Harmkvæli Jeremía: Varist ánauð
Áskorun okkar er að forðast hvers kyns ánauð, að hjálpa Drottni að safna saman hans kjörnu og fórna í þágu upprennandi kynslóðar.
Snemma á hjónabandsárum okkar, ákváðum við Mary að velja athafnir og viðburði sem við færum saman á, að svo miklu leyti sem það væri hægt. Við vildum líka fara sparlega með ráðstöfunarfé okkar. Mary hefur unun af tónlist og hafði án efa áhyggjur af því að ég leggði of mikla áherslu á íþróttaviðburði, svo hún samdi um að af öllum þeim viðburðum sem greiða þurfti fyrir, yrðu tveir tónlistarviðburðir, óperur eða menningarviðburðir, á móti einum íþróttaviðburði.
Í upphafi var ég mótfallinn óperunni í þessari samsetningu, en með tímanum breyttist viðhorf mitt. Einkum tók ég að hafa gaman af óperum eftir Giuseppe Verdi.1 Í þessari viku eru 200 ár liðin frá fæðingu hans.
Á æskuárum sínum hafði Verdi mikinn áhuga á spámanninum Jeremía, og árið 1842, er hann var 28 ára gamall, hlaut hann frægð fyrir óperuna Nabucco, stytt ítölsk útgáfa af nafni Nebúkadnesar, konungs Babýlonar. Ópera þessi er byggð á efni úr Harmkvælunum í Bók Jeremía og Sálmunum í Gamla testamentinu. Óperan fjallar um baráttuna um Jersúsalem og þrælkun og ánauð Gyðinga. Sálmur 137 innblés Verdi fyrir hið hjartnæma lag „Söngur hebresku þrælanna“ (Fangakórinn). Fyrirsögn þessa sálms í ritningum okkar er afar átakanlegt: „Gyðingarnir grétu við Babýlons fljót ‒ því sorg þeirra var slík að þeir fengu ei afborið að syngja Síonarkvæðin.“
Ætlun mín er að fjalla um hinar ýmsu tegundir ánauðar og undirokunar. Ég mun gera samanburð á ýmsum aðstæðum okkar tíma og á tíma Jeremía, fyrir hrun Jerúsalem. Um leið og ég hef upp þessa viðvörunarraust mína, er ég þakklátur fyrir að flestir kirkjumeðlimir forðast af réttsýni þá breytni sem misbauð Drottni svo á tíma Jeremía.
Spádómar og harmkvæli Jeremía eru Síðari daga heilögum mikilvæg. Jeremía og Jerúsalem á hans tíma eru bakgrunnur að fyrstu kapítölunum í Mormónsbók. Jeremía var samtímamaður spámannsins Lehís.2 Drottinn upplýsti Jeremía um forvígslu hans: „Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!“3
Lehí hafði annarskonar köllun og ætlunarverk frá Drottni. Hann var ekki kallaður á æskuárum sínum, heldur á fullorðinsárum. Í upphafi var Lehí fólkinu aðvörunarraust, en eftir að hafa kunngjört sama boðskapinn og Jeremía gerði, bauð Drottinn honum að fara með fjölskyldu sína út í óbyggðirnar.4 Með því að gera svo, varð Lehí ekki aðeins fjölskyldu sinni til blessunar, heldur öllu fólki.
Á árunum fyrir eyðingu Jerúsalem5 var boðskapurinn áleitinn sem Drottinn fól Jeremía að kunngjöra. Hann sagði:
„Mín þjóð hefir látið vegsemd sína fyrir það, sem ekki getur hjálpað. ...
… Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna ... með sprungum, sem ekki halda vatni.“6
Drottinn ræddi sorgmæddur um hörmungarnar sem kæmu yfir íbúa Jerúsalem: „Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en [þau hafa] eigi hlotið hjálp.“7
Guð ætlaði körlum og konum að hafa frelsi til að velja á milli góðs og ills. Þegar slæmir valkostir verða yfirgnæfandi í menningu eða samfélagi, verða afleiðingarnar alvarlegar bæði í þessu lífi og komandi lífi. Fólk getur ekki aðeins orðið undirokað eða kallað yfir sig ánauð með skaðlegum og ánetjandi efnum, heldur líka með skaðlegri lífsspeki, sem dregur úr réttlátu líferni.
Ef menn hætta að tilbiðja hinn sanna og lifandi Guð og taka að tilbiðja falsguði, líkt og ríkidæmi og frama, og taka að breyta ósiðlega og óréttlátlega, mun það leiða til ánauðar í öllum sínum lævísu myndum. Það felur í sér andlega, líkamlega og vitsmunalega ánauð og leiðir stundum til tortímingar. Jeremía og Lehí kenndu líka að hinir réttlátu verða að hjálpa Drottni að koma ríki hans og kirkju á fót og safna saman hinum dreifða Ísrael.8
Þessi boðskapur hefur endurhljómað og verið undirstrikaður í gegnum aldir á öllum ráðstöfunartímum. Hann er kjarni hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists í þessari lokaráðstöfun.
Ánauð Gyðinga og tvístrun ættkvísla Ísarels, þar með talið ættkvíslanna tíu, eru alþekktir kenningarlegir þættir í hinu endurreista fagnaðarerindi. Hinar tíu týndu ættkvíslir mynduðu Ísraelsríki í norðri og voru leiddar í ánauð til Assyríu árið 721 f.Kr. Þær fóru til landanna í norðri.9 Tíunda trúaratriðið staðhæfir: „Vér höfum trú á hinni raunverulegu samansöfnun Ísraels og endurreisn hinna tíu kynkvísla.“10 Við trúum líka að hluti sáttmálans sem Drottinn gerði við Abraham felist í því að allir menn á jörðu yrðu blessaðir, en ekki aðeins ættkvísl Abrahams. Líkt og öldungur Russell M. Nelson hefur sagt, þá „snýst samansöfnunin ekki um líkamlega staðsetningu. Hún snýst um persónulega skuldbindingu. Hægt er að leiða fólk ‚til þekkingar á Drottni‘ [3 Ne 20:13] án þess að það yfirgefi heimalönd sín.“11
Kenning okkar er skýr: „Drottinn tvístraði og hrjáði hinar tólf ættkvíslir Ísraels vegna óréttlætis þeirra og mótþróa. En um leið lét Drottinn þessa tvístrun sinnar kjörnu þjóðar meðal þjóða heimsins verða þeim þjóðum til blessunar.“12
Við lærum dýrmætar lexíur af þessu hörmungartímabili. Við ættum að gera allt sem í okkar valdi er til að forðast synd og mótþróa sem leiða til ánauðar.13 Við ættum líka að gera okkur grein fyrir því að réttlátt líferni er forsenda þess að geta aðstoðað Drottin við að safna hans kjörnu í bókstaflegri samansöfnun Ísraels.
Ánauð, undirokun, ánetjun og þrælkun er til í ýmsum myndum. Þetta getur verið bókstafleg líkamleg ánauð, en líka skerðing á siðferðisþreki sem kemur í veg fyrir framþróun okkar. Jeremía kveður skýrt á um það að ranglæti sé megin orsök tortímingar Jerúsalem og ánauðarinnar í Babýlon.14
Ýmis önnur ánauð er jafn skaðleg mannssálinni. Hægt er að misbjóða eigin siðferðilegu sjálfræði á marga vegu.15 Ég ætla að benda á fernt sem einkum er skaðlegt í menningu okkar tíma.
Í fyrsta lagi er það ánetjun sem skaðar eigið sjálfræði, stangast á við siðferðiskenningar og stuðlar að heilsuleysi, sökum ánauðar. Eiturlyf og áfengi, ósiðsemi, klám, fjárhættuspil, skuldsetning og annað böl, hafa slík áhrif á þá sem eru í slíkri ánauð og samfélagið almennt, að næstum ómögulegt er að gera sér grein fyrir hinni miklu skaðsemi.
