Ritningar
Bók Abrahams 4


4. Kapítuli

Guðirnir áætla sköpun jarðar og lífið á henni — Áætlun þeirra um sköpunardagana sex lögð fram.

1 Og síðan sagði Drottinn: Förum niður. Og þeir fóru niður í upphafi, og þeir, það er að segja guðirnir, skipulögðu og mynduðu himna og jörð.

2 Og eftir að jörðin hafði verið mynduð, var hún auð og tóm, vegna þess að þeir höfðu ekki myndað neitt annað en jörðina. Og myrkur ríkti yfir djúpinu og andi guðanna hvíldi yfir vötnunum.

3 Og þeir (guðirnir) sögðu: Verði ljós, og það varð ljós.

4 Og þeir (guðirnir) skynjuðu ljósið, því að það var bjart. Og þeir greindu ljósið eða létu greina það frá myrkrinu.

5 Og guðirnir nefndu ljósið dag, en myrkrið nefndu þeir nótt. Og svo bar við, að frá kvöldi til morguns nefndu þeir nótt. Og frá morgni til kvölds nefndu þeir dag. Og þetta var hið fyrsta eða upphaf þess, sem þeir nefndu dag og nótt.

6 Og enn sögðu guðirnir: Verði hvelfing milli vatnanna og hún skal greina vötn frá vötnum.

7 Og guðirnir buðu hvelfingunni og hún greindi vötnin, sem undir hvelfingunni voru frá þeim vötnum, sem yfir hvelfingunni voru. Og svo varð, sem þeir buðu.

8 Og guðirnir nefndu hvelfinguna himin. Og svo bar við, að það var frá kvöldi til morguns, sem þeir nefndu nótt. Og svo bar við, að það var frá morgni til kvölds, sem þeir nefndu dag. Og þetta var annað sinn, sem þeir nefndu nótt og dag.

9 Og guðirnir buðu og sögðu: Lát vötnin undir himninum safnast á einn stað og lát þurrlendi rísa. Og svo varð, sem þeir buðu —

10 Og guðirnir lýstu þurrlendið jörð, en safn vatnanna lýstu þeir vötnin miklu, og guðirnir sáu, að þeim var hlýtt.

11 Og guðirnir sögðu: Búum jörðina undir það að gefa af sér grös; jurtin beri fræ, ávaxtatréð beri ávöxt, eftir sinni tegund, og af fræi þess spretti eigin líking þess á jörðu. Og svo varð, já, eins og þeir buðu.

12 Og guðirnir skipulögðu jörðina, svo að af henni spryttu grös af eigin fræi, og af jurtinni sprytti jurt af eigin fræi, hver eftir sinni tegund, og af jörðunni sprytti tré af eigin fræi, sem bæri ávöxt, og af fræi þess gæti aðeins sprottið samskonar, eftir sinni tegund. Og guðirnir sáu, að þeim var hlýtt.

13 Og svo bar við, að þeir töldu dagana, frá kvöldi til morguns nefndu þeir nótt. Og svo bar við, að frá morgni til kvölds nefndu þeir dag. Og það var hið þriðja sinn.

14 Og guðirnir skipulögðu ljósin á hvelfingu himins og létu þau greina dag frá nóttu, og skipulögðu þau til að marka árstíðir, daga og ár —

15 Og skipulögðu þau til að vera ljós á hvelfingu himins til að veita jörðunni birtu. Og svo varð.

16 Og guðirnir skipulögðu tvö stærri ljósin, stærra ljósið til að ráða deginum og minna ljósið til að ráða nóttunni. Og með minna ljósinu settu þeir einnig stjörnurnar —

17 Og guðirnir settu þau á hvelfingu himna til að veita jörðunni birtu og til að ráða degi og nóttu og til að greina ljósið frá myrkrinu.

18 Og guðirnir fylgdust með því, sem þeir höfðu gefið boð um, uns því var hlýtt.

19 Og svo bar við, að það var frá kvöldi til morguns, að það var nótt. Og svo bar við, að það var frá morgni til kvölds, að það var dagur. Og það var hið fjórða sinn.

20 Og guðirnir sögðu: Gjörum vötnin til reiðu, að þau verði kvik af lifandi skepnum, og fugla, að þeir fái flogið ofar jörðu í opinni hvelfingu himins.

21 Og guðirnir höfðu vötnin til reiðu, svo að þau gæfu af sér stórhveli og allar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin skyldu vera kvik af, hverja eftir sinni tegund. Og hvern fleygan fugl eftir sinni tegund. Og guðirnir sáu að þeim var hlýtt og að áætlun þeirra var góð.

22 Og guðirnir sögðu: Vér viljum blessa þau og láta þau verða frjósöm og margfaldast og fylla vötn sjávar eða vötnin miklu, og láta fuglana fjölga sér á jörðu.

23 Og svo bar við, að það var frá kvöldi til morguns, sem þeir nefndu nótt. Og svo bar við, að það var frá morgni til kvölds, sem þeir nefndu dag. Og það var hið fimmta sinn.

24 Og guðirnir gjörðu jörðina til reiðu, til að framfleyta lifandi skepnum, hverri eftir sinni tegund, fénaði og skriðkvikindum og dýrum jarðar eftir sinni tegund. Og svo varð, sem þeir höfðu sagt.

25 Og guðirnir skipulögðu jörðina, svo að hún framfleytti dýrunum, hverju eftir sinni tegund og fénaði eftir sinni tegund, og öllu sem skríður á jörðu eftir sinni tegund. Og guðirnir sáu, að þau mundu hlýða.

26 Og guðirnir ráðguðust sín á milli og sögðu: Förum niður og mótum mann í vorri mynd, líkan oss, og vér gefum þeim yfirráð yfir fiskum sjávarins og fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir allri jörðunni, og yfir hverju skriðkvikindi, sem á jörðunni skríður.

27 Og guðirnir fóru niður til að skipuleggja mann í sinni eigin mynd, í mynd guðanna mótuðu þeir hann, karl og konu mótuðu þeir þau.

28 Og guðirnir sögðu: Vér viljum blessa þau. Og guðirnir sögðu: Vér viljum gjöra þau frjósöm, svo að þau margfaldist og uppfylli jörðina og gjöri hana sér undirgefna, og þau drottni yfir fiskum sjávarins og fuglum loftsins og yfir öllu lífi, sem hrærist á jörðu.

29 Og guðirnir sögðu: Sjá, vér munum gefa þeim sérhverja sáðjurt, sem vex á yfirborði allrar jarðarinnar, og sérhvert tré, sem ávöxt ber. Já, ávöxt trésins, sem sæði ber, munum vér gefa þeim. Það sé þeim til fæðu.

30 Og öllum dýrum jarðarinnar og öllum fuglum loftsins og öllu sem skríður á jörðu, sjá, þeim viljum vér gefa líf og einnig viljum vér gefa þeim sérhverja græna jurt til fæðu. Og allt sé þannig skipulagt.

31 Og guðirnir sögðu: Vér munum gjöra allt, sem vér höfum sagt og skipuleggja það, og sjá, það skal vera mjög hlýðið. Og svo bar við, að það var frá kvöldi til morguns, sem þeir nefndu nótt, og svo bar við, að það var frá morgni til kvölds, sem þeir nefndu dag. Og þeir töldu það sjötta sinn.