„5.–11. september. Jesaja 1–12: ‚Guð er hjálp mín,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„5.–11. september. Jesaja 1–12,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
5.–11. september
Jesaja 1–12
„Guð er hjálp mín“
Leitið andlegrar leiðsagnar í námi ykkar. Orð Jesaja verða best skilin þegar við erum „[fyllt] anda spádóms,“ eins og Nefí kenndi (2. Nefí 25:4).
Skráið hughrif ykkar
Þótt þetta sé í fyrsta skipti sem þið lesið Jesaja, gætuð þið fundið vers sem hljóma kunnuglega. Það er vegna þess að af öllum spámönnum Gamla testamentisins, er mest vitnað í Jesaja í öðrum bókum ritninganna, þar á meðal af frelsaranum sjálfum. Orð Jesaja má líka oft finna í sálmum og helgitónlist. Af hverju er vitnað svo oft í Jesaja?
Hluti skýringarinnar er vissulega sá að Jesaja bjó að gjöf til að tjá orð Guðs í lifandi og minnisstæðu máli. Það er þó meira sem býr þar undir. Jesaja hefur innblásið spámenn um aldir, því sannleikurinn sem hann kenndi nær yfir mikið meira en hans eigin kynslóð – þeirra Ísraelsmanna sem voru uppi 740 og 701 f.Kr. Honum var ætlað að ljúka upp augum okkar fyrir hinu mikla verki hjálpræðis, sem er mun stærra en svo að það takmarkist við eina þjóð eða eitt tímabil. Nefí lærði af Jesaja að fólk hans væri áfram hluti af sáttmálsþjóð Guðs, þótt það væri aðskilið meginhluta Ísraels. Höfundar Nýja testamentisins fundu spádóma um Messías í Jesaja sem uppfylltust fyrir augum þeirra. Joseph Smith fann líka innblástur í Jesaja varðandi samansöfnun Ísraels og uppbyggingu Síonar á síðari dögum. Hvað finnið þið við lestur Jesaja?
Til frekari upplýsingar um Jesaja, sjá þá „Jesaja“ í Leiðarvísi að ritningunum. Til upplýsingar um þann tíma sem Jesaja var uppi á, sjá þá 2. Konungabók 15–20 og 2. Kroníkubók 26–32.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Hvernig get ég skilið betur kenningar Jesaja?
Frelsarinn talaði um ritverk Jesaja og sagði: „[Kannið] þetta af kostgæfni, því að mikil eru orð Jesaja“ (sjá 3. Nefí 23:1–3). Samt finnst svo mörgum erfitt að skilja Jesaja. Hér eru nokkrar ábendingar til að hjálpa ykkur að finna ríkari merkingu í orðum Jesaja:
-
Ígrundið táknin og samlíkingarnar sem Jesaja notaði. Dæmi: Ígrundið hverju þið teljið Jesaja hafa viljað segja frá er hann ritaði um víngarð (sjá Jesaja 5:1–7), Sílóavötn (sjá Jesaja 8:5–10), gunnfána (sjá Jesaja 5:26) og rótarkvist (sjá Jesaja 11:10,12).
-
Spyrjið ykkur sjálf við lestur hvers kapítula: „Hvað er ég að læra um Jesú Krist?“ (sjá 1. Nefí 19:23).
-
Leitið efnis sem virðist eiga við um okkar tíma, t.d. um líf og hlutverk Jesú Krists, tvístrun og samansöfnun Ísraels, síðari daga og þúsund ára ríkið. Þið gætuð líka haldið lista yfir tilvísanir frá Jesaja sem kenna um þetta efni.
-
Notið námshjálp þar sem það er hægt, t.d. orðabók, neðanmálstilvísanir Biblíunnar, fyrirsagnir kapítula og Leiðarvísi að ritningunum.
Sjá einnig 2. Nefí 25:1–8.
