2010–2019
Komið og gangið til liðs við okkur
Október 2013


Komið og gangið til liðs við okkur

Ef þetta er þrá ykkar, er pláss fyrir ykkur í þessari kirkju, hverjar sem aðstæður ykkar eru, bakgrunnur eða styrkur vitnisburðar ykkar er.

Eitt sinn dreymdi mann að hann væri í stórum sal, þar sem fulltrúar allra trúarbragða heims voru saman komnir. Honum varð ljóst að margt gott og verðugt var að finna í öllum trúarbrögðum.

Hann hitti vingjarnleg hjón sem voru fulltrúar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og spurði þau: „Hvaða kröfur gerið þið til meðlima ykkar?“

Við gerum engar kröfur,“ svöruðu þau. „En Drottinn biður þess að við helgum honum allt.“

Hjónin héldu svo áfram að útskýra kirkjukallanir, heimilis- og heimsóknarkennsluna, trúboðið, vikuleg fjölskyldukvöld, musterisstarfið, velferðar- og hjálparstarfið og kennslustarfið.

„Fær fólkið greitt fyrir allt starfið sem það innir af hendi?“ spurði maðurinn.

„Ó, nei,“ svöruðu hjónin. „Það gefur fúslega af eigin tíma.“

„Svo má nefna,“ sögðu hjónin „að á sex mánaða fresti sækja kirkjumeðlimir okkar eða horfa á ráðstefnu yfir eina helgi í um 10 klukkustundir.“

„Hlusta á ræður í tíu klukkustundir?“ sagði maðurinn undrandi.

„Hvað með vikulega kirkjuþjónustu? Hvað standa þær lengi yfir?“

„Þrjár klukkustundir, alla sunnudaga!“

„Hvað ertu að segja,“ sagði maðurinn. „Gera meðlimir kirkju ykkar í rauninni allt það sem þú hefur talið upp?“

„Það og meira til. Við höfum reyndar ekki nefnt ættfræðistarfið, æskulýðsbúðirnar, trúarráðstefnurnar, ritningarnámið, þjálfunarfundi leiðtoga, æskulýðsstarfið, trúarskóla árla morguns, viðhald kirkjubygginga og svo má auðvitað nefna heilbrigðislögmál Drottins, mánaðarlega föstu til hjálpar hinum fátæku og líka tíundina.“

„Nú á ég erfitt með að skilja,“ sagði maðurinn. Af hverju ætti einhver að vilja ganga í slíka kirkju?“

Hjónin brostu og svöruðu: „Við biðum eftir að þú spyrðir.“

Af hverju ætti einhver að vilja ganga í slíka kirkju?

Á sama tíma og margar kirkjur víða um heim upplifa tilfinnanlega fækkun meðlima, er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu ‒ þótt smá sé í samanburði við margar aðrar kirkjur ‒ ein þeirra kirkna sem vaxa hvað hraðast í heiminum nú á tímum. Í september 2013 var meðlimafjöldi kirkjunnar um allan heim orðinn rúmlega 15 milljónir.

Margar ástæður liggja að baki þessu, en ég bendi á fáeinar.

Kirkja frelsarans

Fyrsta ástæðan er sú að þessi kirkja var endurreist á okkar tímum af Jesú Kristi sjálfum. Hér finnum við valdsumboðið til að starfa í hans nafni ‒ til að skíra til fyrirgefningar synda, til að veita gjöf heilags anda og til að innsigla á jörðu og himni.1

Þau sem ganga í þessa kirkju elska frelsarann, Jesú Krist, og þrá að fylgja honum. Þau fagna í þeirri vitneskju að Guð talar til mannkyns á ný. Þegar þau taka á móti helgiathöfnum prestdæmisins og gera sáttmála við Guð, geta þau fundið mátt hans í lífi sínu.2 Þegar þau fara í hið heilaga musteri, skynja þau návist hans. Þegar þau lesa ritningarnar3 og lifa eftir kenningum spámanna hans, færast þau nær frelsaranum sem þau elska svo heitt.

