Gamla testamentið 2022
30. maí – 5. júní. Dómarabókin 2–4; 6–8; 13–16: „Drottinn vakti upp hjálparmann“


„30. maí – 5. júní. Dómarabókin 2–4; 6–8; 13–16: ‚Drottinn vakti upp hjálparmann,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„30. maí – 5. júní. Dómarabókin 2–4; 6–8; 13–16,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Debóra með hersveit

Myndskreyting af Debóru leiða heri Ísraels, © Providence Collection/með leyfi goodsalt.com

30. maí – 5. júní

Dómarabókin 2–4; 6–8; 13–16

„Drottinn vakti upp hjálparmann“

Ritningarnar vitna um Jesú Krist. Íhugið hvernig frássagnirnar sem þið lesið í Dómarabókinni hjálpa ykkur að komast nær honum.

Skráið hughrif ykkar

Við vitum öll hvernig það er að gera mistök, líða illa vegna þeirra, iðrast síðan og einsetja sér að breyta háttum okkar. Stundum gleymum við þó fyrri heitstrengingum og þegar freisting herjar á, gætum við gert sömu mistökin aftur. Þetta atferli er dæmigert fyrir upplifanir Ísraelsmanna, sem sagt er frá í Dómarabókinni. Ísraelsmenn urðu fyrir áhrifum af trú og tilbeiðslu Kanaaníta – sem þeim var ætlað að hrekja út úr landinu – og brutu sáttmála sína við Drottin og urðu fráhverfir tilbeiðslu á hann. Af því leiddi að þeir nutu ekki verndar hans og féllu í ánauð. Í hvert sinn sem það gerðist gaf Drottinn þeim þó kost á að iðrast og reisti upp hjálparmann, herforingja sem nefndur var „Dómari.“ Dómararnir í Dómarabókinni voru ekki allir réttlátir, en sumir þeirra sýndu mikla trú til að bjarga Ísraelsmönnum og endurreistu þá til sáttmálssambands við Drottin. Þessar frásagnir minna okkur á að hvað sem hefur leitt okkur frá Jesú Kristi, þá er hann frelsari Ísraelsmanna og ávallt fús til að bjarga okkur og taka okkur aftur í sátt.

Til að fá yfirlit Dómarabókarinnar, sjá þá „Dómarabókin“ í Leiðarvísi að ritningunum.

táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Dómarabókin 2:1–19; 4:1–16

Drottinn býður björgun þegar ég villist frá.

Dómarabókin getur verið okkur til áminningar: Þótt við höfum upplifað mátt Drottins í lífi okkar, þá er alltaf mögulegt að falla frá. Bókin getur líka verið þeim hvatning sem falla frá, því Drottinn hefur fyrirbúið leið til baka. Þegar þið t.d. lesið Dómarabókina 2:1–19, gætið þá að breytni sem leiddi Ísraelsmenn í burtu frá Drottni og hvernig Drottinn kom þeim til bjargar. Hvað kenna þessi vers ykkur um Drottin? Hvað getið þið gert til að vera stöðugri í trú ykkar á hann?

Í Dómarabókinni munið þið finna endurtekið mynstur uppreisnar, sorgar og björgunar (sjá einkum kapítula 3, 4, 6 og 13). Íhugið, við lestur Dómarabókarinnar, hvað dómararnir gerðu til að bjarga Ísraelsmönnum og hvernig frelsarinn liðsinnir okkur þegar við þurfum á björgun að halda.

Eitt athyglisvert dæmi um einhvern sem hjálpaði við björgun Ísraelsmanna, er Debóra. Lesið um hana í Dómarabókinni 4:1–16 og gætið að áhrifunum sem hún hafði á fólk umhverfis. Hvaða orð eða verk Debóru sýna að hún trúði á Drottin? Hvað haldið þið að Debóra hafi meint þegar hún sagði í versi 14: „Vissulega fer Drottinn fyrir þér.”

Sjá einnig Alma 7:13; Kenning og sáttmálar 84:87–88.

Dómarabókin 2:13

Hverjir voru Baal og Astarte?

Baal var vindguð Kanaaníta og Astarte var frjósemisgyðja Kanaaníta. Tilbeiðsla þessara tveggja guða sýndi hve mikilvæg frjósemi landsins og fólksins var í augum Kanaaníta. Sá háttur sem fólkið hafði á við tilbeiðslu þessara og annarra falsguða – sem stundum fól í sér kynferðislegt siðleysi og barnafórnir – var afar misbjóðandi Drottni.