„Hættið að gera illt.“
Jesaja varaði konungsríkið Júda látlaust við andlegu ástandi fólksins. Hvernig mynduð þið lýsa andlegu ástandi fólksins eftir lestur Jesaja 1, 3 og 5? Hvaða aðvaranir finnið þið sem virðast eiga við um okkar tíma?
Auk aðvarananna, gætuð þið líka gætt að vonarboðskap fyrir hinn synduga Ísrael (sjá t.d. Jesaja 1:16–20, 25–27; 3:10). Hvað lærið þið um Drottinn af þessum boðskap?
Guð mun gera undursamlegt verk á síðari dögum.
Mörg ritverk Jesaja eru spádómar sem hafa sérstaka merkingu fyrir okkar tíma. Hvaða lýsing Jesaja á síðari dögum í kapítulum 2; 4; 11–12 eru ykkur einkar andlega áhugavekjandi? (Kenning og sáttmálar 113:1–6 veitir góðan skilning á Jesaja 11.) Hvað lærið þið um samansöfnun Ísraels og endurlausn Síonar? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera eftir lestur þessara kapítula?
Sjá einnig Jesaja 5:26; 10:20.
Spámenn eru kallaðir af Guði.
Í kapítula 6 segir Jesaja frá köllun sinni sem spámanns. Hvað vekur áhuga ykkar varðandi reynslu Jesaja við lestur þessa kapítula? Hvernig hefur þessi kapítuli áhrif á hvernig þið hugsið um Drottin, spámenn hans og verkið sem þeir eru kallaðir til að vinna?
Jesaja spáði um Jesú Krist.
Snemma í þjónustutíð Jesaja myndaði konungsríkið Ísrael (líka nefnt Efraím) bandalag við Sýrland, sér til varnar gegn Assyríu. Ísrael og Sýrland huggðust þvinga Akas konung Júda til aðildar við bandalag sitt. Jesaja spáði því hins vegar að bandalagið myndi bregðast og ráðlagði Akas að reiða sig á Drottin (sjá Jesaja 7–9, einkum Jesaja 7:7–9; 8:12–13).
Í leiðsögn Jesaja til Akas setti hann fram nokkra velkunna spádóma, eins og þá sem eru í Jesaja 7:14; 8:13–14; 9:2, 6–7. Þótt ekki sé algjörlega skýrt hver merking þessara spádóma hafi verið á tíma Akasar, vísuðu þeir greinilega til Jesú Krists (sjá einnig Matteus 1:21–23; 4:16; 21:44; Lúkas 1:31–33). Hvað lærum við um frelsarann af þessum versum?
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Jesaja 1:16–18.Til að hjálpa fjölskyldumeðlimum að skilja þessi vers, gætuð þið lesið hlutann „Sumum okkar finnst við aldrei geta verið nægilega góð“ í ræðu systur Sharons Eubank „Kristur: Ljósið sem lýs í myrkri“ (aðalráðstefna, apríl 2019). Þið gætuð líka þess í stað sýnt hvernig fjarlæga má bletti úr fatnaði. Hvernig er boðskapur Drottins í þessum versum öðruvísi en sá sem Satan vill að við trúum?
-
Jesaja 2:1–5.Fjölskyldumeðlimir gætu valið eitt þessara versa og teiknað það sem þar er lýst. Hvað kennir musterið okkur um hætti Drottins? Hvernig erum við blessuð þegar við „göngum í ljósi Drottins“? (Jesaja 2:5).
-
Jesaja 4:5–6.Hverju lofar Drottinn okkur í þessum versum? Hvað gæti falist í þessum loforðum? Hvernig er hann að uppfylla þau? (Sjá einnig 2. Mósebók 13:21–22.)
-
Jesaja 7:14; 9:1–7.Þið gætuð búið til veggspjald sem lýsir einhverju því sem við lærum um Jesú Krist í þessum versum, með því að nota teikningar eða myndir úr kirkjutímaritum.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrögum þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Á háum fjallsins hnjúk,“ Sálmar, nr. 4.