Virk trú

Önnur ástæðan er sú að kirkjan veitir tækifæri til að láta gott af sér leiða.

Að trúa á Guð er lofsvert, en flestir vilja gera meira en að hlusta á innblásnar ræður eða láta sig dreyma um höfðingjasetur á himni.4 Þau vilja sýna trú sína í verki. Þau vilja bretta upp ermar og helga sig þessum mikla málstað.

Það gerist einmitt þegar þau ganga til liðs við okkur ‒ þeim gefast ótal tækifæri til að nota tíma sinn og hæfileika til góðs og sýna samkennd. Við höfum ekki launaða prestastétt í okkar heimslægu söfnuðum og því sjá meðlimirnir sjálfir um þjónustustörfin. Þeir eru kallaðir með innblæstri. Stundum gefum við sjálfboðavinnu og stundum þiggjum við sjálfboðavinnu. Við lítum ekki á verkefni sem byrði, heldur sem tækifæri til að uppfylla þá sáttmála, sem við fúslega gerum, um að þjóna Guði og börnum hans.

Dýrmætar blessanir

Þriðja ástæðan fyrir því að fólk gengur í kirkjuna er sú, að þegar það fetar veg lærisveinsins hlýtur það dýrmætar blessanir.

Við lítum á skírnina sem upphafsreit ferðar okkar sem lærisveina. Dagleg ganga okkar með Jesú Kristi veitir okkur frið og tilgang í þessu lífi og innilega gleði og eilíft líf í komandi heimi.

Þeir sem fylgja þessum vegi trúfastlega munu forðast margskonar gryfjur, sorgir og eftirsjár þessa lífs.

Hinir fátæku í anda og heiðarlegu í hjarta munu finna dýrmæta þekkingu í þessu.

Þeir sem þjást eða syrgja munu finna hér lækningu.

Þeir sem bera syndabyrðar munu finna fyrirgefningu, frelsi og hvíld.

Fyrir þá sem farið hafa frá

Leitin að sannleikanum hefur leitt milljónir í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. En þeir eru líka til sem fara frá kirkjunni sem eitt sinn var þeim kær.

Menn geta spurt: „Af hverju fara menn frá úr því að fagnaðarerindið er svo dásamlegt?

Stundum höldum við að það sé vegna þess að fólk hefur móðgast, er latt eða syndugt. Reyndar er þetta ekki svo einfalt. Í raun er engin ein ástæða sem á við um fjölda aðstæðna.

Sumir okkar kæru meðlima glíma í mörg ár við það hvort þeir ættu að hverfa frá kirkjunni.

Í þessari kirkju, sem virðir sjálfræðið svo mikils, það sjálfræði sem endurreist var af ungum manni er leitaði svara við spurningum sínum, virðum við þá sem einlæglega leita sannleikans. Það kann að leggjast þungt á hjarta okkar þegar ferð þeirra leiðir þá burtu frá kirkjunni sem við elskum og sannleikanum sem við höfum fundið, en við virðum rétt þeirra til að tilbiðja almáttugan Guð, samkvæmt eigin samvisku, á sama hátt og við krefjumst þeirra réttinda fyrir okkur sjálf.5

Ósvaraðar spurningar

Sumir glíma við ósvaraðar spurningar um það sem gert var eða sagt áður fyrr. Við viðurkennum af hreinskilni að í nærri 200 ára sögu kirkjunnar ‒ sem býr óslitið að innblásnum, virðingarverðum og trúarmótandi viðburðum ‒ hefur ýmislegt verið sagt og gert sem getur hafa vakið upp efasemdir í huga fólks.

Stundum koma upp vafaatriði, því við höfum einfaldlega enn ekki allar upplýsingar og þæðum að okkur yrði sýnd örlítið meiri biðlund. Þegar allur sannleikurinn verður loks kunnur, mun ljósi varpað á það sem áður var óskiljanlegt, okkur til ánægju.

