„18.–24. júlí. Esrabók 1; 3–7; Nehemíabók 2; 3–6; 8: ‚Ég er að vinna að miklu verki,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„18.–24. júlí. Esrabók 1; 3–7; Nehemíabók 2; 3–6; 8,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
18.–24. júlí
Esrabók 1; 3–7; Nehemíabók 2; 3–6; 8
„Ég er að vinna að miklu verki“
Ezra Taft Benson forseti kenndi: „Orð Guðs … býr yfir mætti til að efla hina heilögu og væða þá andanum, svo þeir fái staðist hið illa, haldið sér fast að hinu góða og fundið gleði í þessu lífi“ (Teachings of Presidents of the Church: Ezra Taft Benson [2014], 118).
Skráið hughrif ykkar
Gyðingum hafði verið haldið í ánauð í Babýlon í um 70 ár. Þeir höfðu glatað Jerúsalem og musterinu og margir höfðu gleymt skuldbindingum sínum við lögmál Guðs. Guð hafði þó ekki gleymt þeim. Hann hafði reyndar lýst yfir með spámanni sínum: „Ég [mun] vitja yðar. Þá mun ég standa við heit mitt og flytja yður aftur til þessa staðar“ (Jeremía 29:10). Drottinn fór að spádómi sínum og gerði Gyðingum kleift að snúa aftur og reisti upp þjóna sem unnu að „miklu verki“ fyrir fólk hans (Nehemíabók 6:3). Meðal þessara þjóna var landstjóri að nafni Serúbabel, sem hafði umsjón með byggingu húss Drottins; Esra, prestur og ritari sem sneri hjörtum fólksins aftur að lögmáli Drottins; og Nehemía, síðar landstjóri í Júda, sem leiddi verkið við endurreisn varnarmúrsins umhverfis Jerúsalem. Þeir mættu auðvitað andstöðu en fengu einnig liðsinni úr óvæntum áttum. Reynsla þeirra getur upplýst og hvatt okkur, því við erum líka að vinna mikið verk. Líkt og verk þeirra, þá snýst verk okkar mikið um hús Drottins, lögmál Drottins og þá andlegu vernd sem við finnum í honum.
Til að fá yfirlit Esrabókar og Nehemíabókar, sjá þá „Esra“ og „Nehemía“ í Leiðarvísi að ritningunum.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Drottinn hvetur fólk til að ná fram tilgangi hans.
Eftir að Persía hafði lagt undir sig Babýlon, var Kýrus, Persakonungur, innblásinn af Drottni til að senda hóp Gyðinga til Jerúsalem til að endurreisa musterið. Þegar þið lesið Esrabók 1, gætið þá að því hvað Kýrus var fús til að gera til að styðja Gyðinga í þessu mikilvæga starfi. Hvernig sjáið þið Drottin vinna í gegnum karla og konur umhverfis, þar á meðal þau sem ekki eru meðlimir í kirkju hans? Hvað kennir þetta ykkur um Drottin og verk hans?
Sjá einnig Jesaja 44:24–28.
Musteri geta fært mér gleði.
Þegar Babýloníumenn réðust inn í Jerúsalem rændu þeir musterið og brenndu það til grunna (sjá 2. Konungabók 25:1–10; 2. Kroníkubók 36:17–19). Hvernig haldið þið að ykkur hefði liðið ef þið hefðuð verið meðal Gyðinganna sem urðu vitni að þessu? (sjá Sálmarnir 137). Gætið að því hvernig Gyðingunum leið, áratugum síðar, þegar þeir fengu að snúa aftur og endurbyggja musterið (sjá Esrabók 3:8–13; 6:16–22). Íhugið tilfinningar ykkar varðandi musterið. Af hverju eru musteri gleðigjafar? Hvernig getið þið sýnt Drottni þakklæti fyrir musteri?
Til að sjá dæmi á okkar tíma um að gleðjast yfir byggingu musteris, sjá þá myndböndin „Practice, Celebration, Dedication: Temple Blessings in El Salvador“ og „The Laie Hawaii Temple Youth Cultural Celebration“ (ChurchofJesusChrist.org).
