Kenning og sáttmálar 2021
22.–28. febrúar. Kenning og sáttmálar 18–19; „Verðmæti sálna er mikið“


„22.–28. febrúar. Kenning og sáttmálar 18–19: ,Verðmæti sálna er mikið,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„22.–28. febrúar. Kenning og sáttmálar 18–19,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Býli Martins Harris

Býli Martins Harris, eftir Al Rounds

22.–28. febrúar

Kenning og sáttmálar 18–19

„Verðmæti sálna er mikið“

Opinberanirnar í Kenningu og sáttmálum voru gefnar við ákveðnar aðstæður fyrir um 200 árum, en reglurnar sem þær kenna eru eilífar. Finnið þessar reglur við lesturinn og ígrundið hvernig þær eiga við ykkur.

Skráið hughrif ykkar

Martin og Lucy Harris áttu eitt besta býlið í Palmyra, New York. Þau höfðu eignast það á mörgum árum, alið þar upp börn sín og áunnið sér gott orð í samfélaginu. Árið 1829 varð þó ljóst að einungis væri mögulegt að gefa úr Mormónsbók, ef Martin skuldsetti býlið sitt til að greiða prentaranum. Martin átti vitnisburð um Mormónsbók, en ekki Lucy. Ef Martin skuldsetti býlið og sala Mormónsbókar yrði dræm, myndi hann missa býlið og stofna hjónabandi sínu í hættu. Á einum eða öðrum tíma, stöndum við öll frammi fyrir álíka áskorunum og Martin gerði: Hversu mikils virði er fagnaðarerindi Jesú Krists mér? Hverju er ég fús til að fórna til að hjálpa við framrás Guðs ríkis? Það gæti verið gagnlegt að við minntumst þess að enginn hefur goldið hærra gjald til að blessa börn Guðs, en Jesús Kristur, „æðstur allra“ (Kenning og sáttmálar 19:18).

Martin tók ákvörðun um að skuldsetja býlið sitt. Sú fórn hans greiddi fyrir prentun fyrstu 5000 eintaka Mormónsbókar. Nú, meira en 190 milljón eintökum síðar, hafa milljónir sálna um heim allan verið blessaðar.

Ef þið viljið vita meira um útgáfu Mormónsbókar, þá sjá Heilagir, 1:76–84.

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 18:10–16

Drottinn gleðst þegar við iðrumst.

Gætið að því hversu oft orðin iðrist og iðrun koma fyrir í Kenningu og sáttmálum 18 og 19 og ígrundið það sem þið lærið af þessum orðum í hvert sinn sem þau koma fyrir. Ígrundið einkum Kenningu og sáttmála 18:10–16. Hvaða tilfinningar vekja þessi vers varðandi iðrun – iðrun ykkar sjálfra og þeirri ábyrgð að hvetja aðra til iðrunar?

Sjá einnig Alma 36:18–21; Dale G. Renlund, „Iðrun: Gleðilegur kostur,“ aðalráðstefna október 2016.

Kenning og sáttmálar 18:34–36

Ég get hlýtt á rödd Drottins í Kenningu og sáttmálum.

Hvert væri svar ykkar, ef þið væruð spurð að því hvernig rödd Drottins væri? Ígrundið þessa spurningu við lestur Kenningar og sáttmála 18:34–36. Hvað hafið þið lært af lestri Kenningar og sáttmála um rödd Drottins? Hvað getið þið gert til að heyra betur rödd hans?

Kenning og sáttmálar 19:15–20

Jesús Kristur þjáðist svo ég gæti iðrast og komið til hans.

Nýja testamentið lýsir þjáningum frelsarans í Getsemane, út frá upplifun þeirra sem með honum voru. Í Kenningu og sáttmálum 19:15–20 sagði Jesús Kristur eigin orðum frá þjáningu sinni. Þegar þið lesið þessa helgu, persónulegu frásögn, gætið þá að orðum og orðtökum sem lýsa þjáningu frelsarans. Ígrundið hvað hvert orð eða orðtak kennir ykkur. Af hverju var frelsarinn fús til að þjást? Hugleiðið að skrá tilfinningar ykkar til Jesú Krists og fórnar hans fyrir ykkur.

