2021
Þegar efi sækir að, hafið þá dyr trúar opnar
Júlí 2021


Ungt fullorðið fólk

Þegar efi sækir að, hafið þá opnar dyr

Þótt við efumst stundum um andlegar upplifanir okkar, þá getur fullvissan veist að nýju.

woman standing before open door

Hvort sem við erum alin upp í kirkjunni eða snerumst síðar til trúar í lífinu, þá hafa mörg okkar líklega upplifað stundir efasemda. Við höfum kannski upplifað margt andlega dásamlegt en veltum nú fyrir okkur: Voru þessar andlegu upplifanir raunverulegar eða var tilfinning andans bara ímyndun? Hvað ef ekkert af þessu er satt? Hvað með spurningar mínar sem enn hefur ekki verið svarað? Hvernig get ég verið í kirkjunni, ef ég er ekki lengur viss um að það sé satt?

Það kom mér á óvart að þessar spurningar skildu vakna eftir að ég hafði þjónað í trúboði! Ég hafði þekkt sannleikann af slíkri sannfæringu að ég vildi fara til að boða hann öðrum í eitt og hálft ár – og nú efaðist ég um allt sem ég hafði þekkt og kennt. Hvílík sóun það hefði verið ef ekkert af þessu væri satt. Svo var það satt, allt sem ég hafði kennt? Hafði ég kannski bara viljað að það væri satt? Eftir að hafa séð vini yfirgefa kirkjuna og meðan ég háði eigin trúarbaráttu, velti ég fyrir mér hvort ég hefði blekkt sjálfa mig.

Á þessum tíma hætti ég ekki að fara í kirkju eða halda boðorðin, því ég hafði afar mikilvægar spurningar. Þar sem ég hafði spurningar, þá reyndi ég þess í stað að fylgja leiðsögn Russells M. Nelson forseta um að „auka andlega hæfni [mína].“1

Ég vissi að „ekkert [væri] áhrifaríkara við að ljúka upp gáttum himins eins og samspilandi þættir aukins hreinleika, algjörrar hlýðni, einlægrar leitar, daglegrar endurnæringar á orðum Krists í Mormónsbók og reglubundins tíma sem helgaður er musterisverki og ættarsögu.“2 Mér fannst mikilvægt að vera nálægt Guði. Þegar öllu er á botninn hvolft, var hann sá eini sem gæti svarað spurningum mínum.

Saga Eunice

Dag einn þegar ég var að lesa Saints [Heilagir]: Saga Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, rakst ég á merkilega sögu um konu frá fyrri tíma endurreisnarinnar. Eunice Franklin virtist hafa sömu spurningar og áhyggjur og ég hafði.

Eunice var skírð í New York af trúboða að nafni Elijah Able. Hún hafði sannarlega tekið á móti fagnaðarerindinu við skírn sína. Síðan, eftir að Elijah fór til Kanada til að prédika, tók Eunice að efast um fagnaðarerindið og það sem hún eitt sinn vissi að væri satt. Hún fór að velta fyrir sér hvort Joseph Smith væri raunverulega spámaður og hvort Mormónsbók væri sönn ritning. Henni varð ekki svefnsamt margar nætur og taldi sig hafa verið blekkta.

Drottinn sýndi Elijah baráttu Eunice í draumi og hann fór þegar í stað aftur til New York. Þegar hann bankaði á dyr Eunice varð hún agndofa – hún hafði einsett sér að segja honum að hún tryði ekki lengur þegar hún sæi hann aftur. Þess í stað hleypti hún honum inn. Þegar Elía bauð henni í prédikun sína um kvöldið, hikaði hún og vildi ekki fara. Hún gaf sig þó að lokum og fór til að hlusta á það sem hann hafði að segja.

Í prédikun sinni vitnaði Elijah í 1. Pétursbréf 4:12, sem segir: „Látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu.“ Eldraunin, þar sem reynt var að eyðileggja trú Eunice, varð ekki til árangurs – þegar Eunice heyrði Elijah tala, hurfu efasemdir hennar um leið. Í Saints [Heilagir] segir svo frá: „Hún fann þá sömu fullvissu að nýju sem hún áður hafði.“3

Fullvissa veitist aftur

Ég var slegin yfir reynslu Eunice og hef velt henni aftur og aftur fyrir mér. Rétt eins og Eunice, þá lærði ég af einföldum og máttugum orðum Elijah. Við ættum „[eigi að láta okkur undra]“ að hafa spurningar um trú okkar. Það er í fínu lagi. Þótt svo hafi eitt sinn virst að sannleika hafi verið úthellt af himni, þá geta stundir andlegrar þurrðar síðar komið upp. Við gætum velt því fyrir okkur hvort við höfum einhvern tíma fundið fyrir regninu. Þótt engin svör eða staðfestingar berist enn, þá getum við beðist fyrir um regn opinberunar. Við getum leitað vitnis til að vita að það sem var satt í gær er enn satt í dag. Öldungur Jeffrey R. Holland í Tólfpostulasveitinni kenndi: „Ef það var rétt þegar þið báðust fyrir um það og reidduð ykkur á það og lifðuð eftir því, þá er það rétt núna. … Takist á við efasemdir. Sigrist á óttanum.“4