Í öðru lagi getur ánetjun, eða það sem við höfum mikið dálæti á og er ekki endilega eðlislega illt, tekið frá okkur allan okkar dýrmæta tíma, sem við að öðrum kosti gætum helgað dyggðugum viðfangsefnum. Slíkt getur verið óhófleg notkun félagsmiðla, tölvuleikja, þáttaka í íþróttum og skemmtunum og mörgu öðru.16
Hvernig við verjum tíma okkar í þágu fjölskyldunnar er eitt mikilvægasta málefni menningarþjóða. Á þeim tíma sem ég var eini meðlimur kirkjunnar á lögfræðistofu okkar, útskýrði kona ein sem var lögfræðingur fyrir mér hvernig henni fyndist hún vera líkt og sirkuskona, sem reyndi stöðugt að halda þremur boltum á lofti samtímis. Einn blotinn var lögfræðistarfið, annar hjónabandið og sá þriðji börnin hennar. Hún hafði næstum hætt að hugsa um sjálfa sig. Hún hafði miklar áhyggjur af því að einn boltinn væri næstum alltaf á gólfinu. Ég lagði til að við kæmum saman sem hópur til að ræða forgang okkar. Niðurstaðan var sú að meginástæðan fyrir starfi okkar væri að sjá fyrir fjölskyldu okkar. Við vorum sammála um að aukin innkoma væri ekki nærri jafn mikilvæg og fjölskylda okkar, en viðurkenndum þó að mikilvægt væri að þjóna viðskiptavinum okkar eftir bestu getu. Umræðan beindist næst að því ónauðsynlega sem við tókum okkur fyrir hendur í vinnunni og rændi okkur tíma frá fjölskyldunni. Var þrýst á okkur að verja ónauðsynlegum tíma á vinnustaðnum?17 Við ákváðum að markmið okkar skyldi vera fjölskylduvænt umhverfi fyrir bæði karla og konur. Við skulum hafa að forgangi að verja tíma með fjölskyldunni.
Í þriðja lagi er algengasta ánauð okkar tíma, líkt og verið hefur um aldir, hugmyndafræði eða stjórnmálaskoðanir sem eru í andstöðu við fagnaðarerindi Jesú Krists. Geri menn slíkri hugmyndafræði hærra undir höfði en sannleika fagnaðarerindisins, mun það leiða okkur frá hinum einfalda boðskap frelsarans. Þegar Páll postuli heimsótti Aþenu, reyndi hann að fræða fólkið um upprisu Jesú Krists. Um þá viðleitni lesum við í Postulasögunni: „En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.“18 Þegar fjöldanum varð ljós hinn einfaldi trúarlegi boðskapur Páls, sem var ekki nýr af nálinni, var honum hafnað.
Þetta er táknrænt fyrir okkar tíma, þar sem sannleika fagnaðarerindisins er oft hafnað eða hann brenglaður, til að gera hann vitsmunalegri eða samræma hann betur ríkjandi menningarstraumum og hugmyndafræði. Ef við förum ekki varlega, geta slíkir straumar náð til okkar og fangað okkur í vitsmunalega ánauð. Margar raddir eru nú uppi sem segja konum hvernig þeim beri að haga lífi sínu.19 Oft eru þær í andstöðu við hver aðra. Einkum eru þeir hugmyndafræðingar áhyggjuefni sem draga úr virðingu fyrir og gera lítið úr þeim konum sem kjósa að færa nauðsynlegar fórnir til að vera mæður, kennarar, uppalendur eða vinir barnanna.