Dómarabókin 6–8

Drottinn getur gert kraftaverk ef ég reiði mig á hætti hans.

Við verðum að reiða okkur á hætti Drottins, til að kraftaverk hans gerist í lífi okkar, jafnvel þótt hættir hans virðist óvenjulegir. Frásögnin um Gídeon í Dómarabókinni 6–8 er gott dæmi um þetta. Hvaða óvenjulega kraftaverk gerði Drottinn, þegar hersveit Gídeons sigraði hersveit Midíaníta? Hvað finnst ykkur Drottinn vera að reyna að kenna ykkur? Hvernig hafið þið séð Drottin gera verk sitt á þann hátt sem virðist óvenjulegt?

Sjá einnig Russell M. Nelson, „With God Nothing Shall Be Impossible,“ Ensign, maí 1988, 33–35.

Dómarabókin 13–16

Trúfesti við sáttmála mína við Guð veitir mér styrk.

Samson missti bæði líkamlegan og andlegan styrk, því hann braut sáttmála sína við Guð, einnig þá sem sérstaklega áttu við um nasíreana (til að lesa meira um nasíreana, sjá þá 4. Mósebók 6:1–6; Dómarabókin 13:7). Þegar þið lesið frásögnina um Samson í Dómarabókinni 13–16, íhugið þá hvern sáttmála sem þið þið hafið gert. Hvernig hafið þið verið blessuð með styrk af því að halda sáttmála ykkar? Hvað lærið þið af frásögn Samsons sem hvetur ykkur til að vera trúföst sáttmálum ykkar við Guð?

Samson ýtir súlum

Samson ýtir niður súlum, eftir James Tissot og fleiri

táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Dómarabókin 2:10.Næsta kynslóð eftir fráfall Jósúa „þekkti [ekki] Drottin.“ Ræðið við fjölskyldu ykkar um hvernig þau þekkja Drottin og „þau verk er hann [hefur] unnið fyrir [þau]. Hvernig tryggið þið að þessi þekking viðhaldist meðal kynslóða framtíðar?

Dómarabókin 3:7–10.Þessi vers sýna mynstur sem kemur víða fyrir í Dómarabókinni. Þegar fjölskyldumeðlimir ykkar lesa þessi vers, gætu þeir auðkennt það sem Ísraelsmenn gerðu til að fjarlægjast Drottin og hvað Drottinn gerði þeim til bjargar. Hvað gæti fengið okkur til að gleyma Drottni? Hvernig getur hann komið okkur til bjargar? Hvernig getum við verið staðfastari í hollustu við hann?

Dómarabókin 6:13–16, 25–30.Gídeon sýndi mikið hugrekki við að hlýða Drottni, jafnvel þótt breytni hans nyti ekki vinsælda. Hvað hefur Drottinn beðið okkur að gera sem aðrir gætu verið ósammála? Hvernig geta orð Gídeons í versum 13–16 innblásið okkur til að gera hið rétta?

Dómarabókin 7.Gætuð þið farið í hlutverkaleik eða gert eitthvað annað verkefni til að hjálpa fjölskyldu ykkar að læra af reynslu hersveitar Gídeons sem lýst er í þessum kapítula? Á hvaða hátt geta orð Drottins í þessum kapítula (sjá t.d. vers 2 og 15) átt við um líf okkar?

Dómarabókin 13:5.Sáttmálar Samsons við Drottin veittu honum styrk, á sama hátt og sáttmálar okkar veita okkur styrk. Fjölskylda ykkar gæti haft gaman af því að gera nokkrar líkamsæfingar og rætt hvernig þær geta aukið styrk okkar. Hvað getum við gert til að verða andlega sterk? Fjölskyldumeðlimir gætu lesið Mósía 18:8–10; Kenningu og sáttmála 20:77, 79 til að fá hugmyndir. Hvernig veitir það okkur andlegan styrk að halda sáttmála okkar?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Nú Ísraels lausnari,“ Sálmar, nr. 26.

Bæta persónulegt nám

Breytið samkvæmt því sem þið lærið. Spyrjið ykkur sjálf í náminu hvernig þið getið tileinkað ykkur það sem þið lærið og einsetjið ykkur síðan að gera það. Látið andann leiða ykkur. (Sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 35.)

Gídeon og hersveit

Hersveit Gídeons, eftir Daniel A. Lewis