„Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig“
Faðir okkar á himnum …, veit að við lærum og þroskumst og verðum sterkari við að takast á við og standast raunir sem á vegi okkar verða.
Í dagbók mína í kvöld mun ég rita: „Þetta hefur verið einn innblásnasti ráðstefnuhluti allra sem ég hef áður sótt. Allt hefur verið stórkostlegt og sérlega andlegt.“
Bræður og systur, er við komum saman á aðalráðstefnu fyrir sex mánuðum, lá mín ástkæra eiginkona, Frances, á sjúkrahúsi, eftir að hafa fallið skyndilega niður aðeins nokkrum dögum áður. Í maí, eftir að hafa af hugrekki í nokkrar vikur reynt að sigrast á meini sínu, hvarf hún inn í eilífðina. Mikill missir hefur verið að henni. Við giftumst í Salt Lake musterinu 7. október 1948. Á morgun hefði orðið okkar 65 ára giftingarafmæli. Hún var ástin í lífi mínu, trúnaðarvinur minn og nánasti vinur. Að segja að ég sakni hennar, nægir engan veginn til að lýsa tilfinningum mínum.
Á þessari ráðstefnu eru 50 ár liðin frá því að ég var kallaður í Tólfpostulasveitina af David O. McKay forseta. Öll þessi ár gat ég ætíð reitt mig algjörlega á fullan stuðning míns ljúfa félaga. Óteljandi eru þær fórnir sem hún færði, svo að ég gæti uppfyllt köllun mína. Aldrei heyrði ég falla styggðaryrði af vörum hennar, þótt oft væri af mér krafist að vera dögum saman og stundum vikum saman fjarri henni og börnum okkar. Hún var vissulega engill.
Ég vil tjá þakklæti mitt, sem og fjölskyldu minnar, fyrir þann mikla kærleika sem okkur hefur verið sýndur eftir andlát Frances. Hundruð korta og bréfa bárust hvarvetna að úr heiminum, sem tjáðu aðdáun á henni og samúðarkveðjur til fjölskyldu okkar. Okkur bárust tugir fallegra blómaskreytinga. Við erum þakklát fyrir þær mörgu gjafir sem gefnar hafa verið í Almennan trúboðssjóð kirkjunnar í hennar nafni. Fyrir hönd okkar sem hún skilur eftir, tjái ég innilegt þakklæti fyrir ykkar ljúfu og hjartnæmu orð.
Á þessum sára aðskilnaðartíma hefur vitnisburður minn um fagnaðarerindi Jesú Krists veitt mér mestu huggunina, og vitneskjan um að mín kæra Frances lifir áfram. Ég veit að aðskilnaður okkar er tímabundinn. Við vorum innsigluð í húsi Guðs, af þeim sem hefur vald til að binda á jörðu og á himni. Ég veit að við munum sameinast dag einn og aldrei verða aðskilin upp frá því. Þetta er sú vitneskja sem ég styð mig við.
Bræður og systur, öruggt má fullyrða að enginn maður hafi algjörlega verið laus við þrengingar og þjáningar og öll tímabil mannkynssögunnar hafa fengið sinn skerf af eymd og volæði.
Þegar lífið verður harðneskjulegt, hneigjumst við til að segja: „Af hverju ég?‟ Stundum virðist ekkert ljós við enda ganganna og engin dögun sem hrekur burtu næturmyrkrið. Vonbrigði brostinna drauma og örvænting vonleysis virðast umlykja okkur. Við tökum saman undir hið biblíulega ákall: „Eru þá engin smyrsl í Gíleað?“1 Okkur finnst við yfirgefin, vonsvikin, alein. Við hneigjumst til að horfa á persónulegt ólán okkar í gegnum brenglað sjóngler svartsýninnar. Við verðum langeygð eftir lausn við vanda okkar, og gleymum því að oft er gerð krafa um þolinmæði, hina himnesku dyggð.
Á vegi okkar verða erfiðleikar sem raunverulega láta reyna á þolgæðismörk okkar. Sérhvert okkar þarf að svara þessari mikilvægu spurningu: Á ég að stranda eða standast? Sumir stranda, því þeim finnst þeir ekki fá risið undir eigin erfiðleikum. Að standast felur í sér staðfestu allt til æviloka.
