Kenning og sáttmálar 2021
25.–31. janúar. Kenning og sáttmálar 6–9: „Þetta er andi opinberunar“


„25.–31. janúar. Kenning og sáttmálar 6–9: ,Þetta er andi opinberunar‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„25.–31. janúar. Kenning og sáttmálar 6–9,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ritari skrifar á pappír

25.–31. janúar

Kenning og sáttmálar 6–9

„Þetta er andi opinberunar“

Drottinn opinberar okkur sannleika í hug okkar og hjarta (sjá Kenning og sáttmálar 8:2–3). Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 6–9, skráið þá öll hughrif sem berast.

Skráið hughrif ykkar

Haustið 1828 tók ungur kennari að nafni Oliver Cowdery að sér kennslustaf í Manchester, New York, og dvaldi hjá fjölskyldu Lucy og Joseph Smith eldri. Oliver hafði heyrt sagt frá Joseph, syni þeirra, sem nú átti heima í Harmony, Pennsylvaníu, og Oliver, sem taldi sig vera sannleiksleitanda, vildi vita meira. Smith-hjónin sögðu frá englavitjunum, fornum heimildum og gjöf til að þýða með krafti Guðs. Oliver varð heillaður. Gæti þetta verið satt? Lucy og Joseph eldri veittu honum leiðsögn, sem á við alla sannleiksleitendur, að biðja og spyrja Drottin.

Oliver gerði það og Drottinn svaraði með því að veita honum hugarró og fullvissu. Oliver komst að því að opinberun getur verið persónuleg – nokkuð sem hann átti eftir að læra enn frekar á komandi mánuðum. Opinberun er ekki aðeins fyrir spámenn. Hún veitist öllum sem þrá hana og leita hennar. Oliver vissi ekki allt ennþá, en nógu mikið til að taka næsta skref. Drottinn var að gera eitthvað mikilvægt fyrir milligöngu Josephs og Oliver vildi eiga aðild að því.

Ef þið viljið vita meira um söguna að baki Kenningar og sáttmála 6–9, sjá þá Heilagir, 1:58–64; „Days of Harmony [Tími samlyndis]“ (myndband, ChurchofJesusChrist.org).

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 6; 8–9

Himneskur faðir talar til mín með „anda sannleikans.“

Vorið 1829 ferðaðist Oliver Cowdery til Harmony og bauðst til þess að vera ritari Josephs Smith, við þýðingu Mormónsbókar. Oliver hafði nú góða yfirsýn yfir opinberunarferli þýðingar. Hann heillaðist af þeirri upplifun og velti fyrir sér hvort hann gæti líka verið blessaður með gjöf þýðingar. Drottinn leyfði honum að spreyta sig við þýðinguna, en það var nýtt fyrir Oliver að taka á móti opinberun og tilraun hans gekk ekki vel. Hann átti enn margt ólært og Kenning og sáttmálar 6, 8 og 9 sýna að Drottinn var fús til að kenna honum.

Þegar þið lesið þessa kafla, veitið þá athygli kennslu Drottins um persónulega opinberun. Hvernig tengjast orð hans upplifunum sem þið hafið hlotið – eða þráið að hljóta?

Hvað segir t.d. í Kenningu og sáttmálum 6:5–7; 8:1; 9:7–8 um það sem Drottinn krefst af okkur áður en hann opinberar vilja sinn?

Hvað lærið þið af Kenningu og sáttmálum 6:14–17, 22–24; 8:2–3; 9:7–9 um hvernig opinberun getur borist á ólíka vegu?

Er eitthvað fleira sem þið lærið um opinberun af þessum köflum?

Ef þið viljið læra meira um opinberun, sjá þá Russell M. Nelson, “Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna apríl 2018; Julie B. Beck, „Yfir ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum,“ aðalráðstefna apríl 2010. Ef þið viljið lesa meira um „gjöf Arons,“ sem tilgreind er í kafla 8, sjá þá „Oliver Cowdery’s Gift [Gjöf Olivers Cowdery,“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 15–19.

Kenning og sáttmálar 6:18–21, 29–37

Beinið öllum hugsunum til Krists.

