Ritningar
Kenning og sáttmálar 5


5. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Harmony, Pennsylvaníu, í mars 1829, samkvæmt beiðni Martins Harris.

1–10, Þessi kynslóð mun fá orð Drottins með Joseph Smith; 11–18, Þrjú vitni munu bera vitni um Mormónsbók; 19–20, Orð Drottins mun sannast sem fyrr; 21–35, Martin Harris getur iðrast og orðið eitt vitnanna.

1 Sjá, ég segi þér, að þar sem þjónn minn Martin Harris hefur þráð að ég beri vitni um að þú, þjónn minn, Joseph Smith yngri, hafir töflur þær, sem þú hefur vitnað um og sagst hafa fengið frá mér —

2 Og sjá nú, þú skalt tjá honum þetta — sá, sem talaði til þín, sagði við þig: Ég, Drottinn, er Guð og hef fengið þér, þjóni mínum Joseph Smith yngri, þessa hluti og hef boðið þér að standa sem vitni um þá —

3 Og ég hef látið þig gjöra sáttmála við mig um að sýna þær engum öðrum en þeim, sem ég býð þér. Og þú hefur ekkert vald yfir þeim, nema ég veiti þér það.

4 Og þú hefur gjöf til að þýða töflurnar og það er fyrsta gjöfin, sem ég veitti þér. Og ég hef boðið þér að krefjast engrar annarrar gjafar fyrr en tilgangi mínum er náð með þessu, því að ég mun enga aðra gjöf veita þér fyrr en honum er náð.

5 Sannlega segi ég þér, að vei sé íbúum jarðar, ef þeir vilja ekki hlýða orðum mínum —

6 Því að síðar skalt þú vígður verða og ganga fram og flytja mannanna börnum orð mín.

7 Sjá, vilji þeir ekki trúa orðum mínum, munu þeir ekki trúa þér, þjónn minn Joseph, jafnvel þótt mögulegt væri að þú sýndir þeim allt það, sem ég hef falið þér.

8 Ó, þessi vantrúa og þrjóska kynslóð! Reiði mín er tendruð gegn henni.

9 Sjá, sannlega segi ég þér, ég hef geymt það, sem ég hef treyst þér fyrir, þjónn minn Joseph, í viturlegum tilgangi mínum, og það mun kunngjört komandi kynslóðum —

10 En með þér mun þessi kynslóð fá orð mitt —

11 Og við vitnisburð þinn mun bætast vitnisburður þriggja þjóna minna, sem ég mun kalla og vígja, og þeim mun ég sýna þessa hluti, og þeir skulu ganga fram með orð mín, sem gefin eru með þér.

12 Já, þeir skulu vita með vissu, að þetta er sannleikur, því að frá himni mun ég kunngjöra þeim það.

13 Ég mun gefa þeim kraft til að sjá og skoða þetta eins og það er —

14 Og engum öðrum af þessari kynslóð mun ég gefa kraft til að hljóta þennan sama vitnisburð, við upphaf uppbyggingar og tilkomu kirkju minnar úr auðninni — sem er heið sem máninn og björt sem sólin og ógurleg sem her undir merkjum.

15 Og vitnisburð þriggja vitna um orð mitt mun ég fram senda.

16 Og sjá, ég mun vitja allra þeirra, sem orðum mínum trúa, með opinberun anda míns, og þeir skulu fæðast af mér, já, af vatni og anda —

17 Og þú verður að bíða enn um stund, því að þú ert enn eigi vígður —

18 Og vitnisburður þeirra skal einnig fram ganga til fordæmingar þessarar kynslóðar, ef hún herðir hjörtu sín gegn þeim —

19 Og ef þeir iðrast ekki, mun eyðandi plága herja á íbúa jarðar og verður áfram úthellt öðru hverju, þar til jörðin er auð og íbúum hennar eytt og gjörsamlega tortímt við ljómann af komu minni.

20 Sjá, ég segi þér þetta, já, eins og ég sagði einnig lýðnum frá tortímingu Jerúsalem. Og orð mitt mun sannast í þetta sinn eins og það hefur hingað til sannast.

21 Og nú býð ég þér, þjónn minn Joseph, að iðrast og ganga grandvar frammi fyrir mér og láta eigi oftar undan fortölum manna —

22 Og hald staðfastlega þau boð, sem ég hef boðið þér. Og gjörir þú það, sjá, þá mun ég gefa þér eilíft líf, jafnvel þótt þú verðir líflátinn.

23 Og enn tala ég til þín, þjónn minn Joseph, um mann þann, sem þráir vitnisburð —

24 Sjá, ég segi við hann, hann upphefur sjálfan sig og auðmýkir sig ekki nægilega fyrir mér. En vilji hann beygja sig fyrir mér og auðmýkja sig í máttugri bæn og trú og af einlægu hjarta, þá mun ég leyfa honum að líta það, sem hann þráir að sjá.

25 Og þá mun hann segja við þessa kynslóð: Sjá, ég hef séð þá hluti, sem Drottinn hefur sýnt Joseph Smith yngri, og ég veit með vissu, að þeir eru sannir, því að ég hef séð þá, því að fyrir kraft Guðs en ekki manna hafa mér verið sýndir þeir.

26 Og ég, Drottinn, býð honum, þjóni mínum Martin Harris, að hann skuli ekkert fleira um það segja annað en þetta: Ég hef séð þá, fyrir kraft Guðs hafa mér verið sýndir þeir. Og þetta eru þau orð, sem hann skal segja.

27 Og afneiti hann þessu, mun hann rjúfa sáttmálann, sem hann hefur áður gjört við mig, og sjá, hann er fordæmdur.

28 Og ef hann auðmýkir sig ekki og viðurkennir fyrir mér það sem hann hefur gjört og rangt er, og gjörir sáttmála við mig um að halda boðorð mín og iðka trú á mig, sjá, þá segi ég honum, að hann muni ekkert sjá, því að ég mun ekki leyfa honum að líta það, sem ég hef talað um.

29 Og fari svo, býð ég þér, þjónn minn Joseph, að segja honum, að hann skuli ekkert frekar aðhafast né íþyngja mér oftar varðandi þetta mál.

30 Og fari svo, sjá, þá segi ég þér Joseph, að þegar þú hefur þýtt nokkrar blaðsíður til viðbótar, skalt þú hætta um tíma, allt þar til ég gef þér fyrirmæli á ný. Þá mátt þú taka aftur til við að þýða.

31 Og ef þú gjörir þetta ekki, sjá, þá skalt þú enga gjöf eiga lengur og ég mun taka aftur það, sem ég hef treyst þér fyrir.

32 Og þar sem ég sé nú fyrir, að setið er um að tortíma þér, já, ég sé fyrir, að ef þjónn minn Martin Harris auðmýkir sig ekki og öðlast ekki vitnisburð frá mér, þá mun hann falla í lögmálsbrot —

33 Og margir eru þeir, sem sitja um að tortíma þér af yfirborði jarðar. Og af þeim sökum hef ég gefið þér þessi boð, svo að dagar þínir verði framlengdir.

34 Já, vegna þessa hef ég sagt: Stansa og ver kyrr þar til ég býð þér, og ég mun sjá til þess að þú fáir lokið því, sem ég hef boðið þér að gjöra.

35 Og sért þú trúr við að halda boðorð mín, mun þér lyft upp á efsta degi. Amen.