2021
Blessa áa mína
Júlí 2021


Frá Síðari daga heilögum

Blessa áa mína

Þegar ég fékk patríarkablessunina mína, fylltist hjarta mitt elsku til áa minna.

Abigahel Kinic holdidng up chart with family history information

Ljósmynd frá Richard M. Romney

Ég fæddist í Kamerún, landi áa minna. Ég flutti síðan til Frakklands, þar sem ég bjó, lærði og starfaði sem hjúkrunarfræðingur á ýmsum sjúkrahúsum í París. Ég bý nú í Montreal, þar sem ég starfa enn sem hjúkrunarfræðingur.

Ég hafði leitað að hinni sönnu kirkju Jesú Krists um árabil. Þegar ég hitti trúboðana í París vitnaði heilagur andi fyrir mér að ég hafði loks fundið það sem ég var að leita að – Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég fylltist svo mikilli gleði að mér fannst að ég hlyti nú þegar að vera á himnum! Ég var staðráðin í að lifa til fulls eftir fagnaðarerindinu.

Mér var kennt að leita að áum mínum og vinna að helgiathöfnum fyrir þeirra hönd í musterinu. Þegar ég fékk patríarkablessunina mína, var mér sagt að ég myndi verða frelsari á Síonarfjalli og færa fjölskyldu minni hjálpræði. Hjarta mitt fylltist elsku til þeirra; ég gat ekki brugðist þeim. Frá því hef ég unnið sleitulaust við ættarsögu og ættfræði.

Ég hafði alltaf vitað að ég fæddist í konungsfjölskyldu Kamerún, Bamoun-fjölskylduna. Munnmæli og arfsögn segja að þetta fólk hafi komið frá Assýríu og blandast öðru fólki meðan á búferlaflutningunum stóð. Það hafði viðhaldið ættfræði sinni og skrifað sögu sína frá 1300 e.Kr. Skjölin eru í bókasafni konungshallarinnar. Meðal margra annarra sagna, segja þau sögu langafa míns móður megin, Fon-gouhouo, sem ríkti frá 1818 til 1863.

Ég gat snúið aftur til heimalands míns og sem meðlimur í Bamoun-fjölskyldunni fékk ég aðgang að þessum skjölum. Ég heimsótti einnig konunginn, hitti aðra embættismenn og talaði við stjórnvöld um kirkjuna og áhuga hennar á ættarsögu. Þökk sé hinu endurreista fagnaðarerindi að ég get lagt mitt af mörkum við að blessa heimaland mitt og áa mína.