Ritningar
2 Nefí 19


19. Kapítuli

Jesaja talar um Messías — Þjóð í myrkri mun sjá mikið ljós — Barn er oss fætt — Hann verður friðarhöfðingi og mun ríkja í hásæti Davíðs — Samanber Jesaja 9. Um 559–545 f.Kr.

1 Engu að síður mun sortinn ekki vera slíkur, sem hann var á tímum hirtingar hennar, þegar hann þrengdi fyrst lítillega að Sebúlonslandi og Naftalílandi, en þrengdi síðan alvarlega meðfram Rauðahafinu handan Jórdanar í Galíleu þjóðanna.

2 Sú þjóð, sem í myrkri gekk, hefur séð mikið ljós. Yfir þá, sem búa í skuggalandi dauðans, hefur ljós skinið.

3 Þú hefur margfaldað þjóðina og aukið gleðina — menn gleðjast fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum og eins og menn kætast, þegar herfangi er skipt.

4 Því að þú hefur sundur brotið ok byrðar hans, stafinn, sem reið að herðum hans, barefli kúgarans.

5 Því að hverri orrustu hermannsins fylgir ærandi háreysti, blóði stokkin klæði. En þessari hríð mun fylgja eldhaf og eldsmatur.

6 Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn, og á herðum hans skal höfðingjadómurinn hvíla. Og hann mun kallaður: Hinn dásamlegi, ráðgjafi, voldugur Guð, ævarandi faðir, friðarhöfðingi.

7 Höfðingjadómurinn og friðurinn mun eflast endalaust á hásæti Davíðs og í konungsríki hans til þess að reisa það og efla með dómi og réttvísi héðan í frá og að eilífu. Eldmóður Drottins hersveitanna mun þessu til vegar koma.

8 Drottinn hefur sent orð sitt til Jakobs, og það stafar ljósi á Ísrael.

9 Og öll þjóðin skal verða þess áskynja, bæði Efraím og Samaríubúar, sem af metnaði og stærilæti hjartans segja:

10 Tígulsteinarnir eru hrundir, en vér skulum byggja upp aftur af höggnu grjóti. Mórberjatrén hafa verið felld, en vér skulum setja sedrustré í staðinn.

11 Þess vegna mun Drottinn efla mótstöðumenn Resíns og sameina fjandmenn hans —

12 Sýrlendingar munu koma að framan og Filistar að aftan, og þeir munu svelgja Ísrael með gapandi gini. Þrátt fyrir allt þetta linnir ekki reiði hans, heldur er hönd hans enn þá útrétt.

13 Því að þjóðin snýr sér hvorki til hans, sem laust hana, né heldur leitar hún Drottins hersveitanna.

14 Þess vegna mun Drottinn höggva höfuð og hala af Ísrael, kvistinn og sefstráið á sama degi.

15 Öldungurinn, hann er höfuðið, en spámaðurinn, sem lygar kennir, hann er halinn.

16 Því að leiðtogar þessa fólks leiða það afvega, og þeir, sem láta leiða sig, tortímast.

17 Þess vegna hefur Drottinn enga gleði af æskumönnum þess og enga miskunn sýna munaðarleysingjum þess og ekkjum. Því að allir eru þeir hræsnarar og illvirkjar, og hver munnur mælir heimsku. Þrátt fyrir allt þetta linnir ekki reiði hans, heldur er hönd hans enn þá útrétt.

18 Því að hið rangláta athæfi brennur eins og eldur, eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo að þeir hvirflast upp í reykjarmekki.

19 Vegna heilagrar reiði Drottins hersveitanna er landið myrkri hulið, og fólkið verður sem eldsmatur. Enginn maður mun þyrma bróður sínum.

20 Hann rífur í sig til hægri handar og er þó hungraður. Hann etur til vinstri handar og verður þó eigi saddur. Hver etur holdið af sínum eigin armlegg.

21 Manasse, Efraím; og Efraím, Manasse; báðir verða þeir andsnúnir Júda. Þrátt fyrir allt þetta linnir ekki reiði hans, heldur er hönd hans enn þá útrétt.