„24.–30. október. Esekíel 1–3; 33–34; 36–37; 47: ‚Ég mun … leggja ykkur nýjan anda í brjóst,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„24.–30. október. Esekíel 1–3; 33–34; 36–37; 47,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
24.–30. október
Esekíel 1–3; 33–34; 36–37; 47
„Ég mun … leggja ykkur nýjan anda í brjóst“
Esekíel var á táknrænan hátt boðið að „eta“ orð Guðs – til að fylla sig af því (sjá Esekíel 2:9–3:3,10). Hvernig munuð þið fylla ykkur orði Guðs í þessari viku?
Skráið hughrif ykkar
Esekíel var spámaður í útlegð. Hann hafði verið tekinn höndum með Ísraelsmönnum og sendur til Babýlon nokkrum árum áður en Jerúsalem var endanlega tortímt. Í Jerúsalem hefði Esekíel verið þjónandi prestur í musterinu. Í Babýlon var hann meðal „útlaganna“ og „sat á meðal þeirra“ (Esekíel 3:15), hundruð kílómetra frá musterinu og hafði litla von um að snúa aftur til hins ástkæra húss Guðs. Dag einn hlaut Esekíel síðan vitrun. Hann sá „[dýrð] Drottins“ (Esekíel 1:28) – ekki í musterinu í Jersúsalem, heldur í Babýlon meðal hinna útlægu. Hann komst að því að ranglætið í Jerúsalem hafði orðið svo alvarlegt að það olli því að nærvera Guðs var þar ekki lengur (sjá Esekíel 8–11; 33:21).
Eitt af verkum Esekíels var að aðvara Ísraelsmenn um afleiðingar uppreisnar þeirra – aðvörun sem var almennt ekki hlustað á. Það bjó þó meira í boðskap Esekíels: hann spáði að það væri leið til baka, þrátt fyrir hinar slæmu aðstæður. Ef fólk Guðs aðeins tæki á móti því boði Guðs að „[heyra] orð Drottins“ (Esekíel 37:4), væri hægt að lífga við það sem eitt sinn hafði dáið. Hægt var að taka úr þeim „steinhjartað“ og gefa þeim „nýtt hjarta“ (Esekíel 36:26). „Ég sendi anda minn í ykkur,“ sagði Drottinn við þá, „svo að þið lifnið við“ (Esekíel 37:14). Á síðari dögum myndi Drottinn síðan koma á fót nýju musteri og nýrri Jerúsalem og „[þaðan] í frá [bæri] borgin nafnið: Drottinn er hér“ (Esekíel 48:35).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
„Þú skalt flytja þeim orð mín.“
Þegar þið lesið um köllun Esekíels til þjónustu í Esekíel 1–3 gætuð þið vaknað til umhugsunar um þau tækfæri sem Guð hefur gefið ykkur til að flytja öðrum orð hans (sjá Esekíel 3:4). Gætið að orðum hvatningar og fyrirmæla til Esekíels í Esekíel 2–3. Þótt fólkið sem þið þjónið sé varla jafn uppreisnargjarnt og fólk Esekíels, íhugið þá hvernig orð Esekíels hafa áhrif á viðhorf ykkar til þjónustu ykkar í kirkjunni, á heimilinu og annarsstaðar.
Sjá einnig Esekíel 33:1–9; D.Todd Christofferson, „Aðvörunarrödd,“ aðalráðstefna , apríl 2017.
Drottin vill veita fyrirgefningu.
Hinir herteknu Ísraelsmenn veltu fyrir sér „hvernig [þeir gætu] haldið lífi,“ þar sem „afbrot [þeirra] og syndir [hvíldu á þeim]“ (Esekíel 33:10). Drottinn svaraði með því að kenna þeim mikilvægan sannleika um iðrun og fyrirgefningu. Þessar spurningar gætu hjálpað ykkur að íhuga þennan sannleika:
-
Hvað haldið þið að felist í því að reiða sig á eigið réttlæti? (sjá Esekíel 33:12–13).
-
Hvað mynduð þið segja við þann sem finnst að hinn réttláti og hinn rangláti sem lýst er í Esekíel 33:12–19 fái ekki sanngjarna meðferð? (sjá einnig Matteus 21:28–31; Lúkas 18:9–14).