Stundum er ágreiningur um hvað í „staðreyndum“ felst. Spurning sem vekur efasemdir hjá sumum getur, eftir vandlega athugun, verið trúarstyrkjandi fyrir aðra.

Mistök ófullkominna manna

Í fullkominni hreinskilni, þá hefur meðlimum eða leiðtogum kirkjunnar stundum einfaldlega orðið á. Ýmislegt kann að hafa verið sagt og gert sem ekki samræmist gildum okkar, reglum eða kenningu.

Ég býst við því að kirkjan geti því aðeins verið fullkominn, að henni sé stjórnað af fullkomnum verum. Guð er fullkominn og kenning hans er hrein. En hann vinnur í gegnum okkur ‒ ófullkomin börn sín ‒ og ófullkomið fólk gerir mistök.

Í Mormónsbók lesum við: „En séu gallar hér á, þá eru þeir mistök manna. Dæmið því ekki það, sem Guðs er, svo að þér verðið flekklaus fundin við dómstól Krists.“6

Þannig hefur það ætíð verið og mun verða þar til hinn fullkomna dag, er Kristur sjálfur ríkir persónulega á jörðu.

Það er miður að sumir hafa hrasað vegna mistaka sem menn hafa gert. En þrátt fyrir það hefur eilífur sannleikur hins endurreista fagnaðarerindis, sem Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu byggir á, hvorki spillst, rýrnað, né tortímst.

Sem postuli Drottins Jesú Krists og sem sá er frá fyrstu hendi hefur verið vitni að stjórnun og starfsháttum kirkjunnar, ber ég hátíðlega vitni um, að engin mikilvæg ákvörðun sem áhrif hefur á þessa kirkju eða meðlimi hennar, er tekin án þess að leita af einlægni innblásturs, leiðsagnar og samþykkis himnesks föður. Þetta er kirkja Jesú Krists. Guð mun ekki leyfa að kirkja hans villist frá sinni ákveðnu stefnu eða bregðist í guðlegu hlutverki sínu.

Það er pláss fyrir ykkur

Við ykkur, kæru vinir, sem hafið aðskilið ykkur frá kirkjunni, segi ég að enn er pláss fyrir ykkur hér.

Komið og leggið okkur lið með hæfileika ykkar, gjafir og vinnusemi. Fyrir vikið munum við öll verða betri.

Sumir gætu spurt: „En hvað með efasemdir mínar?“

Það er eðlilegt að hafa spurningar ‒ frækorn einlægrar athugunar vex oft og verður að stóru eikartré skilnings. Þeir eru fáir meðlimir kirkjunnar sem ekki hafa í einn eða annan tíma glímt við viðkvæmar og mikilvægar spurningar. Einn tilgangur kirkjunnar er að hlú að og næra sáðkorn trúar ‒ jafnvel stundum í hrjóstrugum jarðvegi efasemda og óvissu. Trúin er fullvissa um það, sem menn vona og ekki er auðið að sjá.7

Ég bið ykkur því, kæru bræður og systur ‒ mínir kæru vinir ‒ að efa efasemdir ykkar áður en þið efið trú ykkar.8 Við megum aldrei láta efann halda okkur í gíslingu frá guðlegum kærleika, friði og hinum dýrmætu gjöfum sem hlotnast fyrir trú á Drottin Jesú Krist.

Sumir kunna að segja:: „Ég bara finn mig ekki meðal ykkar fólksins í kirkjunni.

Ef þið fengjuð séð inn í hjörtu okkar, mynduð þið sennilega komast að því að þið eigið meira heima þar en þið haldið. Ykkur gæti undrað að komast að því að þrár okkar, erfiðleikar og vonir eru líkar ykkar. Bakgrunnur ykkar eða uppeldi kann að vera ólíkt því sem þið skynjið í fari margra Síðari daga heilagra, en það getur verið blessun. Bræður og systur, kæru vinir, við þörfnumst ykkar einstöku hæfileika og skilnings. Fjölbreytileiki fólks og einstaklinga hvarvetna um heim er styrkur þessarar kirkju.