Með því að opna dyrnar fyrir trúboðsvini sínum aftur, jafnvel þegar hún velti fyrir sér hvers vegna hún ætti að gera það, þá opnaði Eunice hjarta sitt á ný. Drottinn gat aftur náð til Eunice og hjálpað henni að finna fullvissu um allt það sem hún eitt sinn vissi. Á svipaðan hátt getum við öll látið dyr trúar vera opnar, jafnvel þegar við glímum við efasemdir. Við getum haldið áfram að gera það sem er rétt og leitað opinberunar – jafnvel þegar við erum ekki nákvæmlega viss um hvers vegna við erum að gera það.

Við höldum dyrunum opnum með því að halda áfram að gera litlu hlutina sem Guð hefur sagt vera góða fyrir sál okkar. Við höldum hvíldardaginn heilagan og förum á samkomur okkar. Við lesum ritningarnar, jafnvel þó að það sé stundum aðeins eitt vers í hvert sinn. Við hlustum á sálm eða ráðstefnuræðu. Við tölum við himneskan föður um áhyggjur okkar og vonir og biðjum hann að hjálpa okkur að þekkja sannleikann. Við höldum boðorðin, iðrumst og leitum eftir samfélagi heilags anda.

Ef við getum ekki haft meira en löngun til að trúa, getum við samt haldið áfram að gera litlu hlutina og viðhaldið lönguninni hið innra. Við getum tekið frá rúm í hjarta okkar til að aukin trú fái þar vaxið. (Sjá Alma 32:27.)

Það sem ég veit

man standing before open door

Þótt ég hafi stundum efast, reikað og hörfað, þá hefur mér lærst og endurlærst að þetta er kirkja Krists. Þótt Joseph Smith hafi verið ófullkominn maður, þá veit ég að hann var innblásinn spámaður Guðs sem fórnaði öllu og gerði sitt besta. Ég veit líka að Mormónsbók er sönn forn heimild og heilög ritning sem varðveitt var bara fyrir okkur á okkar tíma. Himneskur faðir heldur áfram dag hvern að staðfesta mér þessi sannindi. Ég gleðst líka yfir að hann staðfesti Eunice Franklin þessi sannindi.

Ég veit að er við höldum dyrum okkar og hjörtum opnum fyrir sannleikanum, þá mun Guð hjálpa okkur með heilögum anda að skynja hvað er raunverulegt og hvað ekki. Andlegar upplifanir okkar verða óumdeilanlegar á þeirri stundu sem þær gerast. Á hverri stundu eftir það, er við finnum að efasemdir læðast aftur að, getum við minnst þess hvernig okkur leið. Rétt eins og með Eunice, þá getur fullvissa okkar um sannleika fagnaðarerindisins veist aftur.

Við þurfum ekki að lifa í efasemdaþurrð of lengi, ef við einungis reiðum okkur á andlegar upplifanir okkar. Öldungur Neil L. Andersen í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Varðveitið helgar minningar. … Treystið því að þær komi frá föður ykkar á himni og ástkærum syni hans. Leyfið þeim að gefa ykkur þolinmæði vegna efasemda og skilning í erfiðleikum. Ég lofa ykkur að þegar þið sjálfviljug kannist við og gætið vandlega að hinum andlega auðkennandi atburðum lífs ykkar, þá munu fleiri og fleiri eiga sér stað hjá ykkur.“5

Ég veit að fyrir þá sem leggja sig fram við að öðlast nýja andlega reynslu og trúa á Krist er þetta loforð satt: „Þann [mun] aldrei þyrsta, sem á [Krist] trúir“ (Jóhannes 6:35). Svörin sem við þörfnumst munu berast. Við getum komist í gegnum þær eldraunir sem Satan leggur á leið okkar. Við getum líka verið trúföst okkar kærleiksríka Guði alla daga.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

  2. Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf.“

  3. Sjá Saints [Heilagir]: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018), 315–17.

  4. Jeffrey R. Holland, „Cast Not Away Therefore Your Confidence“ (trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 2. mars 1999), 4, speeches.byu.edu.

  5. Neil L. Andersen, „Andlega auðkennandi minningar,“ aðalráðstefna, apríl 2020.