„3. kafli: Boðið um að láta skírast og vera staðfestur,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)
„Boðið um að láta skírast og vera staðfestur,“ Boða fagnaðarerindi mitt
3. kafli
Boðið um að láta skírast og vera staðfestur
Kenningarleg undirstaða
Við erum öll börn himnesks föður. Við höfum komið til jarðar til að fá tækifæri til að læra, vaxa og verða líkari honum svo við getum snúið aftur í návist hans (sjá HDP Móse 1:39). Við getum ekki orðið eins og hann eða snúið aftur til hans án guðlegrar hjálpar. Himneskur faðir sendi son sinn Jesú Krist til að friðþægja fyrir okkur og rjúfa bönd dauðans (sjá 3. Nefí 27:13–22).
Við fáum aðgang að endurleysandi krafti Krists með því að iðka trú á hann til iðrunar, láta skírast, meðtaka gjöf heilags anda með staðfestingu og standast allt til enda. Að halda skírnarsáttmálann, er fyrsta skrefið í að bindast Guði, svo heilagur andi geti hreinsað, styrkt og breytt eðli okkar til hins betra. Að upplifa þessi helgandi áhrif, kallast andleg endurfæðing. (Sjá 2. Nefí 31:7, 13–14, 20–21; Mósía 5:1–7; 18; 27:24; 3. Nefí 27:20; Jóhannes 3:5.)
Andleg endurfæðing hefst þegar við erum skírð í vatni og af anda. Skírn er gleðileg og vonarvekjandi helgiathöfn. Þegar við erum skírð með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, hefjum við nýtt líf með styrkjandi krafti Guðs. Eftir að við höfum verið skírð og staðfest, getum við haldið áfram að styrkjast með því að meðtaka sakramentið verðuglega. (Sjá 2. Nefí 31:13; Mósía 18:7–16; Moróní 6:2; Kenning og sáttmálar 20:37.)
Setja fram boðið
Þegar þið finnið fyrir leiðsögn andans, skuluð þið bjóða fólki að láta skírast og staðfestast. Þetta getur gerst í hvaða kennslustund sem er.
Kennið kenninguna um skírn og hjálpið fólki að skilja kenningu Krists (sjá lexíu 3). Kennið um mikilvægi og gleði skírnarsáttmálans, að hljóta fyrirgefningu synda og að meðtaka gjöf heilags anda með staðfestingu.
Undirbúið fólk fyrir skírnarboðið með því að ganga úr skugga um að það skilji það sem þið hafið kennt og sáttmálann sem það mun gera. Sáttmáli skírnar er sem hér segir:
-
Vera fús til að taka á sig nafn Jesú Krists.
-
Halda boðorð Guðs.
-
Þjóna Guði og öðrum.
-
Standast allt til enda. (Sjá lexíu 4.)
Þið gætuð miðlað eftirfarandi:
„Þegar við erum skírð, ,[vitnum við fyrir Guði], að [við höfum] gjört sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans‘. Þegar við gerum þennan sáttmála, lofar hann að hann muni ‚úthella anda sínum enn ríkulegar yfir [okkur]‘ (Mósía 18:10).“
Boð ykkar um að láta skírast, ætti að vera skýrt og skorinort. Þið gætuð sagt:
„Viltu fylgja fordæmi Jesú Krists með því að láta skírast af einhverjum sem hefur verið vígður til að framkvæma þessa helgiathöfn? Við munum hjálpa þér að búa þig undir skírn. Við teljum að þú gætir verið tilbúinn þann [dagsetning]. Viltu búa þig undir að láta skírast á þessum degi?“
Eins og með öll boð sem þið gefið, lofið þið þeim hinum miklu blessunum sem fólk hlýtur þegar það meðtekur boðið um að láta skírast og halda viðeigandi sáttmála. Gefið vitnisburð ykkar um þessar blessanir.
Kennið að skírn og staðfesting séu ekki endanlegur ákvörðunarstaður. Þeir eru fremur áfangi á vegi trúarumbreytingar, sem færir von, gleði og kraft Guðs í ríkari mæli í líf einstaklingsins (sjá Mósía 27:25–26). Eftir að fólk hefur verið skírt og staðfest, getur það vænst þess að verða helgað af andanum þegar það heldur áfram á sáttmálsveginum.
Bjóðið þeim sem þið kennið, ef mögulegt er, að koma á skírnarathöfn og sakramentissamkomu, þar sem einhver er staðfestur.