Trúboðskallanir
2. kafli: Kanna ritningarnar og íklæðast alvæpni Guðs


„2. kafli: Kanna ritningarnar og íklæðast alvæpni Guðs,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„Kanna ritningarnar og íklæðast alvæpni Guðs,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Joseph Smith leitar visku í Biblíunni, eftir Dale Kilbourn

2. kafli

Kanna ritningarnar og íklæðast alvæpni Guðs

Til hugleiðingar

  • Af hverju er mikilvægt að læra orð Guðs í ritningunum jafnt og þétt?

  • Hvernig get ég gert ritningarnám mitt árangursríkara?

  • Hvernig get ég notað tæknina réttlátlega til að hjálpa mér að framfylgja tilgangi mínum?

  • Hver er merking þess að íklæðast alvæpni Guðs?

Leita í ritningunum

Jesús Kristur „er líf og ljós heimsins. Sjá, hann er orð sannleikans og réttlætisins“ (Alma 38:9; sjá einnig Jóhannes 1). Að læra orð Guðs í heilögum ritningum, mun veita ykkur líf í fullri gnægð (sjá Jóhannes 10:10). Orð hans munu fylla ykkur – og þau sem þið kennið – ljósi og sannleika. Þau munu hjálpa ykkur – og þeim sem þið kennið – að lifa réttlátlega og hljóta guðlega vernd og styrk. Þau munu hjálpa ykkur að þekkja hann og njóta elsku hans, sem er ljúfari en allt sem ljúft er. Orð hans munu fylla sál ykkar gleði (1. Nefí 8:11–12; sjá vers 1–34).

Ritningarnar eru himnesk gjöf. Ein af mestu blessunum trúboðs ykkar er að hafa tíma til að læra þær á hverjum degi.

Trúarnám er eitt mest gefandi andlegt erfiði sem þið fáið innt af hendi. Það er endurnærandi bæði huglega og andlega. Eins og Alma kenndi: Þegar þið „gróðursetjið“ orði Guðs í hjarta ykkar, mun það „upplýsa skilning ykkar og verða ykkur unun“ (Alma 32:28; sjá einnig Enos 1:3–4). Þegar þið haldið áfram að læra og tileinka ykkur orð Guðs, mun það „festa rætur og … [verða] að tré, sem vex upp til ævarandi lífs“ (Alma 32:41; sjá einnig vers 42–43). Þekking ykkar og vitnisburður um fagnaðarerindið mun aukast. Þrá ykkar og hæfni til að miðla fagnaðarerindinu mun einnig aukast.

Mikilvægt er að læra af góðum kennara, en það er líka mikilvægt fyrir ykkur að hljóta innihaldsríkar upplifanir af eigin ritningarnámi. Þetta á líka við um fólkið sem þið kennið.

Það getur verið erfitt í fyrstu að skilja ritningarnar. Þegar þið aftur á móti eruð þolinmóð við að læra orð Guðs, mun skilningur ykkar aukast. Þið munuð fara að hafa unun af tíma ykkar með ritningunum. Þið munuð hlakka til þess sem þið munuð læra og upplifa.

Að þekkja og elska ritningarnar, getur verið mikil blessun fyrir lífstíð af trúboðsþjónustu ykkar. Þegar þið upplifið blessanir ritningarnáms í trúboði ykkar, munið þið vilja halda því áfram það sem eftir er ævinnar.

Ljósmynd
Öldungur D. Todd Christofferson

„Aðaltilgangur allra ritninga er að fylla sálir okkar af trú á Guð, föðurinn, og son hans, Jesú Krist – trú á tilveru þeirra, trú á áætlun föðurins um ódauðleika og eilíft líf, trú á friðþægingu og upprisu Jesú Krists sem færir líf í þessa sæluáætlun, trú til að gera fagnaðarerindi Jesú Krists að lífsstíl og trú til að þekkja ‚hinn eina sanna Guð, og þann sem [hann hefur sent]‘ (Jóhannes 17:3)“ (D. Todd Christofferson, „Blessanir ritninganna,“ aðalráðstefna, apríl 2010).

