2010–2019
Hið smáa og einfalda
Október 2013


Hið smáa og einfalda

Við skulum ná til annarra með trú og kærleika.

Ástkæru bræður og systur, fyrir fáeinum vikum var ég í trúboðsskólanum í Mexíkóborg að miðla boðskap til trúboðanna. Eiginkona mín og ég vorum mætt nokkrum klukkutímum of snemma. Þegar við skoðuðum fallegu garðana og velhirtu göturnar við trúboðsskólann, þá fór ekki framhjá okkur sú hamingja sem geislaði af andlitum hundruða ungra öldunga og systra, öll einbeitt í því að læra nýtt tungumál og læra betur tilgang sinn sem trúboðar.

Ég staldraði við þessa stórfenglegu sjón og mér komu í hug orð Alma til sonar síns, Helamans, er hann bað hann að skrá sögu fólks síns, sem hluta af þeim heimildum sem honum hafði verið treyst fyrir, og halda þeim helgum, svo þær gætu dag einn borist til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða.

Síðan sagði Alma við hann:

„Nú kannt þú að álíta þetta fávisku mína, en sjá, ég segi þér, að fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika. Og oft gjörir hið smáa hina vitru ráðþrota.

Og Drottinn Guð hefur sínar aðferðir við að koma til leiðar sínum miklu og eilífu áformum. Með hinu örsmáa gjörir hann hina vitru ráðþrota og kemur til leiðar hjálpræði margra sálna“ (Alma 37:6–7).

Sakleysi og ungdómur trúboða okkar er dæmigerður fyrir hátt Drottins; að þeir sem eru auðmjúkir megi „bjóða öðrum að koma til Krists með því að hjálpa þeim að meðtaka hið endurreista fagnaðarerindi fyrir trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og með því að standast allt til enda.“ (Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu [2004], 1).

Við sem þegnar kirkjunnar getum, á okkar smáa og einfalda hátt, „sannfært marga um villu síns vegar“ og aðstoðað við að færa þá til „[þekkingar] á Guði sínum, þeim til sáluhjálpar“ (Alma 37:8).

Eitt sinn fór ég með stikuforseta og biskupi að heimsækja lítt virkan kirkjuþegn. Við kenndum honum, á einfaldan hátt, um blessanir hvíldardagsins. Við tjáðum honum einlægan kærleika okkar. Hann sagði: „Það eina sem ég þurfti var að fá einhvern í heimsókn sem gæfi mér abrazo‟ eða faðmlag. Ég stóð þegar upp og faðmaði hann að mér. Daginn eftir var sunnudagur. Þessi sami bróðir mætti á sakramentissamkomu með allri fjölskyldu sinni.

Þegar eiginkona mín og félagi hennar voru eitt sinn að heimsóknarkenna Mörtu, meðlim deildar okkar, sagði hún þeim að koma aldrei aftur. Hún hafði ákveðið að hætta að sækja kirkju. Önnur þeirra spurði Mörtu hvort þær mættu syngja sálm saman í síðasta sinn og hún samþykkti. Þegar þær sungu saman gerðist eitthvað sérstakt. Smám saman tók andinn að fylla herbergið. Þær fundu það allar. Hjarta Mörtu tók að mildast. Hún tjáði heimsóknarkennurum sínum tilfinningar sínar með augun full af tárum. Á því andartaki gerði hún sér ljóst að fagnaðarerindið væri sannleikur. Hún þakkaði heimsóknarkennurum sínum fyrir heimsóknina og bað þær að koma aftur í heimsókn. Hún tók glöð á móti þeim frá og með þeim degi.

Marta hóf að sækja kirkjusamkomur með ungri dóttur sinni. Í mörg ár sóttu þær kirkju reglulega og Marta missti aldrei vonina um að eiginmaður hennar myndi að lokum velja að koma með þeim. Að lokum rann upp sá dagur, þegar Drottinn snerti hjarta hans og hann hóf að sækja kirkjusamkomur með þeim og stuttu síður bættist hin dóttirin í hópinn. Þessi fjölskylda fann hina sönnu gleði sem stafar af því að njóta blessana fagnaðarerindisins á heimilinu. Marta hefur síðan þjónað trúfastlega sem Líknarfélagsforseti okkar og eiginmaður hennar hefur þjónað í mörgum köllunum í stikunni. Allt þetta hófst á því að sálmur var sunginn, smár og einfaldur hlutur, sem snerti hjarta Mörtu.

Naaman var hershöfðingi í her konungs Sýrlands, heiðvirður maður, bjó yfir mikilli hreysti en var einnig með líkþrá (sjá 2 Kon 5:1). Naaman fór til heimkynna Elísa spámanns, eftir að hafa árangurslaust leitað að lækningu við líkþránni hjá konungi Ísraels. Elísa sendi mann til hans sem sagði:

„Far og lauga þig sjö sinnum í ánni Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða.

Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti:, Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt.‘ …

Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu:, Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, myndir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: Lauga þig og munt þú hreinn verða?‘

Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn“ (2 Kon 5:10–11, 13–14).

Spámaður okkar, Thomas S. Monson forseti, hefur boðið okkur öllum að taka til hendinni við að bjarga bræðrum okkar og systrum. Hann sagði: „Heimurinn þarf á ykkar hjálp að halda. Það eru fætur sem styrkja þarf, hendur sem grípa þarf, hugir sem hvetja þarf, hjörtu sem innblása þarf og sálir sem frelsa þarf. Blessanir eilífðarinnar bíða ykkar“ („To the Rescue,” Ensign, maí 2001, 48; eða Líahóna, júlí 2001, 57).

Ég vitna um að mörg af þeim sem þurfa á okkar hjálp að halda bíða okkar. Þau bíða tilbúin eftir að fræknir bræður og systur nái til þeirra og bjargi þeim með hinum smáu og einföldu leiðum. Ég hef persónulega varið mörgum klukkustundum í að heimsækja lítt virka kirkjuþegna, hverra hjörtu höfðu þá þegar mildast af Drottni, sem voru tilbúnir að meðtaka vitnisburði okkar og einlægan kærleika okkar. Þegar við teygjum okkur til þeirra og bjóðum þeim, þá munu þeir koma aftur í kirkju án þess að hika.

Við skulum ná til annarra með trú og kærleika. Munum eftir loforði Drottins:

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“ (K&S 18:15–16).

Ég ber vitni um kærleika Drottins til allra sinna barna. Ég veit að hann lifir og að hann er lausnari okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.