Trúboðskallanir
11. kafli: Hjálpa fólki að skuldbinda sig og halda skuldbindingar


„11. kafli: Hjálpa fólki að skuldbinda sig og halda skuldbindingar,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„11. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Mig mun ekkert bresta, eftir Yongsung Kim

11. kafli

Hjálpa fólki að skuldbinda sig og halda skuldbindingar

Til hugleiðingar

  • Hvernig tengist það trúarumbreytingu að halda skuldbindingar?

  • Hvernig tengist það trúarumbreytingu að halda sáttmála?

  • Hvernig get ég boðið öðrum til að hjálpa þeim að vaxa andlega og efla trú sína á Jesú Krist?

  • Af hverju er mikilvægt að miðla einlægum vitnisburði?

  • Hvaða blessunum get ég lofað?

  • Hvernig get ég hjálpað fólki að halda skuldbindingar?

Iðrun, skuldbinding og trúarumbreyting

Sem trúboðar og lærisveinar Jesú Krists, þráið þið að aðrir hljóti sáluhjálp (sjá Mósía 28:3). Frelsarinn „hefur [máttinn] til að frelsa“ þau sem halda sáttmálana sem þau gera með því að taka á móti nauðsynlegum helgiathöfnum prestdæmisins, sem hefst með skírn (sjá 2. Nefí 31:19). Að setja fram boð og hjálpa fólki að halda skuldbindingar mun búa það undir skírn.

Fólk er frelsað að skilyrði iðrunar (sjá Helaman 5:11). Iðrun er algjör og einlægur viðsnúningur til Jesú Krists. Skuldbinding er mikilvægur þáttur iðrunar. Þegar þið bjóðið fólki að skuldbinda sig sem hluta af kennslu ykkar eruð þið að bjóða því að iðrast.

Skuldbinding þýðir að velja að breyta á ákveðinn hátt og að fylgja því vali eftir. Þegar við tileinkum okkur stöðugt sannleika fagnaðarerindisins leiðir það til trúarlegs viðsnúnings.

Trúarlegur viðsnúningur er breyting á trú, hjarta og lífi einstaklings til að meðtaka og fylgja vilja Guðs. Það er meðvituð ákvörðun um að verða lærisveinn Krists. Trúarlegur viðsnúningur á sér stað þegar fólk iðkar trú á Krist, iðrast synda sinna, er skírt, meðtekur gjöf heilags anda og er staðfast allt til enda. Drottinn og spámenn hans vísa til þessarar breytingar sem andlegrar endurfæðingar (sjá Jóhannes 3:3–5; Mósía 27:25–26).

Friðþæging frelsarans gerir trúarumbreytingu mögulega og heilagur andi framkallar þessa gjörbreytingu hjartans (sjá Mósía 5:2; Alma 5:12–14).

Trúarumbreyting er ferli, ekki atburður. Að hjálpa fólki að snúast til trúar á Jesú Krist, er lykilatriði í trúboðstilgangi ykkar. Eins og andinn býður, bjóðið þið fólki að skuldbinda sig, sem mun hjálpa því að vaxa andlega og finna fyrir áhrifum heilags anda í eigin lífi. Þið styðjið síðan fólk í því að halda þær skuldbindingar sem það hefur tekið á sig. Þið hjálpið því að breyta í trú í átt að varanlegri breytingu (sjá Mósía 6:3).

Fólk sem lifir eftir skuldbindingum sínum fyrir skírn er líklegra til að gera og halda helga sáttmála eftir hana. Þegar þið kennið fólki að halda skuldbindingar eruð þið að kenna því að halda sáttmála. Að gera og halda sáttmála er ómissandi hluti af fagnaðarerindi Jesú Krists og áætlun Guðs fyrir börn hans.

Þessi kafli hefur að geyma leiðbeiningar um að setja fram boð, lofa blessunum, miðla vitnisburði og hjálpa fólki að halda skuldbindingar sínar svo það geti komið til frelsarans og orðið hólpið.

Ljósmynd
trúboðar kenna konu

Setja fram boð

Sem fulltrúi Jesú Krists bjóðið þið fólki að fylgja honum og taka á móti gleði fagnaðarerindis hans. Þið setjið fram sérstök boð um að gera hluti sem byggja upp trú fólks á Krist. Þið styðjið það síðan í því að halda skuldbindingar sínar.

