Ritningar
Kenning og sáttmálar 62


62. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith á bökkum Missourifljótsins í Chariton í Missouri, 13. ágúst 1831. Þennan dag mættu spámaðurinn og fylgdarlið hans, á leið sinni frá Independence til Kirtlands, nokkrum öldungum, sem voru á leið til lands Síonar, og eftir ánægjulegar kveðjur meðtók hann þessa opinberun.

1–3, Vitnisburðir eru skráðir á himni; 4–9, Öldungarnir skulu ferðast og prédika samkvæmt eigin dómgreind og leiðbeiningum andans.

1 Sjá, og hlýðið á, ó, þér öldungar kirkju minnar, segir Drottinn Guð yðar, já, Jesús Kristur, málsvari yðar, sem þekkir veikleika mannsins og veit hvernig skal liðsinna þeim, sem verða fyrir freistingum.

2 Og sannlega hvíla augu mín á þeim, sem enn hafa ekki komið til lands Síonar. Ætlunarverk yðar er þess vegna ekki enn fullnað.

3 Engu að síður eruð þér blessaðir, því að vitnisburður sá, sem þér hafið gefið, er skráður á himni fyrir englana að líta, og þeir gleðjast yfir yður og syndir yðar eru yður fyrirgefnar.

4 Haldið nú áfram ferð yðar. Safnist saman á landi Síonar og haldið samkomu, fagnið saman og færið hinum æðsta sakramenti.

5 Og síðan megið þér snúa aftur og bera vitni, já, allir saman eða tveir og tveir, eins og yður hentar, það skiptir mig engu. Verið aðeins trúir og boðið gleðitíðindin íbúum jarðar eða meðal safnaða hinna ranglátu.

6 Sjá, ég, Drottinn, hef leitt yður saman, svo að fyrirheitið yrði uppfyllt, að hinir staðföstu á meðal yðar skyldu varðveittir og fagni saman í landi Missouri. Ég, Drottinn, gef hinum staðföstu fyrirheit og get ekki logið.

7 Hvort heldur einhver yðar æskir að ferðast á hestum eða múlösnum eða í vögnum, sjá, þá er ég, Drottinn, fús til að veita honum þá blessun, ef hann meðtekur hana frá Drottni með þakklátu hjarta í öllu.

8 Þetta er undir yður komið að gjöra, samkvæmt eigin dómgreind og leiðbeiningum andans.

9 Sjá, ríkið er yðar. Og sjá og tak eftir, ég er stöðugt með hinum staðföstu. Já, vissulega. Amen.