Fyrir nokkrum mánuðum, komu tvö yngstu barnabörn okkar í heimsókn til okkar ‒ sín hvora helgina. Ég var heima og fór til dyra. Eiginkona mín, Mary, var í öðru herbergi. Í báðum tilvikum, eftir faðmlag, sögðu þær næstum hið sama. Þær lituðust um og sögðu síðan: „Ég elska að vera í húsinu hennar ömmu. Hvar er amma?“ Ég hugsaði með mér án þess að segja það við þær: „Er þetta ekki húsið hans afa líka?“ En mér varð ljóst að þegar ég var drengur fór fjölskylda mín til hússins hennar ömmu. Texti vinsæls söngs kom í huga minn: „Yfir læk og skóg við förum, heim til ömmu góðu.“
Ég segi umbúðalaust að ég er í sjöunda himni yfir þeim tækifærum sem konur hafa til menntunar og annars. Ég met mikils þá staðreynd, að stritið og baslið sem af konum var krafist, hefur minnkað til muna í heiminum, sökum nútíma þæginda, sem og met ég hið stórkostlega framlag þeirra á öllum verksviðum. En ef við leyfum að hið sérstaka samband barns við móður og ömmu, og aðra sem ala þau upp, minnki í menningu okkar, mun að því koma að við sjáum eftir því.
Í fjórða lagi getur það leytt til ánauðar að vanhelga trúarreglur sem einlæglega hafa verið haldnar. Einna óréttmætast er þegar hinir réttlátu sem finna til ábyrgðar gagnvart Guði fyrir eigin breytni, eru neyddir til að breyta þvert á eigin samvisku ‒ dæmi um það er þegar heilsugæslufólk er neytt til að velja milli þess að aðstoða við fóstureyðingar, gegn eigin samvisku, og þess að missa vinnuna.
Kirkjan er tiltölulega lítill minnihlutahópur, jafnvel þótt hún tæki höndum saman við fólk sömu skoðunar. Erfitt mun reynast að breyta heilu samfélagi, en við verðum að vinna að því að bæta hið menningarlega siðferði umhverfis okkur. Síðari daga heilagir í öllum löndum ættu að vera góðir borgarar, einkum í samfélagsmálum, afla sér fræðslu um málefnin og nýta kostningarrétt sinn.
Megin áhersla okkar ætti þó ætíð að snúast um að færa allar nauðsynlegar fórnir til að vernda eigin fjölskyldu og upprennandi kynslóð.20 Mikill meirihluti hennar hefur enn ekki fallið í ánauð alvarlegrar ánetjunar eða falskrar hugmyndafræði. Við verðum að gefa henni mótefni gegn heimi sem að miklu leyti er orðinn líkt og Jerúsalem sem Lehí og Jeremía upplifðu. Við þurfum auk þess að búa hana undir að gera og halda helga sáttmála og að verða aðalerindrekar Drottins til aðstoðar við að byggja upp kirkju hans og safna saman hinum dreifða Ísrael og hinum kjörnu Drottins hvarvetna.21 Líkt og fagurlega er ritað í Kenningu og sáttmálum: „Og svo ber við, að hinum réttlátu verður safnað frá öllum þjóðum og þeir koma til Síonar, syngjandi söngva hinnar ævarandi gleði.“22
Áskorun okkar er að forðast hvers kyns ánauð, að hjálpa Drottni við að safna saman hans kjörnu og fórna í þágu upprennandi kynslóðar. Við verðum ætíð að muna að við frelsum okkur ekki sjálf. Við erum leyst úr ánauð fyrir elsku, náð og friðþægingarfórn frelsarans. Þegar fjölskylda Lehís flúði, var hún leidd með ljósi Drottins. Ef við erum trúföst ljósi hans, höldum boðorð hans og reiðum okkur á verðleika hans, munum við komast hjá andlegri, líkamlegri og huglægri ánauð, sem og þeim harmkvælum að reika um okkar eigin óbyggðir, því hans er mátturinn til að frelsa.
Við skulum forðast örvæntinguna og sorgina sem af því hlýst að falla í ánauð og fá ekki lengur sungið söngva Síonar. Í nafni Jesú Krists, amen.