Einkanám

Skoðið myndina af Joseph Smith fremst í þessum kafla. Lesið Joseph Smith – Saga 1:11–13. Svarið eftirfarandi spurningum í námsdagbók ykkar.

  • Hvernig leiddi íhugun og lestur Josephs Smith í Jakobsbréfinu 1:5 til þess að hann hlaut opinberun?

  • Hvaða áhrif hafði nám hans á kynslóðir framtíðar?

  • Hvað áhrif hefur ákvörðun hans um að læra og leita haft á líf ykkar?

  • Hvernig hefur trúarnám ykkar haft áhrif á ykkur sjálf og aðra?

Ritningarnám

Hvað getið þið lært af eftirfarandi ritningarversum um hvernig skal takast á við trúarnám?

Leita andans

Að læra fagnaðarerindið, er miklu meira en að afla sér upplýsinga. Það er líka andlegt ferli við að tileinka sér eilífan sannleika með leiðsögn heilags anda (sjá Jakob 4:8; Kenning og sáttmálar 50:19–25). Leitið andans og treystið honum til að kenna ykkur þegar þið lærið ritningarnar. Þetta mun gerast að svo miklu leyti sem þið tileinkið ykkur ritningarnar, með einlægum ásetningi til að bregðast við því sem þið lærið (sjá 1. Nefí 19:23; Moróní 10:4; Joseph Smith – Saga 1:18).

Ef þið lærið ritningarnar af kostgæfni, mun það ljúka upp glugga opinberunar fyrir andann til að tala í huga ykkar og hjarta. Hann mun blessa ykkur með leiðsögn, innblæstri og svörum við spurningum ykkar. Heilagur andi mun styrkja ykkur og hugga gegnum ritningarnám ykkar. Hann mun veita ykkur þekkingu og sannfæringu sem mun blessa líf ykkar og gera ykkur kleift að blessa aðra að eilífu.

Ritningarnám

Hvert er hlutverk heilags anda við að hjálpa einstaklingi að læra fagnaðarerindið?

Leita svara við spurningum

Sem trúboði, munið þið heyra margar spurningar. Þið munuð líka sjálf hafa spurningar. Að kanna ritningarnar og aðrar viðurkenndar heimildir til að fá svör við þessum spurningum, er öflug leið til náms. Skráið spurningarnar og það sem þið lærið og skynjið í námsdagbók ykkar.

Notið nákvæmar, áreiðanlegar heimildir í námi ykkar – fyrst og fremst ritningarnar, orð lifandi spámanna og Boða fagnaðarerindi mitt. Notið úrræðin í Gospel Library, svo sem Leiðarvísi að ritningunum, Bible Dictionary, efnisatriðin fyrir þrennuna, Gospel Topics og Gospel Topics essays. Lærið hvaða úrræði eru tiltæk á tungumálum fólksins sem þið kennið.

Ljósmynd
M. Russell Ballard forseti

„Eitt sem ég hef lært í lífinu, er hversu oft Drottinn svarar spurningum okkar og gefur okkur ráð í gegnum ritningarnar. Við skulum því fara til Drottins í bæn og biðja um hjálp eða svör; og þessi svör munu koma þegar við opnum ritningarnar og byrjum að læra þær. Stundum er eins og hundruð eða þúsundir ára gamlir ritningarhlutar séu sérstaklega ætlaðir til að svara spurningunni okkar“ (M. Russell Ballard, „Be Strong in the Lord, and in the Power of His Might“ [kvöldvaka í Brigham Young-háskóla, 3. mars 2002], 5, speeches.byu.edu).

Lifa eftir því sem þið lærið

Þegar þið finnið gleðina sem hlýst af auknum skilningi á fagnaðarerindinu, munuð þið vilja tileinka ykkur það sem þið lærðuð. Kappkostið að lifa í samræmi við skilning ykkar. Það mun styrkja trú ykkar, þekkingu og vitnisburð. Að færa það yfir í verk sem þið lærðuð, mun leiða til aukins og varanlegs skilnings. (Sjá Jóhannes 7:17.)

