Trúboðskallanir
7. kafli: Læra trúboðsmálið ykkar


„7. kafli: Læra trúboðsmálið ykkar,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„7. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
heimurinn og fánar

7. kafli

Læra trúboðsmálið ykkar

Til hugleiðingar

  • Hvernig get ég styrkt trú mína á Drottin mér til hjálpar við að læra nýtt tungumál?

  • Af hverju ætti ég að bæta tungumálakunnáttu mína stöðugt?

  • Hvernig get ég bætt hæfni mína til að tala og kenna á trúboðsmáli mínu?

  • Hvernig get ég hlotið gjöf tungutals?

Undirbúa sig andlega

Drottinn sagði: „Sérhver maður mun heyra fyllingu fagnaðarerindisins á sinni eigin tungu og á sínu eigin máli, frá þeim sem vígðir eru þessu valdi“ (Kenning og sáttmálar 90:11).

Hér að neðan eru leiðir til að styrkja trú ykkar á að Drottinn hjálpi ykkur að kenna og bera vitni á trúboðstungumáli ykkar:

  • Trúið að þið hafið verið kölluð af Guði með spámanni.

  • Biðjið um hjálp Guðs í einlægri bæn.

  • Starfið af kostgæfni með því að læra, æfa og nota trúboðsmál ykkar á hverjum degi.

  • Verið verðug samfélags heilags anda með því að halda boðorðin og lifa eftir trúboðsstöðlunum.

  • Hreinsið hvatir ykkar með því að elska Guð og með því að elska börn hans og þrá að blessa þau.

Vera holl og kostgæfin

Að læra að kenna á áhrifaríkan hátt á trúboðsmáli ykkar, krefst kostgæfni og gjafa andans. Látið það ekki koma ykkur á óvart ef verkefnið virðist erfitt. Það tekur tíma. Verið þolinmóð við ykkur sjálf. Þegar þið helgið ykkur því að læra tungumálið, munið þið öðlast þá hæfni sem nauðsynleg er til að uppfylla trúboðstilgang ykkar.

Þið eruð ekki ein í því að læra trúboðsmálið ykkar. Himneskur faðir og Jesús Kristur munu hjálpa ykkur þegar þið leitið aðstoðar þeirra. Leitið og verið opin fyrir hjálp félaga ykkar, meðlima, þeirra sem þið kennið, annarra trúboða og annars fólks.

Hlustið vandlega og talið tungumálið við hvert tækifæri. Óttist ekki að gera mistök. Allir sem læra nýtt tungumál gera mistök. Fólk mun skilja það og meta viðleitni ykkar til að læra tungumál þess.

Haldið áfram að bæta tungumálahæfni ykkar, allt fram til loka trúboðs ykkar. Eftir því sem hæfni ykkar til að tala tungumálið eykst, mun fólk hlusta meira á það sem þið hafið að segja, heldur en hvernig þið segið það. Þið munuð hafa minni áhyggjur af því hvernig hafa á samskipti og verða betri í því að bregðast við þörfum annarra.

Ljósmynd
Öldungur Jeffrey R. Holland

„Við myndum … vona að sérhver trúboði sem lærir nýtt … tungumál, myndi ná tökum á því á allan mögulegan hátt. … Og þegar þið gerið það, mun [kennsla] og vitnisburður ykkar verða betri. Það verður betur tekið á móti ykkur og þið verðið andlega áhrifameiri fyrir [fólkið sem þið kennið]. …

Verið ekki sátt við það sem við köllum eingöngu trúboðsorðaforða. Látið reyna á ykkur í tungumálinu og þið munið öðlast aukinn aðgang að hjörtum fólksins“ (Jeffrey R. Holland, gervihnattaútsending fyrir trúboða, ágúst 1998).

Haldið áfram að nota trúboðstungumál ykkar eftir að þið komið heim. Drottinn hefur lagt mikla vinnu í ykkur og gæti haft not fyrir tungumálahæfni ykkar síðar á lífsleiðinni.

