Kenning og sáttmálar 2021
28. desember – 3. janúar. Kenning og sáttmálar 1: „Hlýðið á, ó þér [lýður]“


„28. desember – 3. janúar. Kenning og sáttmálar 1: ,Hlýðið á, ó þér [lýður],‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„28. desember – 3. janúar. Kenning og sáttmálar 1,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
Fjölskylda les ritningarnar

28. desember – 3. janúar

Kenning og sáttmálar 1

„Hlýðið á, ó þér [lýður]“

Hugsið um Kenningu og sáttmála 1 sem persónulega kynningu Drottins á þessari bók með síðari daga opinberunum hans. Hvað vill hann að þið vitið um Kenningu og sáttmála? Ígrundið þessa spurningu og skráið hughrif sem gætu borist er þið lesið kafla 1.

Skráið hughrif ykkar

Í nóvember 1831 var kirkja Jesú Krists einungis eins og hálfs árs gömul. Þótt hún yxi, þá var hún enn einungis lítt þekktur hópur trúaðra sem hafði numið land í útmörk óbyggðar, leiddur af spámanni á miðjum þrítugsaldri. Guð leit þó á þessa trúaða sem þjóna sína og sendiboða og hann vildi að opinberanirnar sem hann hafði gefið þeim yrðu birtar heiminum.

Fyrsti kafli Kenningar og sáttmála er formáli og kynning Drottins á þessu safni opinberana og sýnir glögglega að þótt meðlimir kirkjunnar væru fáir, þá var boðskapurinn sem Guð vildi að hans heilögu miðluðu ekki smár í sniðum. Hann er „aðvörunarraust“ öllum „íbúum jarðar,“ og býður þeim að iðrast og koma á „ævarandi sáttmála“ Guðs (vers 4, 8, 22). Þjónarnir sem færa þennan boðskap „eru hinir veiku og einföldu,“ en Guð þarfnast einmitt auðmjúkra þjóna – þá og nú – til að leiða kirkju sína „fram úr móðu og úr myrkri“ (vers 23, 30).

Frekari upplýsingar um söguna að baki Kenningar og sáttmála 1 má finna í Heilagir, 1:140–43.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 1

Drottinn býður mér að „[kanna] þessi boð.“

Formáli er kynning bókar. Hann undirstrikar efni og tilgang bókarinnar og býr lesandann undir lesturinn. Þegar þið lesið kafla 1 – „formála“ Drottins að Kenningu og sáttmála (vers 6) – gætið þá að efni og tilgangi Drottins með opinberunum sínum. Hvað lærið þið af kafla 1 sem hjálpar ykkur að fá sem mest út úr námi ykkar á Kenningu og sáttmálum? Þið gætuð t.d. ígrundað merkingu þess að „hlýða á rödd Drottins“ í þessum opinberunum (vers 14) eða að „[kanna] þessi boð“ (vers 37).

Sjá einnig formála Kenningar og sáttmála.

Kenning og sáttmálar 1:1–6, 23–24, 37–39

Guð talar fyrir munn þjóna sinna og orð hans munu uppfyllast.

Kafli 1 byrjar og endar á yfirlýsingu Guðs um að hann talar fyrir munn útvaldra þjóna sinna (sjá vers 4–6, 23–24, 38). Skráið það sem þið lærið af þessari opinberun um Drottin og rödd hans. Hvað lærið þið um þjóna Drottins? Hvenær hafið þið heyrt rödd Drottins fyrir munn þjóna hans? (sjá vers 38).

Ljósmynd
aðalráðstefnuhluti

Spámenn og postular kenna okkur boðorð Guðs.

Kenning og sáttmálar 1:3, 24–28, 31–33

Ef ég sýni auðmýkt, getur ögun Drottins knúið mig til iðrunar.