Boð og skuldbindingar eru mikilvæg af eftirfarandi ástæðum:

  • Þau hjálpa fólki að lifa eftir reglunum sem það lærir svo það skynji fullvissandi vitni andans.

  • Að halda skuldbindingar er ein leið fyrir fólk til að sýna iðrun (sjá Kenning og sáttmálar 20:37).

  • Iðrun hjálpar fólki að upplifa frið og gleði fyrirgefningar Guðs. Það mun líka hljóta aukna hjálp frá Guði við áskoranir sínar.

  • Að halda skuldbindingar býr fólk undir að gera og halda helga sáttmála.

  • Þið getið sýnt fólki kærleika og trú ykkar á loforð Guðs með því að hjálpa því að halda skuldbindingar sínar.

Bjóða eins og andinn leiðbeinir

Leitið leiðsagnar andans um hvaða boð beri að setja fram og hvenær eigi að setja þau fram. Íhugið hvaða réttilega skilin kenning mun hjálpa einstaklingi að meðtaka boð ykkar. Rétt boð á réttum tíma getur hvatt fólk til að gera hluti sem byggja upp trú þess. Þessar gjörðir geta leitt til mikillar breytingar í hjarta (sjá Mósía 5:2; Alma 5:12–14).

Boðin sem þið setjið fram geta snúist um litla hluti, eins og að lesa kafla í ritningunum eða koma á sakramentissamkomu. Þau geta líka átt við um mikilvægari hluti, eins og að láta skírast. Boð ættu að taka mið af því hvar einstaklingur er á sinni andlegu vegferð.

Boð undir handleiðslu andans eru stigvaxandi uppbygging til að hjálpa við andlega framþróun einstaklings (sjá 2. Nefí 28:30; Kenning og sáttmálar 93:12–13). Spyrjið ykkur sjálf: „Hvaða skuldbindingar er viðkomandi að halda? Hvað þarf hann eða hún að gera næst í framþróun sinni?“

Hlustið á þau sem þið ræðið við eða kennið. Leitið leiðsagnar andans út frá því sem þið heyrið eða skynjið um hvaða boð munu hjálpa hverjum og einum að þróast í átt að því að gera helga sáttmála.

Reglur um að setja fram boð

Það krefst trúar á Krist að setja fram boð. Trúið að hann blessi fólk þegar það meðtekur boð ykkar og breytir eftir þeim.

Fólk er líklegra til að breytast þegar þið bjóðið því að breyta eftir sannleika fagnaðarerindisins og hjálpið því að sjá hvernig breytingin mun blessa það. Það mun breytast að því marki sem það finnur fyrir andanum og upplifir gleði þess að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.

Alltaf þegar þið eigið samskipti við fólk, í eigin persónu eða á netinu, skuluð þið íhuga hvaða boð gæti hjálpað því að styrkja trú sína á Krist og finna fyrir andanum. Stundum getur þetta verið eins einfalt og að hitta viðkomandi aftur eða að hann eða hún komi á kirkjuviðburð.

Þegar þið búið ykkur undir að kenna lexíu, skuluð þið íhuga þarfir og framfarir hvers og eins. Gangið úr skugga um að kennsluáætlun ykkar hafi að geyma eitt eða fleiri boð sem hjálpa viðkomandi að taka framförum.

Gætið þess að setja ekki fram of mörg boð í einu. Einstaklingur þarf tíma til að bregðast við, þroskast og læra af hverju boði.

Verið djörf en ekki yfirþyrmandi þegar þið bjóðið fólki að taka á sig skuldbindingar (sjá Alma 38:12). Virðið sjálfræði fólks.

Ritningarnám

Af hverju eru skuldbindingar mikilvægar?

Bjóða með vingjarnlegu og skýru máli

Boð er oft í formi „viltu“ spurningar, sem krefst já eða nei svars. Hafið boð ykkar vingjarnleg, ákveðin og skýr. Þau ættu hvetja fólk til að skuldbinda sig til að breyta í trú á Jesú Krist.

Þótt boð ykkar séu einstök fyrir hvern einstakling, skuluð þið íhuga eftirfarandi dæmi:

  • Að koma í kirkju veitir þér stund og stað til að tilbiðja Guð og finna anda hans. Það getur líka gert þér kleift að verða hluti af stuðningssamfélagi þegar þú gerir breytingar til að komast nær frelsaranum. Viltu koma með okkur á sakramentissamkomu á sunnudaginn?

