney Gilbert, að ég hef heyrt bænir þínar og þú hefur ákallað mig, svo að Drottinn Guð þinn megi gjöra þér kunnugt um köllun þína og kjör í kirkju þeirri, sem ég, Drottinn, hef reist á þessum síðustu dögum.
2 Sjá, ég, Drottinn, sem krossfestur var vegna synda heimsins, gef þér þau boð, að þú skulir yfirgefa heiminn.
3 Tak á þig vígslu mína, já, til öldungs, til að prédika trú og iðrun og fyrirgefningu syndanna, í samræmi við orð mitt, og viðtöku hins heilaga anda með handayfirlagningu —
4 Og einnig til að vera erindreki þessarar kirkju á þeim stað, sem biskup tilgreinir, í samræmi við fyrirmæli, sem síðar verða gefin.
5 Og sannlega segi ég þér enn fremur að hefja ferð þína með þjónum mínum, Joseph Smith yngri og Sidney Rigdon.
6 Sjá, þetta eru fyrstu helgiathafnirnar, sem þú munt hljóta, en er tímar líða munt þú fá vitneskju um þær, sem eftir eru, í samræmi við störf þín í víngarði mínum.
7 Og enn fremur vil ég að þér vitið, að sá einn er hólpinn, sem stendur stöðugur allt til enda. Já, vissulega. Amen.