Ljósmynd
Boyd K. Packer forseti

„Sönn kenning, og skilningur á henni, breytir viðhorfi og hegðun. Nám á kenningum fagnaðarerindisins mun bæta hegðun hraðar en hegðunarnám mun bæta hegðun“ (Boyd K. Packer, „Little Children,“ Ensign, nóv. 1986, 17).

Einkanám

Hvað kenna eftirtalin ritningarvers um að læra fagnaðarerindið?

Nota Gospel Library

Gospel Library er úrræði á netinu sem getur auðgað nám ykkar og kennslu til muna. Kynnið ykkur hina mörgu eiginleika þess. Sumir kostir þess að nota Gospel Library sem hluta af námi ykkar og kennslu eru taldir upp hér að neðan.

  • Það veitir ykkur aðgang að ritningunum, orðum lifandi spámanna og öðru kirkjuefni á mörgum tungumálum á texta-, hljóð- og myndsniði.

  • Ef þið skráið í Gospel Library það sem þið lærið og hughrifin sem þið hafið hlotið, getið þið haldið áfram að hafa aðgang að þeim upplýsingum eftir trúboðið og styrkst af þeim.

  • Það gerir ykkur kleift að miðla auðveldlega þeim sem þið kennið ritningarversum, tilvitnunum í lifandi spámenn og myndböndum.

  • Flestir sem þið kennið og skírið munu nota Gospel Library til að fá aðgang að efni kirkjunnar. Lærið að nota Gospel Library, svo þið getið hjálpað þeim að læra að nota það.

Einkanám

Kynnið ykkur „notandaleiðbeiningar Gospel Library“. Veljið eiginleika í Gospel Library til að prófa í næsta einkanámi eða félaganámi ykkar. Hvernig hjálpuðu þessi eiginleikar við nám ykkar? Hvað reynið þið í næsta skipti? Kennið öðrum trúboðum það sem þið lærðuð.

Nota tæknina réttlátlega

Drottinn og spámenn hans hafa treyst ykkur fyrir tækni til að hjálpa ykkur að framfylgja verki hans. Tæknin getur auðgað nám ykkar í ritningunum og í Boða fagnaðarerindi mitt. Stafræn úrræði geta líka hjálpað ykkur við að skipuleggja. Þau geta hjálpað við kennslu ykkar og í viðleitni ykkar til að finna fólk til að kenna.

Réttlát og skynsöm notkun tækninnar getur hjálpað ykkur að framfylgja trúboðstilgangi ykkar og að nota tíma ykkar af skilvirkni. Hún getur líka hjálpað ykkur að forðast óviðeigandi efni.

Fylgið andanum varðandi hvenær og hvernig nota á tæknina á þann hátt sem hjálpar ykkur að styrkja trú ykkar á Jesú Krist og trú þeirra sem þið þjónið og kennið.

Fylgja öryggisreglunum um notkun tækninnar

Öryggisreglurnar fjórar sem eru tilgreindar hér að neðan, munu hjálpa ykkur að nota tæknina á viðeigandi hátt. Það er mikilvægt fyrir ykkur að fylgja þessum öryggisreglum til að geta „[klæðst] alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins“ (Efesusbréfið 6:11).

Vera í samhljóm við andleg hughrif

Nefí lofaði: „Ef þér viljið fara inn um hliðið og taka við heilögum anda, þá mun hann sýna yður allt, sem yður ber að gjöra“ (2. Nefí 32:5). Himneskur faðir ykkar hefur gefið ykkur tvær öflugar gjafir ykkur til hjálpar: siðferðislegt sjálfræði og gjöf heilags anda. Þið hafið getu til að velja að fylgja leiðsögn heilags anda. Leiðsögn hans er mikilvæg til að hjálpa ykkur að láta gott af ykkur leiða er þið notið tæknina. Hún hjálpar líka við að vernda ykkur frá illu.