  • Viltu lesa [ákveðin ritningarvers] þar sem við höfum nú rætt mikilvægi þess að læra ritningarnar? Viltu skrifa niður einhverjar tilfinningar eða spurningar sem þú gætir verið með? Við getum rætt hugsanir þínar næst þegar við hittumst.

  • Við höfum verið að ræða líf frelsarans og boðorð hans. Viltu fylgja fordæmi hans með því að láta skírast í kirkju hans og gefa honum loforð? (Sjá „Boðið um að láta skírast og vera staðfestur“ í kafla 3.)

  • Þú lýstir yfir áhuga á að tengjast Guði meira í lífi þínu. Viltu biðja í trú á næstu dögum svo þú getir upplifað blessanir bænarinnar?

  • Við erum með myndband sem við teljum að þér muni finnast gagnlegt. Getum við sýnt þér það eða sent þér hlekk á það? Viltu horfa á það? Getum við haft samband á morgun til að sjá hvað þér finnst?

Leitið hvatningar heilags anda þegar þið íhugið eðlilegar leiðir til að leggja fram vingjarnleg, ákveðin og skýr boð.

Einkanám eða félaganám

Skrifið í námsdagbókina ykkar boð sem er einfalt og skýrt og skorinort fyrir hverja skuldbindingu í kennslustund. Ef þið hafið gert þetta áður, skuluð þið endurtaka það og bera saman nýju boðin ykkar við þau fyrri.

Farið yfir boðin sem þið hafið skrifað með félaga ykkar. Ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvernig getum við hjálpað fólki að skilja þær fyrirheitnu blessanir Drottins sem tengjast þessu boði?

  • Af hverju er þetta boð mikilvægt fyrir mig persónulega?

  • Hvernig get ég hjálpað fólki að finna kærleika Guðs til þess þegar ég legg fram boð?

  • Hvernig get ég bætt mig í því að hjálpa öðrum að bregðast við boði sem ég gef?

Hugsið um einhvern sem þið eruð að kenna. Æfið ykkur í því að setja fram þessi boð eins og þið væruð að ávarpa viðkomandi einstakling. Endurskoðið boð ykkar eftir þörfum.

Lofa fólki blessunum

Guð lofar að blessa okkur þegar við höldum boðorð hans (sjá Kenning og sáttmálar 130:20–21). Þau sem halda boðorðin og eru trúföst „njóta blessunar í öllu“ og fá „dvalið með Guði í óendanlegri sælu“ (Mósía 2:41).

Þegar þið bjóðið fólki að taka á sig skuldbindingar, lofið því þá blessunum fyrir að halda skuldbindingar sínar. Þið getið borið kennsl á margar af þessum blessunum með því að læra ritningarnar, kenningar síðari daga spámanna og lexíuna í 3. kafla. Hugsið líka um blessanirnar í ykkar eigin lífi. Ákveðið í bæn hvaða blessun á að lofa hverjum og einum þegar þið setjið fram boð.

Þegar þið eruð að bjóða einstaklingi að lifa eftir boðorði, skuluð þið kenna eftirfarandi:

  • Að hlýða boðorðunum sýnir kærleika okkar til himnesks föður og sonar hans Jesú Krists (sjá Jóhannes 14:15).

  • Að hlýða boðorðunum sýnir Guði að við treystum honum (sjá Orðskviðirnir 3:5–6).

  • Blessanir Guðs eru bæði andlegar og stundlegar (sjá Mósía 2:41).

  • Æðsta blessun Guðs er eilíft líf (sjá Kenning og sáttmálar 14:7).

  • Þegar við biðjum einlæglega og breytum í trú, mun Guð hjálpa okkur að framkvæma það sem hann hefur boðið okkur að gera (sjá 1. Nefí 3:7).

  • Guð uppfyllir loforð sín um að blessa okkur samkvæmt leiðum sínum og tímasetningu (sjá Kenning og sáttmálar 88:68).

Fólk mætir oft andstöðu þegar það heldur boðorðin. Styðjið þau sem þið kennið og fullvissið þau um að Guð muni blessa þau þegar þau leitast við að gera vilja hans. Hjálpið þeim að skilja að andstaða sé tækifæri til að vaxa með því að velja að fylgja Kristi, jafnvel þegar það er erfitt (sjá 2. Nefí 2:11, 13–16).

Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi: „Sumar blessanir koma fljótt, aðrar seint og enn aðrar koma ekki fyrr en á himnum; en hvað varðar þá sem taka á móti fagnaðarerindi Jesú Krists, þá munu þær koma“ („An High Priest of Good Things to Come,“ Ensign, nóv. 1999, 38).

