Trúboðskallanir
13. kafli: Sameinast leiðtogum og meðlimum við að byggja upp kirkjuna


„13. kafli: Sameinast leiðtogum og meðlimum við að byggja upp kirkjuna,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„13. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Hlýð þú á hann, eftir Simon Dewey

13. kafli

Sameinast leiðtogum og meðlimum við að byggja upp kirkjuna

Til hugleiðingar

  • Hvernig get ég unnið með deildarleiðtogum og meðlimum við að byggja upp kirkjuna?

  • Hverjar eru skyldur stiku- og deildarleiðtoga í trúboðsstarfi?

  • Hvað ætti að gerast á vikulegum samræmingarfundi með deildarleiðtogum?

  • Hvernig get ég stutt leiðtoga við að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi?

Trúboðar vinna með staðarleiðtogum og meðlimum að því að finna fólk til að kenna og leiða það til frelsarans. Þið eruð sameinuð í kærleika ykkar til Guðs og barna hans. Hann mun efla starf ykkar að svo miklu leyti sem þið vinnið saman í einingu með staðarleiðtogum og meðlimum. Gerið það að mikilvægum hluta markmiða ykkar og áætlana að vinna með þeim.

Þegar þið kynnist og elskið staðarleiðtoga og meðlimi, munið þið sjá hvernig þið getið stutt þá í köllun þeirra og trúboðsstarfi. Notið gjafir ykkar og hæfileika á þann hátt sem lyftir þeim og styrkir.

Þessi kafli útskýrir hvernig þið getið unnið með meðlimum við að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi. Fyrir frekari upplýsingar, sjá kafla 23 í Almennri handbók.

Einkanám eða félaganám

Rifjið upp trúskiptasögu Lamonís konungs, eiginkonu hans og fólks hans í Alma 18–19.

  • Hvert var hlutverk Abis í þessum trúskiptum? Hvað gat hún gert sem Ammon gat ekki gert?

  • Hvað lærið þið af fordæmi hennar um meðlimi og trúboða sem vinna saman?

Skoðið líka þessi dæmi um meðlimi sem hjálpa við trúboð:

Hvernig getið þið hvatt leiðtoga og meðlimi til að fylgja fordæmi þeirra?

Byggja upp samband við staðarleiðtoga og meðlimi

Kirkjuleiðtogar og meðlimir á staðnum eru félagar ykkar í verki Guðs. Byggið upp sambönd sem hjálpa ykkur að vinna saman að því að færa hið endurreista fagnaðarerindi til barna himnesks föður. Þessi sambönd geta blessað ykkur það sem eftir er lífs ykkar.

Byggið upp traust og sanna vináttu við leiðtoga og meðlimi á staðnum. Heimsækið þá og kynnist fjölskyldum þeirra og kynnið ykkur bakgrunn þeirra, áhugamál og kirkjureynslu. Hafið raunverulegan áhuga á lífi þeirra.

Þegar þið farið í heimsókn, gerið það þá með tilgangi. Sýnið að þið séuð óðfúsir þátttakendur í því að finna og kenna. Virðið tíma þeirra og áætlun.

Þegar þið komið saman með þeim eða kennið fagnaðarerindið á heimilum þeirra, skulið þið leitast við að hjálpa þeim að styrkja trú sína. Reynið af kostgæfni að hafa andann með ykkur. Miðlið upplifunum ykkar af trúboðsstarfinu á svæði ykkar.

Ljósmynd
hópfundur

Styðja staðarleiðtoga í hlutverkum þeirra

Sumar leiðtogakallanir bera ábyrgð á trúboðsstarfi. Að skilja þessar skyldur, hjálpar ykkur að styðja þessa leiðtoga. Eftirfarandi leiðbeiningar eru úr 23. kafla í Almennri handbók.

Stikuforseti hefur prestdæmislyklana í stikunni til að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi. Hann og ráðgjafar hans marka heildarstefnu þessa starfs.

Biskupsráð á samráð við forsætisráð öldungasveitar og Líknarfélags við að leiða starf deildar við að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi.