Þegar við íhugum það sem á vegi okkar allra getur orðið, getum við sagt með Job hinum forna: „Maðurinn fæðist til mæðu.“2 Job var maður „ráðvandur og ... guðhræddur og grandvar.“3 Job varð, sökum guðrækni sinnar og velgengni, að takast á við prófraun sem flestum hefði reynst ofraun. Sviptur eigum sínum og vinum, kvalinn og þjáður, harmþrunginn yfir missi barna sinna, var hann hvattur til að „[formælta] Guði og ... deyja!“4 Hann stóðst þessa freistingu og sagði einlæglega af göfgi sálar sinnar:
„En sjá, á himnum er vottur minn og vitni mitt á hæðum.“5
„Ég veit, að lausnari minn lifir.“6
Job hélt trú sinni. Munum við gera það líka, er við stöndum frammi fyrir erfiðleikum okkar?
Alltaf þegar okkur finnst við vera að sligast undan byrði lífsins, skulum við hafa í huga að aðrir hafa þolað það sama og sigrað.
Saga kirkjunnar, í þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna, er þakin reynslu þeirra sem hafa þurft að berjast og samt verið staðfastir og vongóðir. Ástæðan? Þeir hafa gert fagnaðarerindi Jesú Krists að þungamiðju lífs síns. Þetta er það sem mun hjálpa okkur í gegnum hvaðeina sem á vegi okkar verður. Við munum áfram upplifa erfiðar raunir, en við munum geta staðið frammi fyrir þeim, tekist á við þær, haldið áfram og sigrað.
Okkur verður lyft mót himni, af beði sársauka og tára, með þessari guðlegu fullvissu og dýrmæta fyrirheiti: „Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“7 Huggun þessi er ómetanleg.
Á ferðum mínum vítt og breytt um heiminn, við að uppfylla ábyrgð mína og köllun, hefur mér lærst heilmargt ‒ og ekki hvað síðst að sorg og særindi eru heimslæg. Ég fæ ekki mælt þá hryggð og það hugarangur sem ég hef orðið vitni að, er ég hef vitjað þeirra sem glíma við sorgir, sjúkdóma, hjónaskilnað, villuráfandi son eða dóttur eða afleiðingar syndar. Listinn yrði afar langur, því ótal erfiðleikar geta orðið á vegi okkar. Erfitt er að taka út eitt dæmi, en þegar mér verður hugsað til erfiðleika, verður mér samt ætíð hugsað til bróður Brems, eins af sunnudagaskólakennurum mínum í bernsku. Hann var trúfastur meðlimur kirkjunnar, maður með gullhjarta. Hann og eiginkona hans, Sadie, áttu átta börn, og mörg þeirra voru á sama aldri og börnin okkar hjóna.
Eftir að við Frances giftumst og fluttum úr deildinni, hittum við bróður og systur Brems og börnin þeirra við giftingar og jarðarfarir, sem og á mótum í deildinni.
Árið 1968 missti bróðir Brems eiginkonu sína, Sadie. Tvö af átta börnum hans dóu líka, er árin liðu.