Læra ensku

Ef þið talið ekki ensku, ættuð þið að læra hana sem trúboði. Það mun blessa ykkur í trúboði ykkar og alla ævi. Að læra ensku, mun einnig blessa fjölskyldu ykkar.

Fyrir frekari hjálp við að læra ensku, sjá EnglishConnect for Missionaries.

Ljósmynd
kona skrifar í dagbók

Reglur tungumálanáms

Axla ábyrgð

Setjið ykkur markmið um að bæta tungumálahæfni ykkar og aðlagið þau reglulega. Búið til tungumálanámsáætlun. Notið tungumálið við öll tækifæri.

Gera nám ykkar innihaldsríkt

Notið það sem þið lærið við raunverulegar aðstæður og í daglegum athöfnum ykkar. Einbeitið ykkur að máli sem hjálpar ykkur að segja það sem þið þurfið að segja.

Reyna að eiga samskipti

Talið tungumálið við félaga ykkar eins mikið og mögulegt er. Notið hvert tækifæri til að læra og æfa. Þið gætuð t.d. beðið endurkominn meðlim eða einhvern sem þið eruð að kenna að hjálpa ykkur með tungumálið. Það kemur ekkert í staðinn fyrir að tala við þau sem hafa málið að móðurmáli.

Samanburður er ekki hollur

Berið ekki tungumálakunnáttu ykkar saman við kunnáttu félaga ykkar eða annarra trúboða. Samanburður leiðir annað hvort til drambs eða vonbrigða.

Læra ný hugtök vandlega

Farið reglulega yfir það sem þið hafið lært og æfið það við nýjar aðstæður. Það mun hjálpa ykkur að muna eftir og tileinka ykkur það sem þið eruð að læra.

Ljósmynd
maður horfir á bók

Búa til tungumálanámsáætlun

Tungumálanámsáætlun hjálpar bæði nýjum og reyndum trúboðum að einbeita sér að því sem þeir geta gert á hverjum degi til að bæta hæfni sína til að tala trúboðstungumálið sitt. Áætlunin ykkar mun ná yfir það sem þið munið gera á tungumálanámstíma ykkar og allan daginn.

Eftirfarandi skref sýna hvernig þið getið búið til tungumálanámsáætlun með því að nota markmiðasetningarferlið í 8. kafla. Aðlagið þetta ferli eftir þörfum.

  1. Setjið ykkur markmið í bænaranda og gerið áætlanir. Setjið ykkur vikuleg og dagleg markmið til að bæta almenna hæfni ykkar til að miðla og kenna fagnaðarerindið. Hafið með það sem þið viljið læra utanbókar, eins og orð, orðtök, ritningarvers og ritningarhluta.

  2. Skráið og skipuleggið. Ákveðið hvaða tungumálaverkfæri munu hjálpa ykkur að ná markmiðum ykkar. Tungumálaverkfæri gætu verið ritningarnar, orðabækur, málfræðibækur, smáforritið TALL Embark og fleira. Ráðgerið tíma þar sem þið munið formlega læra og nota tungumálið. Þið gætuð t.d. áætlað að lesa upphátt í Mormónsbók í 15 mínútur á hverjum degi í hádeginu.

  3. Framfylgið áætlun ykkar. Drottinn elskar erfiði, svo vinnið ötullega að því að ná markmiðum ykkar. Gætið vel að tungumálanámstímanum ykkar og seinkið honum, ef árekstur verður.

  4. Endurskoðið og fylgið eftir. Endurskoðið námsáætlun ykkar oft til að meta hversu vel hún virkar. Bjóðið félaga ykkar, trúboðsleiðtogum, meðlimum og öðrum á ykkar svæði að benda á leiðir til að bæta ykkur. Takið þátt í reglubundnu tungumálamati, til að meta framfarir ykkar og finna leiðir til að bæta ykkur.

