„Ábendingar til að hafa hugfastar: Sáttmálinn,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„Ábendingar til að hafa hugfastar: Sáttmálinn,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
Ábendingar til að hafa hugfastar
Sáttmálinn
Orðið sáttmáli kemur oft fyrir í Gamla testamentinu. Á okkar tíma lítum við á sáttmála sem helg loforð við Guð, en í hinum forna heimi voru sáttmálar líka mikilvægur hluti af samskiptum fólks hvert við annað. Fólkið þurfti að geta treyst hvert öðru og til að tryggja eigið öryggi og afkomu, var sáttmálsgjörð leið þess til að gera það.
Þegar Guð talaði til Nóa, Abrahams eða Móse um sáttmála, þá var hann að bjóða þeim í traustverðugt samband við sig. Eitt af best þekktu dæmunum um sáttmála í Gamla testamentinu, er sáttmálinn sem Guð gerði við Abraham og Söru – sem síðan var endurnýjaður við afkomendur þeirra, Ísak og Jakob (sem var einnig kallaður Ísrael). Við nefnum þetta oftast sáttmála Abrahams, en þetta þekktist einfaldlega sem „sáttmálinn“ í Gamla testamentinu. Þið munið sjá að Gamla testamentið er í grunninn saga þjóðar, sem leit á sjálfa sig sem erfingja þessa sáttmála – sáttmálsþjóðina.
Sáttmáli Abrahams er enn mikilvægur á okkar tíma, sérstaklega Síðari daga heilögum. Hvers vegna? Vegna þess að við erum líka sáttmálsþjóð, hvort sem við erum beinir afkomendur Abrahams, Ísaks eða Jakobs eða ekki (sjá Galatabréfið 3:27–29). Það er því mikilvægt að skilja sáttmála Abrahams og hvernig hann á við okkur núna.
Hvað er sáttmáli Abrahams?
Abraham þráði að „verða betri fylgjandi réttlætisins“ (Abraham 1:2) og því bauð Guð honum að ganga inn í sáttmálssamband. Abraham var ekki sá fyrsti til að hafa þessa þrá og hann var ekki sá fyrsti til að taka á móti sáttmála. Hann „leitaði blessana feðranna“ (Abraham 1:2) – blessana sem voru boðnar Adam og Evu með sáttmála og síðar þeim sem leituðu blessananna af kostgæfni.
Sáttmáli Guðs við Abraham gaf fyrirheit um dásamlegar blessanir: Erfðaland, fjölda afkomenda, aðgang að helgiathöfnum prestdæmisins og nafni sem skyldi vera heiðrað um komandi kynslóðir. Áhersla sáttmálans var ekki aðeins á blessanirnar sem Abraham og fjölskylda hans myndi meðtaka, heldur líka á blessunina sem þau yrðu fyrir öll börn Guðs. Guð sagði: „Blessun skalt þú vera“ og „allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta“ (1. Mósebók 12:2–3).
Gaf sáttmálinn Abraham, Söru og niðjum þeirra stöðu forréttinda meðal Guðs barna? Aðeins á þann hátt að það eru forréttindi að vera öðrum blessun. Fjölskylda Abrahams skyldi „færa … öllum þjóðum þessa helgu þjónustu og þetta prestdæmi,“ miðla „blessunum fagnaðarerindisins, sem eru blessanir sáluhjálpar, já, eilífs lífs“ (Abraham 2:9, 11).
Þessi sáttmáli var blessunin sem Abraham þráði. Eftir að hafa meðtekið hann, sagði Abraham í hjarta sér: „Þjónn þinn hefur leitað þín einlæglega; nú hef ég fundið þig“ (Abraham 2:12).
Þetta var fyrir þúsundum ára, en sáttmálinn hefur verið endurreistur á okkar tíma (sjá 1. Nefí 22:8–12). Hann uppfyllist í lífi fólks Guðs um þessar mundir. Raunar byggir uppfyllingin upp meiri skriðþunga á síðari dögum, þegar verki Guðs miðar áfram og blessar fjölskyldur um heim allan. Hver sá sem vil verða betri fylgjandi réttlætisins eins og Abraham, hver sá sem leitar Drottins einlæglega, getur orðið hluti þessa sáttmála.
Hver er merking sáttmála Abrahams fyrir mig?
Þú ert barn sáttmálans. Þú gerðir sáttmála við Guð þegar þú skírðist. Þú endurnýjar þann sáttmála í hvert sinn sem þú meðtekur sakramentið. Þú gerir líka helga sáttmála í musterinu. Þessir sáttmálar til samans gera þig að þátttakanda í sáttmála Abrahams, en fyllingu hans er að finna í helgiathöfnum musterisins. Eins og Russell M. Nelson forseti kenndi: „Í musterinu getum við að endingu orðið samarfar blessana eilífrar fjölskyldu, eins og eitt sinn var heitið Abraham, Ísak, Jakobi og afkomendum þeirra.“1
Með þessum sáttmálum og helgiathöfnum verðum við þjóð Guðs (sjá 2. Mósebók 6:7; 5. Mósebók 7:6; 26:18; Esekíel 11:20). Við verðum frábrugðin heiminum umhverfis okkur. Sáttmálar okkar gera okkur kleift að vera sannir, skuldbundnir lærisveinar Jesú Krists. „Sáttmálar okkar,“ útskýrði Nelson forseti, „binda okkur við hann og veita okkur guðlegt vald.“2 Þegar Guð blessar þjóð sína með mætti sínum, er það með því boði og væntingu að hún muni blessa aðra – að hún „[verði] … blessun“ fyrir „allar ættkvíslir jarðar“ (Abraham 2:9, 11).
Þetta er hinn dýrmæti skilningur sem okkur er veittur, vegna endurreisnar sáttmála Abrahams með spámanninum Joseph Smith. Þegar þið lesið um sáttmála í Gamla testamentinu, hugsið þá ekki aðeins til sambands Guðs við Abraham, Ísak og Jakob. Hugsið líka um samband hans við ykkur. Þegar þið lesið um fyrirheit um ótal afkomendur (sjá 1. Mósebók 28:14), hugsið þá ekki aðeins um milljónirnar sem kalla Abraham föður sinn. Hugsið líka um loforð Guðs til ykkar um eilífa fjölskyldu og eilífa aukningu (sjá Kenningu og sáttmála 131:1–4; 132:20–24). Þegar þið lesið fyrirheit um erfðaland, hugsið þá ekki aðeins um landið sem Abraham var lofað. Hugsið líka um himnesk örlög jarðarinnar sjálfrar – erfðalands sem lofað eru hinum „[hógværu],“ sem „vona á Drottin“ (Matteus 5:5; Sálmarnir 37:9, 11; sjá einnig Kenningu og sáttmála 88:17–20). Þegar þið svo lesið um það loforð að sáttmáli Guðs muni blessa „allar ættkvíslir jarðar“ (Abraham 2:11), hugsið þá ekki aðeins um þjónustu Abrahams eða spámannanna sem á eftir honum komu. Hugsið líka um það sem þið getið gert – sem sáttmálsfylgjendur Jesú Krists – til að vera fjölskyldum umhverfis ykkur blessun.