Gætið að því að í versi 3 og versum 24–28 sagði Drottinn að syndir og misgjörðir fólks yrðu opinberaðar. Það er hvort tveggja í senn sársaukafull og lærdómsrík upplifun. Af hverju er þetta tvennt svo ólíkt? Hugleiðið viðbrögð ykkar þegar þið verðið meðvituð um syndir ykkar og veikleika. Hvaða eiginleika má finna í versum 24–28 sem geta hjálpað ykkur að sýna rétt viðbrögð? Hvað lærið þið af þessum versum, sem og af versum 31–33 um það hvernig Drottinn lítur á veikleika ykkar og syndir?

Sjá einnig Orðskviðina 3:11–12; Eter 12:27; Moróní 6:8.

Kenning og sáttmálar 1:12–30, 35–36

Drottinn endurreisti fagnaðarerindi sitt til að auðvelda mér að takast á við síðari daga áskoranir.

Þótt kafli 1 vari við yfirvofandi hörmungum, þá má þar einnig finna hughreystandi boðskap: „Ég, Drottinn, sem þekki þær hörmungar er koma munu yfir íbúa jarðar, [kallaði] þjón minn Joseph Smith yngri og talaði til hans frá himni“ (vers 17).

Gætið að hörmungunum sem Drottinn varaði við (sjá t.d. vers 13–16, 35). Hvaða aðrar hörmungar sjáið þið í heiminum í dag – eða í eigin lífi? Vers 17–30 tilgreina það sem Drottinn hefur gert fyrir ykkur til að búa ykkur undir þessar hörmungar. Hugleiðið að búa til lista yfir það sem þið finnið.

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 1:1–6, 37–39.Þið gætuð hafið umræður um aðvaranir Drottins með því að ræða um aðvaranir sem koma frá öðrum um hættur sem við fáum ekki séð – svo sem hált gólf, ofsaveður eða bílaumferð. Hvað kenna þessi dæmi okkur um aðvaranir Drottins? Hvernig aðvarar Drottinn okkur, samkvæmt Kenningu og sáttmálum 1:1–6, 37–39? Hverjar eru nýlegar aðvaranir hans til okkar? Þið gætuð kannski horft á eða lesið hluta af nýlegum boðskap aðalráðstefnu og fundið dæmi um „aðvörunarraust“ Guðs.

Kenning og sáttmálar 1:16.Hver er merking þess að „tryggja réttlæti [Drottins]“? Hvernig getum við verið viss um að við séum að gera það, en ekki að ganga „eigin leið“?

Kenning og sáttmálar 1:30.Hvað felst í því að segja að kirkjan sé „[sönn] og lifandi“? Þið gætuð kannski sýnt fjölskyldu ykkar mynd af einhverju lifandi og einhverju líflausu, til að vekja hana til umhugsunar um þessa spurningu. Þið gætuð líka rætt um það sem þið getið gert sem fjölskylda til að „leiða [kirkjuna] fram úr móðu og úr myrkri.“

Kenning og sáttmálar 1:37.Hugleiðið sem fjölskylda hvernig þið hyggist „[kanna] þessi boð“ í Kenningu og sáttmálum á þessu ári. Hvernig hyggist þið gera ritningarnám að reglubundinni venju fjölskyldulífs ykkar? Hvaða námshugmyndir gætu hjálpað ykkur að læra ritningarnar? (Sjá „Hugmyndir til að bæta ritningarnám fjölskyldu ykkar” fremst í þessari kennslubók.)

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Fylgið spámanninum,“ Barnasöngbókin, 58, einkum síðasta stefið.

Bæta persónulegt nám

Leitið að Jesú Kristi. Ritningunum er ætlað að vitna um frelsarann og fagnaðarerindi hans. Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 1, hugleiðið þá að merkja eða setja skýringu við vers sem kenna ykkur eitthvað um Jesú Krist.

Ljósmynd
Boðorðabókin

Fyrstu opinberanirnar til hinnar endurreistu kirkju voru teknar saman í Boðorðabókina.

Prenta