Forsætisráð öldungasveitar og Líknarfélags leiða daglegt starf deildar við að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi. Þau starfa saman að því að leiða þetta starf með deildarráði, undir handleiðslu biskups. Sjá Almenn handbók, 8.2.3 og 9.2.3.

Deildartrúboðsleiðtogi (ef kallaður) samræmir starf deildarmeðlima og leiðtoga, deildartrúboða og fastatrúboða. Ef deildartrúboðsleiðtogi er ekki kallaður, gegnir meðlimur í forsætisráði öldungasveitarinnar þessu hlutverki. Sjá Almenn handbók, 23.5.3.

Spyrjið ykkur sjálf reglulega: „Er ég til blessunar fyrir staðarleiðtoga?“ Þróið viðhorfið: „Hvernig get ég hjálpað?“

Félaganám

Ráðgerið stutta heimsókn með deildarleiðtoga. Spyrjið hvernig þið getið stutt hann eða hana betur. Gerðu áætlanir um að bæta ykkur.

Ljósmynd
ráðsfundur

Vikulegir samræmingarfundir

Samræming við staðarleiðtoga – þar á meðal ungmennaleiðtoga – er nauðsynleg til að eining sé í trúboðsstarfi ykkar. Ef deildarleiðtogi er kallaður, heldur hann vikulega samræmingarfundi. Annars stjórnar sá meðlimur forsætisráðs öldungasveitar sem gegnir þessu hlutverki.

Á þessum stuttu, óformlegu fundum, samræma staðarleiðtogar og þið starf til að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi (sjá Almenn handbók, 23.5.7). Fundir geta verið haldnir í eigin persónu eða með fjarskiptum. Samræming ætti einnig að gerast á annan hátt í vikunni, þar á meðal með símtölum, textaskilaboðum og netpóstum.

Ljósmynd
Öldungur Quentin L. Cook

„Sameiginlegt starf og einbeiting, þar sem trúboðsáætlanagerð og markmiðasetning samræmast áætlanagerð og markmiðasetningu deildar eða greinar, getur verið mjög gagnlegt við að áorka samansöfnun Ísraels“ (Quentin L. Cook, „Purpose and Planning,“ námskeið fyrir trúboðsleiðtoga, 25. júní 2019).

Undirbúa sig fyrir vikulegan samræmingarfund

Styðjið deildarleiðtoga með því að mæta undir það búin að taka þátt í vikulegum samræmingarfundi. Gefið ykkur tíma fyrir fundinn að ræða í félaganámi ykkar hvernig þið getið tekið þátt á áhrifaríkan hátt.

Hafið skýrslurnar ykkar uppfærðar í smáforritinu Preach My Gospel, svo leiðtogar hafi nýjustu upplýsingar um þau sem þið vinnið með. Búið ykkur undir að greina frá úthlutuðum verkefnum frá fyrri fundum.

Taka þátt í vikulegum samræmingarfundi

Vikulegum samhæfingarfundum er ætlað að leggja áherslu á þarfir einstaklinga. Tilgreinið á fundinum hvernig þið getið stutt deildarmeðlimi, þar á meðal ungmenni, við að uppfylla þarfir einstaklinga.

Vikulegur samræmingarfundur tekur yfirleitt fyrir eftirfarandi fjögur atriði:

Hvernig getum við hjálpað þeim sem verið er að kenna? Mögulegt umræðuefni:

  • Hvaða meðlimir gætu tekið þátt í kennslunni í næstu viku? Hver mun bjóða þeim að taka þátt?

  • Hverjar eru áskoranir þeirra sem verið er að kenna? Hvernig geta meðlimir hjálpað?

  • Hverjar eru þarfir þeirra sem hafa áætlaðan skírnardag? Hefur skírnin verið skipulögð? (Sjá „Skírnarathöfnin“ í kafla 12.)

Hvernig getum við hjálpað þeim sem nýlega hafa skírst? Mögulegt umræðuefni:

  • Hvaða nýir meðlimir á fyrsta ári aðildar sinnar eru að sækja sakramentissamkomu? Hvernig getum við hjálpað þeim sem ekki mæta?