Einbeita ykkur að trúboðstilgangi ykkar

Drottin sagði: „Sé auglit yðar einbeitt á dýrð mína, mun allur líkami yðar fyllast ljósi og ekkert myrkur skal í yður búa. Og sá líkami, sem er fullur af ljósi skynjar allt“ (Kenning og sáttmálar 88:67). Að hafa einbeitt auglit á dýrð Guðs, þýðir að einblína algjörlega á tilgang Guðs, sem er líka tilgangur ykkar sem trúboðar.

Notkun ykkar á tækni ætti að miðast við tilgang ykkar. Kveikið aðeins á tækinu ykkar eftir að þið hafið ákveðið í hvaða trúboðstilgangi þið hyggist nota það. Slökkvið síðan á því þegar þeim tilgangi er lokið.

Líklegra er að þið sjáið óviðeigandi efni á netinu þegar þið vafrið um vefinn án þess að hafa sérstakan tilgang í huga.

Ljósmynd
trúboðar horfa á síma

Sýnið ögun

Mormón ritaði: „Ég [er] lærisveinn Jesú Krists, sonar Guðs. Hann hefur kallað mig til að boða orð sitt meðal fólks síns, svo að það geti öðlast ævarandi líf“ (3. Nefí 5:13). Þið, líkt og Mormón, eruð lærisveinar Krists. Að þjóna í fastatrúboði, er sérstakt tækifæri til að dýpka hlutverk ykkar sem lærisveinar.

Ensku orðin disciple yfir lærisvein og discipline yfir ögun eru af sama meiði sem merkir „nemandi“ eða „nemi“. Að vera lærisveinn Krists, þýðir að þið leitast við að fylgja honum og halda boðorð hans. Það þýðir að þið lærið stöðugt og kennið um Krist.

Sýnið ögun og takið réttlátar ákvarðanir varðandi notkun ykkar á tækninni. Veljið að fylgja öryggisreglunum. Þegar þið talið augliti til auglitis við fólk, skuluð þið ekki gæta að skilaboðum eða svara símtölum. Takið stjórn á því hvernig þið notið þessi tæki. Ekki láta þau stjórna ykkur.

Drottinn lýsti yfir: „Sá, sem tekur á móti lögmáli mínu og heldur það, hann er lærisveinn minn. En sá, sem segist hafa tekið á móti því og heldur það ekki, sá hinn sami er ekki lærisveinn minn“ (Kenning og sáttmálar 41:5). Þótt enginn sé fullkominn, býst Drottinn við stöðugri, viðvarandi viðleitni við að fylgja honum.

Fegurð fagnaðarerindisins er sú að við getum hlotið fyrirgefningu þegar við iðrumst – og Drottinn vill að við iðrumst án tafar (sjá Kenning og sáttmálar 109:21). Ef þið gerið mistök, þar á meðal með því að nota tæknina óviðeigandi, iðrast þá samstundis og haldið áfram að reyna að lifa eftir lögmáli hans. Þetta er hluti af því að vera lærisveinn Krists.

Vera eitt

Drottinn sagði: „Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir“ (Kenning og sáttmálar 38:27). Hjálpið trúboði ykkar að þróa menningu samstöðu, trausts, ábyrgðar og samúðar, svo þið getið styrkt og stutt hvert annað.

Öllum trúboðum ætti að líða vel með að biðja um hjálp þegar þörf er á. Trúboði sem er andlega sterkur getur hjálpað þeim sem er veikari (sjá Kenning og sáttmálar 84:106). Ef þið finnið fyrir freistingu, skuluð þið biðja félaga ykkar eða trúboðsleiðtoga um hjálp.

Næstum allar áskoranir tengdar netinu eða klámefni gerast í einrúmi. Notið tæki aðeins þegar þið fáið séð skjái hvors annars. Hafið hugrekki og verið ábyrg gagnvart hvert öðru.