Hafið jafnvægi á tungumálanámi ykkar á milli langtímamarkmiða við að byggja upp tungumálagrunn og skammtímamarkmiða fyrir sérstakar athafnir og fólkið sem þið kennið.

Á formlegum tungumálanámstíma ykkar, skuluð þið hafa jafnvægi á markmiðum ykkar og áætlunum á milli grunnsviða tungumálsins, sem sýnd eru hér að neðan. Ákveðið hvað þið munuð læra yfir daginn.

hlustunarhæfni

lestrarhæfni

málfræði

talhæfni

ritfærni

orðaforði

Einkanám eða félaganám

Gefið ykkur tíma í hverri viku til að meta tungumálanámið ykkar með því að spyrja eftirfarandi spurninga:

  • Lærði ég trúboðsmál mitt á hverjum degi í þessari viku? Hvað get ég gert til að bæta trúboðsmál mitt stöðugt?

  • Er áætlun mín að hjálpa mér að finna, kenna og vinna betur með meðlimum? Hvaða breytingar þarf ég að gera á áætlun minni?

  • Hvað finnst mér skemmtilegast við tungumálanámið? Hvað get ég gert til þess að njóta þess betur?

  • Hversu miklum tíma ætti ég að verja í að æfa mig í að hlusta, lesa, skrifa og tala? Hvernig get ég lært betur orðaforða, málfræði og framburð?

  • Hvaða verkefni og úrræði nota ég til að læra tungumálið? Hvað er það sem hjálpar mér mest? Hvaða önnur úrræði eða verkefni gætu verið gagnleg?

  • Hverju þarf að gefa meiri gaum að?

Eftir að hafa svarað þessum spurningum, skuluð þið aðlaga námsáætlanir ykkar og athuga hvort þær bæti árangur ykkar. Andinn mun leiðbeina ykkur þegar þið leitist stöðugt við að bæta tungumálanám ykkar.

Læra með félögum ykkar

Hjálpið félögum ykkar að upplifa velgengni og öðlast sjálfstraust við að læra trúboðsmálið eða læra ensku. Hrósið félögum ykkar og öðrum trúboðum einlæglega og oft fyrir framfarir þeirra.

Gefið einföld og hagnýt ráð með vinsemd. Gefið þeim mörg tækifæri til að kenna og bera farsælan vitnisburð. Kynnið ykkur hvernig reyndari trúboði hjálpaði félaga sínum í eftirfarandi sannri frásögn.

Ég var nýkomin á mitt annað svæði þegar félagi minn sagði mér að það væri komið að mér að gefa andlega hugvekju í kvöldmatarboði. Fyrsti félagi minn hafði alltaf verið ánægður með að sinna kennslunni og ég var vanur að láta í té minn stutta hluta lexíunnar og hlusta síðan.

Ég reyndi að sannfæra félaga minn um að hann ætti að sjá um hina andlegu hugvekju, en hann hvatti mig til að taka við verkefninu. Ég æfði mig með hjálp hans.

Þegar stundin rann upp, opnaði ég ritningarnar mínar og las í 3. Nefí 5 og 7. Ég reyndi hvað ég gat og náði að útskýra hvers vegna mér fannst hin völdu ritningarvers mikilvæg og fann til léttis þegar ég var búinn. Þegar spurning var spurð, leit ég á félaga minn eftir svari, en hann opnaði ekki munninn. Það var þá sem ég kom sjálfum mér á óvart með því að koma með svar á skiljanlegri frönsku. Ég var enn meira undrandi yfir því að meðlimurinn virtist ekki skynja að ég væri óöruggur varðandi samskiptahæfileika mína. Ég öðlaðist sjálfstraust og áttaði mig á því að franskan mín var betri en ég hafði ætlað henni.

