„9.–15. október. Filippíbréfið; Kólossubréfið: ‚Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Nýja testamentið 2023 (2021)
„9.–15. október. Filippíbréfið; Kólossubréfið,“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2023
9.–15. október
Filippíbréfið; Kólossubréfið
„Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir“
Byrjið á að lesa Filippíbréfið og Kólossubréfið og ígrundið kostgæfið þær kenningar sem Drottinn vill að þið kennið. Látið andann leiða ykkur þegar þið hugleiðið spurningarnar og þær heimildir sem hægt er að nota til að kenna kenninguna.
Hvetjið til miðlunar
Bjóðið meðlimum bekkjarins að miðla einu orði eða setningu, sem dregur saman það sem þeir lærðu í Filippíbréfinu og Kólossubréfinu og útskýra síðan hvers vegna þeir völdu þetta orð eða setningu. Hvetjið þá til að miðla ritningarversum úr lestri sínum sem hluta af útskýringum þeirra.
Kennið kenninguna
Filippíbréfið 2:1–5, 14–18; 4:1–9; Kólossubréfið 3:1–17
Við verðum „ný“ þegar við lifum eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.
-
Þið gætuð viljað hjálpa meðlimum bekkjar ykkar að sjá fyrir sér hvað það þýðir að „[afklæðast] hinum gamla manni“ og „[íklæðast] hinum nýja [manni]“ með Jesú Kristi (Kólossubréfið 3:9–10). Til að gera það, gætuð þið sýnt fyrir-og-eftir myndir af einhverju gömlu sem hefur umbreyst í eitthvað nýtt (t.d. húsgagn, heimili eða hjól). Meðlimir bekkjarins gætu rætt hvernig við verðum „ný“ með trú okkar á Jesú Krist og fúsleika að lifa eftir fagnaðarerindi hans. Í þessum samræðum gætuð þið beðið hálfan bekkinn að lesa Filippíbréfið 2:1–5, 14–18; 4:1–9 og hinn helminginn að lesa Kólossubréfið 3:1–17 og finna eiginleika „gamla mannsins“ og „nýja mannsins.“ Þið gætuð beðið meðlimi bekkjarins að segja frá hvernig trú á Jesú Krist og að lifa eftir fagnaðarerindi hans hefur hjálpað þeim að verða nýjar persónur.
Við getum fundið gleði í Kristi, burtséð frá aðstæðum okkar.
-
Jafnvel þótt aðstæður okkar séu aðrar en Páls, getum við öll lært af fúsleika hans til að vera sáttur og gleðjast í öllum kringumstæðum lífsins. Til að hefja umræður um þetta viðfangsefni, gætuð þið farið yfir nokkrar raunir sem Páll upplifði (sjá, t.d. 2. Korintubréf 11:23–28). Þið gætuð síðan beðið meðlimi bekkjarins að lesa Filippíbréfið 4:1–13 til að finna leiðsögn Páls, sem getur hjálpað okkur að gleðjast – jafnvel á erfiðleikatímum.
-
Ef til vill gætu meðlimir bekkjarins miðlað upplifunum þar sem þeir fundu fyrir „[friði] Guðs, sem er æðri öllum skilningi“ (Filippíbréfið 4:7) eða þegar þeir styrktust „fyrir hjálp [Krists]“ (vers 13) og afrekuðu eitthvað sem þeir gætu annars ekki hafa gert.
-
Ef þið viljið rannsaka þetta efni enn frekar, gætuð þið beðið meðlim bekkjarins að miðla hvetjandi frásögnum eða yfirlýsingum úr ræðu Russells M. Nelson forseta, „Gleði og andleg þrautseigja“ (aðalráðstefna, október 2016). Bekkurinn gæti líka horft á myndbandið „Trial of Adversity [Erfiðleikar andstreymis]“ (ChurchofJesusChrist.org). Hvernig fann fólkið í ræðu Nelsons forseta eða konan í myndbandinu frið, þrátt fyrir erfiðar aðstæður?
-
Vegna þess að hið illa breiðir úr sér í heiminum á okkar tíma, gætu meðlimir bekkjarins haft gagn af leiðsögn Páls um að „[hugfesta] það“ sem er elskuvert, gott afspurnar, dyggðugt eða lofsvert (Filippíbréfið 4:8). Ef til vill gætuð þið úthlutað hverjum meðlim bekkjarins (eða litlum hópum) einum eiginleikanna sem skráðir eru í Filippíbréfinu 4:8 eða Trúaratriðunum 1:13. Þeir gætu notað Leiðarvísi að ritningunum til að finna ritningarvers um eiginleikana og segja bekknum frá því sem þeir finna. Þeir gætu einnig miðlað dæmum um þessa eiginleika í lífi fólks. Hvernig „sækjumst vér eftir því“?
Þegar við erum „rótfest“ í Jesú Kristi, eflumst við gegn áhrifum heimsins.
-
Vitnisburður Páls um frelsarann í Kólossubréfinu 1:12–23; 2:2–8 veitir meðlimum bekkjarins gott tækifæri til að íhuga og efla eigin trú. Meðlimir bekkjarins gætu leitað að einhverju sem styrkir trú þeirra á Jesú Krist í þessum versum. Hver er merking þess að vera „rótfest í [Jesú Kristi] og byggð á honum“? (Kólossubréfið 2:7). Myndin af trénu í lexíudrögum þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur og myndbandið „Spiritual Whirlwinds [Andlegir hvirfilbyljir]“ (ChurchofJesusChrist.org) geta hjálpað meðlimum bekkjarins að ræða þetta vers. Hvað getur styrkt eða veikt rætur trés? Hvernig getur það styrkt okkur gegn áhrifum heimsins að vera „rótfest í [Jesú Kristi] og byggð á honum“? (sjá Kólossubréfið 2:7–8; sjá einnig Helaman 5;12; Eter 12:4).
-
Þið gætuð beðið meðlimi bekkjarins að gera lista yfir þá hluti sem Kólossubréfið 1:12–23; 2:2–8 kennir að við getum gert til að forðast „villandi [spekital]“ sem getur „[hertekið]“ trú okkar á Krist (Kólossubréfið 2:8). Hvernig getum við stutt hvert annað í viðleitni okkar til að fylgja frelsaranum og forðast blekkingar Satans?