Dag einn, fyrir nærri 13 árum, hringdi elsta barnabarn bróður Brems í mig. Hún sagði afa sinn hafa náð að lifa 105. afmælisdag sinn. Hún sagði: „Hann býr í lítilli þjónustumiðstöð og öll fjölskylda hans kemur til hans hvern sunnudag til að hlusta á hann flytja trúarlexíu.“ Hún hélt áfram: „Síðasta sunnudag sagði afi við okkur: ‚Elskurnar mínar, ég dey í þessari viku. Getið þið hringt í Tommy Monson fyrir mig. Hann veit hvað gera þarf.‛‟
Ég heimsótti bróður Brems strax næsta kvöld. Ég hafði ekki séð hann um hríð. Ég gat ekki talað við hann, því hann hafði misst heyrnina. Ég gat ekki skrifað skilaboð fyrir hann til að lesa, því hann hafði misst sjónina. Mér var sagt að fjölskylda hans ætti samskipti við hann með því að rita með fingri hægri handar hans í lófa vinstri handar hans nafn þess sem í heimsókn væri. Öll samskipti urðu að fara þannig fram. Ég fór eftir þessu, tók fingur hans og stafaði „T-O-M-M-Y M-O-N-S-O-N,“ sama nafnið og hann hafði ætíð þekkt mig með. Bróðir Brems varð uppnuminn, tók hendur mínar og lagði á höfuð sér. Ég vissi að hann vildi fá prestdæmisblessun. Bílstjórinn sem hafði ekið mér kom mér til hjálpar og við lögðum hendur á höfuð bróður Brems og veittum honum hans þráðu blessun. Á eftir streymdu tárin úr blindum augum hans. Hann tók um hendur okkar af þakklæti. Þótt hann hefði ekki heyrt blessunina sem við veittum honum, var andinn sterkur, og ég trúi að honum hafi verið blásið í brjóst að hann hefði hlotið þá blessun sem hann þurfti. Þessi ljúfi maður hafði misst sjónina. Hann hafði misst heyrnina. Daga og nætur bjó hann í þessu litla herbergi í þjónustumiðstöð. En samt brosti hann og orðin sem hann mælti snertu hjarta mitt. „Þakka þér fyrir,“ sagði hann. „Himneskur faðir hefur verið mér svo góður.“
Innan viku, rétt eins og bróðir Brems hafði sagt, var hann látinn. Aldrei dvaldi hann við það sem hann skorti; hann var öllu heldur innilega þakklátur fyrir hinar mörgu blessanir sínar.
Faðir okkar á himnum, sem gefur okkur svo margt til að gleðjast yfir, veit líka að við lærum og þroskumst og styrkjumst við að takast á við og standast raunir sem á vegi okkar verða. Við vitum að stundum þurfum við að takast á við átakanlegar sorgir og láta reyna á okkur til hins ýtrasta. Slíkir erfiðleikar gera okkur hins vegar kleift að breytast til hins betra, að færa líf okkar í þann farveg sem himneskur faðir kennir okkur að gera, og verða öðruvísi en við vorum ‒ betri en við vorum, skilningsríkari, samúðarfyllri og með sterkari vitnisburð en við áður höfðum.
Það ætti að vera takmark okkar ‒ að standast og gefast ekki upp, já, og líka að verða andlega fágaðri, er við tökumst á við skin og skúrir. Við myndum í raun staðna að mestu, ef við hefðum ekki erfiðleika til að sigrast á og vandamál til að leysa, og ekki ná að þroskast að neinu ráði í átt að markmiði okkar, eilífu lífi. Skáldið tjáði þessa hugsun að mestu með þessum orðum:
Góður viður vex ei fyrirhafnarlaust.
Sterkur vindur skapar öflugt tré.
Hátt það vex, sé rýmið vítt og breitt.
Stormar miklir stöðugt styrkinn efla.
Sólin, snjórinn, kuldinn og regnið,
allt stuðlar það að vexti trjáa og líka manna.8
Aðeins meistari okkar þekkir víddir rauna okkar, sársauka og þjáninga. Hann einn býður okkur eilífan frið á tíma andstreymis. Hann einn snertir okkar hrjáðu sálir með þessum huggunarorðum:
„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.
Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.
Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.‟9
Hann er með okkur bæði á okkar bestu og okkar verstu stundum. Hann hefur lofað að það muni aldrei breytast.
Bræður mínir og systur, megi skuldbinding okkar við himneskan föður ekki fjara út og flæða í burtu með árunum eða þrengingum lífsins. Við ættum ekki að þurfa að upplifa erfiðleika til að leita til hans, og við ættum ekki að vera neydd til auðmýktar áður en við trúum á og setjum traust okkar á hann.
Megum við kappkosta að vera nálægt föður okkar á himnum. Við verðum að biðja til hans dag hvern til að gera það. Við þörfnumst hans sannlega hverja stund, hvort sem það er í skini eða skúrum. Megi loforð hans verða okkar einkunnarorð: „Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“10
Af öllum styrk sálar minnar, ber ég vitni um að Guð lifir og elskar okkur, að hans eingetni sonur lifði og dó fyrir okkur, og að fagnaðarerindi Jesú Krists er það skæra ljós sem skín í gegnum myrkur lífsins. Ég bið þess að svo megi ætíð verða, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.