„1.–7. mars. Kenning og sáttmálar 20–22: ,Upphaf kirkju Krists‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„1.–7. mars. Kenning og sáttmálar 20–22,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021
1.–7. mars
Kenning og sáttmálar 20–22
„Upphaf kirkju Krists“
Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 20–22, verið þá opin fyrir hughrifum heilags anda. Hugleiðið að skrá þau til síðari notkunar.
Skráið hughrif ykkar
Þýðingarstarfi spámannsins Josephs Smith við Mormónsbók var nú lokið. Verk endurreisnarinnar var þó rétt að hefjast. Auk þess að endurreisa kenningu sína og prestdæmisvaldið, var ljóst af fyrri opinberunum að Drottinn vildi endurreisa formlegt trúfélag – kirkju sína (sjá Kenning og sáttmálar 10:53; 18:5). Því var það svo að 6. apríl 1830 fjölmenntu yfir 40 manns í bjálkahús Whitmer-fjölskyldunnar í Fayette, New York, til að verða vitni að stofnun kirkju Jesú Krists.
Sumir velta því þó fyrir sér: Af hverju er skipulögð kirkja nauðsynleg? Svarið gæti, hið minnsta að hluta, falist í þeim opinberunum sem tengdust þessari fyrstu kirkjusamkomu árið 1830. Þar er sagt frá blessunum sem ekki hefðu verið mögulegar, ef hin sanna kirkja Jesú Krists hefði ekki verið „formlega skipulögð og stofnsett“ á síðari dögum (Kenning og sáttmálar 20:1).
Sjá einnig Heilagir, 1:84–86 og „Build Up My Church [Byggja upp kirkju mína],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 29–32.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er grundvölluð á sannri kenningu.
Kafli 20 er kynntur sem „opinberun um stofnun kirkjunnar og stjórn“ (kaflafyrirsögn). Áður en þessi opinberun útskýrir kirkjureglur, prestdæmisembætti og framvindu framkvæmdar helgiathafna, þá kennir hún grundvallarkenningu. Þegar þið lesið fyrstu 36 vers þessarar opinberunar, spyrjið ykkur þá um ástæðuna þar að baki. Þið gætuð líka búið til lista yfir þann sannleika fagnaðarerindisins sem þið finnið. Hér eru nokkur dæmi:
-
Mormónsbók og hlutverk hennar í endurreisninni (vers 8–12)
-
Eðli Guðs (vers 17–19)
-
Friðþæging Jesú Krists (vers 20–27)
Afhverju var mikilvægt að leggja áherslu á þennan sannleika við stofnun kirkjunnar?
Kenning og sáttmálar 20:37, 75–79
Helgiathafnir eru nauðsynlegur hluti hinnar endurreistu kirkju.
Þegar kirkjan var stofnuð, fræddi Drottinn hina heilögu um helgiathafnir, þar með talið skírn og sakramentið. Þegar þið lesið leiðbeiningarnar „varðandi skírnaraðferðina“ í versi 37, hugsið þá um skírn ykkar sjálfra. Voru tilfinningar ykkar á einhvern hátt í samræmi við lýsinguna í versinu? Eru þessar tilfinningar enn með ykkur? Ígrundið hvað þið getið gert til að vera ætíð „[ákveðin] í að þjóna [Jesú Kristi] allt til enda.“
Þegar þið lesið um sakramentið í Kenningu og sáttmálum 20:75–79, reynið þá að lesa þessi helgu vers eins og þið væruð að heyra þau í fyrsta sinn. Hvaða skilning hljótið þið um sakramentið og um ykkur sjálf? Hvernig gæti þessi skilningur haft áhrif á það hvernig þið búið ykkur undir að meðtaka sakramentið í þessari viku?
Prestdæmisþjónusta blessar kirkjumeðlimi og fjölskyldur þeirra.
Hvað segðuð þið, ef einhver bæði ykkur að nefna skyldur prestdæmishafa? Lesið Kenningu og sáttmála 20:38–60, sem tilgreinir skyldur hinna ýmsu prestdæmisembætta. Er eitthvað í þessum versum sem gæti breytt viðhorfi ykkar til prestdæmisskyldna og þess hvernig frelsarinn framkvæmir verk sitt? Hvernig hafið þið verið blessuð af því verki sem lýst er í þessum versum?
Ef þið viljið læra um það hvernig konur iðka prestdæmið í verki kirkjunnar, sjá þá Dallin H. Oaks, „Lyklar og vald prestdæmisins,“ aðalráðstefna apríl 2014.
Kirkja Jesú Krists nýtur leiðsagnar lifandi spámanns.
Hvað lærið þið af Kenningu og sáttmálum 21:4–9 um orð spámanna Drottins? Ígrundið loforðin sem tilgreind eru í versi 6, til þeirra sem meðtaka orð Drottins fyrir milligöngu spámanns hans. Hvaða merkingu hafa þessi loforð fyrir ykkur?
Hvernig getið þið meðtekið orð hins lifandi spámanns, sem „kæmi það af [Guðs] eigin munni“? (vers 5). Hvaða leiðsögn hefur spámaður okkar tíma veitt sem gæti leitt til hinna lofuðu blessana í versi 6?
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Kenning og sáttmálar 20.Hvað segðum við, ef einhver spyrði okkur afhverju við þurfum kirkjuna? Hvaða svör finnum við í Kenningu og sáttmálum 20? Sjá einnig D. Todd Christofferson, „Hvers vegna kirkjan,“ aðalráðstefna október 2015.
-
Kenning og sáttmálar 20:69.Hver er merking þess að „[ganga] í heilagleika frammi fyrir Drottni“? Fjölskylda ykkar gæti haft gaman af því að teikna eða skrifa á blað eitthvað sem hjálpar þeim að ganga í heilagleika eða eitthvað sem gæti truflað þau frá því. Þau gætu síðan búið til stíg með því að nota blöðin til þess og reyna að ganga stígin með því að stíga aðeins á teikningarnar sem leiða þau til Krists.
-
Kenning og sáttmálar 20:37, 71–74.Ef einhver í fjölskyldu ykkar hefur enn ekki látið skírast, gætu þessi vers leitt til umræðna um undirbúning að skírn (sjá vers 37) og framkvæmd skírnar (sjá vers 71–74). Fjölskyldumeðlimir gætu miðlað myndum eða minningum frá skírnardegi sínum.
-
Kenning og sáttmálar 20:75–79.Hvernig gæti fjölskylda ykkar nýtt sér þessi vers til að búa sig undir innihaldsríka og lotningarfulla sakramentisupplifun? Þið gætuð fundið eitthvað í þessum versum til að ígrunda meðan á sakramentinu stendur eða fjölskyldumeðlimir gætu teiknað myndir að því. Þið gætuð, ef viðeigandi er, tekið þessar myndir með ykkur á næstu sakramentissamkomu, til áminningar um hvað ígrunda ber meðan á sakramentinu stendur.
-
Kenning og sáttmálar 21:4–7.Hugleiðið að biðja fjölskyldumeðlimi að leita orða og orðtaka í versum 4–5 sem hvetja okkur til að fylgja spámanni Drottins. Hver er merking þess að meðtaka orð spámannsins í þolinmæði? í trú? Hvenær höfum við hlotið þær blessanir sem lofaðar eru í versum 6?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Kirkja Jesú Krists,“ Barnasöngbókin, 48.