Kom, fylg mér
Kennsla ungra barna


„Kennsla ungra barna,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„Kennsla ungra barna,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Kennsla ungra barna

Ef ung börn eru í fjölskyldu ykkar, má finna hér verkefni sem gætu auðveldað þeim námið:

  • Söngvar. Sálmar og söngvar í Barnasöngbókinni kenna kenningar á áhrifaríkan hátt. Notið Efnislykilinn aftast í Barnasöngbókinni til að finna söngva sem tengjast trúarreglunum sem þið kennið. Hjálpið börnum ykkar að heimfæra boðskap söngvanna upp á eigið líf. Þið gætuð t.d. spurt spurninga tengdum orðum eða orðtökum textanna. Auk þess að syngja, gætu börn ykkar gert hreyfingar sem eiga við um söng eða hlustað á söng á meðan þau gera önnur verkefni.

  • Hlusta á eða leika frásögn. Ung börn hafa unun af sögum – úr ritningunum, lífi ykkar, frá sögu kirkjunnar eða kirkjutímaritum. Leitið leiða til að gera þau virk í frásögninni. Þau gætu haldið á myndum eða hlutum, teiknað myndir af því sem þau heyra, leikið frásögn eða jafnvel hjálpað við að segja söguna. Hjálpið börnum ykkar að skilja hinn trúarlega sannleika sem felst í frásögn ykkar.

  • Lesa ritningarvers. Ung börn gætu hugsanlega ekki lesið mikið, en þið gætuð samt fengið þau til að vera með í ritningarnáminu. Þið gætuð þurft að leggja áherslu á eitt vers, lykilorðtak eða orð. Þau gætu jafnvel lært stutt orðtök utanbókar í ritningunum, ef þau endurtaka þau nokkrum sinnum. Þegar þau hlusta á orð Guðs, munu þau finna fyrir andanum.

  • Horfa á mynd eða myndband. Sýnið börnum ykkar mynd eða myndband sem tengist trúarreglunni eða frásögninni í ritningunum og spyrjið þau spurninga sem auðvelda þeim að læra af því sem þau sjá. Þið gætuð t.d. spurt: „Hvað er að gerast á þessari mynd eða í þessu myndbandi? Hvaða tilfinningar verkur það?“ Smáforritið Gospel Library, medialibrary.ChurchofJesusChrist.org og children.ChurchofJesusChrist.org eru tilvalin til að leita mynda og myndbanda.

  • Skapa. Börn geta byggt, teiknað eða litað eitthvað sem tengist frásögn eða reglum sem þeim er kennt.

  • Taka þátt í sýnikennslu. Einföld sýnikennsla getur hjálpað börnum ykkar að skilja trúarreglu sem erfitt getur verið að skilja. Leitið leiða til að fá börn ykkar til þátttöku þegar þið hafið sýnikennslu. Þau munu læra meira með því að taka sjálf þátt, í stað þess að horfa aðeins á sýnikennslu.

  • Hlutverkaleikur. Þegar börnin leika aðstæður sem líklegt er að þau upplifi í eigin lífi, reynist þeim auðveldar að skilja hvernig trúarregla á við um líf þeirra sjálfra.

  • Endurtekin verkefni. Yngri börnin gætu þurft að heyra hugmyndir ótal sinnum til að skilja þær. Verið ekki hrædd við að endurtaka frásagnir eða verkefni oft. Þið gætuð t.d. sagt sögu úr ritningunum nokkrum sinnum á ýmsa vegu – lesið úr ritningunum, sagt hana með eigin orðum, sýnt myndband, látið börnin hjálpa ykkur að segja söguna, beðið þau að leika söguna o.s.frv.

    Fjölskylda við nám