„8.–14. mars. Kenning og sáttmálar 23–26: ,Styrkja kirkjuna‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„8.–14. mars. Kenning og sáttmálar 23–26,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021
8.–14. mars
Kenning og sáttmálar 23–26
„Styrkja kirkjuna“
Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 23–26 , skráið þá hughrifin sem þið hljótið frá heilögum anda. Hvernig getið þið tileinkað ykkur leiðsögnina í þessari opinberun til að styrkja ykkur sjálf sem lærisveina og einnig kirkjuna?
Skráið hughrif ykkar
Eftir að kirkjan var stofnuð, stóðu hinir heilögu frammi fyrir nýrri áskorun – að útbreiða fagnaðarerindið og styrkja þá sem þegar höfðu sameinast kirkjunni, samhliða stöðugum og auknum ofsóknum. Emma Smith upplifði sjálf andstöðu. Í júní 1830 vildu Emma og meðlimir Knight-fjölskyldunnar láta skírast. Óvinir kirkjunnar reyndu að trufla það sem til stóð að yrði helg upplifun. Fyrst eyðilögðu þeir stífluna sem hafði verið byggð til að vatnið yrði nægilega djúpt fyrir skírnirnar. Ofsóknarmenn komu jafnvel saman til að hrópa hótunum og ókvæðisorðum að þeim sem skírðust, eftir að stíflan hafði verið lagfærð. Loks, í þann mund sem Joseph hugðist staðfesta hina nýju meðlimi, var hann tekinn höndum fyrir að raska ró samfélagsins með prédikun Mormónsbókar. Þetta virtist ekki lofa góðu fyrir hina nýlega endurreistu kirkju Drottins. Mitt í þessu óvissu- og umrótarástandi, veitti Drottinn þó dýrmæt orð leiðsagnar og hvatningar, sem er „rödd [hans] til allra“ (Kenning og sáttmálar 25:16).
Sjá einnig Heilagir, 1:89–90, 94–97.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Ég get hjálpað við að styrkja kirkju Drottins.
Í dag, næstum 200 árum eftir stofnun hinnar endurreistu kirkju, er áfram þörf fyrir að „styrkja kirkjuna“ (Kenning og sáttmálar 23:3–5). Þetta verk er ekki einungis fyrir Joseph Smith og Oliver Cowdery eða núverandi kirkjuleiðtoga okkar – það er fyrir okkur öll. Í öllu ykkar námi á Kenningu og sáttmálum 23–26, ígrundið þá leiðsögnina sem Drottinn veitti kirkjumeðlimum fyrri tíðar, til að hjálpa þeim að styrkja kirkjuna. Hvað finnst ykkur að Drottinn vilji að þið gerið til að taka þátt í þessu verki?
Frelsarinn getur „lyft [mér] upp úr þrengingum [mínum].“
Það hlýtur að hafa reynst Joseph Smith afar þung byrði að leiða kirkjuna á tíma mikilla ofsókna. Leitið að hvatningarorðum Drottins til hans í Kenningu og sáttmálum 24.
Hvað segja eftirtalin vers um það hvernig frelsarinn getur lyft okkur upp úr þrengingum okkar?
Hvernig hefur Jesús Kristur lyft ykkur úr þrengingum ykkar? Hvað getið þið gert til að leita áfram hjálpar hans á erfiðum tímum?
Emma Smith er „kjörin kona.“
Þegar Emma Hale giftist Joseph Smith, vissi hún líklega að hún þyrfti að færa fórnir. Hún fór gegn vilja föður síns og yfirgaf nokkuð þægilegt líf fyrir óvissu. Hún gæti hafa velt fyrir sér hvers Drottinn vænti af henni í verki endurreisnarinnar. Finnið svörin sem Drottinn veitti í Kenningu og sáttmála 25. Gætið að orðum Drottins í versi 16 – finnið þið eitthvað í þessum kafla sem ykkur finnst vera „rödd [hans] til [ykkar]“?
Sjá einnig „An Elect Lady“ (myndband, ChurchofJesusChrist.org); „Thou Art an Elect Lady [Þú ert kjörin kona],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 33–39; Joy D. Jones, „Afar göfug köllun,“ aðalráðstefna, apríl 2020.
Hvað er almenn samþykkt?
Þegar meðlimir taka á móti köllun eða prestdæmisvígslu í kirkjunni, eigum við kost á að styðja þá formlega með því að rétta upp hönd til að sýna stuðning okkar. Sú regla að sýna stuðning og samþykki opinberlega er nefnd almenn samþykkt. Gordon B. Hinckley forseti kenndi: „Stuðningsferlið er mun meira en helgisiður handaruppréttingar. Það er skuldbinding um að heiðra, styðja og aðstoða þá sem hafa verið útvaldir“ („This Work Is Concerned with People,“ Ensign, maí 1995, 51).
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Kenning og sáttmálar 23:6.Afhverju vill Drottinn að við biðjum „meðal fjölskyldu [okkar] og vina [okkar] og á öllum stöðum“? Hvað kennir söngurinn „Kærleikur talar hér“ (Barnasöngbókin, 102) – eða einhver annar söngur – okkur um mátt bænar?
Sjá einnig 2. Nefí 32:8–9; 3. Nefí 18:18–23.
-
Kenning og sáttmálar 24:8.Gæti það verið fjölskyldu ykkar gagnlegt að ræða um merkingu þess að „[vera] þolinmóður í þrengingum“? Ef þið eigið ung börn, gæti verið skemmtilegt að endurtaka tilraunina sem Dieter F. Uchtdorf forseti sagði frá í „Halda áfram af kostgæfni“ (aðalráðstefna apríl 2010; sjá einnig myndband á ChurchofJesusChrist.org). Hvað kennir Kenning og sáttmálar 24:8 okkur um þolinmæði? Hvernig hjálpar Drottinn okkur að vera þolinmóð í þrengingum okkar?