Þótt Joseph hefði þegar orðið fyrir „erfiðleikum“ við að vinna verk Drottins (Kenning og sáttmálar 6:18), þá höfðu hann og Oliver að öllum líkindum enga hugmynd um hve erfiðleikarnir áttu eftir að verða miklir næstu árin. Drottinn vissi það þó og hann veit líka hverjir erfiðleikar ykkar verða á komandi tíð. Leiðsögn hans til Josephs og Olivers í Kenningu og sáttmálum 6:18–21, 29–37 getur líka verið ykkur gagnleg. Hvernig gæti Joseph og Oliver hafa liðið eftir að hafa hlýtt á þessi orð? Hvað finnið þið í þessum versum sem hjálpar ykkur að treysta Drottni? Hvernig getið þið einblínt betur á Krist í lífi ykkar?

Oliver Cowdery

Oliver Cowdery, eftir Lewis A. Ramsey

Kenning og sáttmálar 6–7; 9:3, 7–14

„Hvað sem þér þráið af mér, það mun yður veitast.“

Gætið að því hversu oft orðin „þrá“ eða „þrár“ koma fyrir í kafla 6 og 7. Hvað lærið þið af þessum köflum um þá áherslu sem Guð leggur á þrár ykkar? Spyrjið ykkur spurningar Drottins í Kenningu og sáttmálum 7:1: „Hvað þráir þú?“

Ein af réttlátum þrám Olivers Cowdery – að þýða eins og Joseph Smith gerði – uppfylltist ekki. Hvaða hughrif hljótið þið við lestur Kenningar og sáttmála 9:3, 7–14, sem gæti hjálpað ykkur þegar réttlátar þrár ykkar uppfyllast ekki?

Sjá einnig Kenningu og sáttmála 11:8; Dallin H. Oaks, „Þrá,“ aðalráðstefna apríl 2011.

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 6:7, 13.Hvernig getið þið hjálpað fjölskyldu ykkar að skilja að raunverulegt „ríkidæmi“ finnist í eilífu lífi? (vers 7). Þið gætuð beðið fjölskyldumeðlimi að búa til gervipeninga og skrifa eða teikna á þá sumar þeirra mörgu blessana sem fjölskylda ykkar hefur hlotið vegna hins endurreista fagnaðarerindis.

Kenning og sáttmálar 6:15, 22–23; 8:2–3; 9:7–9.Lestur þessara versa um hvernig Guð talar til barna sinna, gæti verið gullið tækifæri til að segja fjölskyldu ykkar frá því hvernig hann hefur talaði til ykkar.

Kenning og sáttmálar 6:33–37.Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá því hvernig þeir gætu „[komið] góðu til leiðar,“ jafnvel þegar þeir finna til ótta. Það gæti líka verið gagnlegt að horfa á allan eða hluta af boðskap öldungs Ronalds A. Rasband „Verið eigi áhyggjufullir“ (aðalráðstefna október 2018). Hver er merking þess að „[Beina] öllum hugsunum yðar til [Krists]“? (vers 36). Hvaða fleiri fordæmi eru til um fólk sem sneri sér til Drottins til að sigrast á efa og ótta? (sjá t.d. Ester 4; Alma 26:23–31).

Kenning og sáttmálar 8:10.Þetta gæti verið dásamlegt tækifæri til að segja frá því hvernig trú á Jesú Krist hefur styrkt ykkur og fjölskyldu ykkar. Af hverju er mikilvægt að „biðja í trú“? Hvaða blessanir hafið þið séð af því að leita svara eða liðsinnis í trú?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Gjör allt þitt rétt,“ Barnasöngbókin, 80.

Táknmynd radda endurreisnarinnar

Raddir endurreisnarinnar

Þýðing Mormónsbókar

Í apríl 1829, mánuðinum þegar tekið var á móti köflum 6–9 í Kenningu og sáttmálum, var þýðing Mormónsbókar aðalstarf Josephs. Þegar Joseph var síðar spurður að því hvernig heimildir hans hefðu verið þýddar, sagði hann að „það hafi ekki verið ætlunin að segja heiminum öll smáatriði.“1 Oft sagði hann einfaldlega að þær hefðu verið þýddar „með gjöf og krafti Guðs.“2

Við vitum ekki mikið um hið undursamlega þýðingarferli, en vitum þó að Joseph Smith var sjáandi og naut hjálpar verkfæra sem Guð hafði fyrirbúið, tveggja gegnsærra steina sem nefndust Úrim og Túmmin og eins steins sem kallaður var sjáandasteinn.3

Eftirfarandi yfirlýsingar sjónarvotta að þýðingarferlinu styðja vitnisburð Josephs.