  • Hvaða nýir meðlimir eiga vini í deildinni? Hvernig geta þjónandi bræður og systur hjálpað? Hvernig geta sveitir og bekkir ungmenna hjálpað?

  • Hvaða nýir meðlimir hafa úthlutaða ábyrgð eða köllun?

  • Hvernig getum við hjálpað nýjum meðlimum að hefja leit að látnum áum, svo hægt sé að framkvæma helgiathafnir musterisins fyrir þá? Eru nýir meðlimir með musterismeðmæli? Ef musteri er nálægt: Hvernig getum við hjálpað þeim að fara í musterið til að framkvæma skírnir fyrir þessa áa?

  • Hvaða lexíur í kafla 3 þarf að kenna aftur? Hvernig geta meðlimir tekið þátt?

  • Skoðið framþróun í Sáttmálsvegurinn minn fyrir hvern nýjan meðlim.

Hvernig getum við hjálpað endurkomnum meðlimum? Mögulegt umræðuefni:

  • Hvaða fjölskyldur, þar sem ekki allir eru meðlimir, geta trúboðarnir heimsótt og kennt?

  • Hvaða endurkomna meðlimi geta trúboðarnir heimsótt og kennt?

  • Hvaða endurkomnir meðlimir eiga vini í deildinni og viðeigandi tækifæri til að þjóna?

  • Hvernig getum við hjálpað þessum meðlimum?

Hvernig getum við fundið fleira fólk til að kenna? Mögulegt umræðuefni:

  • Hvernig getum við hjálpað einstaklingum, þar á meðal ungmennum, og fjölskyldum að tileinka sér reglurnar um að elska, miðla og bjóða? (Sjá „Sameinist meðlimum“ í kafla 9.)

  • Hvernig getum við hjálpað meðlimum, þar á meðal leiðtogum Barnafélagsins, að bjóða vinum á athafnir deildarinnar?

Félaganám

Horfið á myndband af vikulegum samræmingarfundi í Almennri handbók, 23.5.7. Hvað lærðuð þið sem þið getið tileinkað ykkur á næsta vikulega samræmingarfundi? Hvernig getið þið búið ykkur betur undir að ræða þarfir og skipuleggja með deildarleiðtogum? Á næsta skipulagsfundi, skuluð þið setja ykkur markmið um hvernig þið hyggist bæta ykkur.

Styðjið áætlun deildarinnar um að miðla fagnaðarerindinu

Deildarráðið býr til einfalda áætlun til að miðla fagnaðarerindinu (sjá Almenn handbók, 23.5.6). Kynnið ykkur þessa áætlun. Leitið leiða til að hjálpa leiðtogum við að vinna að markmiðum sínum á vikulegum samræmingarfundum. Haldið leiðtogum upplýstum um hvað þið gerið til að styðja meðlimi við að miðla fagnaðarerindinu.

Ef ykkur er boðið að mæta á deildarráðsfund, verið þá undir það búin að gefa stutta greinargerð um framvindu þeirra sem þið kennið og hvers kyns verkefnum sem ykkur hefur verið úthlutað (sjá Almenn handbók, 29.2.5). Lítið á þetta tækifæri sem stund til að byggja upp sjálfstraust og traust deildarleiðtoga.

Ljósmynd
fólk heilsast með handabandi

Laga sig að þörfum svæðisins

Hver deild eða grein hefur sérstakar þarfir sem þið getið lagað ykkur að. Þið gætuð þjónað í grein sem er fámenn eða deild fyrir ungt einhleypt fólk eða þið gætuð þjónað mörgum deildum. Sumir leiðtogar munu búa yfir meiri reynslu og aðrir minni. Sumir leiðtogar munu hafa meiri tíma til ráðstöfunar en aðrir.

