27. júní – 3. júlí. 1. Konungabók 17–19: ‚Ef Drottinn er Guð, fylgið honum,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„27. júní – 3. júlí. 1. Konungabók 17–19,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
27. júní – 3. júlí
1. Konungabók 17–19
„Ef Drottinn er Guð, fylgið honum“
Þegar þið lesið ritningarnar, þá iðkið þið trú, sem býr hjarta ykkar og huga undir að hlýða á hina lágu, hljóðlátu rödd andans (sjá 1. Konungabók 19:12).
Skráið hughrif ykkar
Ísraelsþjóð var klofin og tvístruð. Einingin og velsældin sem náðst höfðu undir stjórn Davíðs og Salómons var löngu fyrir bí og sáttmálasamband þjóðarinnar við Drottin var mörgum fjarlæg minning. Konungsríkið Ísrael var tvískipt, tíu ættkvíslir mynduðu norðurríkið Ísrael og tvær ættkvíslir mynduðu suðurríkið Júda. Bæði konungsríkin voru andlega óstöðug, leidd af konungum sem brutu sáttmála sína við Drottin og höfðu þau áhrif að aðrir gerðu það líka (sjá 1. Konungabók 11–16). Fráhvarfið var einkar mikið í norðurríkinu, þar sem Akab konungur hvatti Ísrael til að tilbiðja falsguðinn Baal.
Það var í þessu umhverfi sem spámaðurinn Elía var kallaður til að prédika. Frásögnin af þjónustu hans skýrir að persónuleg trú á Drottin fær viðhaldist meðal réttlátra, jafnvel í ranglátu umhverfi. Stundum bregst Drottinn við slíkri trú með áhrifamiklum, opinberum kraftaverkum, eins og með eldi sem fellur af himni. Hann vinnur þó líka hljóðlát, persónuleg kraftaverk, líkt og að uppfylla persónulegar þarfir dyggrar ekkju og sonar hennar. Oftast eru kraftaverk hans svo persónuleg að þau verða einungis kunnug þeim sem þau upplifir – t.d. er Drottinn opinberar sig og vilja sinn með „[rödd] af þýðum blæ“ (1. Konungabók 19:12).
Til frekari upplýsingar um Elía, sjá þá „Elía“ í Leiðarvísi að ritningunum.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Boð um fórn er tækifæri til að iðka trú mína.
Í fyrstu gæti virst erfitt að skilja hvers vegna spámaðurinn Elía bað ekkjuna í Sarefta að gefa sér mat og vatn áður en hún gæfi sjálfri sér og sveltandi syni sínum að borða. Beiðni Elía mætti einnig líta á sem blessun fyrir þessa litlu fjölskyldu. Þau þurftu á blessunum Drottins að halda og fórn færir oft blessanir - þar á meðal blessun sterkari trúar.
Þegar þið lesið þessa frásögn, setjið ykkur þá í spor þessarar merkilegu ekkju. Hvað hrífur ykkur varðandi hana? Íhugið tækifæri ykkar til trúariðkunar – þar með talið tækifæri til fórnar. Hvernig getið þið verið líkari þessari ekkju?
Sjá einnig Matteus 6:25–33; Lúkas 4:24–26; Lynn G. Robbins, „Tíund – boðorð, jafnvel fyrir hina blásnauðu,“ aðalráðstefna, apríl 2005.
„Ef Drottinn er Guð, fylgið honum.“
Ísraelsmönnum gæti hafa fundist góð ástæða að baki þess að tilbiðja Baal, þrátt fyrir boðorð Guðs: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig“ (2. Mósebók 20:3). Baal var kunnur sem guð vinda og regns og eftir þriggja ára þurrk, höfðu þeir mikla þörf fyrir vind og regn. Tilbeiðsla Baals var almennt viðurkennd og konungur og drottning hvöttu til hennar. Þegar þið lesið 1. Konungabók 18, íhugið þá sérhverjar ástæður í lífi ykkar sem hægt væri að líkja við aðstæður Ísraelsmanna. Finnst ykkur þið einhvern tíma hafa verið óráðin í því að fylgja Drottni vegna þess að valkostirnir virtust skynsamir og knýjandi (sjá 1. Konungabók 18:21). Hvað finnst ykkur að Drottinn hafi verið að reyna að kenna fólkinu um sig sjálfan og Baal í framvindu þessa kapítula? Hvaða upplifanir hafa kennt ykkur álíka sannindi?
