2021
Himneskur faðir vill fá okkur aftur til sín
Júlí 2021


Himneskur faðir vill fá okkur aftur til sín

Þið eruð líklega lengra á leið komin aftur til himnesks föður ykkar, en ykkur er ljóst.

Ljósmynd
man walking in light

Foreldrar mínir, Aparecido og Mercedes Soares, áttu sér alltaf þann draum að þjóna í trúboði. Þau vildu endurgjalda Drottni hinar mörgu blessanir sem fjölskylda þeirra hafði hlotið frá því að þau gengu í kirkjuna. Tækifærið barst þeim 1989, þegar þau þáðu boð um að þjóna í São Paulo musterinu í Brasilíu.

Faðir minn fékk þó hjartaáfall og andaðist aðeins nokkrum mánuðum eftir að trúboð þeirra hófst. Í jarðarför hans tók ég utan um móður mína þar sem við stóðum við hlið kistu föður míns.

„Mamma, hvað liggur næst fyrir hjá þér?“ spurði ég.

„Faðir þinn og ég áttum okkur draum um þetta trúboð,“ svaraði hún. „Ég er að þjóna núna og ég mun halda áfram að þjóna – fyrir hann og fyrir mig.“

Gæskuríkur musterisforseti fól annarri ekkju að þjóna sem félaga móður minnar og móðir mín hélt áfram trúboði sínu í yfir 20 mánuði. Trúboðið hennar blessaði hana og trú hennar og fordæmi blessaði mig og fjölskyldu mína.

Í trúboði hennar létust líka tveir bræðra minna og ég og eiginkona mín misstum tvö börn. Hið fyrra fæddist ófullburða og lifði það ekki af og hið síðara misstum við vegna fósturláts. Á þessum erfiða tíma fyrir fjölskyldu okkar, var móðir mín þarna í musterinu á hverjum degi og styrkti trú sína – og styrkti okkur – í áætlun sáluhjálpar.

Trú hennar á dýrðlegan endurfund við föður minn og fyrirheit um eilíft líf í návist himnesks föður okkar hélt henni við efnið í 29 ár sem ekkju, allt þar til hún lést 94 ára gömul.

Sæluáætlunin

Hve blessuð við erum sem Síðari daga heilagir að vita að fagnaðarerindið hefur verið endurreist. Sáluhjálparáætlunin er sannlega „[hin mikla] sæluáætlun“ (Alma 42:8). Hún lofar hinum einlægu og trúföstu eilífri umbun í návist Guðs.

Eins og greint er frá í Kenningu og sáttmálum, þá munu næstum öll börn himnesks föður fara í dýrðarríki. Fyrir friðþægingu frelsarans, verða þeir sem koma fram „til upprisu hinna réttvísu“ (Kenning og sáttmálar 76:17) gerðir fullkomnir og munu erfa himneska dýrð.

Flestir meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu meðtaka þessa kenningu. Því miður þá trúa sumir því að hún eigi ekki við um þá persónulega. Þeir gera mistök. Andleg framþróun þeirra er hæg þó hún sé stöðug. Þeir velta fyrir sér hvort þeir verði nokkurn tíma nógu góðir fyrir himneska ríkið.

Ef ykkur finnst þið tilheyra þeim hópi, minnist þá orða Drottins til annars hóps trúaðra: „Lyftið höfðum yðar og látið huggast, því að mér er kunnugt um sáttmálann, sem þér hafið gjört við mig“ (Mósía 24:13).

Guð elskar okkur og vill að við komum öll aftur í návist hans. Þið eruð líklega lengra á leið komin aftur til himnesks föður ykkar, en ykkur er ljóst.

„Réttvísir og sannir“

Ljósmynd
woman resting her head in her hands

Í Kenningu og sáttmálum 76 opinberar Drottinn hvernig börn hans geta erft himneska ríkið. Ef þið eruð meðlimir kirkjunnar og eigið vitnisburð, hafið þið þegar hafið ferðina, eins og lýst er í Kenningu og sáttmálum:

  • Við verðum að veita „vitnisburðinum um Jesú viðtöku“ og trúa „á nafn hans“ (vers 51).

  • Við verðum að láta skírast með niðurdýfingu (vers 51).

  • Við verðum að „[meðtaka] hinn heilaga anda með handayfirlagningu“ þess sem hefur prestdæmisvald (vers 52).

Hin skrefin eru þó ævilöng viðleitni og sumir meðlimir munu missa móðinn þegar þeim verður á. Við erum öll að vinna að þessum skilyrðum. Þökk sé friðþægingu Jesú Krists að við getum öll áorkað þeim:

  • Halda boðorðin og „laugast og hreinsast af öllum syndum [okkar]“ (vers 52).

  • „Sigra fyrir trú“ (vers 53).

  • Verða „[innsigluð] heilögum anda fyrirheitsins“ (vers 53), sem er að heilagur andi „vitnar fyrir föðurnum að helgiathafnir til sáluhjálpar hafi verið rétt framkvæmdar og að sáttmálar þeim viðvíkjandi hafi verið haldnir.“1 Faðirinn lofar þessari innsiglun fyrir „alla þá, sem eru réttvísir og sannir“ (vers 53).

Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) sagði „réttvísir og sannir“ vera „viðeigandi lýsing á þeim sem væru hugdjarfir í vitnisburði sínum um Jesú. Þeir eru hugdjarfir í því að verja sannleikann og réttlætið. Þetta eru meðlimir kirkjunnar sem efla kallanir sínar í kirkjunni (sjá K&S 84:33), greiða tíund og fórnir, eru siðferðilega hreinir, styðja kirkjuleiðtoga sína í orði og verki, halda hvíldardaginn heilagan og halda öll boðorð Guðs.“2

Að hljóta æðstu dýrðargráðu hins himneska ríkis, sem oft er skírskotað til sem upphafningu, er bundið einu lokaskilyrði. Við verðum að „ganga inn í … hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála“ (Kenning og sáttmálar 131:2), sem framkvæmdur er í musterinu með réttmætu prestdæmisvaldi. Samkvæmt hinni miskunnsömu áætlun föður okkar, vitum við að himneskar blessanir verða gerðar þeim tiltækar í næsta lífi sem ekki höfðu tækifæri til að taka á móti musterishelgiathöfn innsiglunar í þessu lífi, ef þeir standast trúfastir allt til enda.

Í Mormónsbók lærum við að öll börn Guðs sem halda boðorð hans og eru trúföst, hverjar sem lífsins aðstæður þeirra eru, munu blessuð og „tekið [verður] á móti þeim á himni, og [þau] fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu“ (Mósía 2:41). Það er alltaf von fyrir okkur í hinni miskunnsömu og kærleiksríku sáluhjálparáætlun himnesks föður okkar.

Blessanir iðrunar

Ljósmynd
man praying

Ljósmynd frá Hyun Lee

Okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, hefur kennt: „Drottinn væntir ekki fullkomnunar af okkur á þessu stigi okkar eilífu framþróunar. Hann væntir þess þó að við verðum stöðugt hreinni. Dagleg iðrun er vegur hreinleikans og hreinleika fylgir kraftur.“3

Nelson forseti sagði líka að „með því að gera örlítið betur og verða örlítið betri dag hvern,“ munum við upplifa „styrkjandi mátt.“4 Þegar við notum þann styrkjandi mátt gegn hinum náttúrlega manni (sjá Mósía 3:19), munum við komast lengra á veginum til okkar himneska föður.

Þar sem ekkert óhreint fær dvalið í návist Guðs (sjá HDP Móse 6:57), þá vinnum við daglega af einlægni í hinni andlegu endurnýjun okkar – hugsunum okkar, þrám okkar og breytni okkar. Við keppum að því, líkt og Páll postuli segir, að verða ný sköpun í Kristi, segjum smám saman skilið við hið gamla og tileinkum okkur hið nýja (sjá 2. Korintubréf 5:17). Þessi breyting á sér stað setning á setning ofan, er við reynum dag hvern að bæta okkur.

Að fylgja frelsaranum með því að reyna að líkjast honum, er sjálfsafneitunarferli, að við tökum upp kross okkar, eins og hann hefur skilgreint það (sjá Matteus 16:24–26). Við tökum upp kross okkar þegar við:

  • Höfum stjórn á þrám okkar, löngunum og ástríðum.

  • „[Öxlum] allt, sem Drottni þóknast á [okkur] að leggja“ af þolinmæði (Mósía 3:19).

  • „[Höfnum] öllu óguðlegu“ (sjá Moróní 10:32).

  • Beygjum okkur undir vilja föðurins, líkt og frelsarinn gerði.

Hvað gerum við svo þegar við hrösum? Við snúum okkur til föður okkar og biðjum hann að „[beita] friðþægingarblóði Krists, [svo] að [við] megum hljóta fyrirgefningu synda [okkar]“ (Mósía 4:2). Við reynum aftur að sigrast á veikleikum og segja skilið við synd. Við biðjum um náð, „styrkjandi mátt og andlega lækningu“ Jesú Krists.5 Við tökum upp kross okkar og höldum ferð okkar áfram, hversu löng og ströng sem hún er, til fyrirheitna lands návistar þeirra.

Treysta á fyrirheit hans

Ódauðlegt og eilíft líf er verk og dýrð Guðs (sjá HDP Móse 1:39). Verk okkar til að hljóta þá dýrð felur í sér hugrekki í vitnisburði okkar meðan við erum á jörðunni.

Í sýn sá spámaðurinn Joseph Smith að hinir trúföstu „munu sigra alla hluti“ (Kenning og sáttmálar 76:60). Hann sagði síðar: „Öll hásæti, herradómar, tignir og völd skulu opinberuð verða og veitast öllum þeim, sem hugdjarfir hafa staðið stöðugir í fagnaðarerindi Jesú Krists“ (Kenning og sáttmálar 121:29).

Við reiðum okkur á þessi fyrirheit og gefumst ekki upp á sjálfum okkur, ástvinum okkar eða öðrum börnum Guðs. Við reynum að gera okkar besta og hjálpum öðrum að gera hið sama. Á eigin spýtur mun ekkert okkar verða nægilega hæft til að frelsast í himneska ríkið, en „fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar“ (2. Nefí 2:8) verður sú blessun innan seilingar.

Ég ber vitni um, að ef við höldum trúföst áfram, munum við erfa „óendanlega sælu“ í návist föðurins og sonarins. „Ó, munið og hafið hugfast, að þetta er sannleikur, því að Drottinn Guð hefur talað það“ (Mósía 2:41).

Heimildir

  1. Leiðarvísir að ritningunum, „Heilagur andi fyrirheitsins,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp.

  2. Ezra Taft Benson, „Valiant in the Testimony of Jesus,“ Ensign, feb. 1987, 2.

  3. Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  4. Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  5. „Grace,“ Gospel Topics, topics.ChurchofJesusChrist.org.

Prenta