„27. mars–2. apríl. Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6: ‚Verið óhræddir,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Nýja testamentið 2023 (2022)
„27. mars–2. apríl. Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6,” Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2023
27. mars–2. apríl
Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6
„Verið óhræddir“
Þegar þið búið ykkur undir að kenna í Matteusi 14; Markúsi 6; og Jóhannesi 5–6, leitið þá að boðskap sem á við bekkinn ykkar. Þegar þið gerið þetta, íhugið þá hvernig þið getið tengt meðlimi bekkjarins við ritningarnar á þýðingarmikinn hátt.
Hvetjið til miðlunar
Ein leið til að hefja samræður er að biðja nokkra meðlimi bekkjarins um að velja hver einn kapítula úr lestrinum og miðla boðskap úr honum sem var þeim þýðingarmikill. Þegar þeir miðla þessu, gætu aðrir meðlimir bekkjarins spurt spurninga eða sagt frá sínum skilningi.
Kennið kenninguna
Jesús Kristur er elskaður sonur himnesks föður.
-
Í Jóhannesi 5 veitir Jesús skilning um sig sjálfan, föður sinn og samband sitt við föðurinn. Til að stuðla að því að meðlimir bekkjarins uppgötvi þennan skilning, prófið þá að skipta þeim upp í hópa og gefa þeim nokkrar mínútur til að skrá eins mörg sannindi og þau geta fundið í versum 16–47 um eðli Guðs og Jesú Krists og um samband þeirra. Biðjið hópana að skiptast á að lesa sannindin af listum þeirra. Hvernig stuðla þessi sannindi að því að við skiljum betur himneskan föður okkar og son hans? Hvernig getum við fylgt fordæmi Jesú Krists um hlýðni við föðurinn?
-
Í verkefni í lexíudrögum þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur er lagt til að merkja hvert skipti sem Jesús notaði orðið faðir í Jóhannesi 5:16–47. Biðjið nokkra meðlimi bekkjarins að segja frá því sem þeir lærðu þegar þeir unnu þetta verkefni. Biðjið þá að miðla þeim skilningi sem þeir hlutu um himneskan föður og elskaðan son hans.
Matteus 14:15–21; Markús 6:33–44; Jóhannes 6:5–14
Frelsarinn getur eflt okkar auðmjúku fórnir til að ná fram tilgangi sínum.
-
Hvað gæti hjálpað meðlimum bekkjarins að finna persónulega þýðingu í kraftaverki Jesú, er hann mettaði fimm þúsundir? Þið gætuð spurt hvernig lestur um þetta kraftaverk hafi aukið trú þeirra á getu frelsarans til að blessa þá persónulega. Þeir gætu rætt þá tíma þegar þeim fannst frelsarinn efla eða margfalda framlag þeirra, til að hjálpa þeim að ná að því er virtist ógerlegu takmarki. Þið gætuð einnig, áður en bekkurinn hefst, beðið meðlimi bekkjarins um að koma með mynd eða hlut sem er táknrænn fyrir upplifun þeirra.
-
Myndbandið „The Feeding of the 5,000“ (ChurchofJesusChrist.org) gæti stuðlað að ígrundun meðlima bekkjarins um kraftaverkið sem lýst er í þessum ritningarversum. Hvaða atriði í þessari frásögn efla trú okkar á frelsarann? Á hvaða hátt getur frelsarinn mettað okkur andlega? Hvenær hefur Jesús Kristur mettað okkur og styrkt?
Jesús Kristur býður okkur að láta af ótta og efa svo að við getum enn betur nálgast hann.
-
Sagan í Matteusi 14:22–33 getur stuðlað að aukinni trú meðlima bekkjarins á frelsaranum og löngun þeirra að fylgja honum. Biðjið meðlimi bekkjarins að lesa söguna og veita orðum Krists, Péturs og hinna postulanna sérstaka athygli. Hvernig gætu orð Jesú hafa hjálpað Pétri að hafa trú og stíga út úr bátnum og ganga á vatninu? Hvernig eiga aðvaranir Jesú við á okkar tíma um að „[vera hughraust]“ og „[vera óhrædd]“ (vers 27)? Hvað getum við lært af Pétri um hvað það merkir að vera lærisveinar Jesú Krists og að treysta honum? Þið gætuð hvatt meðlimi bekkjarins til að hugleiða og miðla upplifunum þar sem þeir, eins og Pétur, ákváðu að fylgja frelsaranum, jafnvel þegar útkoman var óviss. Biðjið þá að miðla því sem þeir lærðu af upplifunum sínum. Hvernig hefur Jesús Kristur komið okkur til bjargar á tímum ótta eða efa?
Sem lærisveinar Jesú Krists, verðum við að vera fús til að trúa og meðtaka sannleikann, jafnvel þótt erfitt sé.
-
Atburðirnir í Jóhannesi 6 geta veitt gagnlegan skilning þegar fólk hefur spurningar um kenningu, sögu eða stefnu kirkju Krists. Til að stuðla að skilningi meðlima bekkjarins á þessum atburðum, gætuð þið skrifað eftirfarandi spurningar á töfluna fyrir þá til að svara: Við hverju bjóst fólkið? (sjá vers 26). Hvað bauð Kristur þeim í staðinn? (sjá vers 51). Hvað misskildi fólkið? (sjá vers 41–42, 47). Þið gætuð líka spurt spurninga eins og þessara til að hvetja meðlimi bekkjarins til að tileinka sér þessa frásögn í lífi þeirra: Hvaða leiðir getum við farið til að ganga með Kristi, jafnvel þegar við höfum spurningar eða efasemdir? (sjá vers 66). Hvaða kenningar, helgiathafnir eða önnur „orð eilífs lífs“ fyrirfinnast aðeins í endurreistri kirkju Krists? (sjá vers 67–69). Fyrir innsýn nútíma postula, sjá boðskap M. Russell Ballard, „Til hvers ættum vér að fara?,“ (aðalráðstefna, október 2016).