Vikurnar liðu og félagi minn hélt áfram að leyfa mér að kenna – jafnvel þegar ég hélt að ég gæti það ekki og þótt hann hafi líklega velt fyrir sér hvort ég gæti það. Mér fannst ég vera orðinn verkfæri föður okkar á himnum í stað þess að vera einfaldlega hljóður félagi.

Einkanám eða félaganám

Vinnið með öðrum trúboðum ykkur til hjálpar við að læra trúboðsmál ykkar.

  • Ef þið eruð að vinna með nýjum trúboða, hvernig getið þið þá hjálpað félaga ykkar að læra tungumálið eða læra ensku?

  • Ef þið eruð nýir trúboðar, hvers konar hjálp gætuð þið þá beðið félaga ykkar um?

Ljósmynd
trúboðar kenna konu

Menning og tungumálanám

Menning og tungumál eru nátengd. Að skilja menningu fólks, mun hjálpa við að útskýra hvernig tungumál er notað. Þessi skilningur mun einnig hjálpa ykkur að miðla einstökum þáttum boðskapar endurreisnarinnar á þann hátt að fólk skilji það.

Eitt af því besta sem þið getið gert til að öðlast traust og elsku fólks er að virða og meðtaka menningu þess á viðeigandi hátt. Margir miklir trúboðar hafa gert þetta (sjá 1. Korintubréf 9:20–23).

Einkanám eða félaganám

Notið hugmyndina hér að neðan til að hjálpa ykkur að búa ykkur undir að kenna einhverjum sem hefur aðra menningu eða bakgrunn.

  • Hugsið um menningarlegan og trúarlegan bakgrunn fólksins sem þið kennið. Finnið þátt í bakgrunni þeirra sem gæti gert þeim erfitt fyrir með að skilja reglu fagnaðarerindisins. Skipuleggið hvernig þið hyggist kenna þessa reglu með skýrum hætti.

Gjöf tungutals

Gjafir andans eru raunverulegar. Gjafir tungutals og túlkunar hafa margar birtingarmyndir. Sumt af þessu felur í sér að tala, skilja og túlka tungumál. Í dag birtist tungutalsgjöf oftast í andlega auðguðu námi til að hjálpa trúboðum að læra tungumál trúboðs síns.

Heilagur andi getur opinberað sannleika vitnisburðar ykkar, jafnvel þótt tungumálahindrun gæti verið á milli ykkar og þeirra sem þið kennið. Á sama hátt getur heilagur andi minnt ykkur á orð og orðtök og hjálpað ykkur að skilja hvað fólk er að segja frá hjarta sínu.

Að mestu munið þið ekki hljóta þessar gjafir án fyrirhafnar. Þið þurfið að leita þeirra á virkan hátt til að blessa aðra (sjá Kenning og sáttmálar 46:8–9, 26). Hluti af því að leita gjafar tungutals, er að vinna og gera allt sem þið getið til að læra tungumálið. Verið þolinmóð þegar þið lærið og æfið tungumálið í bænaranda. Treystið því að andinn hjálpi ykkur þegar þið leggið ykkur fram. Trúið að þið getið hlotið tungutalsgjöf til að hjálpa ykkur og þeim sem þið kennið.

Þegar þið eigið í erfiðleikum með að tjá ykkur eins skýrt og þið hefðuð viljað, munið þá að andinn getur talað í hjörtu barna Guðs. Thomas S. Monson forseti kenndi:

„Það er eitt tungumál … sem er sameiginlegt hverjum trúboða – tungumál andans. Það verður ekki lært af kennslubókum sem skrifaðar eru af málsnillingum, né verður það lært með lestri og minnisnámi. Tungumál andans eignast sá sem leitast af öllu hjarta við að þekkja Guð og halda hans guðlegu boðorð. Hæfni í þessu tungumáli gerir mönnum kleift að rjúfa og yfirstíga hindranir og snerta mannshjartað“ („The Spirit Giveth Life,“ Ensign, júní 1997, 2).