Drottinn hefur traust á hverjum trúboða sem hann hefur kallað, þar á meðal ykkur. Hann hefur séð ykkur fyrir félögum og leiðtogum ykkur til verndar og stuðnings. Reynið, á sama hátt og Alma studdi félaga sinn Amúlek, að styrkja hvor annan (sjá Alma 15:18).

Hvað ættuð þið að gera ef ykkur finnst þið berskjölduð eða viðkvæm?

Að læra að fylgja þessum fjórum öryggisreglum, krefst áreynslu, aga og æfingu. Jafnvel eftir að öryggisreglur eru orðnar eðlilegur hluti af því hvernig þið hugsið og hegðið ykkur, munið þið upplifa tíma þar sem þið gætuð fundist þið vera berskjölduð og viðkvæm. Tæknivenjur ykkar voru ef til vill slæmar fyrir trúboð ykkar, sem erfitt hefur verið að yfirstíga. Sumir trúboðar hafa glímt við klám fyrir köllun sína og gætu freistast til að falla aftur í fyrra hegðunarmynstur.

Reglurnar hér að neðan munu hjálpa ykkur að lifa eftir öryggisreglunum og styrkja ykkur gegn freistingum:

  • Verið meðvituð um hugsanir ykkar, tilfinningar og hegðun. Skiljið hvernig þetta getur gert ykkur viðkvæmari fyrir misnotkun á tækni.

  • Veljið að framkvæma. Bregðist við tilfinningum ykkar á réttlátan og skilvirkan hátt.

  • Lærið, iðrist og bætið ykkur. Notið reynslu ykkar til að halda áfram að læra og bæta ykkur.

Þið þurfið ekki að sigrast á áskorunum á eigin spýtur. Treystið á styrkinn sem hlýst með friðþægingu frelsarans og sáttmálunum sem þið hafið gert við hann. Drottinn veit hvaða áskorunum þið standið frammi fyrir og hann mun hjálpa ykkur í þessu mikla verki.

Að muna alltaf eftir frelsaranum, getur hjálpað ykkur að nota tæknina á réttlátan hátt. Verið trú því trausti sem hann hefur veitt ykkur. Einsetjið ykkur að „ganga [grandvör] frammi fyrir honum“ (Alma 53:21; sjá einnig vers 20). Að finna til þakklætis fyrir allt sem hann og faðirinn hafa gert fyrir ykkur, mun hjálpa ykkur að taka góðar ákvarðanir um það hvernig þið notið stafræn úrræði.

Trúboð ykkar er frábært tækifæri til að læra að nota tækni á skynsamlegan hátt. Skuldbindingin og góðar venjur sem þið tileinkið ykkur í trúboði ykkar, munu verða ykkur til gagns alla ævi.

Íklæðast alvæpni Guðs

Geta ykkar til að standast freistingar mun aukast þegar þið lærið og tileinkið ykkur ritningarvers, orð lifandi spámanna, Boða fagnaðarerindi mitt, Trúboðsstaðlar fyrir lærisveina Jesú Krists og öryggisreglurnar sem útskýrðar eru í þessum kafla.

Ljósmynd
trúboðar heilsa manni

Með því að klæðast „alvæpni Guðs“ munið þið geta greint sannleika frá villu. Þið munuð skóuð á fótunum með „fagnaðarboðskap friðarins“. Að klæðast „brynju réttlætisins“ mun vernda ykkur. Með „[skildi] trúarinnar“ getið þið að engu gert eldfim skeyti hins illa. Með „sverði andans“ munuð þið kenna sannleikann með krafti og valdi. Þið verðið vernduð gegn veraldlegum áhrifum, sem að öðrum kosti gætu leitt til þess að þið villtust frá, einangruðust og jafnvel yrðuð fráhverf. (Sjá Efesusbréfið 6:10–18; sjá einnig 1. Nefí 8:20, 30; 15:24–25; Helaman 3:29–30; Kenning og sáttmálar 27:15–18; Joseph Smith – Matteus 1:37; 2. Tímóteusarbréf 3:15–17.)