Ritningarnám

Hvað kenna eftirfarandi ritningarvers um þrá Drottins til að blessa okkur?

Einkanám

Lesið Kenningu og sáttmála 82:10 og 130:20–21. Lærið síðan eftirfarandi ritningarvers. Búið til tvo dálka í námsdagbókina ykkar. Skrifið boðorðið sem þið finnið í hverjum ritningarhluta í annan dálkinn. Skrifið loforðið að baki því að halda boðorðið í hinn dálkinn.

Miðla vitnisburði ykkar

Miðlið alltaf vitnisburði ykkar þegar þið setjið fram boð og lofið blessunum. Segið frá því hvernig þið hafið hlotið blessun þegar þið hafið lifað eftir reglunni sem þið kennið. Gefið vitnisburð ykkar um að reglan muni blessa líf einstaklingsins er hann eða hún lifir eftir henni.

Einlægur vitnisburður ykkar mun hjálpa við að skapa aðstæður til að fólk geti upplifað heilagan anda staðfesta sannleikann. Það mun hvetja það til að meðtaka boðin sem þið setjið fram.

Fyrir frekari upplýsingar, sjá „Miðla vitnisburði ykkar“ í kafla 10.

Ljósmynd
hópur fólks biðst fyrir

Hjálpa fólki að halda skuldbindingar sínar

Þegar fólk samþykkir boð ykkar um að gera eitthvað, skuluð þið fylgja þeim eftir til að hjálpa þeim að halda skuldbindingar sínar. Þið eruð að hjálpa fólki að þróa trú á Krist. Hlutverk ykkar er að hjálpa því að efla trú og ásetning og þróast í átt að fullnægjandi trúarlegum viðsnúningi. Bjóðið fólki ekki bara að breytast; styðjið það í því.

Fólk mun hljóta vitni andans þegar það iðkar trú til iðrunar með því að halda skuldbindingar. Þetta vitni hlýst oft ekki „fyrr en eftir að reynt hefur á trú [þess]“ (Eter 12:6). Látið það ekki koma ykkur á óvart þegar andstaða kemur upp. Ráðgerið hvernig þið munuð hjálpa þeim gegnum prófraunina svo þau hljóti vitnisburð andans. Aðrir meðlimir kirkjunnar geta líka veitt stuðning.

Fólk finnur oft fyrir áhrifum andans þegar þið eruð með þeim. Leggið áherslu á mikilvægi þess að biðjast fyrir, lesa ritningarnar og fylgja boðum ykkar eftir, svo það upplifi þessar tilfinningar þegar það er einsamalt.

Að halda skuldbindingar býr fólk undir helgiathafnir og sáttmála á vegi ævilangrar umbreytingar. Viðleitni ykkar getur hjálpað því að „sýna með verkum sínum“ þrá til að fylgja Jesú Kristi (Kenning og sáttmálar 20:37).

Ljósmynd
konur faðmast

Ráðgera stutt dagleg samskipti

Að hjálpa fólki að halda skuldbindingar hefst þegar þið heimsækið og kennið því fyrst. Biðjið það að skrá skuldbindingu sína í símann sinn, dagatalið eða á eitthvað sem þið skiljið eftir hjá því.

Spyrjið hvort þið eða meðlimur sem hefur tekið þátt, getið spjallað stuttleg saman á milli kennsluheimsókna á hverjum degi. Útskýrið að tilgangur slíkra samskipta sé að styðja það og tilgreinið nokkrar leiðir til að gera það. Slík samskipti er ein leið til að tileinka sér regluna í Kenningu og sáttmálum 84:106.

Ákveðið hvaða aðferð til samskipta sé líklegust til árangurs, svo sem stutt heimsókn, símtal, textaskilaboð eða skilaboð á samfélagsmiðlum. Tæknin býður upp á marga möguleika til frekari áminningar og stuðnings.

Hvetja og hjálpa fólki í daglegum samskiptum

Fyrir hvert boð sem þið setjið fram, skuluð þið skrá athugasemdir í smáforritið Preach My Gospel um hvernig fylgja skuli eftir næsta dag. Þegar þið skipuleggið næsta dag, leitið þá leiðsagnar andans þegar þið ræðið hvernig hjálpa skal fólki að halda skuldbindingar sínar.

