Gamla testamentið 2022
Ábendingar til að hafa hugfastar: Lestur Gamla testamentisins


„Ábendingar til að hafa hugfastar: Lestur Gamla testamentisins,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„Ábendingar til að hafa hugfastar: Lestur Gamla testamentisins,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022

ábendingatákn

Ábendingar til að hafa hugfastar

Lestur Gamla testamentisins

Finnið persónulega merkingu

Hvernig líður ykkur þegar þið hugsið um tækifærið til að læra í Gamla testamentinu á þessu ári? Spennt? Óviss? Hrædd? Hver og ein þessara tilfinninga eru skiljanlegar. Gamla testamentið er eitt elsta ritsafn í heimi og sú staðreynd getur gert það bæði spennandi og yfirþyrmandi. Ritsafn þetta á uppruna í fornri þjóðmenningu, sem getur virst framandi og stundum furðuleg eða jafnvel óþægileg. Þó sjáum við fólk í þessu ritsafni, sem upplifir hluti sem virðast kunnuglegir og við berum kennsl á trúarlegt efni, sem vitnar um guðleika Jesú Krists og fagnaðarerindis hans.

Já, líf fólks eins og Abrahams, Söru, Hönnu og Daníels var á einhvern hátt mjög frábrugðið lífi okkar sjálfra. Samt upplifðu þau bæði gleði og ágreining í fjölskyldunni, stundir trúar og stundir óvissu og sigra og ósigra – líkt og við öll gerum. Það sem skiptir meira máli er að þau iðkuðu trú, iðruðust, gerðu sáttmála og gáfust aldrei upp í viðleitni þeirra til að hlýða Guði.

Ef þið veltið fyrir ykkur hvort þið og fjölskylda ykkar getið fundið persónulega merkingu í Gamla testamentinu á þessu ári, hafið þá í huga að fjölskylda Lehís og Saríu gerði það. Nefí sagði bræðrum sínum sögur um Móse og frá kenningum Jesaja, þegar þeir þurftu á uppörvun, leiðréttingu eða skilningi að halda. Nefí átti við ritningar, sem eru nú hluti Gamla testamentisins, þegar hann sagði: „Sál mín hefur unun af ritningunum“ (2. Nefí 4:15).

Leitið frelsarans

Ef þið veltið fyrir ykkur hvort þið og fjölskylda ykkar getið fundið aukna nálægð við Jesú Krist með því að læra Gamla testamentið, hafið þá í huga að sjálfur frelsarinn bauð okkur að gera það. Hann átti við ritsafnið sem við köllum Gamla testamentið, þegar hann sagði við leiðtoga Gyðinganna: „Ritningarnar … vitna um mig“ (Jóhannes 5:39). Þið gætuð þurft að íhuga vandlega og leita eftir andlegri leiðsögn, til þess að uppgötva frelsarann í því sem þið lesið. Skírskotanir í hann geta stundum virst mjög afdráttarlausar, m.a. í yfirlýsingu Jesaja: „Barn er oss fætt … hann skal nefndur … Friðarhöfðingi“ (Jesaja 9:5). Á öðrum stöðum kemur frelsarinn óljóst fram, með táknum og líkingum – t.d. í lýsingunni á dýrafórnum (sjá 3. Mósebók 1:3–4) eða frásögninni af Jósef, sem fyrirgaf bræðrum sínum og bjargaði þeim frá hungursneið.

Ef þið keppið að aukinni trú á frelsarann við lestur Gamla testamentisins, munið þið finna hana. Ef til vill gæti þetta verið markmið náms ykkar á þessu ári. Biðjið þess að andinn leiði ykkur til að finna og einblína á ritningarvers, sögur og spádóma sem færa ykkur nær Jesú Kristi.