Einkanám eða félaganám

Notið eftirfarandi staðhæfingar til að meta viðleitni ykkar til að leita tungutalsgjafar. Skráið hughrif og markmið til að hjálpa ykkur að bæta tungumálanám ykkar.


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Kynnið ykkur tungumálaúrræðin í trúboðsgáttinni. Finnið eitthvað sem þið hafið ekki prófað og setjið ykkur markmið um að prófa það næstu daga.

  • Á næsta umdæmisráðsfundi, skuluð þið spyrja reyndan trúboða með góða tungumálakunnáttu hvað hann eða hún hefur gert til að læra tungumálið.

Félaganám og félagaskipti

  • Æfið ykkur í því að kenna hvor öðrum trúboðslexíur á trúboðsmáli ykkar. Í fyrstu gætu nýir trúboðar kennt á mjög einfaldan hátt, miðlað einföldum vitnisburði og farið með ritningarvers lærð utanbókar. Eftir því sem sjálfstraust þeirra og hæfni eykst, munu þeir geta tekið meiri þátt í kennslunni.

  • Farið yfir hugmyndirnar í þessum kafla og tungumálaúrræðin í trúboðsgáttinni. Ræðið hvaða tillögur þið gætuð notað í félaganámi í næstu viku.

  • Biðjið félaga ykkar að hlusta á framburð ykkar og hjálpa ykkur að bæta ykkur. Biðjið hann eða hana að gæta að aðstæðum þegar þið eruð ekki skilin. Búið til lista yfir orð, orðtök eða málfræðiatriði sem gætu hjálpað. Útskýrið og æfið hvernig nota á það sem er á listanum í komandi athöfnum.

  • Æfið ykkur í því að hlusta með virkum hætti. Skipuleggið tíma yfir daginn til að hlusta á virkan hátt, til að bera kennsl á orðaforða og mynstur sem þið hafið lært. Þegar þið heyrið orðtak sagt á annan hátt en þið mynduð segja það, skuluð þið skrifa það niður og æfa það.

  • Búið til lista yfir það sem fólk gæti sagt þann daginn. Skipuleggið og æfið hvernig þið gætuð svarað.

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Bjóðið þeim sem hafa málið að móðurmáli að koma á einn af þessum fundum. Ráðgerið að trúboðarnir kenni þeim í litlum hópum. Biðjið þau sem tala móðurmálið að skrifa minnispunkta og gefa endurgjöf um tungumálakunnáttu trúboðanna.

  • Felið einum eða tveimur trúboðum fyrir fram að segja frá árangri sem þeir hafa náð í tungumálanáminu.

  • Felið reyndum trúboða að kynna í stuttu máli einhvern hluta tungumálsins sem venjulega er erfiður fyrir trúboða. Látið hann eða hana kynna dæmi um góða málnotkun og látið trúboðana æfa það.

  • Látið trúboða sem eru innfæddir í menningunni miðla innsýn sinni.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Leggið áherslu á mikilvægi þess að læra tungumálið stöðugt á hverjum degi.

  • Hvetjið trúboða til að nota trúboðsmálið eins mikið og hægt er.

  • Leggið fram þætti í trúboðsnámsáætlun kerfisbundinnar námsáætlunar. Farið yfir þetta á umdæmisráðsfundum.

  • Gætið að tækifærum til að tala við trúboða á því tungumáli sem þeir eru að læra. Hafið viðtal við þá reglulega á þessu tungumáli.

  • Biðjið leiðtoga og meðlimi á staðnum um hugmyndir um hvernig trúboðar geti bætt tungumálakunnáttu sína.

  • Veitið leiðbeiningar á svæðisráðstefnu eða trúboðsleiðtogafundi um algengustu mistök trúboða sem eru að læra trúboðstungumál ykkar.

  • Fræðið trúboða um andlegar gjafir.

  • Fylgist með trúboðum þegar þeir kenna á trúboðsmálinu.

Prenta