Leitið leiða til að hjálpa staðarleiðtogum. Þeir gætu beðið ykkur að hjálpa meðlimum í úthlutuðum verkefnum þeirra í hirðisþjónustu. Þeir gætu beðið ykkur að hvetja nýja meðlimi til að bjóða vinum sínum að koma í kirkju. Þið getið veitt dýrmæta innsýn í trúboðsstarf þegar leiðtogar og meðlimir læra hvernig miðla á fagnaðarerindinu.

Þar sem kirkjan er tiltölulega ný, gætu greinarleiðtogar beðið ykkur að hjálpa nýjum meðlimum að skilja hvernig Drottinn hefur skipulagt kirkju sína.

Starf ykkar með leiðtogum getur verið mismunandi á ólíkum sviðum, en öll þessi starfsemi er nauðsynleg til að blessa einstaklinga og koma á fót kirkju Drottins.

Hjálpið meðlimum og leiðtogum að elska, miðla og bjóða

Hvetjið meðlimi til að miðla fagnaðarerindinu eðlilega og blátt áfram. Almenn handbók hefur að geyma leiðbeiningar og myndbönd til að hjálpa meðlimum og leiðtogum að gera þetta með því að lifa eftir reglunum um að elska, miðla og bjóða (sjá Almenn handbók, 23.1.1, 23.1.2 og 23.1.3). Hafið þessar reglur hugfastar þegar þið vinnið með leiðtogum.

Þið munið verða leiðtogum til blessunar er þið styðjið framlag þeirra í þessu starfi. Á móti mun fordæmi þeirra hjálpa meðlimum að taka meiri þátt í að miðla fagnaðarerindinu og styrkja nýja og endurkomna meðlimi.

Sjá „Sameinist meðlimum“ í kafla 9 fyrir hugmyndir um að styðja meðlimi í viðleitni þeirra til að miðla fagnaðarerindinu.

Ritningarnám

Lærið eftirfarandi ritningarvers. Hvernig elskuðu, miðluðu og buðu frelsarinn og þessir lærisveinar? Til hvaða athafna innblása þessi dæmi í kennslu ykkar? Hvernig getið þið hjálpað meðlimum að miðla fagnaðarerindinu eðlilega og blátt áfram?

Elska

Miðla

Bjóða

Skráið það sem þið lærið í hvert sinn sem þið sinnið náminu.

Ljósmynd
menn á tali

Styðja staðarleiðtoga við að styrkja nýja meðlimi

Þegar fólk lætur skírast og er staðfest, verður það „samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs“ (Efesusbréfið 2:19; sjá einnig 1. Korintubréf 12:12–27). Vinnið með staðarleiðtogum svo að nýjir meðlimir séu „nærðir hinu góða orði Guðs til að halda þeim á réttri braut, … [treystandi] einvörðungu á verðleika Krists“ (Moróní 6:4).

Ljósmynd
Öldungur Ulisses Soares

„Nýir trúskiptingar koma í kirkjuna af eldmóði yfir því sem þeir hafa uppgötvað. Við verðum þegar í stað að byggja á þeim eldmóði. Trúboðar geta hjálpað við að koma á tengslum og kynna fólkið sem þeir kenna og nýja trúskiptinga fyrir hinum trúföstu meðlimum, sem munu liðsinna þeim, hlusta á þau, leiðbeina þeim og bjóða þau velkomin í kirkjuna, jafnvel áður en fólkið lætur skírast. … Þegar við [þjónum] þeim sem fara ofan í skírnarvatnið, munum við sjá mörg fleiri barna Guðs standast allt til enda og hljóta eilíft líf“ (Ulisses S. Soares, „Convert Retention,“ námskeið fyrir trúboðsleiðtoga, 25. júní 2018).

Hjálpa nýjum meðlimum að koma á sakramentissamkomu

Þið gegnið mikilvægu hlutverki við að hjálpa nýjum meðlimum að koma kirkju. Vinnið með leiðtogum til að tryggja að þið eða deildarmeðlimir hjálpið þeim að mæta. Lykilþáttur sem sýnir mætingu á sakramentissamkomu nýs meðlims, getur hjálpað ykkur og deildarleiðtogum að sjá hvenær hann eða hún gæti þurft á aukinni hvatningu að halda.