Hafið dagleg samskipti ykkar við fólk jákvæð og hvetjandi. Biðjið fyrir því. Sýnið kærleika og skilning þegar þið hjálpið því að halda skuldbindingar sínar. Svarið spurningum og hjálpið því að sigrast á áskorunum. Ef tími er til, lesið þá saman í Mormónsbók. Látið því í té viðeigandi kirkjumiðla, þar á meðal með tónlist framleiddri af kirkjunni, sem gæti lyft því. Berið virðingu fyrir tíma þess og óskum.

Kynnið þau fyrir öðrum kirkjumeðlimum. Þegar við á, skuluð þið biðja meðlimi að hjálpa fólki að halda skuldbindingar sínar (sjá kafla 10).

Hrósið fólki sem vinnur að því að halda skuldbindingar sínar. Hjálpið því að skynja hvernig Drottinn er ánægður með viðleitni þeirra. Þetta fólk er að breyta lífi sínu, sem krefst mikillar vinnu og þolinmæði. Hjálpið því að bera kennsl á blessanirnar sem þau hljóta. Tjáið að þið séuð fullviss um að það geti náð árangri.

Sýnið líka kærleika ef fólk hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Bjóðist til að styðja það með daglegum samskiptum. Dæmi: Ef einhver meðtók boð um að lesa kafla í Mormónsbók en hefur enn ekki gert það, bjóðist þá til að lesa hann saman. Hjálpið einstaklingnum að uppgötva af eigin reynslu hvernig það getur blessað líf hans eða hennar að halda skuldbindingar.

Fólk gæti þurft margar tilraunir til að halda skuldbindingu og þið gætuð þurft að fara í nokkrar heimsóknir til að hjálpa því. Ræðið hvernig það getur sigrast á áskorunum við að halda skuldbindingar. Verið þolinmóð og stuðningsrík, ekki gagnrýnin eða dómhörð.

Hafa áhrif heilags anda í daglegum samskiptum

Þegar þið fylgið eftir hjá fólki, skuluð þið biðja það að miðla reynslu sinni af því að halda skuldbindingar. Spyrjið hvað það hefur lært og skynjað. Það mun hjálpa því að þekkja áhrif andans í lífi þess og hjálpa því að bera kennsl á næsta skref.

Þegar þið eigið dagleg samskipti við fólk er mikilvægur hluti tilgangs ykkar að bjóða áhrifum heilags anda í líf þess. Hjálpið því að vita hvernig bera á kennsl á andann þegar þið eruð ekki til staðar. Dagleg samskipti ykkar ættu að styrkja þær andlegu tilfinningar sem það skynjar þegar þið kennið því. Það mun snúast til trúar þegar það finnur fyrir krafti og áhrifum heilags anda.

Sýna kærleika

Umbreytingarferlið hefur kristilegan kærleika að þungamiðju (sjá 4. Nefí 1:15). Leitið gjöf kærleika. Að sýna einlægan kærleika getur hjálpað fólki að finna andann í lífi sínu. Kærleikstjáning ykkar getur líka hjálpað því að meðtaka boð og halda skuldbindingar sem leiða til trúarlegs viðsnúnings.

Þegar þið elskið og kennið öðrum mun trúarlegur viðsnúningur ykkar sjálfra til frelsarans dýpka.

Að aðstoða við umbreytingu annarrar manneskju er heilagt verk. Þið munuð finna varanlega gleði þegar þið helgið ykkur þessu starfi og þjónið öðrum (sjá Matteus 10:39; Mósía 2:17; Alma 27:17–18; Kenning og sáttmálar 18:10–16).

Einkanám eða félaganám

Skráið í smáforritið í Preach My Gospel hvernig þið ráðgerið að eiga dagleg samskipti við hvern einstakling sem þið kennið. Ráðgerið nokkra daga fyrir fram hvað þið hyggist gera til að fylgja eftir hjá hverjum og einum.

Veljið eitt boð sem þið munið setja fram þegar þið kennið hverjum og einum. Berið síðan kennsl á mismunandi áhyggjumál sem gætu hindrað einhvern í að skuldbinda sig eða halda skuldbindingu. Ræðið og æfið ykkur í því hvernig þið getið best hjálpað fólki þegar það vinnur að því að leysa vandamál sín.

