Ritningar
Kenning og sáttmálar 96


96. Kafli

Opinberun er sýnir fyrirkomulag borgar eða stiku Síonar í Kirtland, gefin spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 4. júní 1833. Gefin hinum heilögu í Kirtland til eftirbreytni. Tilefnið var ráðstefna háprestanna og var aðalefnið ráðstöfun ákveðins landsvæðis, er kirkjan átti í grennd við Kirtland, þekkt sem franska býlið. Þar sem ekki náðist einhugur á ráðstefnunni um hver skyldi vera ábyrgur fyrir býlinu, voru allir sammála um að leita til Drottins varðandi málið.

1, Gera skal Kirtlandstiku Síonar öfluga; 2–5, Biskup skal úthluta arfshlutum til hinna heilögu; 6–9, John Johnson skal vera meðlimur sameiningarreglunnar.

1 Sjá, ég segi yður, hér er viska, sem segir yður hvernig fara skuli með þetta mál, því að mér þykir æskilegt að þessi stika, sem ég hef sett til styrktar Síon, verði gjörð öflug.

2 Lát því þjón minn Newel K. Whitney annast staðinn, sem tilnefndur er meðal yðar og ég hef ætlað undir byggingu míns heilaga húss.

3 Og enn, lát skipta honum í lóðir af skynsemi og eins og ráð yðar ákveður, til heilla fyrir þá, sem leita arfshluta.

4 Gætið þess því að gefa gaum að þessu máli og þeim hluta, sem nauðsynlegur og gagnlegur er reglu minni við að flytja mannanna börnum orð mitt.

5 Því að sjá, sannlega segi ég yður: Það er mér æskilegast, að orð mitt breiðist út til mannanna barna, til að milda hjörtu mannanna barna, yður til góðs. Já, vissulega. Amen.

6 Og sannlega segi ég yður enn: Það er viska mín og mér æskilegt, að þjónn minn John Johnson, en fórn hans hef ég tekið á móti, og bænir hans hef ég heyrt, og honum gef ég fyrirheit um eilíft líf, svo fremi að hann haldi boðorð mín héðan í frá —

7 Því að hann er niðji Jósefs og hluttakandi þeirra blessana fyrirheitsins, sem feðrum hans var gefið —

8 Sannlega segi ég yður, mér þykir æskilegt, að hann verði meðlimur reglunnar, svo að hann geti aðstoðað við útbreiðslu orðs míns til mannanna barna.

9 Fyrir því skuluð þér vígja honum þessa blessun og hann skal af kostgæfni leitast við að greiða þau gjöld, sem hvíla á því húsi, sem tilnefnt er á meðal yðar, svo að hann geti dvalið þar. Já, vissulega. Amen.