Nýir meðlimir eru mun líklegri til að halda áfram að sækja sakramentissamkomu og meðtaka sakramentið þegar þeir eiga vini í deildinni. Hjálpið þeim að finna sig heimkomna, einkum á fyrsta ári þeirra í fagnaðarerindinu. (Sjá Kenning og sáttmálar 84:106, 108.)

Kenna aftur lexíurnar í 3. kafla

Hjálpið nýjum meðlimum að halda áfram að styrkja trú sína á frelsarann Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Sannleikur og reglur fagnaðarerindisins festa dýpri rætur, þegar nýir meðlimir halda áfram að læra með andanum.

Kennið trúboðalexíurnar aftur eftir staðfestingu. Þið ættuð að vera leiðandi í kennslunni. Þið skuluð þó eiga samráð við deildarleiðtoga, svo deildartrúboðar eða aðrir meðlimir taki þátt. Að endurkenna lexíurnar í kafla 3 er mikilvæg leið til að hjálpa nýjum meðlimum að „[nærast] hinu góða orði Guðs“ (Moróní 6:4). Þegar þið kennið, skuluð þið hvetja nýja meðlimi til að halda allar skuldbindingar lexíunnar.

Lesið ritningarnar með nýjum meðlimum, einkum Mormónsbók, og kennið reglur fagnaðarerindisins. Hjálpið þeim að miðla vinum og fjölskyldu fagnaðarerindinu. Hver nýr meðlimur hefur sérstakar þarfir og þið getið hjálpað honum að finnast hann elskaður og velkominn.

Framfaraskýrsla sáttmálsvegs [Covenant Path Progress Report] og Sáttmálsvegurinn minn [My Covenant Path]

Staðarleiðtogar hafa úrræði fyrir trúboðsstarf sitt, eins og þið. Eitt þeirra er framfaraskýrslan Covenant Path Progress, sem finna má í smáforritinu Member Tools eða Leader and Clerk Resources. Þessi skýrsla gerir staðarleiðtogum kleift að sjá mikilvægar upplifanir sem einstaklingur þarf til að viðhalda framförum á sáttmálsveginum fyrir og eftir skírn.

Sáttmálsvegurinn minn er úrræði til að hjálpa nýjum meðlimum að „vera rótfastir í trú [sinni] á Jesú Krist og upplifa sig heimkomna í kirkjunni“ (My Covenant Pathiv). Það kynnir nýjum meðlimum starfsemi og tækifæri, svo sem ættarsögu og að hjálpa látnum áum að taka á móti helgiathöfnum í musterinu. Hvetjið meðlimi á staðnum til að leiðbeina nýjum meðlimum varðandi slíkt starf. Veitið stuðning eins og óskað er eftir.

Einkanám eða félaganám

Lærið Sáttmálsvegurinn minn. Hvað lærðuð þið um það hlutverk ykkar að hjálpa meðlimum að styrkja nýja trúskiptingu? Hvernig getið þið stutt starf deildarráðs? Skráið það sem þið lærið í hvert sinn sem þið nemið þennan kafla.

Styðja staðarleiðtoga við að styrkja endurkomna meðlimi

Sumir meðlimir kjósa að hætta þátttöku í kirkjunni. Staðarleiðtogar og aðrir meðlimir vinna að því að byggja upp sterk sambönd við þá og hafa samband við þá. Frelsarinn sagði:

„Slíkum skuluð þér halda áfram að þjóna. Því að þér vitið ekki, nema þeir snúi til baka og iðrist og komi til mín í einlægum ásetningi, og ég mun gjöra þá heila. Og þér skuluð vera tæki til að færa þeim sáluhjálp“ (3. Nefí 18:32).

Staðarleiðtogar gætu beðið ykkur að hjálpa endurkomnum meðlimum að byggja upp trú sína. Oft eru slík verkefni meðal fjölskyldna þar sem ekki allir eru meðlimir. Íhugið í bæn hvernig þið getið boðið andanum inn á heimili endurkominna meðlima þegar þið kennið þeim reglur fagnaðarerindisins og bjóðið þeim að tileinka sér þær. Sýnið samkennd og samúð yfir áhyggjum þeirra.

