„Ábendingar til að hafa hugfastar: Ljóðalestur í Gamla testamentinu,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„Ábendingar til að hafa hugfastar: Ljóðalestur í Gamla testamentinu,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
Ábendingar til að hafa hugfastar
Ljóðalestur í Gamla testamentinu
Í þeim bókum Gamla testamentisins sem eru á undan Jobsbók eru aðallega sögur – frásagnir sem lýsa sögulegum atburðum út frá andlegu sjónarhorni. Nói smíðaði örk, Móse frelsaði Ísrael, Hanna bað þess að eignast son og svo framvegis. Í Jobsbók og áfram er að finna annan rithátt, þar sem höfundar Gamla testamentisins tóku til við ljóðrænt mál til að tjá djúpar tilfinningar eða stórkostlega spádóma á eftirminnilegan hátt.
Við höfum þegar séð nokkur dæmi um ljóð á dreif um sögubækur Gamla testamentisins. Í Jobsbók og áfram munum við sjá mun meira af þeim. Jobsbók, Sálmarnir og Orðskviðirnir eru nánast eingöngu ljóð, sem og hluti af skrifum spámanna eins og Jesaja, Jeremía og Amos. Þar sem ljóðalestur er ólíkur því að lesa sögu, þarf oft aðra nálgun til að skilja textann. Hér eru nokkrar ábendingar sem gætu gert lestur ykkar á ljóðum Gamla testamentisins innihaldsríkari.
Kynnast hebreskri ljóðlist
Í fyrsta lagi getur það hjálpað ykkur að hafa í huga að hebresk ljóðlist í Gamla testamentinu er ekki byggð á rími, eins og sum önnur ljóð. Þrátt fyrir að hrynjandi, orðaleikur og endurtekning hljóða séu algeng í fornum hebreskum skáldskap, þá glatast það yfirleitt í þýðingu. Einn eiginleiki sem þið munuð þó taka eftir er endurtekning hugsana eða hugmynda, sem stundum er kallað „hliðstæða.“ Þetta vers í Jesaja hefur að geyma einfalt dæmi:
-
Íklæð þig styrk þínum, Síon,
-
klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem (Jesaja 52:1).
Í 29. kapítula Sálmanna eru margar hliðstæðar línur – hér er eitt dæmi:
-
Raust Drottins hljómar með krafti,
-
raust Drottins hljómar með tign (Sálmarnir 29:4).
Hér er dæmi þar sem vitneskjan um að önnur línan sé hliðstæð þeirri fyrstu auðveldi í raun skilning á setningunni:
-
Ég hélt tönnum yðar hreinum í öllum borgum yðar
-
og lét brauð skorta í öllum þorpum yðar (Amos 4:6).
Í þessum dæmum er hugmynd endurtekin með blæbrigðamun. Með þessari tækni er mögulegt að leggja áherslu á hina endurteknu hugmynd, samhliða því að lýsa henni eða undirstrika hana betur með blæbrigðamun.
Í öðrum tilvikum eru tvö samhliða orðtök sett fram á svipuðu máli til að tjá andstæðar hugmyndir, eins og í þessu dæmi:
-
Mildilegt svar stöðvar bræði
-
en fúkyrði vekja reiði (Orðskviðirnir 15:1).
Þessi hliðstæða varð ekki til fyrir tilviljun. Rithöfundarnir gerðu þetta af ásetningi. Það gerði þeim kleift að tjá andlegar tilfinningar eða sannleika á þann hátt sem þeim virtist bæði máttugur og fallegur. Þegar þið því takið eftir hliðstæðum í ritum Gamla testamentisins, skuluð þið spyrja ykkur sjálf hvernig það hjálpar ykkur að skilja boðskap höfundarins. Dæmi: Hvað gæti Jesaja hafa verið að reyna að tjá með því að tengja „styrk“ við „falleg klæði“ og „Síon“ við „Jerúsalem“? (Jesaja 52:1). Hvað getum við ályktað um orðasambandið „mildilegt svar“ ef við vitum að „fúkyrði“ er andstæða þess? (Sálmarnir 15:1).
Hebresk ljóðlist sem nýr vinur
Það gæti verið ykkur gagnlegt að líkja ljóðalestri við kynni nýs einstaklings. Þið gætuð t.d. líkt ljóðalestri í Gamla testamentinu við að hitta einhvern frá fjarlægu landi og framandi menningu, sem talar annað tungumál – og svo vildi til að væri yfir tvöþúsund ára. Sá einstaklingur myndi líklega segja hluti sem við skildum ekki í fyrstu, en það þýðir ekki að hann eða hún hafi ekkert dýrmætt að segja okkur. Með nokkurri þolinmæði og samkennd, gæti hinn nýi kunningi að lokum orðið okkur kær vinur. Þið þurfið bara að verja saman tíma og reyna að sjá hlutina út frá sjónarhorni hans eða hennar. Þið gætuð jafnvel komist að því að í hjarta skilduð þið í raun hvor annan nokkuð vel.
Þannig að þegar þið í fyrsta skipti lesið kapítula í Jesaja, gætuð þið litið á það sem ykkar fyrstu viðkynni nýs kunningja. Spyrjið ykkur sjálf: „Hvað finnst mér almennt um þetta?“ Hvaða tilfinningar vekur orðalagið – þótt þið skiljið ekki öll orðin? Lesið textann síðan aftur nokkrum sinnum, ef mögulegt er. Sumir finna aukna merkingu með því að lesa versin upphátt. Gætið að sérstökum orðum sem Jesaja velur, einkum orðum sem kalla fram myndir í huga ykkar. Hvaða tilfinningar vekja myndirnar? Hvað gæti myndmálið sagt um það hvernig Jesaja leið? Því meira sem þið rannsakið orð þessara ljóðhöfunda í Gamla testamentinu, því meira finnið þið að þeir völdu orð sín og aðferðir af ásetningi til að tjá djúpan andlegan boðskap.
Ljóð geta verið dásamlegir vinir, því þau hjálpa okkur að skilja tilfinningar okkar og upplifanir. Ljóð Gamla testamentisins eru einkar dýrmæt, því þau gera okkur mögulegt að skilja mikilvægustu tilfinningar okkar og upplifanir – þær sem tengjast sambandi okkar við Guð.
Þegar þið lærið ljóðin í Gamla testamentinu, hafið þá hugfast að ritningarnám er dýrmætast þegar það leiðir okkur til Jesú Krists. Leitið að táknum, myndmáli og sannleika sem styrkja trú ykkar á hann. Hlustið á hvatningu frá heilögum anda þegar þið lærið.