forn spámaður við skriftir

Spámaður í Gamla testamentinu, Judith A. Mehr

Guðlega varðveitt

Ekki reikna með að Gamla testamentið segi ítarlega og nákvæma sögu mannkyns. Það var ekki það sem upphaflegir höfundar og sagnritarar reyndu að skapa. Helsta áætlunarverk þeirra var að kenna um Guð – um áætlun hans fyrir börn sín, um þýðingu þess að vera sáttmálsþjóð hans og hvernig skuli finna endurlausn þegar við lifum ekki samkvæmt sáttmálum okkar. Stundum komu þeir því til leiðar með samlíkingum á sögulegum atburðum, eins og þeir skildu þá – m.a. sögum úr lífi mikilla spámanna. 1. Mósebók er dæmi um þetta, sem og bækur eins og Jósúabók, Dómarabókin og 1. og 2. Konungabók. Aðrir ritarar Gamla testamentisins höfðu ekki að markmiði að vera sagnfræðilegir. Þeir kenndu þess í stað með listsköpun, eins og kveðskap og bókmenntum. Sálmarnir og Orðskviðirnir falla í þann flokk. Svo eru dýrmæt orð spámanna, frá Jesaja til Malakí, sem töluðu orð Guðs til hins forna Ísraels – og, með því kraftaverki sem Biblían er, tala enn til okkar í dag.

Vissu þessir spámenn, ljóðskáld og sagnritarar að orð þeirra yrðu lesin af fólki um heim allan þúsundum ára síðar? Við vitum það ekki. Við dáumst þó að því að einmitt þetta hafi gerst. Þjóðir risu og féllu, borgir voru hernumdar, konungar lifðu og létust; en Gamla testamentið lifði þetta allt, frá ættlið til ættliðar, frá ritara til ritara, frá þýðingu til þýðingar. Sumir hlutir týndust auðvitað eða breyttust lítillega, en á einhvern undursamlegan hátt voru þeir samt varðveittir.1

Það þarf að hafa nokkra hluti hugfasta við lestur Gamla testamentisins á þessu ári. Kannski varðveitti Guð þetta forna ritsafn vegna þess að hann þekkir ykkur og veit hvað þið takist á við. Ef til vill fyrirbjó hann ykkur andlegan boðskap með þessum orðum, eitthvað sem færir ykkur nær honum og eflir trú ykkar á áætlun hans og hans elskaða sonar. Ef til vill leiðir hann ykkur að ritningarversi eða veitir ykkur skilning sem mun blessa einhvern sem þið þekkið – orð sem þið getið miðlað til vinar, fjölskyldumeðlims eða öðrum heilögum. Það eru ótal margir möguleikar. Er ekki spennandi að hugsa til þess?

Bækur Gamla testamentisins

Í flestum kristnum útgáfum Gamla testamentisins er bókum þess raðað upp á annan hátt en þegar þær voru fyrst teknar saman í eitt safn. Í hebresku Biblíunni er þeim skipt í þrjá flokka – lögmálið, spámennina og ritningarnar – en flestar kristnar Biblíur skipta þeim í fjóra flokka: Lögbækur (1. Mósebók – 5. Mósebók), frásagnarrit (Jósúabók – Esterarbók), ljóðræn rit (Jobsbók – Ljóðaljóðin) og spámannarit (Jesaja – Malakí).

Af hverju er þessi flokkun mikilvæg? Vegna þess að vitneskjan um hvers konar bók þið lærið í, getur hjálpað ykkur að skilja hvernig ætti að læra hana.

Hér er nokkuð sem hafa má hugfast þegar þið byrjið að lesa „lögbækurnar,“ þ.e. fyrstu fimm bækur Gamla testamentisins. Bækur þessar, sem eignaðar eru Móse, fóru líklega með tímanum í gegnum hendur fjölmargra ritara og þýðenda. Þrátt fyrir það eru bækur Móse innblásið orð Guðs, jafnvel þótt þær séu – eins og sérhvert verk Guðs sem berst í gegnum dauðlega menn – háðar ófullkomleika mannanna (sjá HDP Móse 1:41; Trúaratriðin 1:8). Orð Morónís, með skírskotun í hina helgu heimild Mormónsbók, sem hann átti þátt í að taka saman, eru gagnleg í þessu samhengi: „En séu gallar hér á, þá eru þeir mistök manna. Dæmið því ekki það, sem Guðs er“ (titilsíða Mormónsbókar). Með öðrum orðum, bækur ritninganna þurfa ekki að vera sneyddar mannlegum mistökum til að vera orð Guðs.

Skýring

  1. M. Russell Ballard forseti sagði: „Það er ekki af hendingu eða fyrir tilviljun að við höfum Biblíuna í dag. Réttlátir menn voru hvattir af andanum til að skrá bæði þá helgu hluti sem þeir sáu og þau innblásnu orð sem þeir heyrðu og töluðu. Annað trúað fólk var hvatt til að vernda og varðveita þessa skrásetningu“ („Kraftaverk heilagrar ritningar, Biblíunnar,“ aðalráðstefna, apríl 2007).