-
Hvaða orðtök finnið þið í þessum versum sem hjálpa ykkur að skilja merkingu þess að iðrast? Hvað annað eykur skilning ykkar sem þið finnið í Esekíel 36:26–27 og Alma 7:14–16?
Drottinn býður mér að næra sauði sína.
Í Esekíel 34 vísar Drottinn til leiðtoga fólks síns sem „hirða.“ Íhugið við lesturinn hvað ykkur finnst felast í þessu viðurnefni varðandi það að vera leiðtogi. Hverjir eru „sauðirnir“ sem Drottinn vill að þið nærið? Hvernig getið þið fylgt því fordæmi sem frelsarinn setur sem hirðir okkar? (sjá vers 11–31).
Sjá einnig Jóhannes 21:15–17.
Drottinn er að safna saman fólki sínu og gefa því nýtt líf.
Samansöfnun Ísraels er sýnd í Esekíel 37 með tveimur táknum. Þegar þið lesið um annað þeirra – dauð bein sem verða lífguð (sjá vers 1–14) – íhugið það sem þið lærðuð um samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar (sjá einnig Esekíel 36:24–30).
Annað táknið (sjá vers 15–28) felur í sér tvo tréstafi, sem margir fræðimenn hafa túlkað sem tréborð til skriftar, sett saman á hjörum. Tréstafur Júda getur táknað Biblíuna (þar sem Biblían var að mestu rituð af niðjum Júda) og tréstafur Jósefs getur táknað Mormónsbók (þar sem fjölskylda Lehís voru afkomendur Jósef frá Egyptalandi). Hvað kenna þessi vers ykkur um hlutverk ritninganna við samansöfnun Ísraels, með þetta í huga? Hverju bætir 2. Nefí 3:11–13 (spádómur um Joseph Smith og Mormónsbók) við skilning ykkar?
Sjá einnig 2. Nefí 29:14; „The Book of Mormon Gathers Scattered Israel [Mormónsbók safnar saman tvístruðum Ísrael]“ (myndband, ChurchofJesusChrist.org).
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Esekíel 33:1–5.Til að útskýra þessi vers, gæti einn fjölskyldumeðlimur látist vera „varðmaður“ með því að horfa út um glugga og segja hinum í fjölskyldunni frá því sem gerist utandyra. Hvernig eru lifandi spámenn okkar eins og varðmenn fyrir okkur?
-
Esekíel 33:15–16.Hvað kenna þessi vers okkur um þá fyrirgefningu sem við getum hlotið frá Jesú Kristi?
-
Esekíel 36:26–27Sýnið fjölskyldu ykkar nokkra steina er þið ræðið merkingu þess að hafa „steinhjarta.“ Látið þau leggja til orð sem lýsa hinu „nýja hjarta“ og „nýja anda“ sem frelsarinn veitir okkur (sjá Mósía 3:19; 5:2).
-
Esekíel 37:15–28.Fjölskyldumeðlimir gætu fundið tvo tréstafi og skrifað á annan Fyrir Júda (Biblían) og á hinn Fyrir Jósef (Mormónsbók) (sjá vers 16–19). Þeir gætu síðan miðlað frásögnum eða ritningarversum úr Biblíunni og Mormónsbók sem hjálpa þeim að skynja betur frelsarann og verða „[hans] lýður“ (vers 23).
-
Esekíel 47:1–12.Þessi vers lýsa vitrun Esekíels um vatnið sem streymdi frá musterinu og læknaði Dauðahafið – vatn sem er svo salt að fiskar og gróður fá ekki þrifist í því. Börn gætu notið þess að teikna mynd af þessari vitrun. Hvað gæti vatnið sem streymir frá musterinu táknað? (sjá myndbandið „And the River Will Grow [Og vatnið mun vaxa],” ChurchofJesusChrist.org). Hvernig hjálpar musterið við að hreinsa okkur? (sjá Esekíel 47:8–9,11).
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Dýrmæt er hirðinum hjörðin,“ Sálmar, nr. 92.