Trékistill Hyrums Smith sem geymdi gulltöflurnar

Talið er að þessi kistill, sem var í eigu Hyrums Smith, hafi verið notaður tímabundið til að hylja gulltöflurnar.

Emma Smith

Emma Smith

„Þegar eiginmaður minn var að þýða Mormónsbók, skrifaði ég hluta hennar á meðan hann þuldi upp hverja setningu, orð fyrir orð, og þegar hann kom að viðeigandi nöfnum sem hann gat ekki borið fram, eða löngum orðum, stafaði hann þau fyrir mig og meðan ég skrifaði þau, stoppaði hann mig, ef ég gerði einhver mistök í stafsetningu, og leiðrétti stafsetningu mína, þótt honum væri ómögulegt að sjá hvernig ég skrifaði þau á þeirri stundu. Hann gat jafnvel ekki borið orðið Sarah rétt fram í fyrstu, heldur varð hann að stafa það og ég bar það fram fyrir hann.“4

„Gulltöflurnar lágu oft á borðinu, án þess að reynt væri að hylja þær á nokkurn hátt, vafðar inn í lítinn léreftsdúk, sem ég gaf honum í þeim tilgangi. Eitt sinn þreifaði ég á töflunum, þar sem þær lágu á borðinu, og fann fyrir lögun þeirra og útlínum. Þær virtust þjálar eins og þykkur pappír og í þeim skrjáfaði málmhljóð þegar blaðað var í þeim með þumalfingri, líkt og bók er stundum hraðflett með þumalfingri. …

Ég trúi því Mormónsbók sé af guðlegum uppruna – og efast ekki agnarögn um það. Ég trúi að enginn maður hefði getað þulið upp ritmál handritsins, væri hann ekki innblásinn til þess, því [Joesph] las fyrir mig klukkustund fyrir klukkustund og þegar við komum aftur eftir máltíðir, eða eftir truflanir, tók hann þegar upp þráðinn frá því sem horfið var frá, án þess sjá handritið eða láta lesa fyrir sig einhvern hluta þess. Þetta var honum alvanalegt að gera. Ólíklegt væri að lærður maður hefði getað gert þetta og hreinlega ómögulegt fyrir þann sem var svo fáfróður og ómenntaður sem hann var.“5

Emma Smith hjálpar við þýðinguna

Teikning af Emmu og Joseph Smith, eftir Michael T. Malm

Oliver Cowdery

Oliver Cowdery

„Ég skrifaði alla Mormónsbók með eigin hendi (fyrir utan fáeinar síður) eins og spámaðurinn þuldi hana af munni sínum, er hann þýddi hana með gjöf og krafti Guðs, með verkfærunum Úrím og Túmmím eða hinum helgu útleggjurum, eins og þeir eru kallaðir í bókinni. Með eigin augum sá ég gulltöflurnar, sem bókin var þýdd af, og handfjatlaði þær. Ég sá líka túlkana.“6

Heimildir

  1. Minutes, 25–26 October 1831,“ Minute Book 2, 13, josephsmithpapers.org.

  2. Í „Church History,“ Times and Seasons, 1. mars 1842, 707; sjá einnig Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 441.

  3. Til frekari upplýsingar, þá sjá „Book of Mormon Translation,“ Gospel Topics, topics.ChurchofJesusChrist.org; Richard E. Turley yngri, Robin S. Jensen og Mark Ashurst-McGee, „Joseph the Seer,“ Ensign, okt. 2015, 48–55.

  4. Í Edmund C. Briggs, „A Visit to Nauvoo in 1856,“ Journal of History, bindi 9, nr. 4 (okt. 1916), 454; vitnaði í Russell M. Nelson, „A Treasured Testament,“ Ensign, júlí 1993, 62.

  5. Í „Last Testimony of Sister Emma,“ Saints’ Herald, 1. okt 1879, 290; stafsetning færð í nútímahorf.

  6. Í Reuben Miller journal, 21. okt. 1848, Church History Library, Salt Lake City; stafsetning, greinarmerki og ritun með stórum staf fært í nútímahorf.

Joseph Smith og Oliver Cowdery þýða gulltöflurnar

Joseph Smith og Oliver Cowdery lærðu margt í þýðingarferli gulltaflnanna.