Sumir kunna að segja: „Ég held ég gæti ekki lifað eftir reglum ykkar.

Því meiri ástæða til að koma! Kirkjan er skipulögð til að næra hina ófullkomnu, þá sem heyja baráttu og eru þreyttir. Hún er yfirfull af fólki sem þráir af öllu hjarta að halda boðorðin, jafnvel þótt það hafi enn ekki fyllilega náð tökum á því.

Sumir kunna að segja: „Ég þekki meðlim kirkjunnar og hann er hræsnari. Ég gæti aldrei gengið í kirkju sem hefur einhvern meðlim eins og hann.

Ef þið skilgreinið hræsnara sem þann er ekki tekst að lifa fullkomlega eftir því sem hann trúir, erum við öll hræsnarar. Ekkert okkar er jafn kristilegt og við vitum að okkur ber að vera. En við reynum einlæglega að sigrast á annmörkum okkar og tilhneigingu til að syndga. Af öllu hjarta og sál þráum við að verða betri með hjálp friðþægingar Jesú Krists.

Ef þetta er þrá ykkar, er pláss fyrir ykkur í þessari kirkju, hverjar sem aðstæður ykkar eru eða styrkur vitnisburðar ykkar er. Komið og gangið til liðs við okkur!

Komið og gangið til liðs við okkur!

Þrátt fyrir mannlega bresti okkar, er ég viss um að þið munuð finna sumar bestu sálir heimsins meðal meðlima þessarar kirkju. Kirkja Jesú Krists virðist laða til sín hina góðviljuðu og umhyggjusömu, hina heiðarlegu og vinnusömu.

Ef þið væntið að finna fullkomið fólk hér, verðið þið fyrir vonbrigðum. En ef þið leitið hinnar hreinu kenningar Krists, orðs Guðs sem „læknar hrjáða sál,“9 og hreinsandi áhrifa heilags anda, þá munuð þið finna það hér. Á tíma dvínandi trúar ‒ á tíma þar sem svo mörgum finnst faðmur himins fjarri ‒ munuð þið finna fólk hér sem þráir að þekkja og nálgast frelsara sinn með því að þjóna Guði og samferðafólki sínu, rétt eins og þið gerið. Komið og gangið til liðs við okkur!

Ætlið þér að fara líka?

Ég minnist þess tíma í lífi frelsarans er margir yfirgáfu hann.10 Jesús spurði hina tólf lærisveina sína:

„Ætlið þér að fara líka?

Símon Pétur svaraði honum: Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“11

Stundum þurfum við að svara þessari sömu spurningu. Ætlum við að fara líka? Eða munum við öllu heldur, líkt og Pétur, halda okkur fast að orðum eilífs lífs?

Ef þið leitið sannleika, tilgangs og leið til að breyta trú ykkar í verk; ef þið leitið staðar sem þið viljið tilheyra: Komið og gangið til liðs við okkur!

Ef þið hafið yfirgefið trúna sem eitt sinn var ykkar: Komið aftur til okkar. Gangið til liðs við okkur!

Ef þið freistist til að gefast upp: Staldrið þá örlítið við. Það er pláss fyrir ykkur hér.

Ég sárbið alla þá sem heyra eða lesa þessi orð: Komið og gangið til liðs við okkur. Komið og fylgið kalli hins ljúfa Krists. Takið upp kross ykkar og fylgið honum.12

Komið og gangið til liðs við okkur! Hér munuð þið finna það sem ekki verður metið til fjár.

Ég ber vitni um að hér munuð þið finna orð eilífs lífs, fyrirheitið um sæla endurlausn og veginn til friðar og hamingju.

Ég bið þess einlæglega að leit ykkar að sannleikanum muni vekja þrá í hjarta, þrá eftir að koma og ganga til liðs við okkur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.