Kennið þeim sem ekki hafa verið skírðir á heimilinu fagnaðarerindið, eins og aðstæður leyfa. Kærleikur ykkar og stuðningur getur hjálpað þeim að dýpka trú sína á Krist og aukið þrá þeirra til að gera og halda sáttmála.

Samræmið með staðarleiðtogum þegar þið vinnið með endurkomna meðlimi. Þetta starf getur haft varanleg áhrif á einstaklinga og heimasöfnuðinn.

Ritningarnám

Hvað kenndi Jesús Kristur um að hjálpa þeim sem gætu átt í erfiðleikum?

Alma og Amúlek kenndu mörgum sem höfðu horfið frá kirkjunni. Hvað getið þið lært af upplifunum þeirra um að styrkja endurkomna meðlimi?


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Notið smáforritið Preach My Gospel til að gera áætlanir um að ræða við nýja og endurkomna meðlimi sem eru að breyta lífi sínu og koma í kirkju. Hvað hefur hjálpað þeim mest? Skrifið hugsanir ykkar um upplifanir þeirra í námsdagbókina ykkar. Hvað hafið þið lært sem hjálpar ykkur að vinna með þau sem þið eruð að kenna núna?

  • Lærið 2. Nefí 31:18–20, Alma 26:1–7, Alma 32:32–43 og Moróní 6. Skrifið það sem þið lærið af þessum versum um að styrkja nýja meðlimi.

Félaganám og félagaskipti

  • Lesið og ræðið kafla 23 í Almennri handbók. Hvernig getið þið stutt staðarleiðtoga í skyldum þeirra?

  • Á vikulegum samhæfingarfundum skuluð þið spyrja deildarleiðtoga hvort einhverjir endurkomnir meðlimir séu á ykkar svæði, sem þeir vilja að þið heimsækið í þessari viku. Þegar þið heimsækið þá, skuluð þið leitast við að byggja upp trú þeirra á Jesú Krist.

  • Berið kennsl á alla sem hafa verið skírðir og staðfestir á síðasta ári. Farið yfir skýrslu eins þeirra og ræðið hvernig þið getið unnið með leiðtogum á næsta vikulega samræmingarfundi til að hjálpa þeim einstaklingi. Skráið hugmyndir ykkar og tillögur í smáforritið Preach My Gospel. Endurtakið þetta fyrir alla nýlega trúskiptinga á ykkar svæði.

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Bjóðið biskupi eða öðrum deildarleiðtoga að ræða um eflingu nýrra og endurkominna meðlima. Biðjið þann einstakling að leggja áherslu á hvernig trúboðar geti hjálpað.

  • Ræðið dæmisögurnar um týnda sauðinn, týndu drökmuna og týnda soninn (sjá Lúkas 15). Bjóðið trúboðum að segja frá því sem þeir eru að læra og hvernig þeir geta tileinkað sér það í trúboðsstarfi sínu.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Vinnið með staðarleiðtogum til að hvetja þá til að hjálpa nýjum meðlimum að:

    • Vera vígðir í prestdæmisembætti (fyrir karlmenn á viðeigandi aldri).

    • Vera tilnefndir þjónandi bræður (og þjónandi systur fyrir konur).

    • Verða sér úti um musterismæli til að láta skírast í musterinu fyrir látna áa sína.

    • Undirbúa nafn látins áa til að fara með í musterið.

    • Taka á móti verkefni eða köllun til að þjóna í deild sinni eða grein.

  • Kennið staðarleiðtogum, í samráði við stikuforsetann, hvernig halda á árangursríka vikulega samræmingarfundi.

  • Fylgið stundum eftir við nýja meðlimi, til að sjá hvernig þeim gengur og hvernig trúboðar og meðlimir geta hjálpað.

  • Bjóðið nýjum meðlimum að ræða við trúboða og segja frá upplifun sinni í kirkjunni.

Prenta