Áhugavert gæti verið að gæta að því sem Elía sagði og gerði í þessum kapítula sem sýndi trú hans á Drottin. Hvað lærið þið af Elía um trú?
Sjá einnig Jósúabók 24:15; 2. Nefí 2:26–28; D. Todd Christofferson, „Choice and Commitment“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fólk, 12. jan. 2020), ChurchofJesusChrist.org.
Drottinn talar oft á lágværan og hljóðan hátt.
Þegar Jesebel drottning frétti af því sem hafði komið fyrir presta hennar á Karmelfjalli, snerist hún ekki til trúar – hún varð æfareið. Elía óttaðist um líf sitt og flúði til óbyggða og leitaði skjóls í helli. Þar háði hann baráttu við einmanaleika og vanmátt og hlaut reynslu með Drottni sem var afar frábrugðin því sem gerðist á Karmelfjalli. Hvað kennir reynsla Elía í 1. Konungabók 19: 1–18 um það hvernig Drottinn hefur samskipti við ykkur á tíma neyðar? Íhugið hvenær þið hafið upplifað rödd hans í lífi ykkar. Hvað þurfið þið að gera til að hljóta oftar leiðsögn hans?
Íhugið orðin og orðtökin sem notuð eru í eftirfarandi versum til að lýsa hvernig Drottinn hefur samskipti við okkur: Helaman 5:30; 3. Nefí 11:3–7; Kenning og sáttmálar 6:22–23; 8:2–3; 9:8–9; 11:12–14; 36:2.
Sjá einnig Sálmarnir 46:11; 1. Nefí 17:45; Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020.
Að þjóna Drottni er í fyrirrúmi veraldlegra mála.
Sú staðreynd að Elísa átti tólf uxaeyki, bendir til þess að hann hafi líklega verið ríkur maður. Hvað hrífur ykkur varðandi breytni hans í 1. Konungabók 19:19–21? Hvernig getið þið fylgt fordæmi Elísa?
Sjá einnig Matteus 4:18–22.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
1. Konungabók 17:1–16.Myndbandið „Elijah and the Widow of Zarephath [Elía og ekkjan í Sarefta]“ (ChurchofJesusChrist.org) og myndin í þessum lexíudrögum gæti hjálpað fjölskyldu ykkar að sjá fyrir sér frásögnina í 1. Konungabók 17:1–16. Eftir að hafa lesið þessi vers og skoðað þetta efni, þá gæti hver fjölskyldumeðlimur skráð andlega eiginleika sem ekkjan bjó yfir. Hvað biður Drottinn okkur að gera til að sýna fram á trú okkar?
-
1. Konungabók 18.„Elía og Baalsprestar“ (í Sögur úr Gamla testamentinu) getur hjálpað fjölskyldu ykkar að læra frásögnina í 1. Konungabók 18. Er eitthvað sem dregur okkur frá því að vera fyllilega skuldbundin Drottni? Hvernig getum við sýnt fúsleika okkar til að velja hann? (sjá vers 21).
-
1. Konungabók 19:11–12.Hvað gæti hjálpað fjölskyldu ykkar að skilja mikilvægi þess að hlusta á hina lágu og hljóðlátu rödd? Þið gætuð lesið saman 1. Konungabók 19:11–12 lágri og mildri röddu eða sungið hljóðlega um andann, t.d. sönginn Heilagur andi“ (Barnasöngbókin, 56). Þið gætuð búið til eitthvað truflandi hljóð til að sýna hvernig Satan reynir að koma í veg fyrir að við heyrum hina lágu og hljóðlátu rödd. Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá því hvað þeir gera til að vera næmir fyrir hughrifum andans.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Heilagur andi,“ Barnasöngbókin, 56.