-
Kenning og sáttmálar 25:11–12.Kannski gætuð þið sungið eftirlætis söng eða sálm hvers fjölskyldumeðlims og rætt hvers vegna hann er þeim „[söngur] hjartans.“ Hvernig eru þessir söngvar eins og „bæn til [Guðs]?
-
Kenning og sáttmálar 26:2.Það gæti verið gagnlegt að fletta upp á „Almenn samþykkt“ í Leiðarvísi að ritningunum (churchofjesuschrist.org/study/scriptures?lang=isl). Hvernig sýnum við leiðtogum stuðning okkar?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Syng þig heim,“ Barnasöngbókin, 114; (sjá „Hugmyndir til að bæta ritningarnám fjölskyldu ykkar“).
Raddir endurreisnarinnar
Emma Hale Smith
Orð Drottins til Emmu Smith sem skráð eru í Kenningu og sáttmála 25 opinbera hvað honum fannst um hana og það sem hún gat lagt af mörkum til verks hans. Hvernig kona var Emma? Hvað vitum við um persónuleika hennar, sambönd hennar, styrk hennar? Ein leið til að þekkja þessa „[kjörnu konu]“ (Kenning og sáttmálar 25:3) er að lesa orð þeirra sem þekktu hana persónulega.
Joseph Smith yngri, eiginmaður hennar
„Þegar ég tók í hönd minnar ástkæru Emmu þetta kvöld ‒ eiginkonu minnar, já, allt frá yngri árum, og yndi hjarta míns, gagntók mig ólýsanleg gleði og hjartans fögnuður. Margt var það sem í hugann kom þegar mér varð um stund hugsað til hinna mörgu lífsins stunda sem við höfðum upplifað saman, áreynslunnar og erfiðleikanna, sorgarinnar og sársaukans, sem og gleðinnar og huggunarinnar er á vegi okkar varð og krýndi heimili okkar. Ó, hve minningarbrotin fylltu huga minn þá stund er hún að nýju var hjá mér, jafnvel mitt í mestu erfiðleikum, mín óttalausa, staðfasta og óhagganlega, óbreytanlega, ástúðlega Emma!1
Lucy Mack Smith, tengdamóðir hennar
„Hún var ung á þeim tíma og þar sem hún var metnaðarfull að eðlisfari, helgaði hún sig verki Drottins af öllu hjarta og hafði engin áhugamál nema kirkjuna og málstað sannleikans. Hún gerði vel hvaðeina sem hún gerði og spurði ekki hinnar eigingjörnu spurningar: ‚Verður ávinningur minn meiri en einhvers annars?‘ Þegar öldungar voru sendir burtu til boðunar, var hún sú fyrsta sem bauð fram þjónustu og aðstoð við að fata þá upp fyrir ferð þeirra, án þess að hugsa um eigin skort.“2
„Ég veit ekki um neina aðra konu sem hefur þolað hverskyns örmögnun og þrautir, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, af slíku óbugandi hugrekki, kappi og þolinmæði, eins og hún gerði; því ég veit hvað hún þurfti að ganga í gegnum; hún tókst á við mikla óvissu; hún þoldi storma mikilla ofsókna, og stóð gegn reiði manna og djöfla, þar til hún var umlukin hafsjó neyðar og erfiðleika, sem næstum allar aðrar konur [hefðu] bugast undan.“3
Joseph Smith eldri, tengdafaðir hennar
Patríarkablessun Emmu, sem Joseph Smith eldri, er þjónaði sem patríarki kirkjunnar, veitti henni:
„Emma, tengdadóttir mín, þú nýtur blessunar Drottins fyrir trúfesti þína og staðfestu. Þú munt blessuð með eiginmanni þínum og fagna í þeirri dýrð sem honum mun hlotnast. Sál þín hefur verið hrjáð sökum ranglætis manna, sem reyna að tortíma félaga þínum og af öllum mætti hefur þú beðist fyrir um björgun hans. Fagna, því Drottinn Guð þinn hefur heyrt ákall þitt.
Þú hefur syrgt hörku föðurhúsa þinna og þráð sáluhjálp þeirra. Drottinn mun virða ákall þitt og með dómum sínum mun hann koma því til leiðar að sum þeirra sjái mistök sín og iðrist synda sinna; en það mun verða fyrir hörmungar sem þau frelsast. Þú munt sjá marga daga; já, Drottinn mun hlífa þér uns þú ert sátt orðin, því þú munt sjá frelsara þinn. Þú munt gleðjast í hinu mikla verki Drottins og enginn mun ræna þig gleði þinni.
Þú skalt ætíð minnast hins mikla lítillætis Guðs þíns, fyrir að heimila þér að vera samferða syni mínum er engill fékk honum í hendur heimildina um Nefítana. Þú hefur upplifað mikla sorg, því Drottinn hefur tekið frá þér þrjú barna þinna. Þar er ekki við þig að sakast, því hann þekkir einlæga þrá þína til að ala upp börn, svo að nafn sonar míns megi blessað verða. Sjá nú, ég segi þér að svo segir Drottinn, ef þú vilt trúa, munt þú áfram verða blessuð hvað þetta varðar og þú munt ala af þér fleiri börn, sál þinni til ánægju og gleði, og vinum þínum til fögnuðar.
Þú munt blessuð með skilningi og hafa mátt til að fræða kynsystur þínar. Kenndu fjölskyldu þinni réttlæti og litlu börnum þínum hætti lífsins og heilagir englar munu vaka yfir þér, og þú munt frelsast í ríki Guðs, jafnvel það. Amen.“4