Drottinn þráir að fólk komi og dvelji áfram

Trúboðsstarf er árangursríkast þegar fólk skuldbindur sig og heldur skuldbindingu um að lifa eftir fagnaðarerindinu og vera virkt í kirkjunni alla ævi. Það er ekki nóg að það komi einfaldlega inn í kirkjuna. Drottinn þráir að það komi til að dvelja áfram (sjá Jóhannes 15:16). Beinið allri kennslu ykkar og boðum að því marki. Til að hljóta allar þær blessanir sem himneskur faðir geymir þeim, verða meðlimir að lifa áfram eftir fagnaðarerindinu með því að halda boðorðin og sáttmálana sem þeir hafa gert er þeir eru virkir í kirkjunni.

Nefí kenndi: „Ég [vil] spyrja, hvort allt sé fengið, þegar þér hafið komist inn á þennan krappa og þrönga veg? Sjá, þá svara ég neitandi. … [Þér] verðið að sækja fram, staðfastir í Kristi … [og] ef þér … standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf“ (2. Nefí 31:19–20).

Gerið ykkar besta til að hjálpa fólki að verða hæft til að „öðlast eilíft líf, en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs“ (Kenning og sáttmálar 14:7).


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Berið kennsl á boðorð í lexíu 4. Finnið og skráið ritningartilvísanir og tilvitnanir í síðari daga spámenn sem tilgreina fyrirheit um blessanir sem tengjast þessu boðorði. Hugsið um þær blessanir sem þið hafið hlotið með því að hlýða þessu boðorði og skrifið þær í dagbók ykkar.

  • Þegar þið eigið samskipti við fjölskyldu ykkar eða aðra, spyrjið þá hvernig þau hafa hlotið blessun með því að hlýða ákveðnu boðorði (til dæmis að halda hvíldardaginn heilagan, hlýða tíundarlögmálinu eða halda boðorð sem er erfitt fyrir fyrir einhvern sem þið kennið).

  • Svarið eftirfarandi spurningum til að hjálpa ykkur að að finna út á hvaða sviði þið getið bætt ykkur þegar þið setjið fram boð. Gerið áætlanir um að bæta ykkur.

    • Veit fólkið að mér er annt um það?

    • Er ég fullviss um að það hljóti blessun ef það bregst við boðum okkar?

    • Gef ég mér viðeigandi tíma og næga athygli til að hafa dagleg samskipti við fólk til að hjálpa því að halda skuldbindingar sínar?

    • Hafa kennsluáætlanir okkar að geyma sérstök boð um að bregðast við?

Félaganám og félagaskipti

  • Farið yfir boðin í einni trúboðslexíanna. Svarið eftirfarandi spurningum fyrir hvert boð:

    • Hvaða blessun hefur Drottinn lofað þeim sem halda þessa skuldbindingu?

    • Hvernig mun hlýðni við þessa reglu hjálpa fólki að auka trú sína og vitnisburð?

    • Hvernig mun þessi skuldbinding hjálpa fólki að iðrast og vera næmara fyrir andanum?

  • Búið til lista yfir fólk sem þið hafið haft samband við undanfarna tvo daga með því að nota skipulagsverkfæri ykkar. Hafið þau með sem þið kennið og meðlimi.

    • Skrifið boðin sem þið setjið fram fyrir hvern einstakling og skuldbindingar sem hann eða hún gerði.

    • Íhugið hvaða önnur boð þið hefðuð getað sett fram.

    • Ræðið hvers vegna ykkur tókst að ná fram skuldbindingum hjá sumu af þessu fólki en ekki hjá öðru.

    • Hvað ætlið þið að gera til að fylgja þessum boðum eftir?

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Ræðið árangursríkar og skapandi hugmyndir um dagleg samskipti við fólk sem þið kennið. Hvernig hafa trúboðar unnið með meðlimum með góðum árangri? Hvaða prentaðir eða stafrænir miðlar eru gagnlegir? Hvað getið þið gert þegar fólk er ekki heima eða er of upptekið til að taka á móti ykkur?

  • Ræðið hvernig trúboðar hafa með góðum árangri kennt boðorðin í lexíu 4.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Verið með trúboðum þegar þeir kenna, ef það er mögulegt. Hjálpið þeim að leggja áherslu á að hjálpa fólki að skuldbinda sig og halda skuldbindingar.

  • Hvetjið prestdæmisleiðtoga deildar, samtakaleiðtoga og meðlimi til að eiga dagleg samskipti við fólk sem trúboðarnir kenna – ef fólkið hefur samþykkt slík samskipti.

Prenta