Sjá Jóhannes 15:13; Mósía 3:7; Alma 7:11–12; Kenning og sáttmálar 18:10–13.

Jesús heldur á litlum dreng

Verðmæti sálar, eftir Liz Lemon Swindle

Kenning og sáttmálar 19:26–27, 34–41

Blessanir Guðs eru verðmætari en fjársjóðir jarðar.

Mormónsbók seldist ekki vel í Palmyra og Martin neyddist því til að selja stóran hluta af býli sínu til að greiða skuldina (sjá „The Contributions of Martin Harris [Framlag Martins Harris],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 7–8). Íhugið þessa fórn – og blessanirnar sem þið hafið hlotið vegna hennar – við lestur þessara versa. Þið gætuð líka hugsað um það sem Drottinn hefur beðið ykkur um að fórna. Hvað finnið þið í þessum versum sem innblæs ykkur til að færa slíkar fórnir af „gleði“? (sjá einnig vers 15–20).

Kenning og sáttmálar 19:23

Við hljótum frið af því að læra um Jesú Krist og fylgja honum.

Ígrundið boð frelsarans: „Lær af mér.“ Hvað lærið þið um Jesú Krist af Kenningu og sáttmálum 19? Skráið hugsanir ykkar og íhugið hvernig þessi sannleikur um frelsarann hjálpar ykkur að finna frið. Hver er merking þessara orða fyrir ykkur: „Gakk í hógværð anda míns“?

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 18:1–5.Fjölskyldumeðlimir gætu hugsanlega sagt frá hinum „[mörgu tækifærum]“ (vers 2) þegar andinn hefur staðfest þeim sannleiksgildi ritninganna, á sama hátt og hann gerði fyrir Oliver Cowdery. Hvernig getur fjölskylda ykkar lært að „treysta því sem ritað er“ (vers 3) í ritningunum? Hvernig getið þið grundvallað fjölskyldu ykkar á „[bjargi]“ (vers 4) fagnaðarerindisins?

Kenning og sáttmálar 18:10–13; 19:16–19.Hver fjölskyldumeðlimur gæti lesið Kenning og sáttmála 18:10–13 og sett nafn sitt í stað orðanna „sálna,“ „þeirri sál,“ „allra manna“ og „alla menn.“ Þið gætuð síðan rætt hvernig þessi vers hjálpa okkur að skilja hversu verðmæt við erum föðurnum og syninum (sjá Kenning og sáttmálar 19:16–19).

Kenning og sáttmálar 18:21–25.Hafa nöfn fjölskyldumeðlima ykkar sérstaka merkingu? Þið gætuð rætt um ástæðu þess að nöfn eru mikilvæg og hvað í því felst að taka á sig nafn Jesú Krists (sjá Mósía 5:7). Þetta gæti verið gott tækifæri til að hjálpa fjölskyldumeðlimum að búa sig undir að taka á sig nafn Krists þegar þeir skírast.

Kenning og sáttmálar 19:15–20.Þið gætuð kannski lesið þessi vers með fjölskyldu ykkar, til að stuðla að innihaldsríkri upplifun, meðan þið haldið á mynd af Jesú Kristi (mynd fylgir þessum lexíudrögum). Fjölskyldumeðlimir gætu síðan miðlað tilfinningum sínum til frelsarans. Kær sálmur um frelsarann gæti líka laðað að andann.

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Um Jesú ég hugsa,“ Sálmar, nr. 65.

Bæta persónulegt nám

Spyrjið spurninga. Kenning og sáttmálar staðfestir að spurningar leiða til opinberunar. Skráið spurningar sem koma upp í hugann við ritningarnámið. Ígrundið og biðjið síðan til að leita svara.

Kristur biðst fyrir í Getsemanegarðinum

Kristur biðst fyrir í Getsemanegarðinum, eftir Hermann Clementz