Esrabók 4–6; Nehemíabók 2; 3–4; 6
Ég get hjálpað við framvindu verks Guðs, þrátt fyrir andstöðu.
Verk Drottins er sjaldan án andstöðu og vissulega átti það við um verkið sem Serúbbabel og Nehemía leiddu. Í báðum tilvikum voru „andstæðingar Júda“ (Esrabók 4:1) Samverjar – niðjar Ísraels sem höfðu blandast þjóðunum. Að lesa um andstöðuna sem þeir urðu fyrir við að byggja musterið (sjá Esrabók 4–6) gæti vakið ykkur til íhugunar um andstöðuna við verk Guðs á okkar tíma og hvernig þið gætuð brugðist við þegar andstaða kemur upp.
Að lesa um verk Nehemía við að endurbæta múra Jerúsalem (sjá Nehemíabók 2; 3–4; 6), gæti vakið ykkur til íhugunar um það verk sem Guð vill að þið gerið. Hvað lærið þið af fordæmi Nehemía?
Sjá einnig Dieter F. Uchtdorf, „Við höfum mikið starf með höndum og getum því ekki komist ofan eftir,“ aðalráðstefna, apríl 2009.
Ég hlýt blessanir þegar ég les ritningarnar.
Íbúar Jerúsalem háðu andlega baráttu, jafnvel eftir endurbyggingu musterisins, að hluta vegna þess að þeir höfðu um kynslóðir haft takmarkaðan aðgang að bókinni „sem lögmál Móse var skráð á“ (Nehemíabók 8:1). Ritarinn Esra fékk leyfi frá konungi Persíu til að fara til Jerúsalem, þar sem hann „kom … með lögmálið fram fyrir söfnuðinn“ (Nehemíabók 8:2). Hvernig getið þið fylgt fordæmi Esra eins og því er lýst í Esrabók 7:10? Hvaða hugsanir vakna um mátt orða Guðs í ykkar lífi þegar þið lesið Nehemíabók 8, sem er frásögn um Esra að lesa lögmálið fyrir fólkið?
Sjá einnig Teachings: Ezra Taft Benson, 115–24.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Esrabók 3:8–13; 6:16–22.Hvernig sýndu Gyðingar gleði yfir endurbyggingu og síðan vígslu musterisins? Hvað gerum við til að sýna gleði okkar yfir musterinu? Ef til vill gæti fjölskylda ykkar skoðað myndir af musteri og rætt hvernig þau færa ykkur gleði (sjá temples.ChurchofJesusChrist.org).
-
Esrabók 7:6, 9–10, 27–28.Nokkrum sinnum í þessum versum ritar Esra að hönd Drottins hafi verið yfir honum á ferð hans til Jerúsalem. Hver gæti merking þessara orða verið? Hvernig höfum við fundið hönd Drottins yfir okkur? Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir miðlað dæmum úr eigin lífi?
-
Nehemíabók 2; 3–4; 6.Frásögnin um Nehemía getur innblásið fjölskyldumeðlimi er þeir mæta andstöðu við að vinna að „miklu verki“ (Nehemía 6:3). Fjölskyldumeðlimir gætu byggt múr úr hlutum sem þið hafið á heimilinu er þið lesið saman lykilvers (t.d. eins og Nehemíabók 2:17–20; 4:7–12; 6:1–3). Hvað lærum við af Nehemía um að takast á við andstöðu? Hvaða mikla verki vill Drottinn að við vinnum að? Hvernig hefur Drottinn styrkt okkur til að sigrast á andstöðu við þetta verk?
-
Nehemíabók 8:1–12.Í Nehemíabók 8 les Esra lögmálsbók Móse fyrir fólk sem var óðfúst að heyra orð Guðs. Lestur versa 1–12 gæti aukið fjölskyldu ykkar þakklæti fyrir orð Guðs. Hvað fannst fólkinu um lögmál Guðs? Hvernig getum við hjálpað hvert öðru að „[skilja] það sem lesið var“? (vers 8).
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Musterið,“ Barnasöngbókin, 99.