Einkanám

Veljið eina af öryggisreglunum í bænaranda til að einbeita ykkur að í þessari viku. Leitið hjálpar Drottins. Skráið tilfinningar ykkar og það sem þið eruð að læra.


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Látið reyna á einhverjar af eftirfarandi hugmyndum til að auðga nám ykkar:

    • Lesið ritningarnar með spurningar og áhyggjuefni í huga.

    • Miðlið öðrum trúboðum því sem þið lærið og þeim sem þið kennið. Að útskýra kenningu eða reglu, mun hjálpa ykkur að muna eftir henni og öðlast skýrleika.

    • Lærið ákveðið efni. Einblínið á efnið sem hjálpar ykkur og fólkinu sem þið kennið.

    • Spyrjið ykkur sjálf: „Hvað er höfundurinn að segja? Hver er meginboðskapurinn? Hvernig á þetta við um mig? Hvernig gæti þetta hjálpað einhverjum sem við kennum?“

    • Sjáið fyrir ykkur eða teiknið það sem þið lærið. Dæmi: Ímyndið ykkur hvernig það var fyrir Ammon að standa frammi fyrir konungi Lamanítanna.

    • Skrifið meginhugmynd ritningarhluta í einni setningu eða stuttri málsgrein.

    • Lærið ritningarvers utanbókar sem útskýra og styðja reglurnar sem þið kennið.

  • Metið ykkur sjálf út frá eftirfarandi (1=aldrei, 3=stundum og 5=næstum alltaf).

    • Ég vex í trú minni og er að þekkja betur himneskan föður og Jesú Krist.

    • Ég hugsa um fólkið sem ég kenni þegar ég er að læra.

    • Ég hugsa allan daginn um það sem ég lærði um morguninn.

    • Þegar ég læri koma hugmyndir í hugann sem ekki hafa áður komið.

    • Ég skrái andleg hughrif og hugmyndir á viðeigandi stað.

    • Ég er vakandi við námið.

    • Ég hlakka til einkanáms.

    • Ég hlakka til félaganáms.

    Farið yfir svörin ykkar. Hvað gerið þið vel? Hvernig gætuð þið bætt ykkur? Setjið eitt eða tvö markmið til að bæta gæði náms ykkar.

Félaganám og félagaskipti

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Biðjið trúboðana að skrifa eina eða fleiri spurningar um fagnaðarerindið sem tengjast lexíu í 3. kafla. Þær spurningar gætu verið persónulegar eða frá fólki sem þeir kenna. Bjóðið trúboðunum að miðla hópnum spurningum sínum. Ræðið eftirfarandi fyrir hverja spurningu:

    • Hvernig gæti það blessað líf trúboðans að svara þessari spurningu?

    • Hvernig gæti það blessað líf fólksins sem hann eða hún er að kenna?

    • Hvernig gæti trúboði fundið svarið?

  • Skiptið trúboðum í hópa og felið hverjum hópi að læra eina af hinum fjórum öryggisreglum og viðeigandi ritningarvers. Bjóðið trúboðum að miðla því sem þeir lærðu og hvernig öryggisreglurnar hafa hjálpað þeim.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Verið endrum og eins með trúboðum í félaganámi þeirra.

  • Spyrjið einhverjar eftirfarandi spurninga í viðtölum eða samtölum:

    • Hvaða hughrif hafið þið nýverið hlotið í ritningarnámi ykkar?

    • Hvaða kafli eða hluti í Boða fagnaðarerindi mitt hefur verið ykkur gagnlegastur á umliðnum tveimur vikum? Hvernig hefur það hjálpað ykkur?

    • Hvað gerir þú í einkanámi þínu sem hjálpar þér að læra?

  • Íhugið að fara yfir öryggisreglurnar í viðtölum um notkun tækninnar og spyrjið trúboðana hvað þeir læra þegar þeir fara eftir þeim.

  • Miðlið skilningi úr einkanámi ykkar. Miðlið færslum í námsdagbók ykkar og vitnisburði ykkar um mikilvægi trúarnáms.

Prenta